21.12.1987
Efri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2795 í B-deild Alþingistíðinda. (2097)

181. mál, stjórn fiskveiða

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Okkur sem störfum hér bárust þær fréttir í gær að eitthvað væri lítið um samkomulag um þinghaldið og í framhaldi af því lýsti hæstv. forsrh. því yfir að menn yrðu að taka sér eðlilegan tíma til að fjalla um mál. Að sjálfsögðu hlýtur stjórnarandstaðan að verða við þeim tilmælum forsrh. Það er eðlilegt. En það er þannig með þm. eins og aðra að þeir þurfa matarhlé og þegar nógur er tími hlýtur að vera í lagi að taka eðlileg matarhlé. Þar sem allt virðist vera í lausu lofti og óvenjulega stendur á vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. forseta hvenær hann hyggst fresta fundi þannig að menn geti meðtekið næringu svo að unnt sé af því afli sem okkur er gefið að halda áfram umræðum endurnærðir eftir eðlilegan matartíma. Ég tek fram að hv. þm. sem hér stendur er ekki sérstaklega svangur, það er ekki það, heldur teldi ég eðlilegt að þingið hefði sinn gang úr því að hér er ekki gert ráð fyrir að ljúka þessu — ja, ég held bara yfirleitt nokkurn tíma og ætla menn að vera að þessu fram eftir nýju ári.