21.12.1987
Efri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2817 í B-deild Alþingistíðinda. (2102)

181. mál, stjórn fiskveiða

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég átti sæti í hv. sjútvn. sem áheyrnarfulltrúi þar sem Borgarafl. á ekki fulltrúa í þeirri nefnd í Ed. Nál. liggur þar af leiðandi ekki fyrir af minni hálfu eða Borgarafl. við þessa umræðu. Af þessum sökum verð ég að gera grein fyrir áliti Borgarafl. í þessari þingræðu. Áður en ég vík að áliti okkar borgaraflokksmanna á framlögðu frv. og þeim brtt. sem meiri hl. sjútvn. hefur gert vil ég fjalla lítillega um þau orðaskipti sem hafa átt sér stað við 2. umr. og aðallega í morgun.

Ég vil þá í upphafi harma að ekki náðist samstaða innan nefndarinnar um breytingar þær sem formenn beggja deilda þingsins lögðu fram og þá sérstaklega er varða veiðar smábáta og gildistíma laganna. Í upphafi nefndarstarfsins töldu nefndarmenn það mjög líklegt því meiri hluti virtist vera fyrir því að breyta þessum lögum töluvert mikið. Ég vil sérstaklega minnast eins nefndarmanns sem bæði í ræðu og riti hefur lýst andstöðu við kvótakerfið eins og það leggur sig, en það er hv. 14. þm. Reykv. Guðmundur H. Garðarsson.

Í Morgunblaðinu árið 1985, þegar framlenging varð á þessu kvótakerfi, segir hann í viðtali: „En við viljum ekki að þessu sé miðstýrt með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir af innisetumönnum eða stjórnmálamönnum“. Síðan segir hv. 14. þm. Reykv.: " þ.e. miðstýringunni“. Og síðan er haft eftir blaðamanninum samkvæmt þeim athugunum sem þá fóru fram um hverjir greiddu atkvæði: „Hann hefur greitt atkvæði gegn kvótakerfinu og hefði ekki breytt um afstöðu nú.“

Af þessum sökum er það einkennilegt að hann er frsm. meirihlutaálitsins og leggur beint til nú að kvótakerfið skuli halda áfram og nærri því óbreytt frá því sem áður var. Þarna er um verulega stefnubreytingu að ræða hjá hv. þm. og kannski öllum Sjálfstfl.

Það er annars einkennilegt að velta því fyrir sér með Sjálfstfl. í þessari stjórn að þegar maður lítur yfir farinn veg og athugar hverju flokkarnir hafa komið í gegn getur Sjálfstfl. ekki státað sig nema af einu. Framsfl. getur státað sig af fiskveiðistefnunni, Alþfl. af ríkisfjármálunum en Sjálfstfl. aðeins af flugvallarbyggingunni sem er mjög umdeild. Annað hefur Sjálfstfl. ekki gert í þessari stjórn. (Gripið fram í.) Ja, ég get ekki úttalað mig um það hér. Ég þekki það mál ekki, því miður.

En það er annars gaman að velta því fyrir sér hvað formaður Sjálfstfl. segir. Í Vogum, málgagni Sjálfstfl. í Kópavogi, er hinn 6. desember viðtal við Þorstein Pálsson, hæstv. forsrh. Megininntakið í þeirri grein er þar sem talað er um Framsfl. þá varar ráðherrann við þeim flokki og segir: „enda þótt Framsfl. hafi brugðið yfir sig kufli frjálslyndis og borgaralegs yfirbragðs megi menn ekki gleyma því að sá flokkur hafi ekki breyst. Flokkurinn sé og verði forsjárflokkur sem vill hafa vit fyrir almenningi og skammta til hægri og vinstri. Reynslan tali hærra en tunguliprir stjórnmálamenn í því efni.“ Þennan boðskap sendir hæstv. forsrh. Framsfl. í þessari grein. En samt sem áður kyngir Sjálfstfl. öllu því sem á borð hans er borið bæði af Alþfl. og Framsfl.

Í framhaldi af þessu leyfist mér að spyrja hv. þm. Guðmund H. Garðarsson hvort stefna Sjálfstfl. sé í þeim anda sem kemur fram í frv. Þetta er mjög mikilvæg spurning og í tengslum við þá atkvæðagreiðslu sem fram fer á eftir eða hvort Sjálfstfl. er, eins og lýst var hér í morgun, aðeins í bandi hjá framsókn.

Eins og ég sagði áðan áttum við þm. Borgarafl. ekki sæti í hv. sjútvn. Ed. og verð ég því að gera grein fyrir bæði stefnu Borgarfl. í þessari þingræðu varðandi sjávarútvegsmál og hverju við viljum breyta í því frv. sem hér liggur frammi. Ég vil að það komi skýrt fram að stefna Borgarafl. í sjávarútvegsmálum er önnur en sú sem fram kemur í frv. sem hér er til umræðu. Stefna Borgarafl. er að tekinn verði upp heildarkvóti og hið svokallaða skrapdagakerfi. Leggjum við til að helstu agnúar þess kerfis sem var við lýði hér áður verði sniðnir af, en eins og menn muna var aldrei gerð tilraun til að bæta það kerfi heldur var því varpað fyrir róða og nýtt kerfi tekið upp.

Ég vil ekki á þessu stigi endurtaka það sem samflokksmaður minn, hv. 6. þm. Reykn. Júlíus Sólnes, sagði við 1. umr. um hvernig við hugsuðum okkur þessar endurbætur, en leyfi mér að staðhæfa að það kerfi er í anda athafnafrelsisins og kemur í veg fyrir brask og eignatilfærslur til ákveðinna hagsmunahópa í samfélaginu og í sjávarútvegi.

Það sem við höfum á móti kvótakerfinu er það aðallega að í því felst allt of mikil miðstýring, eins og hæstv. forsrh. bendir á í þeirri grein sem ég nefndi áðan, og að það dragi úr athafnasemi manna. Þá hefur það í för með sér brask bæði með kvóta og skip. Þá teljum við að kvótakerfið hamli því að nýjar hugmyndir fæðist í atvinnugreininni og komi í veg fyrir nýsköpun. Í einfaldleika sínum teljum við að verið sé að yfirfæra kvótakerfið í landbúnaði yfir á fiskveiðar með sömu afleiðingum og landbúnaðurinn hefur sýnt, stöðnun og meðalmennsku. Að lokum óttumst við að með lögbindingu kvótakerfisins nú, hvort sem er til þriggja ára eða fjögurra ára, verði ekki að þeim tíma liðnum hægt að losa sig út úr þessari haftastefnu.

Þau nál. sem hér hafa verið lögð fram getum við þm. Borgarafl. ekki fallist á óbreytt og því skrifum við ekki upp á neitt þeirra.

Að gefinni þeirri forsendu að ekki er hér til umræðu annað stjórnkerfi en kvótakerfið vil ég hér á eftir gera grein fyrir sjónarmiðum Borgarafl. sem væru til bóta á frv. og raunar nauðsynleg svo eitthvað vitrænt komi út úr þessu kerfi.

Áður en ég vík að brtt. okkar, sem eru á þskj. 234, vil ég fara fáum orðum um aðrar till. og nál. sem hér hafa verið lögð fram. Vík ég þá fyrst að till. meiri hl. sjútvn.

Meiri hl. leggur fram þrjár till. til breytinga. Í fyrsta lagi að heimildir smábáta verða auknar að því er virðist. Í öðru lagi að 3. og 4. tölul. 5. gr. falli niður, að ísfiskssölur erlendis og gámaútflutningur skerði aðeins kvótann um 15% en ekki 25% eins og gert var ráð fyrir í frv. sjútvrh. fyrir gámafiskinn. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því í brtt. að gildistíminn verði þrjú ár í stað fjögurra ára.

Eins og hver maður sér er ekki um veigamiklar breytingar að ræða og ekkert er tekið á þeim málum sem mest voru til umræðu í nefndinni. Þar á ég við skiptingu rækjukvóta milli skipa og vinnslu, heimildir til þeirra sem hafa misst skip sín, valdaframsal Alþingis til ráðherra, samráðsnefndir, ráðgjafarnefndir o.fl. Finnst mér þetta mjög miður og þá sérstaklega að meiri hl. skuli ekki taka skrefið til fulls er varðar veiðar smábáta.

Í þjóðfélaginu verður einstaklingurinn að eygja eitthvert frelsi og mjög er óheppilegt að skera tækifæri manna þannig við nögl að þeir geti ekki unnið sig upp úr því aftur. Það held ég að verið sé að gera með smábátana, að skerða rétt þessara einyrkja. Það eru nógu mikil höft nú þegar og meiri höft eru aðeins til þess fallin að minnka trú almennings á því að við lifum í landi athafnafrelsis og bræðralags. Sú brtt. að við höfum aðeins kerfi til þriggja ára í stað fjögurra er að því einu leyti til bóta að við höfum ekki þessa haftastefnu nema þá í þrjú ár. En ég átti von á því að sjálfstæðismenn mundu aldrei samþykkja lengri tíma en tvö ár miðað við allar þær yfirlýsingar sem sá flokkur hefur gefið undanfarið og jafnframt í nefndinni. Maður veit ekki hvað er komið yfir þennan blessaða flokk síðan kjarninn fór úr honum.

Þriðju brtt., að breyta álagi úr 25 í 15%, gæti ég út af fyrir sig tekið undir.

Brtt. þær sem Alþb. hefur lagt fram og raunar Kvennalistinn líka vil ég skýra næst.

Brtt. Alþb. um að úthluta kvóta milli skipa og byggðarlaga í ákveðnum hlutföllum og þær till. Kvennalistans að færa veiðiheimildirnar alfarið til byggðarlaganna eru í samræmi við 1. gr. frv. um að fiskistofnar séu sameign þjóðarinnar. Þessar till. eru nokkuð athyglisverðar og draga úr því mikla valdi sem frv., eins og það liggur nú fyrir, færir sjútvrh. Spurning er hins vegar hvort byggðarlögin séu tilbúin að taka á móti þessum kvótum og hvort það skapi ekki enn þá fleiri vandamál að úthlutun fari fram innan byggðarlaganna, þá er spurning hvernig byggðarlögin eigi að skipta þessum kvóta og hve hvert veiðiskip á að fá mikið.

Brtt. okkar borgaraflokksmanna koma, eins og ég áður sagði, fram á þskj. 234 og mun ég ræða þær næst og gef mér eflaust nægan tíma í það þar sem þetta er fyrsta tækifærið sem við höfum haft til að ræða till. Þær eru í tíu greinum og mun ég hér á eftir fara yfir þær.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að 1. gr. breytist, að hún verði þannig: „Auðlindir innan fiskveiðilandhelgi Íslands eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og að tryggja byggð og trausta atvinnu um allt land. Óheimilt er að skipta landinu í veiðisvæði og stuðla að misrétti milli landshluta.“

Fyrri hluti þessarar greinar er eins og hann er í núverandi frv., en seinni hlutinn, að ekki megi skipta veiðisvæðinu í tvö veiðisvæði, er nýmæli og er einkum stefnt gegn þessari svokölluðu suður-norður línu.

Í 2. brtt. er gert ráð fyrir að á eftir 1. gr. komi tvær nýjar greinar svohljóðandi: „Sérstök framkvæmdanefnd fer með stjórn fiskveiða samkvæmt lögum þessum. Nefndin skal skipuð níu mönnum kosnum hlutfallskosningu til eins árs í sameinuðu Alþingi eftir gildistöku laga þessara. Kosnir skulu jafnmargir varamenn. Formaður nefndarinnar boðar hana til fundar í samráði við sjávarútvegsráðherra. Á fundum nefndarinnar ræður afl atkvæða. Ríkisstjórnin ákveður þóknun til nefndarmanna.“

Síðan kemur í framhaldi af þessu og verður þá 3. gr.:

„Verkefni framkvæmdanefndar um stjórn fiskveiða eru:

1. Að gera tillögur til sjávarútvegsráðherra um reglugerðir um framkvæmd laga þessara.

2. Að fjalla um leyfi, heimildir og undanþágur samkvæmt lögum þessum og reglugerðum og gera tillögur í þeim efnum til ráðherra.

3. Að fjalla um álita- og ágreiningsmál, sem ekki falla undir fiskveiðidóm, varðandi veiðileyfi, aflamark og sóknarmark samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, og gera tillögur til ráðherra um úrlausn þeirra.“

Þarna er gert ráð fyrir að framkvæmdanefnd verði sett á stofn er hafi þessi verkefni með höndum og tilgangurinn með þessari grein er að draga úr því valdi sem frv. gefur sjútvrh. til að ákveða einhliða hvernig hann vill stýra þessum veiðum. Þarna er gert ráð fyrir níu manna nefnd sem kosin er á Alþingi til að fjalla um allt er lýtur að stjórn fiskveiða.

Í 3. brtt. er breyting við 2. gr., er verður þá 4. gr., en hún orðist svo: „Fyrir 15. nóvember ár hvert skal framkvæmdanefnd um stjórn fiskveiða, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, gera tillögur til sjútvrh. um afla sem veiða má úr helstu botnfisktegundum við Ísland á komandi ári og skulu heimildir til botnfiskveiða samkvæmt lögum þessum miðast við það magn. Ráðherra skal síðan fyrir 1. desember gefa út reglugerð þar að lútandi. Ráðherra er heimilt, að fengnum tillögum framkvæmdanefndar um stjórn fiskveiða, að hækka eða lækka aflamark innan árs sem ákveðið er samkvæmt þessari málsgrein enda sé sú ákvörðun tekin fyrir 15. apríl.“

Þarna er gerð sú breyting að það er framkvæmdanefndin sem gerir tillögur til ráðherra um hvað veiða megi mikið úr fiskistofnunum, en ekki eins og í dag að það er ákvörðun ráðherra eins hvað veiða skuli mikið.

Í seinni lið sömu greinar segir síðan: „Ráðherra er og heimilt, að fengnum tillögum framkvæmdanefndarinnar, að ákveða í reglugerð og veiðileyfum þann afla sem veiða má úr öðrum einstökum stofnum sjávardýra við Ísland á ákveðnu tímabili eða vertíð og skulu veiðileyfi, sem veitt eru skv. 14. gr., miðast við það magn.“

Þarna er bara framhald af fyrri greininni, að það sé alfarið í höndum framkvæmdanefndarinnar að ákveða það magn sem veiða má úr einstökum fiskistofnum við Íslandsstrendur.

Þá er komið að 4. brtt. Það er brtt. við 10. gr., en 10. gr. verður 12. gr. í núverandi frv., og orðist svo: „Botnfiskveiðar báta minni en 10 brl. eru háðar eftirgreindum takmörkunum:

1. Veiðar eru ekki heimilar á eftirgreindum tímabilum:

A. Í tíu daga um páskahelgi í mars og í apríl 1988. Enn fremur í tíu daga í ágúst og sjö daga í júní og október, hvorn mánuð, ár hvert.

Fari mánaðarlegt aflamagn báta undir 10 brl. í einhverjum landsfjórðungi niður fyrir tvo þriðju af meðalafla þess mánaðar síðustu þrjú árin vegna ógæfta er ráðherra heimilt að aflétta næstu veiðistöðvun á eftir samkvæmt þessum staflið.

B. Frá og með 15. desember 1988 til og með 31. desember 1988.

2. Netaveiðar báta undir 10 brl. skulu á tímabilinu frá og með 10. febrúar til og með 15. maí ár hvert vera háðar botnfiskveiðileyfum með sóknarmarki, þannig að heimilt sé að stunda veiðar í ákveðinn dagafjölda á ofangreindu tímabili með þorskaflahámarki.

Ákvæði B-liðar taka einnig til netaveiða báta undir 10 brl.

Ráðuneytið skal með auglýsingu tilkynna hvenær veiðar eru ekki heimilar skv. B-lið 1. tölul. og um sóknardagafjölda og þorskaflahámark, sbr. 2. tölul. 1. mgr."

Hérna er gert ráð fyrir því varðandi smábáta að greinin verði samhljóða þeirri sem er í núgildandi lögum. Við þm. Borgarafl. teljum mjög áríðandi að veiðar þessara báta verði ekki skertar frá því sem nú er, að þeir hafi sömu heimildir og þeir höfðu. Það eru svo veigamikil rök fyrir því að þeir einyrkjar, sem eru á þessum bátum, haldi sínum rétti að við teljum að hið íslenska þjóðfélag geti ekki staðið á móti þeim.

Höfuðröksemdirnar sem eru fyrir því eru þessar: Þessir bátar eru undirstöðuatvinnutæki fjölmargra minnstu sjávarplássa landsins. Bátar þessir koma flestallir daglega að landi með fyrsta flokks hráefni. Kostnaður við veiðar þeirra er mun minni en annarra skipa. Slysatíðni á þessum bátum var langtum minni en á öðrum skipum fyrir tíma kvótakerfisins og er raunar enn. Fjölgun smábáta er tvímælalaust lyftistöng lítilla sjávarplássa og fjölgunin er síður en svo vandamál, en sumum hentar að gera vandamál úr henni.

Vegna tækniþróunar um borð í smábátum og þar af leiðandi meiri afkastagetu eru þetta miklu öruggari atvinnutæki en áður var. Öruggt má telja að þjóðhagslega sé hagkvæmast að veiða sem mest á smábátum og kannski fellur ekkert betur að byggðaþróun en einmitt það.

Þessi rök eru svo veigamikil og sterk að ég held og raunar er fullviss um það að við alþm. getum ekki skert þær heimildir sem þeir hafa í dag. Við verðum að hugsa um landsbyggðina og verðum að hugsa um þessa menn, sem eru kannski búnir að fjárfesta fyrir margar milljónir á síðustu árum, og verðum að hugsa um hvað verður ef við skerum af heimildir til þeirra.

Við gerum sem sagt þá breytingu, þm. Borgarafl., að þessi grein verði óbreytt varðandi smábátana frá því sem áður var.

Í fimmta lagi gerum við breytingu við 15. gr. að hún falli niður. En í 15. gr. í frv. er talað um sérstaka samráðsnefnd. Þarna er eiginlega bara tilflutningur á lagagreinum. Við viljum kalla þetta framkvæmdanefnd, sem ég fjallaði um áðan, og ætti að koma þá í 2. gr. frv. og 3. gr. Sú samráðsnefnd sem er talað um í 15. gr. falli niður.

Í sjötta lagi gerum við þá breytingu við 16. gr., sem verður 17. gr. miðað við þá tilfærslu sem ég talaði um, að greinin orðist svo: „Ráðherra skal setja nánari reglur varðandi framkvæmd laga þessara að fengnum tillögum framkvæmdanefndar um stjórn fiskveiða, sbr. 2. og 3. gr."

17. gr. fjallar um upplýsingagjöf frá útgerðarmönnum, skipstjórnarmönnum og kaupendum afla. Í staðinn fyrir að láta þær til ráðuneytisins legg ég til að þær fari til samráðsnefndar sem síðan fjallar um þær.

Í sjöunda lagi gerum við þá brtt. við 18. gr. frv., sem verður þá 19. gr., að 3. málsgr. falli brott, en hún er þannig skv. frv: „Ráðuneytinu er enn fremur heimilt vegna brota gegn ákvæðum laga þessara, reglna settra samkvæmt þeim og leyfisbréfa að svipta skip heimild til veiða í tiltekinn tíma og varða veiðar eftir leyfissviptingu viðurlögum skv. 1. málsgr. Sama gildir verði um að ræða vanskil á greiðslu andvirðis ólöglegs sjávarafla sem sætt hefur upptöku.“

Í staðinn, og er það 8. brtt. sem við gerum, fyrir að það verði ráðuneytið sem úrskurði um sekt þeirra sem taldir eru hafa brotið gegn lögunum gerum við ráð fyrir að á eftir 18. gr. sem verði 19. gr. komi þrjár greinar svohljóðandi:

„a. Í Reykjavík skal setja á stofu dómstól fyrir allt landið. Nefnist hann fiskveiðidómur. Dómurinn hefur það verksvið sem kveðið er á um í lögum þessum.

b. Í fiskveiðidómi eiga sæti þrír menn skipaðir af dómsmrh. til fjögurra ára. Forseti dómsins og varamaður hans skulu fullnægja sömu skilyrðum og hæstaréttardómarar. Annar meðdómandi skal vera, eða hafa verið, starfandi skipstjóri á fiskiskipi en hinn skal vera sérfróður um fiskifræði. Varamenn þeirra skulu uppfylla sömu skilyrði. Dómendur fiskveiðidóms skulu auk framangreindra skilyrða fullnægja kröfum þeim, sem gerðar eru um almenn og sérstök dómaraskilyrði samkvæmt lögum.

c. Fiskveiðidómur starfar að öðru leyti eftir almennum ákvæðum um meðferð opinberra mála, sbr. lög nr. 74/1974.“

Þarna er sem sagt gert ráð fyrir að settur verði á stofn dómstóll er dæmi í málum ef einhver gerist brotlegur, hvort sem það er útgerðarmaður, fiskvinnsluaðili eða aðrir sem ætlað er að hafi brotið gegn lögunum. Þessi dómstóll kveði á um sekt eða sýknu en ekki eins og nú er að það er ráðuneytið sent fer með það vald, ráðuneytið setur reglugerðirnar, ráðuneytið fylgist með og ráðuneytið dæmir eða úrskurðar. Við teljum þetta óeðlilega málsmeðferð.

Í níunda lagi gerum við þm. Borgarafl. till. um breytingu á 21. gr., er verður 25. gr., að sú grein orðist svo:

„Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1988 og gilda til 31. desember 1988. Jafnframt eru á gildistíma þessara laga felldar úr gildi 10. og 14. gr. laga nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.“

Við leggjum til að gildistími þessara haftalaga, sem hér á að fara að samþykkja, verði aðeins tvö ár en ekki fjögur ár eins og í frv. kemur fram og þrjú ár eins og kemur fram í nál. meiri hl. sjútvn.

Í tíunda lagi er talað um að frv. heiti: Lög um stjórn fiskveiða, en ekki eins og nú er: Lög um stjórn fiskveiða árin 1988–1991.

Ég hef nú í stórum dráttum farið yfir brtt. sem við þm. Borgarafl. gerum á því frv. sem liggur frammi og hefur verið til umræðu, en það skal tekið skýrt fram að þessar brtt. eru til að laga þetta kvótafrv. en það segir ekkert um þá stefnu sem við borgaraflokksmenn höfum um stjórn fiskveiða. Að sjálfsögðu viljum við eins og aðrir flokkar og landsmenn allir hafa stjórn á þessum málum og vernda fiskistofnana þar sem þetta er auðlind sem kemur okkur öllum að gagni og við megum ekki ganga of hart að henni. Við teljum að frv. sé á margan hátt og raunar í heild kannski ekki mistök, en það felast í því mikil höft á athafnasemina. Við teljum að svoleiðis lög eigi ekki að gilda hér nema allt annað hafi verið reynt áður. Við teljum að það hafi ekki verið.

En kjarninn í okkar brtt. er sá aðallega, við getum tekið það saman, að smábátaeigendur hafi sömu heimildir og þeir höfðu áður og að það verði framkvæmdanefnd sem skeri úr um og hafi með höndum fiskveiðistjórnina en ekki ráðherra einn og svo í þriðja lagi að settur verði upp fiskveiðidómstóll er skeri úr ágreiningsmálum eða réttara sagt opinberum málum sem upp kunna að koma.

Við 1. umr. þessa frv. lagði ég áherslu á þrennt sem ég taldi að þetta frv. fæli í sér og væri andstætt grundvallarreglum lögfræðinnar.

Það er í fyrsta lagi 1. gr. í samanburði við 4. gr., svo þessar 20 framsalsheimildir sem eru til ráðherra og í þriðja lagi svokölluð norður-suður lína. En það er engin heimild í lögunum fyrir því að skipta landinu í tvö veiðisvæði heldur er það aðeins í reglugerð. Síðan gæti ég nefnt í tengslum við þetta að það er aðeins verið að veita ákveðnum mönnum heimildir en það er ekki verið að leggja á þá menn neinar skyldur. Með frv. er ekki verið að leggja skyldu á þá sem fá veiðiheimildir að koma með gott hráefni að landi, það er ekki verið að leggja á þá skyldu til að koma með allan aflann að landi.

Mun ég nú aðeins ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni, við 1. umr., til skýringar á þessum vellum sem ég held að í þessari lagasetningu felist. Þá tek ég fyrst 1. gr. frv. Að vísu eru allir sammála um það að fiskistofnar við Ísland séu sameign þjóðarinnar en þegar verið er að setja í 1. gr. að eitthvað sé sameign þá er ekki hægt að setja í 4. gr. að það séu ekki nema ákveðnir aðilar sem mega nýta sér þessa sameign. Það er algjörlega andstætt — er það ekki, Guðmundur? (Gripið fram í.) Ég minntist á það í fyrri ræðu minni að þetta jafngilti því ef það ætti að friða fisk í vötnum að sett yrðu lög um friðun á þessum vötnum og þeir einu sem hefðu keypt sér veiðistöng fyrir gildistöku laganna mættu veiða í vötnunum á eftir.

Í öðru lagi tel ég að þetta framsalsvald sem Alþingi er að gefa ráðherra sé í hæsta mata óeðlilegt. Það er í lögfræðinni viðurkennt að löggjafinn geti framselt vald til ráðherra til þess að setja verklagsreglur um ákveðið málefni en ekki að ráðherra geti ákveðið eitthvað sem er ekki til í lögunum, þ.e. hann getur ekki sett efnisreglur. Og það er einmitt það sem ég minntist á hér áðan að hann getur ekki ákveðið svokallaða norður-suður línu. Það verður þá að koma fram í lögunum að landinu skuli vera skipt í tvö veiðisvæði.

Í fjórða lagi eru það skyldur á hendur þeim aðilum sem fá þessi veiðileyfi til að koma með allan aflann að landi og koma með hann í því ástandi helst sem hann var veiddur úr sjónum. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að lesa upp úr bréfi sem forstjóri Lýsis hf. sendi ráðgjafarnefnd um fiskveiðistjórnun hinn 29. sept. 1987. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Á undanförnum tveimur árum hafa umsvif Lýsis hf., þessa hálfrar aldar gamla fyrirtækis, aukist verulega. Þannig má t.d. nefna að velta fyrirtækisins verður um 180 millj. á þessu ári samanborið við 79 millj. árið 1985. Mestur hluti af tekjum fyrirtækisins er af sölu á lýsisafurðum, afurðum sem fyrirtækið og þjóðfélagið allt getur verið stolt af. Nú dregur hins vegar ský fyrir sólu. Í viðtölum mínum við fiskframleiðendur og útvegsmenn síðustu vikur hefur sú skoðun ítrekað komið fram að með tilkomu fiskmarkaðanna hér á vertíðarsvæðinu muni veruleg aukning verða á því að gert sé að afla um borð í veiðiskipunum sjálfum. Til að freista þess að útvegsmenn og sjómenn hirði lifur um borð í skipum sínum ákvað lýsi hf. að hækka verð á haustlifur verulega, í 15 000 kr. fyrir tonnið. Með þessari hækkun má heita að allri verðhækkun á lýsi á undanförnum mánuðum hafi verið veitt til þessara aðila.“

En það hefur engin breyting orðið. Lýsið hefur ekkert aukist til þessa fyrirtækis. Þess vegna finnst mér mikilvægt að í lögunum komi fram að þessum aðilum sem fá heimildir, þessum fáu aðilum og útgerðarmönnum sem fá heimildir séu lagðar þær skyldur á herðar í lögum að koma með öll verðmæti sem þeir veiða úr sjónum til landsins.

Ég vil að lokum leyfa mér að spyrja hæstv. sjútvrh. varðandi smábátana. Hvað felst í þessum breytingum sem verið er að gera núna og minni hl. hefur talað um því sem áður var? Og mig langar að spyrja hann einnig hvort búið sé að breyta reglugerðinni, hvort hægt sé að fá hana á borð þm. og einnig hvort þessar brtt. séu í samræmi við ályktun síðasta fiskiþings. Ég vonast eftir því að hann svari þessum spurningum varðandi smábátana. En því hefur verið haldið hér fram af frsm. meirihlutaálitsins að þetta sé í algjöru samræmi við ályktun 45. fiskiþings. Og í framhaldi af því sem ég sagði áðan spyr ég hvort eitthvað sé í bígerð um það að skylda aðila sem fá úthlutað veiðileyfi til þess að koma með að landi þau verðmæti sem þeir draga úr sjó, hvort sem það er smáfiskur eða lifur eða annað sem nýta má í landi.

Ég hef þá ekki þessi orð mín lengri að sinni en vonast eftir því að ráðherra svari þessum spurningum og að við getum haldið áfram að tala um þetta eftir að hlé hefur verið gefið og velt upp þeim öðrum atriðum sem ég hef ekki talað um í þessari ræðu minni, eins og t.d. rækjuveiðarnar eða úthafsrækjuna og fleira sem ástæða er til að tala um.