21.12.1987
Efri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2826 í B-deild Alþingistíðinda. (2103)

181. mál, stjórn fiskveiða

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það kemur auðvitað ekki á óvart að umræður um stjórn fiskveiða skuli vera miklar hér í þinginu og að þetta mál skuli hafa verið lengi í nefnd. Við vitum að aðdragandi þessa máls er sá að í árslok 1983 var augljóst að þorskstofninn hafði orðið fyrir verulegu áfalli svo þá var talið nauðsynlegt að herða mjög reglur um stjórn fiskveiða. Var þá sá háttur upp tekinn að setja aflakvóta á öll skip í landinu sem voru 10 tonn eða stærri. Þessi ákvörðun var umdeild á þeim tíma en það er eftirtektarvert að á þeim tíma sem síðan hefur liðið hefur fylgi þeirra sem vinna við sjávarútveg vaxið við þá stjórn fiskveiða sem hér hefur verið eða m.ö.o. menn hafa ekki séð aðra leið betri til þess að reyna að tryggja skynsamlega nýtingu þorskstofnsins en þá að halda kvótaskiptingunni á hin einstöku skip. Þetta er auðvitað mjög eftirtektarvert.

Og það er líka eftirtektarvert að fylgi þeirra sem sjávarútveg stunda, hvort sem þeir eru útgerðarmenn eða sjómenn, við það frv. sem hér er til umræðu er í engu samræmi við fylgi frv. hér á hinu háa Alþingi. Það kemur m.ö.o. í ljós að ýmsir hv. þm. eru að reyna að fiska í gruggugu vatni, svo maður noti þessa líkingu af því að verið er að tala um fiskveiðistefnu, reyna að finna viðkvæma punkta í þessu máli til þess að slá sig til riddara með og er hv. 4. þm. Vesturl. ekki barnanna bestur í þessu efni eins og glöggt sést t.d. á tillögu sem hann ásamt öðrum þm. Vesturl. flytur þar sem hann vill miða við Öndverðarnes, auðvitað vegna þess að hann veit að það kemur sér betur fyrir tvo togara sem eru gerðir út frá Snæfellsnesi.

Þessi stutta brtt. þessara tveggja hv. þm. er mjög dæmigerð fyrir umræðuna eins og hún hefur verið hjá vissum hv. þm. Þeir hafa verið að reyna að hamra á þeim punktum í þessu máli sem sérstaklega varða þeirra eigin kjördæmi en á hinn bóginn ekki fengist til þess að taka ábyrga afstöðu og horfa á málið í heild.

Miklu verra er þó dæmið af hv. 3. þm. Vestf. sem hefur tíðkað það nú mjög upp á síðkastið að reyna að elta almenningsálitið, reyna að vera á móti þeim málum sem stjórnin verður að standa að sem viðkvæmust eru úti í þjóðlífinu, en reyna svo að ná sér í einhverjar hlaupavinsældir á því að hrósa sér af hinu sem í kjölfarið fylgir og kannski er hægt að gera vegna þess að við verðum annað slagið, stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, að standa að aðgerðum sem ekki hljóma vel í augnablikinu og orka kannski tvímælis. En þennan hv. þm. vil ég aðeins spyrja: Hvernig stendur á því að hann er nú, eftir að málið er í heild tekið fyrir til meðferðar, stjórn fiskveiða, fallinn frá þeirri hugmynd sem hann var með á síðasta þingi? En þá flutti hann um það tillögu að við úthlutun á aflamarki og sóknarmarki til einstakra skipa bæri ráðherra að taka sérstakt tillit til þess ef skip væri gert út í byggðarlagi þar sem a.m.k. 36% vinnuafls starfaði við fiskveiðar og fiskvinnslu og skyldi aflamark og sóknarmark þeirra skipa, verði eftir því leitað, aukið um a.m.k. 25% frá því sem það hefði ella orðið eftir almennri úthlutunarreglu. Hvernig stendur á því að þessi hv. þm. endurflytur ekki þessa brtt. frá síðasta þingi?

Getur verið að skýringin sé sú að frá þeim tíma sem þessi tillaga var samþykkt og til dagsins í dag hafa atvinnuhættir breyst svo í byggðarlaginu Ísafirði að nú á 35%-reglan ekki lengur við, að nú mundi þessi regla þessa hv. þm. skaða Ísfirðinga verulega gagnstætt því sem hann ætlaðist til á sl. ári? En eins og nál. meiri hl. sjútvn. Nd. frá síðasta þingi ber með sér hefði þessi tillaga þá, ef að lögum hefði orðið, valdið því að þorskfiskafli Ísfirðinga hefði minnkað um 5658 tonn, verið 7075 tonn í staðinn fyrir að vera 12 733 tonn. Hvernig stendur nú á því að þessi hv. þm. Ísfirðinga endurflytur ekki þessa tillögu? Það væri fróðlegt að fá gerða glögga grein fyrir því nú, þegar málið er til umræðu og tekið fyrir í heild, hvort hann er fallinn frá þessum hugmyndum sem hann hafði á síðasta þingi og var svo mælskur þegar hann mælti fyrir. Hvernig skyldi standa á því að hann flytur ekki málið nú? Skyldi vera að hann hafi fengið orð í eyra í sínu kjördæmi eftir að uppvíst varð hvaða áhrif þessi tillöguflutningur mundi hafa eftir að í ljós kom að færri en 35% ársverka voru við sjávarútveginn á Ísafirði? En árinu áður var því öfugt farið. Þá voru það fleiri en 35% ársverka. Þannig breyttist þetta nú á einu ári og þannig breyttist skoðun þessa hv. þm., vegna atvinnunnar á þessum eina stað, á því hvernig standa ætti að stjórn fiskveiða í landinu.

Auðvitað var þessi tillaga á sl. ári, sem þeir hv. 2. þm. Vestf. Ólafur Þ. Þórðarson, hv. 15. þm. Reykv. Jón Baldvin Hannibalsson, og hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson stóðu sameiginlega að, flutt í bráðræði. Þannig kom t.d. í ljós að þessi tillaga hefði verkað svo á Austfjörðum að verulega hefði orðið að skera niður fiskafla t.d. í Vopnafirði.

Ég veit ekki, herra forseti, hvort ástæða er til að tíunda þessa gömlu tillögu, nema vegna þess að hún er lýsandi fyrir málflutning hv. 3. þm. Vestf. Ef tillögur hans eru skoðaðar grannt þá sér maður auðvitað undir eins hvaða fiskur liggur undir steini.

Nú vil ég segja það að ég var upphaflega mjög tortrygginn á að rétt væri að fara þá leið að binda ákveðið aflamark við tiltekin skip og taldi að vel mætti vera að sú leið mundi til langframa geta reynst okkur hættuleg. Ég tók eftir því að hv. 11. þm. Reykv. Guðmundur Ágústsson hafði af því miklar áhyggjur að sú miðstýring sem felst í slíkri ákvörðun væri í hróplegu ósamræmi við grundvallarstefnu Sjálfstfl., og er í raun og veru hálfleiðinlegt að þessi hv. þm. skuli ekki vera hér inni, en við skulum ekki vera að gera neitt vesen út af því. (Forseti: Má ég biðja hv. ræðumann að gera hlé á ræðu sinni því fyrirhugað er að hafa kaffihlé og hlé fyrir þingflokksfundi.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég vil nú þegar ræðunni er fram haldið aðeins segja það að þær hugmyndir sem fram koma á þskj. 392 frá hv. 3. þm. Vestf. eru athyglisverðar fyrir þá sök að þar er gert ráð fyrir því að rýmka mjög um margvíslegar heimildir til þess að auka sóknargetu eða sóknarþunga fiskiskipastólsins. Væri fróðlegt að fá um það upplýsingar hjá hv. þm. hvað hann gerir t.d. ráð fyrir því að 4. liður þessara brtt. muni þýða, en sú grein hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sé skip með veiðiheimild selt úr byggðarlagi, sem að mestu byggir á fiskveiðum og fiskvinnslu, skal ráðherra heimilt að bæta viðkomandi byggðarlagi aflatapið þannig að veiðiheimildir þeirra skipa sem eftir eru verði auknar. Heimild þessari má þó því aðeins beita að sala skips valdi straumhvörfum í atvinnulífi og hætta sé á byggðaröskun af þeirri ástæðu.“

Þessar heimildir allar eru mjög almennar og er erfitt að gera sér grein fyrir því nákvæmlega hvað hv. þm. á við og þó svo að það væri skýrt með almennum orðum, en hitt liggur að sjálfsögðu í augum uppi að með þessu er verið að auka aflaheimildirnar sem auðvitað veldur því að það þrengist hjá öðrum. Það sama á við um 1. tölul. brtt. hv. 3. þm. Vestf. sem nánar skýrist í 8. tölul. með upptalningu á skipum sem þar eru nefnd í 8. og 9. tölul. (KP: Er ekki verið að færa í milli?) Þar er verið að ræða um skip sem eigi að fá veiðirétt og ... (KP: Hv. þm. hefur misskilið þetta.) Nú, má ég heyra? (KP: Ég geri það í ræðustólnum.) Það er ljómandi. Þar er gert ráð fyrir því að heimildir fáist til þess að bæta skipum við í stað þeirra sem fórust á árunum 1983–1984. Ég geri ráð fyrir því að þessi skip eigi að fá aflamark og þar með eigi að þrengja hlut annarra skipa sem fyrir eru. Er það misskilningur hjá mér, hv. þm.? (KP: Ég mun koma hér á eftir, hv. þm.) Já, það verður fróðlegt að heyra það, því að varla hugsar hv. þm. sér það að þessi skip bætist í flotann án þess að þau fái veiðiheimildir, að önnur skip bætist við í stað þessara, þannig að ég geri ráð fyrir því að þar hugsi hv. þm. sér að til skjalanna komi nýjar veiðiheimildir sem auðvitað þrengi hlut þeirra sem fyrir eru.

En nú langar mig til að spyrja hv. þm.: Mundi hann nú, ef svo stæði á í hans kjördæmi að skip hefði verið úrelt á árinu 1983, sætta sig við að um það giltu ekki þær sömu reglur og hér er gert ráð fyrir? Nú var það mjög umrætt á sínum tíma þegar kvótalögin voru sett í fyrsta skipti hvort heimilað skyldi t.d. að annað skip yrði keypt í stað Sólbaks sem þá hvarf úr rekstri. Þetta var mjög rætt bæði við setningu kvótalaganna fyrir 1984 og eins við setningu kvótalaganna fyrir árið 1985 og sú varð niðurstaðan hjá Alþingi þá að ekki skyldu veittar heimildir fyrir Útgerðarfélag Akureyringa til að fá annað skip í staðinn. Eigi að síður liggur fyrir að þetta útgerðarfélag hafði þá áhuga á því að fá annað skip, enda var aldrei hugmyndin með úreldingu þessa togara sú að draga úr eða fækka varanlega um eitt skip í togaraflota þessa útgerðarfélags heldur var alltaf hugmyndin að kaupa annað skip í staðinn. Nú langar mig að fá rökstuðning frá hv. þm. fyrir því að hvaða leyti gildi annað um þetta skip en þau skip sem talin eru upp hér í 8. tölul.

Ég vil að síðustu aðeins segja það að auðvitað eru þessi mál mjög viðkvæm. Við erum að tala um það að nauðsynlegt sé að setja reglur sem hafi þann tilgang einan að draga úr sóknargetu þeirra skipa sem við eigum í landinu. Með því er verið að minnka olnbogarýmið, en við erum sammála um að þetta sé nauðsynlegt því að öðrum kosti séu fiskstofnarnir í hættu með þeim hörmungum sem það mundi leiða af sér. Það hversu vandasamt þetta mál er endurspeglast í því að stjórnarandstaðan hefur ekki treyst sér til þess að standa saman um neinar heildartillögur né þeir menn sem standa gegn því frv. sem hér er til umræðu. Við, sem í meiri hl. erum, erum að sjálfsögðu ekki endilega sammála um útfærslu á hverju einstöku atriði. En við gerum okkur á hinn bóginn ljóst að á okkur, sem berum ábyrgð á stjórn landsins, hvílir sú skylda að sjá um það að stjórn fiskveiðanna geti farið fram með skikkanlegum hætti á næsta ári. Og ég held að það sé almannarómur og flestra þeirra sem heyrst hefur í varðandi reynsluna af stjórn fiskveiðanna á þessu ári að eins og sakir standa verður ekki á betra kosið en framlengja í stórum dráttum það kvótakerfi sem við höfum nú búið við.

Ég get fallist á að æskilegt væri að rýmka um eins og hægt er. Um það má velta vöngum. Um það getum við hugsað síðar. En eins og sakir standa núna er fullkomið ábyrgðarleysi að tefja fyrir þessu máli eða standa gegn því að frv. verði að lögum án þess að bent sé á eitthvað annað í staðinn sem líklegt sé að geti svarað þeim tilgangi sem gera verður um lög um stjórn fiskveiða.