21.10.1987
Neðri deild: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

43. mál, leyfi til slátrunar

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Ég tek undir með 1. flm. frv. Þetta er óyndisúrræði og mundi ekki hafa verið til þess gripið ef lausn hefði fengist á annan hátt. Enn þá veit ég að möguleiki er kannski á lausn og ég vona að hún fáist.

Það kom fram fyrr í dag að það var vísað til flm. þessa frv. og reynslu þeirra af dýralæknum. Í því sambandi vil ég sérstaklega taka fram að ég hef enga reynslu af dýralæknum aðra en góða og ég tel að þó að í þessu máli hafi orðið eitthvað á sé fyrst og fremst um það að ræða að mínu mati að hér vantar samræmi í aðgerðum. Ég krefst þess af dýralæknum eins og öðrum að þeir séu sjálfum sér samkvæmir. Það er búið að tala mikið og það er búið að tala fjálglega um ástand þessa tiltekna húss. Það hefur ekki verið talað um ýmis önnur hús og kannski er eins gott að við séum ekki að því. En ég fer fram á að það sé samræmi í aðgerðum og samræmi í búnaði þeirra húsa sem sláturleyfi hafa fengið og hafa og sláturleyfi fyrir þetta hús.

Ég tel að það hafi verið rangt að farið og þessi vandi hafi skapast í ágúst í sumar. Ef ætlunin var að loka þessu húsi átti að segja það í ágúst. Þá átti að setja hnefann í borðið og segja við Bílddælinga: Þið fáið ekki sláturleyfi. Nei, þess í stað var þeim gefinn kostur á að bæta húsið svo hægt væri að eiga það til vara ef ekki yrði hægt að slátra á Patreksfirði. Þarna er ódrengilega að farið og þarna held ég að meinið liggi að verulegu leyti. Þessa ákvörðun, ef átti að loka húsinu, átti að taka í sumar. Þess vegna er svo komið að eftir að búið er að leggja þarna í kostnað við endurbætur er varla stætt á öðru en að heimila slátrun. Og ef ekki, þá spyr ég: Hver á að borga endurbæturnar? Ef þeir slátra á Patreksfirði, hver ætlar að borga þann kostnað sem búið er að leggja í við húsið?

Hins vegar eru þessi mál og þessi umræða kannski dæmigerð fyrir ástand sláturhúsa á Vestfjörðum sem því miður er ekki í nógu góðu horfi alls staðar. En það er eitt atriði sem mig langar að vekja athygli á því ég skil það hreinlega ekki.

Riðuveiki hefur komið upp á Vestfjörðum eins og víðar og bændum í Nauteyrarhreppi við Djúp er meinað að fara með sláturfé sitt yfir á Hólmavík til að slátra því að Hólmvíkingar vilja ekki fá það vegna riðugruns. Þeir verða að fara út á Bolungarvík. Í fyrra var lagt í milljónakostnað við girðingu á svæði í Vestur-Barðastrandarsýslu. Það var girt af hólf í Rauðasandshreppi og síðan voru girtir af Bíldudalshreppur núverandi, sem var Suðurfjarðahreppur að hluta, frá Barðastrandarhreppi. Það sem mér finnst óskiljanlegt í þessu er að þegar þessar aðgerðir hafa nýlega verið gerðar er samt ákveðið að flytja fé á milli þessara hólfa, flytja það frá Barðaströnd yfir á Patreksfjörð, úr Rauðasandshreppi yfir á Patreksfjörð, úr Bíldudalshreppi yfir á Patreksfjörð. Svo langt sem mín fátæklega þekking á riðuveiki nær og mér hefur verið sagt getur smit borist m.a. í fjárhúsum eða í grindum á gripaflutningabílum o.s.frv. Auk þess veit ég að menn fara með sitt sláturfé að hluta til heim. Þeir fara með afurðir heim. Ég get ekki meint annað en þarna sé veruleg hætta á smiti og raunar sýnist mér að þarna sé verið að ógilda þær varnaraðgerðir sem gripið var til með girðingunni.

Það hús sem um ræðir á Bíldudal hefur staðið við sínar skuldbindingar. Ég veit ekki hvort það er tilbúið að standa undir skuldbindingum við slátrun á Patreksfirði, það kann þó að vera, og þeim viðgerðum sem gerðar voru að kröfu eða eftir ábendingum þessara manna.

Það er fyrst og fremst þetta sem ég fer fram á, að fá samræmi milli þeirra húsa sem er slátrað í núna, t.d. á Bolungarvík og Flateyri, og húsanna á Patreksfirði og á Bíldudal, þarna séu samræmdar aðgerðir, samræmdar kröfur.

En ég tek undir að við eigum að bæta aðstöðu í sláturhúsunum okkar. Í bréfi yfirdýralæknis kom fram að jafnvel okkar bestu hús liggja undir ámæli frá erlendum aðilum. Það er vissulega umhugsunarefni. Þess vegna held ég að við eigum að bæta aðstöðuna, en við eigum að gera það á réttan hátt og réttlátan hátt, láta eitt yfir alla ganga. Ef við ætlum að loka sláturhúsi eigum við ekki að gera það vikuna áður en á að byrja að slátra. Við eigum að gera það helst árið áður þannig að menn viti nákvæmlega að hverju þeir gangi, þeim séu ekki gefnar neinar tálvonir. Þess vegna held ég að til að leysa þetta og losna frá þessu máli ætti yfirdýralæknir að fara vestur eða fá annan til að gera það, kanna húsið, skoða aðstöðu og leggja sömu mælistiku á þetta hús og lögð hefur verið á önnur. Ef það yrði gert er ég ekki í nokkrum vafa um að sláturleyfið væri komið í höfn nú þegar.