21.12.1987
Efri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2843 í B-deild Alþingistíðinda. (2111)

181. mál, stjórn fiskveiða

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að fara út í efnisatriði þessa stóra máls. Ég hef áður gert það hér í deildinni og það hefur orðið um þetta mál mjög ítarleg efnisleg umræða. Ég er ekki sammála öllu því sem hefur komið fram í umræðum eins og gefur að skilja, en ég ætla ekki að eyða tíma deildarinnar til að svara því heldur eingöngu því sem um hefur verið spurt.

Hv. þm. Skúli Alexandersson bað um ákveðnar upplýsingar, sem hann hefur fengið í hendur, og hv. þm. Guðmundur Ágústsson spurðist fyrir um hvað fælist í þeim breytingum sem hafa verið gerðar að tillögu meiri hl. sjútvn. Ed. varðandi veiðar smábáta eða hvernig ég skildi þær breytingar og hvort þær væru í samræmi við það sem hefði komið fram á fiskiþingi. Í því sambandi er að sjálfsögðu rétt að rifja upp hvað var samþykkt á fiskiþingi, en þar voru saman komnir fulltrúar alls staðar að af landinu og m.a. áttu sæti á fiskiþingi fulltrúar Landssambands smábátaeigenda. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef var sú tillaga samþykkt þar samhljóða. En á fiskiþingi var eftirfarandi samþykkt og nú ætla ég að bera það jafnóðum saman við það sem felst í tillögum meiri hl.:

„1. Nýir bátar fá ekki veiðileyfi nema sambærilegir bátar hafi horfið varanlega úr rekstri á sama hátt og gildir um skip stærri en 10 brúttólestir. Takmörkun þessi miðist við 1. jan. 1988.“

Í till. meiri hl. er gert ráð fyrir því að öll skip sem eru 6 brúttólestir og stærri séu háð endurnýjunarreglum, þ.e. það verði að úrelda sambærilegt skip til þess að nýtt megi koma inn í staðinn. Hins vegar hefur það ekki verið tekið upp að bátar undir 6 brúttólestum að stærð þurfi að lúta slíkum reglum. Í þeim tillögum sem hér hafa verið fluttar, og m.a. skildi ég það svo hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni, er gert ráð fyrir að allir bátar séu háðir slíkum úreldingarreglum.

Ég fæ ekki skilið hvernig annars vegar því er haldið fram að það megi ekki hefta alla í þessa ofstjórn og á sama tíma er lagt til að bátar undir 6 tonnum séu háðir slíkum úreldingarreglum. Það má vel vera að skilja beri till. hv. þm. Karvels Pálmasonar öðruvísi og ég er ekki alveg viss um það, en það var það sem lagt var til á fiskiþingi og einnig voru það tillögur frá Landssambandi smábátaeigenda að þannig væri farið að. Það er rétt að hafa í huga að bátar undir 6 brúttólestum að stærð voru 1. jan. 1987 1442. Það er því ekkert smáræðis verkefni að ætla sér að koma upp stjórnunarkerfi fyrir alla þá báta. Að þessu undanskildu má segja að till. meiri hl. sé sambærileg.

„2. Bátar sem stunda netaveiðar skulu velja sér aflamark eða meðalaflamark sem miðast við aflareynslu hópsins og hvers báts á tímabilinu 1. nóv. 1984 til 1. nóv. 1987.

3. Bátar sem standa línu- og handfæraveiðar sæti almennum sóknartakmörkum.

Í þeim tillögum sem hér hafa verið fluttar er gert ráð fyrir að allir þeir bátar sem stunda eingöngu línu- og handfæraveiðar sæti almennum sóknartakmörkunum og banndögum þeirra er fjölgað um þrjá að sumrinu, um verslunarmannahelgina og fimmtán í desember. Þessi fjölgun banndaga í desember skiptir að sjálfsögðu ekki mjög miklu máli því að það er ekki hefðbundinn tími þessara báta þó að einhverjir þeirra séu á sjó, en að öðru leyti eru allir þeir bátar undir 10 brúttólestum, sem stunda línu- og handfæraveiðar eingöngu, frjálsir að sínum veiðum. Hins vegar eru þeir bátar sem stunda netaveiðar háðir aflamarki eða aflahámarki. Það aflahámark hefur ekki verið ákveðið, en það skal ákveðið með reglugerð. Það liggur hins vegar fyrir að þeir sem reynslu hafa af slíkum veiðum munu njóta reynslu sinnar þannig að með því eru verndaðir hagsmunir allra þeirra sem slíkar veiðar hafa stundað á undanförnum árum. Það má hins vegar halda því fram að þeir sem eru að koma inn í greinina hafi ekki það svigrúm í netaveiðum sem þeir hafa sem stundað hafa veiðarnar á undanförnum árum.

Auðvitað má taka sérstakt tillit til þeirra með því að hafa aflahámörkin rýmri, en mér finnst vera á margan átt merkilegt að það skuli vera sérstakt áhugamál manna að auka netaveiðar smábáta. Ég hefði talið að það væri mikilvægast að gefa þeim fullt svigrúm til að stunda handfæra- og línuveiðar. Ég minni m.a. hv. þm. Karvel Pálmason á að bátar fyrir Vestfjörðum stunda eingöngu slíkar veiðar og ég veit að það er ekkert sérstakt áhugamál í þeim landshluta að auka netaveiðarnar. Það kemur mér nokkuð á óvart að það skuli vera áhugi fyrir því. Ég geri mér hins vegar grein fyrir að það er sérstakt vandamál fyrir þá báta milli 9 og 10 brúttólestir sem hafa verið smíðaðir upp á síðkastið og er líklegt að þeir geti lent í nokkrum rekstrarerfiðleikum. Það er að sjálfsögðu spurning hvort taka skuli sérstakt tillit til þeirra aðstæðna. En ef á að taka tillit til slíkra aðstæðna og ýmissa annarra mun það að sjálfsögðu bitna á flotanum í heild.

Ég minni á að miðað við þau aflahámörk sem gert er ráð fyrir í þorski, þ.e. 345 þús. tonn, var gert ráð fyrir að það þyrfti að skerða aflamark alls flotans um a.m.k. 6% í þorski. Nú hefur verið felld niður að hluta skerðing vegna gámaútflutnings sem gerir það að verkum að sú skerðing er fallin niður og verður þá að bitna á flotanum í heild. (KP: Er ráðherra samþykkur því?) Ja, þm. hlýtur að gera sér grein fyrir því að sami fiskurinn verður ekki dreginn tvisvar þannig að ef á að halda aflanum innan ákveðinna heildarmarka verður það að sjálfsögðu að dreifast yfir flotann með réttlátum hætti. Auðvitað verða smábátar að fá réttlátan skerf í sinn hlut, en það er óeðlilegt að þeir fái meiri hlut en aðrir sjómenn og það eigi sérstaklega að skerða alla sjómenn í flotanum eða þá sjómenn sem starfa þar en það eigi ekki að koma við þá sjómenn sem stunda smábátaútgerð. Það er með eindæmum að því skuli vera haldið fram að það sé sérstakur áhugi fyrir því að ráðast að hagsmunum þessara manna.

Ég vænti þess að ég hafi með þessu svarað fsp. hv. þm., þ.e. að ég tel að sú brtt. sem hér er fram borin sé í fullu samræmi við það sem var samþykkt á fiskiþingi. Hins vegar kemur ekki fram í samþykkt fiskiþings hver aflahámörkin skuli vera á einstaka báta, en það er að sjálfsögðu fyrst og fremst gert ráð fyrir því í þeirri umræðu sem þá var að sú aflareynsla sé miðuð við reynslu undangenginna ára og það sé gætt samræmis í aflahámörkum þessara báta við aflahámörk annarra skipa í flotanum. Þetta er að sjálfsögðu aðalatriði málsins og þyrfti ekki að ræða um það frekar.

Hv. þm. spurðist einnig fyrir um hvort fyrirhugað væri að skylda skipin til að koma með allt að landi. Það hafa lengi verið í framkvæmd tilraunir með meltuvinnslu og ýmislegt fleira í því augnamiði að gera mögulegra að hirða allan úrgang. Það er til vansa í okkar sjávarútvegi hve miklu er hent af ýmsum úrgangi. Þennan úrgang er hægt að nýta ef markaður finnst fyrir viðkomandi afurðir. Ég tel að það hilli undir að slíkan markað megi finna og það muni koma sá dagur áður en langt um líður að aðstæður skapist til að skylda skipin til að koma með allt að landi. Til þess eru fullar heimildir, en ráðuneytið hefur ekki getað lagt slíkar skyldur á skipin nema aðstæður hafi verið fyrir hendi að losna við viðkomandi afurðir. Það hafa verið að skapast nýjar aðstæður t.d. að því er varðar lifur og ýmsan annan úrgang þannig að ég vænti þess að veruleg breyting verði á þessum málum á næstu árum.

Að lokum vildi ég aðeins koma inn á að hér hefur verið rætt sérstaklega um nokkur skip sem hafa horfið úr íslenska flotanum á árunum 1983 og 1984. Hér er um að ræða tíu fiskiskip. Á árinu 1983 var kvótakerfið ekki komið og um þau skip sem fórust á árinu 1984 má segja að það hafi verið tekin afstaða til þess þegar lögin voru sett í árslok 1984 fyrir árið 1985 að ekki var reiknað með að þau skip væru með. Í þessum hópi eru átta skip sem hafa stundað hefðbundnar veiðar, bolfiskveiðar, humarveiðar og ýmislegt annað og má gera ráð fyrir að ef þessi skip kæmu inn í flotann þyrftu veiðiheimildir þeirra að vera, miðað við þær tillögur sem uppi eru og meðaltöl, allt að 3 þús. tonn eða fast að 1% af úthlutuðum þorskafla. Að því er varðar loðnuflotann er verið að tala hér um tvö ný loðnuskip. Loðnuskipin eru 50 og ef tvö ný skip koma inn verður að gera ráð fyrir að skerða verði hlut hinna 50 um 4% hvert skip, bæði í loðnu og rækju, og þar með talið að lækka laun þeirra sjómanna sem þar starfa. Að sjálfsögðu getur hv. Alþingi tekið slíkar ákvarðanir, að það beri að skerða hlut þeirra manna sem þarna starfa í dag. Það hefur verið tilgangur laganna að vernda hagsmuni þeirra sem fyrir eru í greininni. Ég er andvígur því að fjölga í flotanum og stækka hann og sé ekki að það séu ástæður til að fara nú að fjárfesta í fiskiskipum. Ég gæti áætlað, ef þessi skip kæmu inn, að það væri á bilinu 1 milljarður til 11/2 milljarður. Mér sýnist að það sé ýmislegt betra hægt að gera við það fjármagn sem við kunnum að hafa handa í milli en fjárfesta í slíkum skipum þegar sá floti sem fyrir er getur fiskað mikið meira og þarf í mörgum tilvikum að fá mun betri rekstrargrundvöll. Við erum að berjast fyrir ýmsum framfaramálum í þessu landi og viljum flest hver sækja fram á veg. Ég er þeirrar skoðunar að það sé svo margt annað sem sé vitlegra að gera að það væri mikið slys ef heimilað væri að smíða öll þau skip sem hér um ræðir og það hlýtur að koma niður á einhverjum öðrum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja um þetta mál. Ég hef reynt fyrst og fremst að svara þeim fsp. sem til mín hefur verið beint og reynt að forðast að fara í ítarlegar umræður um efnisþætti málsins.