21.12.1987
Efri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2917 í B-deild Alþingistíðinda. (2119)

181. mál, stjórn fiskveiða

Svavar Gestsson:

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli síðasta ræðumanns hafa umræður um þetta mál nú staðið yfir í 16 klukkustundir með litlum hléum og það er ljóst að umræða getur staðið lengi enn. Jafnframt er ljóst að áður en langur tími líður gengur í garð sá tími að þm. og starfslið Alþingis vilja fara að losa aðeins um sig vegna þess að við búum í þjóðfélagi sem byggist á forsendum lútersk-evangelísku kirkjunnar þar sem eru haldin jól.

Hins vegar standa mál svo þannig að í kvöld á að byrja að keyra launaseðla ríkisstarfsmanna með tilliti til hins nýja skattkerfis og fyrir fáeinum mínútum lauk 3. umr. í hv. Nd. um frv. til l. um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt sem er útfærsla á lögum um staðgreiðslukerfi skatta sem var samþykkt fyrir nokkrum dögum. Við umræðu málsins í Nd. áðan lagði stjórnarandstaðan mikla áherslu á að málið fengi eðlilegan framgang þannig að tryggt yrði að með eðlilegum hætti væri hægt að standa að framkvæmd staðgreiðslukerfis skatta burtséð frá því þó að menn, m.a. þm. stjórnarandstöðunnar, hafi haft eitt og annað að athuga við innihald frv. um tekju- og eignarskatt.

Nú stendur þannig á að það er alveg augljóst mál að þessu frv. og meðferð þess lýkur ekki á þinginu fyrir jól. Gildir einu í rauninni hvort frv. bíður yfir hátíðarnar í þessari deild eða hinni. Hins vegar er brýnt að þessi deild fái til meðferðar hið fyrsta frv. til l. um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt. Ég kvaddi mér hljóðs, virðulegi forseti, til að fara fram á að það verði kannað hvort ekki getur orðið um það samkomulag að á því máli verði tekið þannig að við stofnum ekki staðgreiðslukerfinu, sem hefur verið í undirbúningi núna mjög lengi, í verulega hættu vegna þeirrar óvissu sem dráttur málsins í þinginu hefur þegar skapað og mun enn frekar skapa ef málið liggur áfram. Mér þætti vænt um ef hæstv. forseti vildi hlutast til um að forustumenn þingflokkanna bæru nú saman bækur sínar til að kanna hvort ekki er áhugi á því meðal þeirra og ríkisstjórnarinnar að ljúka þessu máli um tekju- og eignarskatt vegna þess hversu brýnt það er. Jafnframt er ljóst að tími til að taka kvótafrv. fyrir áfram er nægur á milli hátíðanna og þess vegna ástæðulaust að vera að halda mönnum hér mikið lengur í umræðum um það mál úr því sem komið er.

Ég sé að hæstv. forseti deildarinnar, Karl Steinar Guðnason hv. 9. þm. Reykn., er kominn í salinn og ég vil inna hann eftir því hvort ekki væri hugsanlegt að hann beitti sér fyrir því að slíkur fundur forvígismanna flokkanna í þinginu yrði haldinn til að kanna hvort ekki gæti náðst um það samstaða að taka fyrir með afbrigðum, þó á undarlegum tíma sé, frv. til l. um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt sem er brýnt að klárist vegna þess að ríkiskerfið fer að keyra út sína launaseðla hjá Skýrsluvélum ríkisins og Reykjavíkurborgar í kvöld og hið sama á við um Reykjavík.

Ég ætla ekki hér, hæstv. forseti, að ræða um vinnubrögðin í þessu máli í Nd. Ég hef tekið eftir því að nál. frá minni hl. þar eru komin fyrir löngu. Ég tók hins vegar eftir því að nál. frá meiri hl. og brtt. komu fyrst í dag. Ég á satt að segja erfitt með að skilja svona vinnubrögð, en þar sem neðrideildarmenn mega ekki mæla í þessari deild læt ég ógert að gagnrýna þeirra vinnubrögð frekar, en spyr hæstv. forseta hvort hann gæti hugsað sér að hlutast til um að samráðsfundur verði kvaddur saman og gefið þinghlé í nokkrar mínútur meðan málin eru skoðuð.