21.12.1987
Efri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2919 í B-deild Alþingistíðinda. (2123)

181. mál, stjórn fiskveiða

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Mér finnst hv. 7. þm. Reykv. leggja fram myndarleg boð og er ánægjulegt að heyra það, en mér finnst líka að þessi umræða hafi verið í myndarlegum gangi, herra forseti, og vænti þess að hv. 7. þm. Reykv. sé mér sammála um að einlægast og eðlilegast sé að ljúka umræðu um stjórn fiskveiða. Við vorum búnir að ræða um að þingstörfin gengju greiðar fyrir sig. Við vitum ofurvel að þær umræður sem fram fara nú í nótt eru þess eðlis, eins og fram kom hjá hv. 7. þm. Reykv., að ætlunin er að reyna að draga þær svo á langinn að mál komist ekki fram í Ed. eins og búist hafði verið við. Ég hygg að engum þm. blandist hugur um hvað hér sé á ferðinni. Mér finnst rétt, herra forseti, að ljúka umræðum, hafa atkvæðagreiðslu og mér finnst höfðinglega boðið hjá hv. 7. þm. Reykv. að við gætum tekið 1. umr. um skattamálin einnig í nótt og lokið kvótamálinu.