21.10.1987
Neðri deild: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

43. mál, leyfi til slátrunar

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Það hefur verið komið víða við í ræðuflutningi, en það eru örfá atriði sem ég tel nauðsynlegt að víkja aðeins að.

Það hefur verið rætt um það af hverju Arnfirðingar hafi verið dregnir svo lengi á svari. Það var lesin upp dagsetning á því hvenær þeir fengu þessa skýrslu í sumar og samkvæmt frásögn þeirra sjálfra lá þegar fyrir að þeir mundu ekki geta bætt úr öllum þeim atriðum sem þar voru upp talin. Hins vegar hafa þeir óskað sífellt eftir því að það yrði athugað hvort ekki væri hægt að fá sláturleyfi ef eitthvað væri gert og skoðun að nýju. Þess vegna var settur héraðsdýralæknir beðinn að líta á þetta núna í haust aftur. Þá gerði hann enn athugasemdir og sagði eftir það að hann gæti ekki mælt með leyfi.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði að ég hefði getað gefið út leyfi og síðan séð til hvort einhver fengist til að skoða. Til þess að ég gæti gefið út leyfið þarf að liggja fyrir að einhver vilji taka ábyrgð á því að slátrun geti farið fram á viðunandi hátt. Þetta er skýrt lagaákvæði og það þarf að liggja fyrir. Ég hygg að hv. 2. þm. Norðurl. v. sé mætavel kunnugt um að ástand þessa húss hefur verið þannig að þar hefur gjarnan verið gefið leyfi með því að það yrði aðeins til eins árs.

Hér var vikið að hættu á riðuveiki og að gefnu því tilefni vil ég láta þess getið, af því að ég veit ekki hvort öllum hv. alþm. er kunnugt um það, að riðuveikin er sá vágestur sem nú á síðustu árum hefur ógnað mest íslenskri sauðfjárrækt. Nú vonast menn til þess að með miklu átaki verði unnt að ná tökum á henni og halda henni algerlega niðri og vonandi útrýma henni. Það er ekki nokkur vafi að þær vonir eru einum manni fyrst og fremst að þakka, Sigurði Sigurðarsyni dýralækni. Hann hefur af mikilli einbeitni og atorku gengið í þetta mál og hefur haft trú á að árangur næðist þó að margir væru í miklum vafa. Því er hart fyrir mann sem hefur lagt á sig jafnmikið og Sigurður hefur gert að fá svo þær ásakanir sem hann hefur fengið fyrir þá samviskusemi sem hann hefur viljað sýna í þessu máli.

Hér var líka sagt að láta ætti það sama yfir öll hús ganga. En hvað er verið að gera með þessu frv.? Er ekki einmitt verið að taka eitt út úr? Og hvað á að segja við önnur hús ef það er komið með ábendingar um að þar þurfi að laga? Þeir geta sagt: Ja, það verða bara samþykkt lög á Alþingi fyrir okkur ef á þarf að halda. Þarna er komið út á svo hála braut, eins og ég sagði áður, að við sjáum ekki fyrir endann á því.

Hv. 2. þm. Austurl. ræddi um sláturhúsaskýrsluna. Ég sagði í gær að Alþingi mundi taka afstöðu til þess hvernig hún yrði notuð. Hún væri hjálpargagn til að móta stefnu í þessum málum fyrir framtíðina.