21.12.1987
Efri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2922 í B-deild Alþingistíðinda. (2131)

181. mál, stjórn fiskveiða

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Mér hefur verið tjáð að á síðasta sólarhring hafi verið um það rætt að þannig yrði að málum staðið á hv. Alþingi að frv. til fjárlaga fyrir árið 1988 yrði tekið til 3. umr. í Sþ. núna á eftir, síðdegis í dag, og umræðu yrði svo fram haldið að hún yrði langt til búin um fimm- eða sexleytið í dag þannig að þm. og starfslið þingsins gætu tekið sitt jólaleyfi. Mér er tjáð að þetta hafi verið rætt og menn hafi miðað við þetta. Það var af þeim ástæðum m.a. sem við hreyfðum því fyrr í nótt að það færi fram umræða um frv. um tekju- og eignarskatt.

Nú heyri ég að ríkisstjórnin virðist hafa tekið um það ákvörðun að hafna því, gerir kröfu til þess að haldið verði áfram umræðu um fiskveiðistjórnina í nótt og það er sjálfsagt að verða við því. En þar með er stjórnarliðið að hafna því að ákveða og afgreiða tekjuskattsfrv. Það er mjög athyglisvert. Mér nægir ekkert minna í þessu efni en hæstv, fjmrh. verði kallaður út og látinn gera grein fyrir því frammi fyrir þingheimi og þjóðinni að hann beri þar með ábyrgð á því að frv. komi ekki til afgreiðslu fyrir jól vegna þess að það næst ekki allt. Menn skulu ekki láta sér þetta það í hug þótt þeir séu með 2/3 meiri hluta á þinginu eða hvað það nú er að þeir geti fengið hér alla hluti á færibandi svo að segja. Það gengur ekki. Þeir sem núna áðan tóku um það ákvörðun að ræða ekki frv. um tekju- og eignarskatt voru að segja: Skítt með undirbúninginn á staðgreiðslukerfinu. Við tökum á okkur þá ábyrgð að það verði í uppnámi.

Ég tel hins vegar að til þess að það svar sé fullgilt sé eins gott að hæstv. fjmrh. stígi hér fram og segi: Mér er sama um það verk sem mitt fólk hefur verið að vinna mánuðum saman um allt land til að undirbúa þessa miklu kerfisbreytingu. Það er þá best að hann segi það héðan úr þessum ræðustól helst við sitt fólk.