21.12.1987
Efri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2923 í B-deild Alþingistíðinda. (2132)

181. mál, stjórn fiskveiða

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hér var hv. 7. þm. Reykv. að segja að það væri verið að heimta allt og það ætti að afgreiða allt á færibandi. Staðreyndin er allt önnur. Það er búið að ýta út af borðinu og fyrirsjáanlega að fresta þar til milli hátíða eða eftir áramót hverju stórmálinu á fætur öðru. Það eru aðeins þrjú mál sem verið er að tala hér um og er mjög einfalt mál að afgreiða þau á þeim tíma sem er eftir. Ég tek fyllilega undir með formanni þingflokks Alþb. þau orð, sem hann viðhafði í sjónvarpi í Þingsjá á föstudagskvöldið var, að auðvitað gæti 1/3 þm. ekki stöðvað framgang mála. Þetta er alveg hárrétt. En engu að síður er það staðreynd, sem við okkur blasir, að 1/3 þm., stjórnarandstaðan, hefur ásamt með ýmsu öðru, það er ekki eingöngu stjórnarandstaðan sem þar á hlut að máli, orðið þess valdandi. Stjórnarsinnar eiga líka þátt í því, það viðurkenni ég fúslega. Hverju stórmálinu á fætur öðru hefur verið ýtt til hliðar. Það er ekki verið að afgreiða mál út úr þinginu eins og fiskveiðistjórnunarfrv. Það er verið að koma því á milli deilda. Þetta er svo einfalt og svo auðvelt mál að ljúka þessu eins og um hefur verið talað. Ég veit að stjórnarandstaðan hefur ekki fallist á þá vinnuáætlun, sem stjórnarflokkarnir hafa gert, að koma fiskveiðistjórnunarfrv. milli deilda, að afgreiða tekjuskattinn úr þessari hv. deild á morgun, hefja 3. umr. fjárlaga, sem yfirleitt að jafnaði er ekki mjög löng, og stefna að því að ljúka henni um kvöldmatarleytið. Þetta er allt hægt og þetta eru engar nýjar fréttir.

Stjórnarandstaðan er búin að stöðva mörg stór mál. Það er alveg ljóst. Það viðurkennum við. Það er naumur tími milli jóla og nýárs til að afgreiða þau mál. Það verður væntanlega mjög erfitt. En ef hv. stjórnarandstæðingar vilja halda áfram umræðum um stjórnun fiskveiða, en nú er mið nótt, í alla nótt verður það að vera þeirra ákvörðun. En auðvitað verður að taka umræðu um tekjuskattsfrv. á morgun. Þetta er bara það sem um hefur verið talað og það er algerlega á valdi hv. stjórnarandstæðinga hvernig þetta mál nú gengur fram. Það þarf ekkert að kalla hæstv. fjmrh. hingað í þessa deild. Það er allt með hans samþykki. Hv. þm. Svavar Gestsson hefur sjálfur gegnt ráðherraembætti og staðið í þeim önnum sem því fylgja. Ég þykist vita að hæstv. fjmrh. sé nýfarinn heim. Ef það er skýlaus krafa hv. þm. Svavars Gestssonar að fjmrh. verði vakinn og kallaður hingað verður það auðvitað gert. Það er venja hér. Ég bið hv. þm. að íhuga þetta aðeins betur, en það er alveg sjálfsagt að biðja starfsmenn þingsins um að vekja hæstv. fjmrh.

En það er algerlega á valdi stjórnarandstöðunnar hversu lengi þessi umræða mun standa.