22.12.1987
Efri deild: 36. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2949 í B-deild Alþingistíðinda. (2146)

181. mál, stjórn fiskveiða

Júlíus Sólnes:

Virðulegur forseti. Við höldum nú áfram 3. umr. um stjórn fiskveiða. (EgJ: Hún er að hefjast bara.) Virðulegur forseti. Ég biðst velvirðingar á því þó að það sé orðið svolítið ruglað sem kemur út úr þm. eftir þessa löngu umræðu. Við skulum gera okkar besta til þess að umræðan megi verða áfram málefnaleg og skipuleg.

Ég tel að þrátt fyrir mjög langar umræður, bæði undir 1. og 2. umr., sé ýmislegt ósagt um stjórn fiskveiða og sjávarútveg á Íslandi. Ég er að velta því fyrir mér hvort Framsfl. sé ekki kominn á villigötur með fiskveiðistefnuna. Þess vegna tók ég með mér í ræðustól hvernig menn hugsuðu áður innan raða framsóknarmanna um fiskveiðistefnu og mig langar til, með leyfi virðulegs forseta, að rifja upp nokkur orð sem einn af hinum ágætustu framsóknarmönnum, sem því miður er nú liðinn, Kristján heitinn Friðriksson, hafði um þessi mál að segja. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að rifja þessi mál upp og þá þær hugmyndir sem voru þá innan raða framsóknarmanna um með hvaða hætti skyldi stjórna fiskveiðum við Ísland. Ég held að hv. þm. Framsfl. í virðulegri Ed. hafi mjög gott af því að rifja þessi mál upp. Með leyfi virðulegs forseta hef ég lesturinn:

„Um sjávarútvegsmál. Samkvæmt framsóknarstefnu væri æskilegast að fiskimiðin væru hagnýtt af útvegsbændum. Nánar tilgreint táknar þetta að útvegsbændurnir ættu að vera sem flestir en ekki örfáir mjög stórir.“

Þetta er mikilvægt atriði og kemur mjög heim og saman við það sem ég hélt fram í fyrstu ræðu minni þar sem ég var að lýsa þróun fiskveiða við Ísland, en það er alveg ljóst að eins og þróun fiskveiða var voru þetta yfirleitt smáir aðilar. Þetta voru einmitt útgerðarbændur. Þetta voru bændur sem áttu jarðir að sjó, sem reru, og það voru þeir sem sáu um sjávarútveg landsmanna í gegnum margar aldir.

„Stórrekstrarmennirnir mundu taka verksviðið af svo og svo mörgum einstaklingum sem færir væru um að annast þetta þjóðlífsverkefni, frekar samkvæmt fiskveiðistefnu 1000 smáútvegsbændur en t.d. 30 stórútgerðarmenn ...“

Það munar ekki miklu að hann hafi hitt á þessa 33 útgerðarmenn sem stefna að því er virðist að því að reyna að ná undir sig öllum auðæfum landsins, fiskimiðunum, og ekki nóg með það að ná undir sig öllum fiskimiðunum heldur einnig öllum bönkunum í landinu þannig að það er alveg greinilegt að Kristján heitinn Friðriksson hefur verið framsýnn maður, hann hefur séð fyrir hvað koma skyldi í þessum málum.

"... og/eða margar bæjarútgerðir.“ Þarna greinir framsóknarstefnan sig mjög skýrlega frá stefnunum bæði til hægri og til vinstri. Eflaust gerði hún það þá en ég er svona farinn að velta því fyrir mér hvers konar stefna þetta sé nú í dag. Hún er náttúrlega eins og Framsfl. er, eiginlega hvorki til hægri né vinstri, en það sem verra er, hún er ekki einu sinni í miðjunni heldur. Hún er einhvers staðar fyrir utan allt þetta því að hún er, eins og ég segi, óskiljanleg.

„Ef það reynist rétt, sem höfundur þessara pistla dregur þó í efa, að nauðsynlegt sé að hafa eitthvað af útgerðinni í stórum rekstrareiningum, þá væri æskilegast að reksturinn yrði sem mest í höndum ábyrgra einkaeignaraðila sem hefðu hann með höndum á félagslegum grundvelli, annaðhvort sem útgerðarsamvinnufélög, til dæmis hlutastöðufélög, sbr. ritgerð mína um það félagsform, eða sem hlutafélög í eigu sem flestra einkaaðila.“ Undir þetta vil ég nú taka, enda hefur nýlega verið stofnað eitt slíkt hlutafélag á Suðurnesjum í kjördæmi mínu og virðulegs forseta, en þar var stofnað útgerðarfyrirtækið Eldey hf. sem er einmitt með þeim hætti sem hér er talað um, hlutafélag í eigu sem flestra einkaaðila og er það vel.

„En ef stuðningur byggðafélaga þarf að koma til, þá sé hann sem minnstur og eignaraðild einstaklinga sem mest.“ Ég held, eins og ég segi og hef sagt áður, að Kristján heitinn Friðriksson hafi verið mjög framsýnn maður. Hann sá það fyrir sér hvernig bæjarútgerðir mundu að lokum sigla öllu í strand.

„Best er þá að einkaeignaraðildin verði sem mest af hálfu þeirra sem að útgerðinni vinna, t.d. skipstjórnarmanna, háseta, þeirra sem annast um reksturinn í landi o.s.frv.“ Það er einmitt það að það séu þeir aðilar sem stunda fiskveiðarnar sem eigi og reki skipin. Mikið er ég sammála þessu.

„Ákveðið stefnuatriði ætti að vera að einkaeignaraðild væri í meiri hluta. Stefnuatriðið er að þetta verksvið dragist ekki úr höndum hinna persónulegu, ábyrgu aðila í hendur ópersónulegra aðila, þ.e. stórkapítalista, né heldur ríkisauðvalds eða byggðaauðvalds. Aðeins í neyðartilvikum má grípa til byggðafjármagns.“ Þetta hafa verið orð í tíma töluð, en það er kannski eins gott að Kristján heitinn Friðriksson fékk ekki tækifæri til að upplifa það sem hér er að gerast, þ.e. það að innisetumenn og embættismenn í sjútvrn. skammta mönnum hvað þeir megi veiða.

Ég sé það reyndar fyrir mér að að fjórum árum liðnum, reyndar að þremur árum liðnum því það er þó búið að bjarga einu ári fyrir horn af gildistímanum, stöndum við væntanlega hér — það er að vísu mjög erfitt að segja fyrir um framtíðina. Ekki er víst að ég standi hér, ég skal ekkert um það segja, en einhverjir þm. munu standa hér að þremur árum liðnum og samþykkja ef fer sem fer að Framsfl. heldur áfram að belgjast út eins og púkinn á fjósbitanum — þá verðum við væntanlega hér staddir í virðulegri Ed., einhverjir þm., við það að samþykkja nýtt kvótafrv. og mér kæmi ekki á óvart þó að það kvótafrv. yrði þá allmiklu flóknara en það sem við erum að sjá fara í gegnum deildina nú á þessari nóttu. Mér kæmi ekki á óvart þó að þar væru ákvæði sem þessi að t.d. bátar af stærðinni 7–7,25 rúmlestir mættu veiða svo sem eins og aðra hverja viku í janúar, mars, maí, júlí, september, nóvember o.s.frv. Síðan mættu bátar sem væru 7,25 og upp í 7,5 rúmlestir veiða kannski þriðju hverju viku í öðrum hverjum mánuði og þar fram eftir götunum. Síðan yrði sennilega haldið áfram á sömu braut. Væntanlega verður farið að marka ákveðin veiðisvæði á hafinu kringum Ísland og ætti endi ekki með því að þetta verði selt með lottómiðunum, réttur til þess að fara inn á eitthvert veiðisvæðið. Ég held áfram lestrinum, með leyfi, virðulegur forseti:

„Samkvæmt framsóknarstefnu verða þessi fyrirtæki sem önnur hagkvæmar rekin í höndum einkaaðila heldur en í höndum byggðavalds, ríkisauðvalds eða auðvalds stórkapítalista. En ef velja þarf milli eignaraðildar byggðar eða kaupfélags, þá þó frekar kaupfélags heldur en byggðar (hreppsfélags eða borgarfélags) vegna þess að eignaraðild kaupfélagsins verður þó venjulega persónubundnari og þar með ábyrgari en eignaraðild byggðar.“

Svo mörg voru þau orð. Ég er ekki alveg viss um að allt sem Kristján heitinn Friðriksson sagði hafi verið rétt og ég er ekkert sannfærður um að kaupfélagsútgerð sé betri en venjuleg gamaldags bæjarútgerð. En látum nú vera þó að það séu einhverjir agnúar á þessum hugmyndum.

„Rétt er að taka fram í þessu sambandi að samkvæmt framsóknarstefnu tel ég að það sé ekkert höfuðatriði þó um nokkuð misstóra eignaraðila verði að ræða. Þeir mega gjarnan vera misstórir. Útvegsbóndinn má vera nokkuð stór eignaraðili í félagsútgerð þannig að völd hans í félaginu séu mikil.

En hvar eru þá takmörkin milli kapítalistans og stóra útvegsbóndans? Þessu skal reynt að svara. Þegar einn maður er farinn að eiga marga togara, marga báta, e.t.v. margar vinnslustöðvar o.s.frv. og ef hann svo hefur fengið lán af almannafé hjá bankakerfinu, e.t.v. með ríkisábyrgðum, þá er þessi maður orðinn kapítalisti.“ En hvað ég einhvern veginn þekki öll þessi orð. Mér finnst eins og hann sé að lýsa því ástandi sem er að skapast nú.

„Vegna hvers? Vegna þess að hann er farinn að leggja undir sig auðlindir, í þessu tilviki fiskimið sem eðlilegra væri að miklu fleiri hefðu persónulega aðild að til hagnýtingar.“ Þetta er mjög athyglisvert sem þarna kemur fram. Ég sé það nefnilega fyrir mér að með því sem fer fram, ef fer fram sem horfir, kemst þessi auðlind á færri og færri hendur þangað til þetta verður orðinn svona nokkuð lokaður, þröngur, lítill klúbbur sem snýst í kringum hæstv. ráðherrann og á öll fiskimiðin við landið og þjappar sér væntanlega saman í stórar útgerðareiningar, akkúrat eins og hér er lýst. Og ég geri ráð fyrir að þessir örfáu greifar, lénsgreifarnir, muni þá eiga fiskinn í sjónum í kringum Ísland, hvað sem svo verður sagt í 1. gr. kvótafrumvarpa framtíðarinnar.

Það var mjög athyglisvert að það skyldi þó hafast inn að lýsa því í 1. gr. frv. að þetta væri auðlind sem væri sameign íslensku þjóðarinnar þó svo að flestir lögfræðingar séu sammála um að slíkt standist nú alls ekki í lagasetningu að setja inn slíka mgr. eins og hefur verið gert í þessu merkilega kvótafrv.

Hér er haldið áfram á eftirfarandi hátt:

„Hann hefur lagt undir sig svið sem samkvæmt framsóknarstefnu ætti að vera verksvið margra ábyrgra aðila. Með þessu hefur hann fækkað í þeim hópi sem gætu verið ábyrgir í rekstri þjóðarbúsins.

Framsóknarstefnan vill hafa sem flesta ábyrga án smámunasemi um það hvort þeir eru talsvert misstórir. Maður sem á eitt veiðiskip og er í félagsskap um vinnsluna starfar samkvæmt framsóknarstefnu. Sömuleiðis maður sem er aðaleigandi eða stór meðeigandi í félagi sem gerir út 2–3 skip eða lítinn togara. En maður sem á 10–20 skip, margar eigin vinnslustöðvar o.s.frv. er orðinn að kapítalista sem gjalda verður varhuga við.“

Það er að vísu mjög erfitt að setja þarna mörk hvenær menn eru orðnir að útgerðarkapítalistum eða útgerðarlénsgreifum í umboði hæstv. sjútvrh., en ég er ansi hræddur um að kvótakerfið, verði því fram haldið, en mér sýnist það ætla að fara svo, hafi einmitt þá afleiðingu í för með sér að rétturinn til fiskveiða þjappast á æ færri hendur. Það er verið að reyna að lappa eilítið upp á fyrstu tillögu ráðherrans varðandi smábátaveiðarnar. En mér sýnist þær breytingar sem náðst hafa fram vera frekar magrar en við vorum einmitt að samþykkja eða öllu heldur, það var verið að samþykkja — ég vil firra mig allri ábyrgð á þeirri samþykkt — rétt áðan í virðulegri deild þær tillögur sem ég geri ráð fyrir að muni verða hinar raunverulegu tillögur, þ.e. ég á ekki von á að þær komi til með að breytast öllu meira í meðförum þingsins. Að þessari umræðu lokinni fæ ég ekki séð að það komi neinar frekari brtt. til afgreiðslu við frv. eins og það leit út eftir 2. umr. og atkvæðagreiðsluna sem þá fór fram og ég hef ekki mikla trú á því þó að það verði kannski talað lengi í Nd. að þar verði gerðar miklar breytingar á frv. Ég held því miður að örlög okkar séu ráðin með þeirri afdrifaríku samþykkt sem fór fram hér í virðulegri deild rétt áðan við atkvæðagreiðslu eftir 2. umr.

Ég er því nokkuð hræddur um að það muni stórlega draga úr smábátaveiðum. Það á auðvitað eftir að sýna sig hvernig þeim vegnar, smábátaeigendunum, með þeim reglum sem hér hafa verið samþykktar, hvort rekstrargrundvöllur er fyrir útgerð smábáta. Það kemur allt saman í ljós. Ég er að vísu nokkuð viss um að við næstu afgreiðslu kvótalaga að þremur árum liðnum verður væntanlega enn þá hert á. Það er nefnilega einkennilegt og ég hef orðið var við það sem er að mínum dómi bein afleiðing af því að þessi skömmtunarstefna, þetta skömmtunarkerfi, hefur nú verið hér við lýði svo lengi að í skoðanakönnunum um fylgi flokkanna sem hafa verið að birtast núna undanfarið er vegur framsóknarmanna mjög að aukast og eflast. Það er ósköp eðlilegt vegna þess að menn gera sér grein fyrir að framsóknarmenn hafa tökin á þessu skömmtunarkerfi. Það eru þeir sem stjórna því. Þeir munu gera það áfram næstu árin og ég býst einfaldlega við því að mjög margir úti á landsbyggðinni sjái ekki aðra lausn á sínum málum en að ganga til liðs við skömmtunarstjórana því að afkoma þeirra og fjölskyldna er í húfi. Ef fer sem fer kæmi mér því ekkert á óvart að Framsfl. ætti eftir að bólgna mjög eins og púkinn á fjósbitanum að loknum þessum átökum um fiskveiðistefnuna hér á hinu háa Alþingi.

Það er dálítið einkennilegt í því sambandi að velta fyrir sér afstöðu sjálfstæðisþm. hér á þingi. Þeir virðast hafa litlar áhyggjur af því þó að þeir hafi eftirlátið Framsfl. þetta skömmtunarkerfi og verði því að sætta sig við að þeirra hagur verði ekkert sérstaklega góður í framtíðinni. Menn munu flykkjast til skömmtunarstjóranna og reyna að koma sér vel við þá til þess að vera með í úthlutuninni þegar að henni kemur. Það er ósköp eðlilegt. Ég get ekki láð neinum það þó að hann til þess að tryggja hag fjölskyldu sinnar og sína afkomu freistist til þess að ganga til liðs við skömmtunarstjórana. Þetta er væntanlega skýringin á hinum furðulegu skoðanakönnunum sem mæla mikla fylgisaukningu til handa Framsfl. þrátt fyrir það að sá flokkur hefur varla komið fram hér á þinginu í haust — ja, það er svona vart að maður hafi tekið eftir því að þm. Framsfl. hafi verið hér á þingi. Þeir hafa vart tekið til máls eða haft nokkuð um málin að segja, en það skiptir ekki máli eins og ljóst er.

Ég held að rétt sé að halda áfram lestrinum því að það er mjög margt merkilegt sem kemur fram í þessu riti Kristjáns heitins Friðrikssonar sem er mjög hollt fyrir hv. þm. að huga að á þessari örlagastundu:

„Hjá öðrum þjóðum hafa það einmitt verið slíkir menn sem hafa í mörgum tilvikum gengið í félagsskap við alþjóðaauðvaldið sem þannig hefur náð tökum á atvinnugreinunum. Þannig eru um þetta dæmi frá Bretlandi og Þýskalandi ...“ (Forseti: Má ég biðja ræðumann um að fresta aðeins ræðu sinni?) Já, sjálfsagt, virðulegur forseti.

Ég var að lesa upp hugleiðingar um alþjóðaauðvaldið sem þannig hefur náð tökum á atvinnugreininni. Mínar persónulegu skoðanir eru að vísu þær að það sé margt gott við alþjóðaauðvaldið. Það er hægt að hagnast á viðskiptum við það eins og marga aðra. Ég tek að vísu undir þær áhyggjur sem þarna koma fram um að alþjóðaauðvaldið gæti hugsanlega náð tangarhaldi á þessari auðlind okkar. Við skulum segja að þeir væru orðnir tiltölulega fáir, lénsgreifarnir, sem í umboði hæstv. sjútvrh. hefðu aðgang að þessari auðlind og við skulum hugsa okkur það — eins og mér sýnist vera mjög upplagt þar sem engin endurnýjun verður lengur í þessu kerfi, þ.e. lénsgreifarnir halda að sjálfsögðu fast utan um rétt sinn til auðlindarinnar og þeir munu ekki hleypa neinum þar inn. Væntanlega láta þeir þetta ganga í erfðir til ættingja sinna þannig að við tökum þá væntanlega upp svona nokkurs konar aðalsmannakerfi og það kemur eins og oft vill verða að því að ættliðirnir sem taka við verða dugminni en kannski þeir sem voru duglegir áður fyrr og þá náttúrlega kemur upp sú freisting að fela einhverjum alþjóðlegum aðilum að sjá um þetta fyrir sig og þeir geta þá bara sest að í útlöndum og látið greiða sér leigu fyrir það að útvega einhverjum alþjóðlegum útgerðaraðilum aðgang að auðlindinni. Það er alltaf hægt að finna einhverja menn á Íslandi til þess að vera þá andlit hinna erlendu auðvaldsaðila. Það er áreiðanlega margt að athuga við það og mjög fróðlegt að velta fyrir sér hvernig þessi þróun gæti orðið með áframhaldandi skömmtunarkerfi sem ég er ekki í nokkrum vafa um að á eftir að versna mjög því að mér sýnist allt stefna í þá átt. Með hverju kvótafrv. sem hér verður að lögum á hinu háa Alþingi getum við búið okkur undir það að tökin verði hert og þróun mála verði þannig að færri og færri eigni sér þessa auðlind.

„Dæmi um þetta eru bæði frá Bretlandi, Þýskalandi, Noregi og víðar. Smáútvegsmennirnir, þ.e. hinir eiginlegu útvegsbændur, hafa nær aldrei gengið alþjóðaauðhringunum á hönd.“ Það er akkúrat eins og hér er sagt: Smáútvegsmennirnir gera þetta ekki en þessir stóru aðilar, lénsgreifarnir — þegar þeir eru búnir að ná þessum tökum á auðlindinni, sem ég er að lýsa áhyggjum mínum yfir, falla frekar í þá freistni því að þá er virkilega komin einhver verslunarvara. Hugsum okkur að hér væru svona 33 aðilar. Það er nokkuð þekkt tala í sjávarútvegsumræðunni undanfarna mánuði. Ef þeir einir væru búnir að ná undir sig aðgangi að allri auðlindinni hlyti að verða mjög mikil freisting hjá kannski einhverjum þeirra, svona þegar fram liðu stundir að fela bara einhverjum öðrum að sjá um þetta fyrir sig og fá fyrir það nokkuð góða þóknun sem dygði til þess að lifa góðu lífi einhvers staðar í útlöndum og koma svo heim öðru hverju til að veiða lax á sumrin.

Hér er svo endað á því í þessum kafla að fjalla um bæjarútgerðirnar:

„Bæjarútgerðirnar hafa oft reynst taprekstrarfyrirtæki, spillingarbæli íhalds og krata.“ Svo mörg voru þau orð. „Vinnslustöðvarnar eiga að vera annaðhvort í einkaeign, t.d. eigu smáhlutafélaga, eða reknar á samvinnugrundvelli útvegsbænda. Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum er jákvætt dæmi um þetta.“

Ég held að við getum tekið undir þetta að mörgu leyti að bæjarútgerðirnar hafa oft reynst taprekstrarfyrirtæki, spillingarbæli íhalds og krata, enda er svona næstum búið að leggja niður flestar bæjarútgerðir og þær eru þá komnar í einkaeign eða kaupfélögin hafa tekið þær yfir þar sem möguleiki hefur verið fyrir hendi.

Síðan er hér kafli sem heitir „Hófnýting fiskimiða“ og mér finnst hann eiga fyllilega rétt á sér enn. Hér eru mjög skynsamlegar athugasemdir sem eiga erindi til okkar í dag eins og þegar þær voru skrifaðar:

„Miðin umhverfis landið eru eign allra Íslendinga sameiginlega.“ Það er engu líkara en að Kristján heitinn Friðriksson hafi fengið að semja þessa setningu sem er nú komin inn í 1. gr. laganna. Að vísu, eins og ég gat um áðan, eru menn sammála um að það sé ónauðsynlegt að setja slíka setningu inn í lög, hún er það sjálfsögð. Það er þó ekki óeðlilegt að menn hafi viljað setja þessa setningu í lögin því að slíkt er orðið ofríki hæstv. sjútvrh. að það endar með því að kannski verða bara einhvern tíma samþykkt lög á Alþingi þar sem annaðhvort hæstv. sjútvrh. eða Framsfl. verða afhent fiskimiðin alfarið. Þess vegna væri rétt að beita einhvers konar ítölu á fiskimiðin. Ástæðulaust er þegar Íslendingar hafa fengið fullan umráðarétt allra miðanna að kosta til þess að hafa þar meiri skipakost en þörf er á til hóflegrar nýtingar. Um þetta eru allir sammála og það hafa verið reyndar ýmsar leiðir til þess að draga úr skipakostinum, en þær hafa langflestar brugðist. Jafnvel kvótakerfið hefur ekki megnað að sporna við þeirri þróun að fiskiskipastóllinn er allt of stór og hann hefur allt of mikla afkastagetu, enda eru í gildi alls kyns reglur um að það megi stækka skip sem nemur um 30% ef þau eru úreld á móti nýju skipi sem er þá smíðað, þá má nýja skipið vera þessum mun stærra. Flotinn er því þrátt fyrir allt alltaf að stækka með þessu móti.

Það er að vísu látið heita svo að fyrir hvert nýtt skip sem kemur til veiða skal úrelda skip á móti og eins og ég gat um má mismunurinn ekki vera meiri en 30% og það er þá um það að ræða oft og tíðum að reynt er að selja skipið til útlanda. Mörg þau skip sem hafa verið smíðuð í seinni tíð eru smíðuð með þeim hætti að norskar skipasmíðastöðvar, sem við höfum verslað mikið við, hafa tekið gamla fiskiskipið, sem útgerðaraðilinn rak áður, upp í smíðina. Þessi skip hafa síðan verið seld áfram, t.d. til Chile. Það er verið að þreifa fyrir sér núna að selja íslensk fiskiskip til Pakistan og til Austurlanda fjær. Það er að verða eitt stærsta vandamálið hjá okkur hvernig við eigum að losna við gömlu fiskiskipin til þess að geta látið smíða ný. Mér var hins vegar tjáð að það væri til ein undankomuleið sem hefur verið reynd hér. Hún er einfaldlega þessi að þegar búið er að úrelda skip á móti nýsmíði, sem er þá 30% stærri, er keypt minna skip sem er úrelt á móti gamla skipinu, þá 30% minna. Síðan er keypt enn eitt skip sem er þá 30% minna en skipið þar fyrir aftan og þannig er haldið áfram niður röðina þangað til menn eru komnir niður í lítinn árabát og honum er þá bara siglt hérna út á flóann og honum sökkt. Þannig er það mál leyst. Enda bar svo við að fiskiskip sem hafði verið tekið upp í nýsmíði hjá sænskri skipasmíðastöð mun hafa verið á sölulista hér á Íslandi eftir að það hafði verið afhent hinni sænsku skipasmíðastöð. Þessa sögu heyrði ég hér, ég hef ekki haft tækifæri til að fá hana staðfesta, en mundi þó gjarnan vilja hafa tíma til þess þegar við höfum lokið störfum hér á Alþingi fyrir hátíðarnar.

Ég hef áður gert ítarlega grein fyrir þeirri skoðun minni að 70–80 þúsund lesta floti muni vera hæfilega stór til að hófnýta miðin miðað við nútímatækni. Í framtíðinni mun því þurfa að skammta- takmarka með einhverjum hætti aðgang að miðunum. Kristján heitinn Friðriksson hefur reyndar séð fyrir einhvers konar skömmtunarkerfi og sannleikurinn er sá að ég held að ágreiningurinn sé ekki um það að ekki þurfi að takmarka aðgang að fiskimiðunum hér með einhverjum hætti. Það hefur margoft komið fram í máli manna hér í umræðunum sem hafa bráðum staðið í — ja, það fer að styttast í að þær hafi staðið næstum því í 24 tíma, en það er nú önnur saga.

Þm. Borgaraflokksins hafa m. a. lýst sinni fiskveiðistefnu sem byggir að verulegu leyti á því kerfi sem var við lýði áður en kvótakerfið var tekið upp. Við höfum þá trú að það sé miklu skárra kerfi að því leytinu til að þar er frumkvæði einstaklinganna ekki alveg drepið í dróma eins og með kvótakerfinu svo að við verðum að taka undir þessar hugleiðingar Kristjáns heitins Friðrikssonar að það þurfi að skammta, takmarka með einhverjum hætti aðgang að miðunum.

„Í framtíðinni tel ég að réttast væri að selja eða veita þennan rétt til sjálfstæðra útvegsbænda, hlutafélaga þeirra eða framleiðslusamvinnufélaga.“ Það er ekki svo að sjá að Kristján heitinn Friðriksson hafi talið rétt að binda þennan aðgang að fiskimiðunum við skipin. Hann virðist telja að það eigi að veita þennan rétt sjálfstæðum útvegsbændum, hlutafélagi þeirra eða framleiðslusamvinnufélögum. Hér þarf að vera vel á verði gegn því að auðvald, innlent eða erlent, einkaauðvald, ríkis- eða bæjaauðvald hrifsi til sín útgerðarréttinn, ef til vill rányrki miðin, komi svo og heimti útgerðarstyrki eftir að þessir sömu aðilar hafa rányrkt. Útgerðarstyrkirnir, rányrkjustyrkirnir, yrðu lagðir á skattþegnana með einhverjum hætti. Það hefur svo sem komið fram hér í umræðunum áður að það hefur reyndar verið landlægt hér hjá vissum útgerðaraðilum að þegar illa gengur og útgerðin er rekin með tapi er beðið um hjálp frá ríkinu, en þegar vel árar vilja menn lítið heyra á ríkið minnst. Þetta á alls ekki við alla útgerðaraðila svo að það sé sagt strax hér en því miður hefur oft borið á þess háttar hugsanagangi.

„Svo leiðir þetta til óþarfrar lífskjaraskerðingar og óþarfrar áhættu í þjóðarbúskap, já, raunverulega tapaðs tækifæris til að skapa þjóðinni efnahagslega sérstöðu, sbr. síðar. Dæmi skal tekið:

Ef þúsund útvegsbændum víðs vegar um landið yrði veitt leyfi til að gera út 70 lesta skip að meðaltali mundi það vera við hæfi. Þúsund einstaklingum yrði gefinn kostur á að vera sjálfstæðir, ábyrgir þjóðfélagsþegnar. Það skiptir ekki máli í þessu sambandi þó sumir gerðu út aðeins 15 lesta skip, en aðrir allt upp í 500 lesta skip, jafnvel 1000 lesta, en þá yrðu fleiri að vera saman um eignaraðildina.“

Þessar hugleiðingar eru stórmerkilegar og þarna finnst mér vera að mörgu leyti skynsamlegri hugsun á bak við það sem hér er sagt en það sem kemur fram í frv. sem við höfum verið að afgreiða hér í hv. deild. Það hlýtur að vera eðlilegt að hafa fjölbreytni í útgerðinni, að ekki sé verið að binda stærð báta eins og t.d. er gert í frv. Frv, byggir á því að það eru reglur fyrir báta sem eru stærri en 10 tonn og síðan eru aðrar reglur fyrir báta minni en 10 tonn. Þetta veldur að sjálfsögðu því að það verða þarna algjör þáttaskil og það verður mikil fjölgun báta einmitt undir 10 tonnum og var á þeim tíma sem kvótakerfið hefur verið í gangi frá 1984, en e.t.v. hefði verið miklu heppilegra að fiskiflotinn hefði þróast og breyst með öðrum hætti. T.d. væri ekkert ólíklegt að það væri heppilegt að gera hér út meira af við skulum segja 25 tonna bátum, jafnvel 50 tonna bátum þannig að meiri fjölbreytni væri í stærð skipanna. Eins og kvótafrv. og kvótakerfið er sett upp verður lítil sem engin fjölbreytni. Bátar verða yfirleitt yfir 100 tonn eða undir 10 tonnum. Þó að það séu náttúrlega þó nokkuð mörg skip enn þá á bilinu 10–100 tonn í útgerð er viðbúið að öll nýsmíði verði annaðhvort undir 10 tonnum eða yfir 100 tonnum, það komi til með að vanta þessa millistærð sem gagnar mjög vel undir vissum kringumstæðum.

„Íhaldsstefna á þessu sviði mundi leiða til ótakmarkaðrar stærðar útgerðarfélaga sem mundu hlífðarlaust heimta réttinn til að rányrkja og jafnvel vera til sölu fyrir útlenda þátttöku til enn frekari rányrkju. Bæjarrekstur mundi líka vera erfiður í stjórnun og ekki hika við hallarekstur.“ Þetta er staðreynd sem við höfum oft og tíðum séð í sambandi við bæjarútgerðir. „Bæði formin tækju verksvið sem kjörið er fyrir hina sjálfstæðu framsæknu einstaklinga. Ef aðsóknin að miðunum yrði takmörkuð með auðlindaskatti, þá eru næg verkefni fyrir þann sjóð sem þannig myndaðist:

1. Hann mætti nota að hluta sem afla- og verðtryggingarsjóð.

2. Hann mætti nota til að létta af ofsköttun.

3. Hann mætti nota til að byggja upp nýjar greinar iðnaðar sem yrðu samkeppnishæfar við erlendan iðnað ef þær nytu verulegs stofnfjárstyrks líkt og landbúnaður nýtur nú.“

Hér er lýsing á hinum fræga auðlindaskatti sem einmitt hefur oft verið rakinn til Kristjáns heitins Friðrikssonar og kenndur við hann. Umræðu um auðlindaskatt hefur aftur skotið upp á yfirborðið núna síðustu mánuðina í tengslum við þá umræðu sem hefur farið fram hér allt haustið vegna væntanlegs frv. um fiskveiðistefnu. Það hafa birst margar mjög athyglisverðar blaðagreinar um þessi mál frá því í sumar. Ég minnist þess t.d. að hafa lesið mjög athyglisverðar greinar um hugsanlega kvótasölu þar sem er lagt til að í stað þess að úthluta veiðileyfum eða úthluta kvóta á skip yrði að einhverju leyti tekin upp kvótasala. Auðlindaskattur fékk strax á sig mikið óorð og þess vegna hafa menn varast að nota það hugtak, en í staðinn hafa menn viljað tala um kvótasölu sem í sjálfu sér er ekkert annað en eitt og hið sama.

Þá kom mjög athyglisverð hugmynd frá fiskilíffræðingi sem heitir Alda Möller, en hún lýsti því í blaðagrein í Morgunblaðinu í haust að e.t.v. væri það réttasta að senda hverri einustu fjölskyldu í öllu landinu sinn hlut af kvótanum og hún hafði reiknað það út að venjuleg fjölskylda ætti kröfu til þess að fá 6 tonna þorskkvóta. Einhleyp amma eða eldri kona gæti kannski fengið svo sem eins og eitt tonn. Hún gæti þá bara jafnvel farið með þetta tonn sitt í sjoppuna og selt það um leið og hún kaupir lottóseðilinn sinn. Þetta er ein leið að hreinlega senda öllum landsmönnum sinn hluta í heildarkvóta ársins og ráðuneytið gæti þá bara látið prenta út seðla. Það stæði á seðlunum 100 kg, 1000 tonn, 100 tonn, 1 tonn og þetta yrði bara sent til aðila og síðan gætu menn farið með þetta. Við gætum hugsað okkur að sjoppurnar tækju við seðlunum og kæmu þeim áfram í sölu. Menn gætu síðan bara farið í sjoppurnar og þegar þeir kaupa lottóseðlana gætu þeir keypt svo sem eins og 1000 tonna þorskkvóta í leiðinni. Þetta er ein leið. Ég er alveg til í að skoða svona hugmyndir og ég ætla ekkert að segja það álit mitt hér að einhvers konar auðlindaskattur eða kvótasala komi ekki til greina, ef menn endilega vilja hafa slíkan kvóta.

Hér er tekið mjög skemmtilegt dæmi um stefnufrávik — því miður eru framsóknarmennirnir orðnir heldur framlágir hér í hv. deild þannig að það er ekki víst að þetta nái til þeirra. Þó sé ég virðulegan þm., hv. 3. þm. Norðurl. v. Stefán Guðmundsson. Hann er enn þá hér uppistandandi — en þar segir svo:

„Það óhapp henti fulltrúa Framsfl. á Alþingi nýlega að flytja tillögu um togaraútgerð ríkisins. Þetta er eitt af dæmum sem sýna hversu mikilsvert er að hafa framsóknarstefnuna sem greinilegast markaða. Ljóslega er þetta gagnstætt flokksstefnunni. Hvaða vit væri í því að fara að skattpína þegnana með taprekstri á útgerð ríkisins, láta þessa togara veiða fiskinn á miðunum frá útvegsbændum sem eru tilbúnir að sinna verkefninu og gjalda sína skatta inn í samsjóði ríkis og bæja? Tillagan um ríkisútgerð togara hefði verið eðlilegra að kæmi frá sósíalistum.“

En það er nú einu sinni svo að framsóknarmönnum er ekkert allt of lagið að vera stefnufastir. Stefna Framsfl. vill svona vera eins og á kompás sem hefur bilað. Þið þekkið það þegar nálin hefur losnað á kompásnum og bara dansar í allar áttir og það ræðst ekkert við hana. Þannig er kannski best að lýsa stefnu framsóknarmanna.

„lndíánagullið og íslensku fiskimiðin. Um aldabil höfðu Spánverjar og Portúgalar mikil svæði í Suður-Ameríku sem nýlendur. Þeir arðrændu íbúana og drápu en fluttu mikil auðæfi dýrra málma heim til landa sinna. Þessi auður gerði þeim fært að kaupa allar þær iðnaðarvörur, sem ráðandi stéttir þessara landa kærðu sig um, frá öðrum löndum. Með þessu var þróun heimaiðnaðar vanrækt, bæði hjá Spánverjum og Portúgölum. Kaup þeirra á iðnaðarvörum fyrir indíánagullið átti talsverðan þátt í að efla iðnað annarra þjóða, sem sé Hollendinga og síðan Breta og Þjóðverja. Svo þegar gullið þraut í nýlendunum stóðu þessar þjóðir uppi með vanþróaðan iðnað, ósamkeppnisfæran við iðnað Breta og Þjóðverja. Þetta hefur átt sinn þátt í að veikja efnalega stöðu þessara þjóða, þ.e. Spánverja og Portúgala, og halda niðri lífskjörum þar til langframa.

Þetta er rifjað upp hér vegna þess að Íslendingar hafa farið svipað að á síðustu áratugum og eru þó e.t.v. að ganga enn lengra inn á þessa braut allra síðustu missirin.“

Ég kom dálítið inn á þetta í ræðu minni í gær, en ég lýsti í upphafi hennar með hvaða hætti við höfum hlaðið undir atvinnugreinar í nágrannalöndunum, t.d. í Noregi, þar sem við höfum raunverulega falið Norðmönnum og jafnvel fjarlægari þjóðum að sjá um allt sem við þurfum á að halda í sambandi við sjávarútveg. Þannig, eins og ég lýsti því, vorum við þess valdandi að í Noregi komst á laggirnar mjög merkilegur atvinnuvegur, ný atvinnugrein sem byggir á því að smíða ýmiss konar rafeindatæki fyrir fiskiskip, fiskileitartæki, fiskisjá o.s.frv.

Þetta er nákvæmlega það sem verið er að lýsa hér með Spánverja og Portúgala. Þeir arðrændu íbúana og drápu, ég er ekki að segja að Íslendingar hafi gert það, en þeir hafa kannski rányrkt fiskimiðin að einhverju leyti. Við verðum að játa þá sök á okkur að einhverju leyti. Öllum er í fersku minni þegar síldin hvarf hér svona upp úr miðjum 7. áratugnum, Norðurlandssíldin, vegna rányrkju, og við notuðum gullið sem við fengum fyrir þetta til þess að kaupa hluti frá öðrum löndum en sinntum því ekki að byggja upp iðnaðinn sjálfir. Við höfðum greinilega hugarfar Spánverja og Portúgala í þessu efni en ekki hugarfar Breta og Þjóðverja sem lögðu einmitt á það áherslu á miðöldum að byggja upp iðnað meðan Portúgalar og Spánverjar létu sér nægja að fá gullið frá indíánunum og kaupa allt sem þeir þurftu á að halda annars staðar frá.

Þó að þetta sé kannski svolítið flókin samlíking sem Kristján heitinn tekur þarna í þessu riti sínu er hún mjög raunhæf vegna þess að hún sýnir mjög vel þessa gullöld sem við gengum í gegnum þegar við gátum mokað upp úr fiskimiðunum okkar og raunverulega þurftum ekkert að vera hugsa um svoleiðis smámuni eins og að vera að smíða eitthvað fyrir skipin okkar eða vera að kaupa veiðarfæri eða öllu heldur að framleiða veiðarfæri hér. Við áttum nóga peninga. Við bara keyptum þetta erlendis frá. Það þurfti ekkert að vera að huga að því að byggja upp slíkan iðnað hér á Íslandi.

Svo þegar gullið þraut í nýlendunum stóðu þessar þjóðir uppi með vanþróaðan iðnað, ósamkeppnisfæran við iðnað Breta og Þjóðverja. Það er rétt að endurtaka þetta. Þannig hefur einmitt farið fyrir okkur. Í dag er það orðið of seint fyrir okkur t.d. að ætla að reyna að byggja hér upp rafeindaiðnað í tengslum við fiskleitartæki. Við erum að vísu nú að reyna að hasla okkur völl á þeim vígvelli og hefur orðið nokkuð ágengt þar sem við höfum farið inn á þá braut að hefja framleiðslu á flóknum tækjabúnaði. Ég nefni t.d. tölvuvogir og ýmis framleiðslukerfi í fiskiðnaði sem við höfum náð nokkuð góðum árangri með. Við höfum því til allrar guðs lukku ekki algjörlega glatað þessum tækifærum og það er vel því að það er eins og hafi orðið hér einhver vakning svona síðustu 10 árin þar sem menn hafa séð að það gat ekki gengið lengur að moka bara upp fiskinum, fá fyrir hann gjaldeyri og kaupa síðan allt sem við þurftum til útgerðar frá útlöndum. Þetta kemur kannski líka að einhverju leyti fram vegna þess að gullið er ekki eins mikið og það var þannig að við höfum vaknað upp við þann vonda draum að við þurfum kannski að passa svolítið betur upp á það sem við fáum út úr fiskimiðunum. Það er ekki víst að þetta sé óþrjótandi. (HBl: Svo er nú gott að fá virðisaukaskattinn í útflutninginn.) Ja, það er nú líkast til, hv. þm. Það verður nú munur.

„Í þessari líkingu lítur dæmið þannig út að nú er verið að framkvæma stórfellda rányrkju fiskimiðanna," þetta er nú skrifað á þeim tíma þegar það er augljós staðreynd en heimaiðnaðurinn hér er vanræktur. Þegar svo verður búið að tæma miðin með því að siga allt of stórum flota á fiskitorfurnar, þá stöndum við uppi með taprekstrarútgerð sem hefði getað verið stórgróðaútgerð, stöndum uppi með tæmd fiskimið og iðnað sem er skammt á veg kominn. Þetta stafar af því að mikill hluti ráðamanna, m.a. alþm., virðist vera á svipuðu stigi skammsýni og spánska aðalsstéttin meðan hún var að sóa índíánagullinu frá Suður-Ameríku.

Þessi missirin er verið að veita stofnlán til rányrkju fiskimiða, lán til handa útgerðinni til þess samtímis að skemma fiskimiðin og eyðileggja framtíðarrekstraraðstöðu sjálfrar sín. En það getur verið stórgróði að þeirri útgerð þar sem ekki væri nema 70 þús. veiðilestir í gangi. Sú útgerð þyldi auðlindaskatt og hefði þó glæsilega afkomu, en 120 þús. lesta floti hlýtur að verða rekinn með tapi (styrkjum) og leggur framtíð fiskimiða í hættu vegna ofnýtingar. Þetta liggur í augum uppi.“

Og ég tek undir það. Þetta liggur í augum uppi. Frá því að þetta er skrifað hafa menn vaknað upp við vondan draum. Margt af því sem þarna er sagt gekk fram, varð að raunveruleika og menn tóku í ofboði til við að reyna að minnka flotann og koma einhverju lagi á aðgang flotans að fiskimiðunum þannig að það væri hægt að bjarga því sem bjargað varð. Það veldur þó nokkrum vonbrigðum að ekki hefur tekist að ná upp þorskstofninum að neinu gagni enn og sérstaklega á það við um stærð og þyngd aflans, þ.e. fiskanna. Okkur virðist ekki ætla að takast að ná upp hinum gömlu, duglegu þorskstofnum þegar var verið að veiða stórfiskinn hér á vetrarvertíðinni á Suðvesturlandi. Það virðist vera liðin tíð.

Íhaldsráðið, frímarkaðsstefnan, það sem við höfum kallað í dag nýfrjálshyggjuna, það er frelsið til þess að láta allt fara eins og það fara vill, það var það sem réði ríkjum í fiskveiðum hér áður fyrr. En ég veit ekki hvort það er betra að fara eins og oft er sagt úr einum brautaskurðinum í annan. Það er nefnilega einkennileg árátta okkar Íslendinga hvað okkur gengur illa að halda okkur á miðjum veginum. Við aðhyllumst alltaf öfgastefnur. Ég er ekki að segja að það séu öfgastefnur til hægri eða vinstri, en þær eru oft öfgastefnur í framkvæmdum. Við búum okkur til eitthvert kerfi, öfgakerfi á þennan veg og þegar það virkar ekki, þá förum við í eitthvert öfgakerfi á hinn veginn. En okkur gengur afar illa að halda okkur á miðjum veginum. Þetta kann að vera innbyggt í þjóðarsálina og er e.t.v. ekkert við þessu að gera, en til þess erum við nú einu sinni hér alþm. á hinu háa Alþingi að reyna að halda vagninum á miðjum veginum, en ég verð að segja eins og er, að það gengur afar illa.

„Rétt framsóknarstefna“ — og nú væri vel að framsóknarmennirnir hlýddu vel á — „Rétt framsóknarstefna væri að beita viðeigandi höftum gegn ránnýtingu, beita skipulagsaðgerðum og áætlunarbúskap með heildarhag fyrir augum einmitt í þágu þjóðhagslega hagkvæms einkaframtaks.“ Og þar mundi ég telja hiklaust smábátaútgerðina með, en því miður virðist sem framsóknarstefna dagsins í dag taki ekki mið af þessu.

Virðulegur forseti. Ég held að ég láti þetta gott heita í bili. Það væri náttúrlega hægt að halda hér langar ræður enn um stjórn fiskveiða og sérstaklega væri mjög fróðlegt að taka langa umræðu um auðlindaskattinn og kvótasöluna. Það er þrátt fyrir allt farið að örla á slíkum hugmyndum, m.a. í röðum framsóknarmanna. Ég minni á athyglisverðar blaðagreinar, sem hv. 10. þm. Reykv., Guðmundur G. Þórarinsson, hefur ritað í dagblöð í haust þar sem hann hefur stungið upp á því að gerð yrði tilraun til að selja einhvern hlut af kvótanum, t.d. ein 20%, og ég er ekkert frá því að það væri þess virði að reyna slíkt. Í stað þess að úthluta öllum aflakvótanum á skip eins og gert er, því þá ekki að prófa þessa hugmynd að selja 20% af kvótanum og sjá hvernig gengur? Það gæti verið ágætis tilrann að gera það.

Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu.