22.12.1987
Efri deild: 36. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2962 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

181. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. 1. minni hl. sjútvn. (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Nú er þetta frv. komið til 3. umr. og það hafa átt sér stað merkilegar atkvæðagreiðslur. M.a. hefur verið felld tillaga úr stefnumörkun ríkisstjórnarinnar og annað eftir því má segja. Það er sem sagt búið að móta hér með atkvæðagreiðslum fiskveiðistefnu næstu þriggja ára. Sjálfstfl. og Alþfl. hafa látið sig hafa það að samþykkja stefnu Framsfl. , gera hana að sinni. Og það var dálítið fróðlegt að heyra hvað hv. 7. þm. Reykn. Júlíus Sólnes sagði áðan í sambandi við þær skoðanakannanir sem hefðu farið fram um stöðu flokka, að það væri verið að tylla það mikið undir framsókn, að þm. þyrftu ekkert að gera. Fólkið í landinu vissi að það væri búið að afhenda þeim alla fyrirgreiðslupólitík í landinu. Þeir væru annað hvort sjávarútvegsráðherrar með öll leyfin þar eða formenn Byggðastofnunar. (Gripið fram í: Það er ekki framsókn.) Er það ekki framsókn, nei. Það var ekki núna, en þeir eru þá vel mannaðir þar. Þeir eru vel mannaðir í stjórn Byggðastofnunar hver um annan þveran. (Gripið fram í: Það er alveg rétt.) Og hafa góða aðstöðu til þess að láta menn vita um að það sé hægt kannski að laga hlutina til fyrir þennan eða hinn.

Og það er ekki nóg með það að hlutirnir séu á þann veg að fyrirgreiðslupólitíkin komi út á þennan hátt, heldur verður það þannig að þetta óskaplega mikla fyrirgreiðsluvald hefur þau áhrif á þjóðfélagið að menn bugta sig bara og beygja, þora ekki að ymta kjafti eins og sagt er. Og þegar maður segir það, þá er maður nú að tala út frá nokkurri reynslu í því. Maður hefur kynnst því að þessir höfðingjar með mikla leyfisvaldið í sjútvrn. hafa það ógnunarvald yfir þeim sem þurfa að hafa viðskipti við þá, jú og það er orðinn hver einasti sem stundar sjó, og það er ekki nóg með að það sé hver einasti sem stundar sjó, heldur hver einasti sem fæst við fiska á einn eða annan máta. Þeir eru settir undir vald þessa ráðuneytis og ef þeir stíga ekki sporin eins og ráðuneytið ætlast til og vill að þeir geri, hvort sem það er bundið reglum eða ekki, þá má búast við því að á ýmsan veg sæki þetta ráðuneyti inn á þeirra vettvang þannig að það er best að hafa sem hægast um sig.

Svo langt gengur þetta að þó að einn og einn leyfi sér að kvarta undan valdi ráðuneytisins, undan framkvæmd valds ráðuneytisins, þá heldur ráðuneytið því fram lon og don að það sé enginn sem kvarti og þetta stenst á þann veg að það þorir enginn að fylgja því eftir að hann kvarti af ótta við það að þetta vald láti þær upplýsingar bitna um síðir, við einhverjar sérstakar aðstæður, á viðkomandi.

Vald ráðuneytisins hefur komið fram í ýmsu, m.a. í því hvernig frv., sem nú er komið til 3. umr., var undirbúið, hvernig það var kynnt, hvernig það var lagt fram hér fyrir hv. Alþingi. Það var undirbúið á þann veg að það voru fengnar stofnanir til þess að fjalla um það að athuga efnahagsleg áhrif kvótakerfisins. Það var viðskiptadeild Háskóla Íslands. Og það voru fengnir hinir vísustu menn til þess að skoða þá þætti sem ráðuneytið taldi að hefðu tekist hefði ekki farið á þann veg, sem ég var að lýsa hér í fyrri umræðunni, hvernig kostir kerfisins væru, hvað kostir kerfisins væru miklir. Það var Raunvísindastofnun Háskólans, það var viðskiptadeild Háskóla Íslands og svo var fenginn prófessor frá Bergen til þess að segja Íslendingum hvað kvótakerfið vær gott. Ég hélt nú að þeir hefðu spandérað pappír undir erindið hans hér aftan við frv. en svo virðist nú ekki vera. En það hefur kannski verið af því að það erindi, sem prófessorinn úr Bergen flutti yfir ráðgjafarnefnd, undirbúningsnefndina, var birt tvisvar í Morgunblaðinu, tvisvar í sama blaðinu. Þess vegna hefur ráðuneytið kannski ekki talið ástæðu til þess að hafa það hér með frv. líka, þannig að það átti að duga að birta Íslendingum það í Morgunblaðinu, tvisvar sömu greinina. (HBl: Það lesa allir Moggann.) Ja, það er trúlegt, það lesa flestir Moggann. Þetta hefði átt að duga. Þessi ágæti prófessor kom hér árið 1985. Þá var líka umræða um kvótakerfið og við megum búast við því að haldi hann heilsu þá komi hann hér aftur 1991 þegar við þurfum að fara að fjalla um kvótakerfið á nýjan leik. En það er nú bara það að sá ágæti prófessor skipti ekki um skoðun. Það væri nú voðalegt ef það skyldi koma fyrir, en ég hef mikinn grun um það að hann hafi skipt um pólitíska skoðun á námsvistarárum sínum og starfsárum úti í Noregi. Ef ég man rétt þá var þessi ágæti prófessor mjög róttækur vinstri maður, (SvG: Það er rétt.) marx-leninisti ef ekki meira, en hann ku vera horfinn frá þeirri skoðun sinni og tekinn að hallast meira til þeirra manna sem nú tala um markað og frelsi. (HBl: Er hann ekki að hverfa aftur til barnatrúarinnar, sem hann hafði?) Eigi veit ég hvenær hann tók marx-leninistatrúna, en það mun hafa verið dálítið snemma, en hann ku vera horfinn frá henni. Það gæti farið svo að eftir þrjú ár væri prófessorinn horfinn frá þessari trú og farinn að kenna kannski eitthvað annað. Ég bendi hæstv. sjútvrh. á að fylgjast mjög vel með, því að svo gæti farið að prófessorinn komi og boði bara allt annað en hann boðaði árið 1985 og hann boðaði nú. Það er nú svo.

Við höfum verið hér á dálítið merkum tímamótum. Nú munu vera sólhvörf. Já, og nú er aðeins að byrja að lengjast dagur, um hænuspor. Og það er dálítið merkilegt að vera að fjalla um mikilsverð mál hér á hv. Alþingi Íslendinga þann sólarhringinn sem nærri flestum Íslendingum þykir hvað vænst um: Þegar sólin fer aftur að hækka á lofti. Við njótum þess að hafa fengið að vera hér í nótt og raunverulega finna fyrir því (HBl: Maður sér sólina rísa.) að sólin er aðeins að rísa. Landið er að rísa.

Ég var að segja það áður en þeir hv. sjálfstæðisþm. komu hér inn í þingsalinn að enn hefur það gerst — þeir hafa kannski heyrt til mín, ég veit ekki hvort nokkur apparöt eru til núna, og eru sjálfsagt ekki í gangi hér um húsið, til þess að heyra það að ég var að lýsa því að þeir hafi nú einu sinni enn gengið til liðs við hana framsókn, stutt hana dyggilega í því að bæta aðstöðu flokksins til góðrar fyrirgreiðslu. (Gripið fram í.) Samstarf á milli Dagsbrúnar og Miklagarðs. Ja, ég held, þegar maður fer að hugsa út í þetta, að þá sé gott samstarf þar á milli, milli Dagsbrúnar og Miklagarðs vegna þess að framkvæmdastjóri Dagsbrúnar, Þröstur Ólafsson, mun vera stjórnarformaður Miklagarðs. Ég mundi telja það af hinu góða að framkvæmdastjóri verkamannafélagsins Dagsbrúnar (GHG: Hann þjónar SÍS.) Hann þjónar ekki beinlínis SÍS, heldur þjónar hann félagslegri stofnun á höfuðborgarsvæðinu. (Forseti: Ég verð að biðja hv. þingdeildarmenn að gæta þess að halda fundarsköp.)

Það er einmitt ósköp eðlileg tenging að starfsmaður verkalýðsfélags, framkvæmdastjóri verkalýðsfélags sé stjórnarformaður í félagslegri stofnun eins og Mikligarður er. (Gripið fram í: Óumdeilanlega félagsleg stofnun.) Óumdeilanlega félagsleg stofnun vegna þess að meirihlutaeign í Miklagarði er hjá Kaupfélagi Reykjavíkur og nágrennis, í félagi sem við köllum venjulega Kron. Og þessi maður, sem hér var nefndur til, er líka stjórnarformaður í Kron. (GHG: Og í stjórn Granda hf.) Og líka í stjórn Granda. Þar mun hann samkvæmt útlistingum borgarstjórans í Reykjavík hafa verið settur í stjórn, ekki vegna þess að hann hafi verið kosinn af borgarstjórn Reykjavíkur eða skipaður af borgarstjóranum, heldur til þess að fulltrúi Verkamannafélagsins Dagsbrúnar gæti haft viss áhrif á rekstur þessa stóra og mikla atvinnufyrirtækis hér í Reykjavík. (Gripið fram í.) Já, það kemur stundum fyrir að sjálfstæðisíhaldið gerir svona einn og einn hlut sem er félagslega tengdur og það kemur fyrir nokkrum sinnum að m.a.s. stóríhaldið á Morgunblaðinu skrifar góða leiðara eins og leiðarann sem ég las hér upp fyrr í kvöld, nei, í gær var það, gagnmerkan leiðara og það hefði verið æskilegt að þeir sjálfstæðisþm. hefðu tekið dálítið mark á Morgunblaðinu sínu, tekið mark á þeim leiðara. Þá hefðu þeir kosið öðruvísi og stutt og flutt mál öðruvísi en þeir hafa gert hér og gerðu í gær. (Gripið fram í: Það væri kannski rétt að lesa hann aftur.) Það er líkast til, ég er bara ekki með hann hér uppi. En það hefði verið gott fyrir ykkur að fá þá lesningu yfir ykkur aftur, hv. þm. Sjálfstfl. hér í deildinni. En það er líkast til bara annar ágætis leiðari í Morgunblaðinu sem ég sé að er kominn — nei, þetta var nú verri leiðari, hann var úr sjálfum Tímanum. Ég sting honum hér undir. (Gripið fram í.) Já, kemur hann. (GHG: Dagsetninguna fyrst.) Daginn fyrir framlagningu frv. hér í hv. deild. (Gripið fram í.) Ja, það sýnir fyrirhyggju Morgunblaðsins. (Forseti: Ég bið hv. þingdeildarmenn að vera ekki að þessum eilífu frammíköllum og samtölum.) Það þýðir að Morgunblaðið sýnir svona einstaka sinnum fyrirhyggju að það skuli hafa áttað sig á því að senda þm. sínum kveðju einmitt daginn áður en frv. um fiskveiðistjórn var lagt hér fram á hv. Alþingi. En í þessum leiðara Morgunblaðsins segir, með leyfi forseta:

„Það er ósköp hvimleitt þegar ráðherrar, þingmenn og aðrir talsmenn stjórnmálaflokka hafa uppi hótanir um stjórnarslit þegar ágreiningur kemur upp um einstök mál í ríkisstjórn.“ Það er ósköp hvimleitt þegar svoleiðis er unnið. Og það er líka ósköp hvimleitt þegar þm. láta undan slíkum hótunum eins og greinilega hefur skeð hér á hv. Alþingi nú. (Gripið fram í.) Það er ekki verið að tala um félmrh. Það var einmitt verið að ræða fyrst og fremst um það mál sem við erum að ræða hér. Ég er ekki að fara út um víðan völl með mína umræðu og held mig við umræðu um fiskveiðistjórnunina. Ég mun ekki fara að ræða húsnæðismál undir þessum dagskrárlið, enda veit ég það að hæstv. forseti mundi ekki telja það eðlilegt og óska eftir því að ég breytti þá um málflutning.

„Það er ósköp hvimleitt“, segir Morgunblaðið, „þegar ráðherrar, þingmenn og aðrir talsmenn stjórnmálaflokka hafa uppi hótanir um stjórnarslit þegar ágreiningur kemur upp um einstök mál í ríkisstjórn. Enginn neyðir þá flokka sem aðild eiga að núverandi ríkisstjórn til þátttöku í henni.“ Þetta hefðu menn mátt muna. Það er enginn neyddur til þess endilega að taka þátt í ríkisstjórn gegn vilja sínum eða þegar menn finna það að þeir eru að vinna gegn hagsmunum kannski meiri hluta flokksmanna sinna, gegn eðlilegri stefnu þeirra. Þeir sem vilja halda fram frelsi í atvinnuháttum eru allt í einu farnir að styðja boð og bönn og skömmtun. Það neyðir mann enginn til þess að gera slíkt. Sem betur fer er ekki sú staða hér á Íslandi.

Það er ótrúlegt hvað menn láta flækja sig til og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson talar um að það sé af eintómri ábyrgð, menn verði að sýna ábyrgð, hugsa um fiskistofnana. (GHG: Að sjálfsögðu.) Að sjálfsögðu. Og samþykkja aftur fiskveiðistefnu, sem — ja, það er nú ljótt að segja að hún hafi haft þann tilgang því hún hafði ekki þann tilgang sem út úr því kom: Skerðing á fiskistofnunum, skerðing á þorskstofninum a.m.k., við stöndum frammi fyrir því undir þessari fiskveiðistefnu að þorskstofninn hefur minnkað. Og hvenær vorum við að skerða svona þorskstofninn? Við vorum að skerða hann á mestu góðærisárum sem yfir landið hafa gengið í áraraðir. Það var ekki nóg að við sólunduðum peningum í hinar og þessar fjárfestingar, vitlausar fjárfestingar eins og flugstöð og annað eftir því, við gengum líka á varasjóðinn okkar í sjónum. Það er ekki nóg að erlendar skuldir aukist og aukist heldur erum við líka að ganga á höfuðstólinn okkar hér heima, höfuðstólinn við strendurnar. Og nú er talið mjög nauðsynlegt að framlengja þetta kerfi sem hefur kallað á þessa þróun í sambandi við fiskistofnana, þorskstofninn. Okkur er tilkynnt núna: Þið skuluð herða sultarólina. Það er greinilegt að það verður a.m.k. 40 þús. tonna minni afli á árinu 1988 en var á árinu 1987. Það er greinilegt að það verður að minnka kaupmátt almennings í landinu vegna þessara hluta. Og það er staða sem ekki verður frestað. Við stöndum frammi fyrir orðnum hlut. Við ættum kannski að fá aukin lán, aukin erlend lán til þess að reyna að bæta þessa stöðu? Það er allt á sömu bókina lært. Það er óstjórn í landinu á alla vegu.

Þeir sjálfstæðismenn hafa reynt að halda til haga og búið til tröllasöguna um verðbólguna þegar ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens skilaði af sér hér á vordögum 1983. Ja, sú mynd var kannski ekkert falleg. En hvað er hún miðað við þá mynd sem hægt er að stilla upp núna af afrakstri ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl., og núna Alþfl.? Í mesta góðæri sem yfir þjóðina hefur gengið aukast skuldir þjóðarbúsins og það er gengið á fiskistofnana. Atvinnutækin við sjávarsíðuna eru ekki endurnýjuð. Við erum með stóran hluta af fiskveiðiflotanum okkar 30–40 ára gamlan og þar sitjum við vegna þessa einkaréttarkerfis. Og það eru kallaðir vondir menn sem leyfa sér að smíða báta. Þeir eru hroðalegir þessir sem eru að smíða 9,9 tonna bátana. Það eru alveg voðalegir menn. Öll framþróun í nafni þessara manna er vond, sérstaklega ef það er í undirstöðuatvinnuveginum, sjávarútveginum. En ef þeir geta sólundað og eytt eins og í flugstöð án nokkurra heimilda, þá er það af hinu góða. Og hver ráðherrann á fætur öðrum lýsir því yfir að sóun og stjórnleysi, eins og átti sér stað við byggingu flugstöðvarinnar, sé ekkert athugaverð. (HBl: Hvað segir Morgunblaðið um það?) Ég leit nú ekki í leiðara Morgunblaðsins í morgun. Það var líka mánudagur í gær. Það var ekkert Morgunblað í gær. (Forseti: Það er þriðjudagur í dag.) Það er kominn þriðjudagur, já. Það getur vel verið að það sé góður leiðari í Morgunblaðinu í dag og ég vona það, en það er nú kannski heldur seint til þess að leiðrétta hv. þm. (Gripið fram í.) Það er nú ekki nýtt.

Ég held að það sé bara full þörf á að við lesum leiðara Morgunblaðsins. Við gerum það nú allir. En Morgunblaðið er á réttum vettvangi og leiðari Morgunblaðsins fjallar um tímaþröng á Alþingi. Það hefði nú kannski átt að skrifa um það á föstudaginn eða laugardaginn. Það er kannski heldur seint að gefa þm. sínum línuna eftir að við erum búin að missa af starfsdegi út úr höndum okkar sem byrjaði á mánudagsmorgni og samtengdist þriðjudegi á þann skemmtilegan máta að við fundum fyrir því að sólhvörfin gengu yfir okkur og hænusporið bættist við í tímalengdina, sólin fór að rísa. En ég ætla, með leyfi virðulegs forseta, að lesa úr Morgunblaðinu þriðjudaginn 22. des. 1987 leiðara sem heitir „Tímaþröng á þingi“:

„Líkur standa til þess að Alþingi starfi á milli jóla og nýárs. Það hefur ekki skeð síðan 1958“, — og skal í minnum haft, en þá, árið 1958, var alþýðuflokksstjórn við völd. (Gripið fram í: Nei.) Jú. (Gripið fram í.) Nei, Emilía. Mun hafa tekið við á Þorláksmessu eða daginn fyrir Þorláksmessu eða svo. (Gripið fram í.) Stendur heima. Gæti það verið að þessi vandræði fylgdu krötunum? (GHG: Það er aldrei að vita.) Nei, það er aldrei að vita. Við skulum vita hvað kemur fram í leiðaranum. Það gæti verið.

„Þá baðst vinstri stjórn Hermanns Jónassonar lausnar í desembermánuði að fjárlögum óafgreiddum.“ — Sem er í minnum haft. „Ástæðan var ágreiningur við verkalýðshreyfinguna um frestun verðbóta á laun, sem var liður í ráðgerðum efnahagsaðgerðum og verðbólguvörnum stjórnvalda. Við tók minnihlutastjórn Emils Jónssonar. Hún var undanfari viðreisnarstjórnarinnar sem þrír formenn Sjálfstfl. leiddu, hver eftir annan. Sú stjórn var bæði langlíf og farsæl. Verðbólga var að meðaltali innan við 10% á ári — á 11 ára starfsferli hennar.“

Þarna var meðaltalsreglan, já. Þarna kom meðaltalsreglan. Upp í 11 ára tímabil. Já. Henni var ekki beitt á verðbólguna í ríkisstjórnartíð Gunnars Thoroddsens. Þá voru bara teknir nokkrir dagar og skotið á verðbólguhraða. Það var ekki einu sinni notað eitt ár. Þarna var verðbólgan á 11 ára tímabili. Meðaltalstala innan við 10% á ári.

„Líkur standa jafnframt til þess að Alþingi hefji störf einhvern fyrstu daga hins nýja árs, jafnvel 4. janúar, en oft hefur starfshlé þingsins yfir jól og áramót staðið fram yfir miðjan mánuðinn. Ástæða þess að Alþingi breytir starfsháttum að þessu leyti er sú, að mörg og viðamikil mál hafa safnast saman til afgreiðslu á síðustu þingvikum. Það hefur að vísu áður skeð en ekki í jafnríkum mæli sem nú.“

Hvernig skyldi standa á því að Morgunblaðið segir að þetta hafi safnast svona mikið upp núna síðustu þingvikurnar? Ætli það sé að segja satt þar? Jú, það er nú víst að segja satt. Og ekki getur það verið af slóðaskap þessarar ríkisstjórnar að allt hafi dregist fram á síðustu stundu? Við megum ekki ætla að það geti verið. En getum við ekki verið sammála um varðandi það málefni sem við erum að ræða hér að það hafi verið fyrst og fremst af slóðaskap a.m.k. ákveðins hluta ríkisstjórnarinnar að það var ekki komið — hv. þm. er dálítið syfjaður. Það er kannski heldur stórt að segja að það sé slóðaskapur en af svona, æ, ég veit ekki hvað ætti að kalla það þegar ekkert er gert í verkum allar götur frá því 8. júlí og fram yfir miðjan september. Það er sofandaháttur. Er ekki hægt að kalla það sofandahátt? Að það hafi verið sofandaháttur ráðherra og þeirra aðila sem áttu að ýta á eftir því að hann ynni verkin? Að það hafi verið sofandaháttur að það skyldi ekki hafa verið farið að vinna í þessum málum fyrr en gert var og að það frv. sem við fjöllum hér um hafi ekki komið inn á hv. Alþingi fyrr en 4. des., daginn eftir að Morgunblaðið birti sinn ágæta leiðara sem skal í minnum hafur. Og áfram skal halda við lesturinn:

„Enginn vafi er á því að nýjar þingskapareglur, sem þetta þing starfar eftir, skapa skilyrði til bættra þingstarfa. Þær hafa þó ekki dugað til þess að starfshættir þingsins, það sem af er vetri, geti talist eftirbreytni verðir.“ Nú líst mér á Morgunblaðið. „Orsökin er margþætt. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að stjfrv., sem fá eiga afgreiðslu fyrir áramót, séu lögð fram fyrr á starfstíma þingsins en raun varð á nú.“ — Þetta er svona góðlátleg ábending til þingliðs Morgunblaðsins. — „Spurning er jafnvel, hvort ekki þurfi að binda í starfsreglur Alþingis að frumvörp, sem fá eiga afgreiðslu fyrir áramót, skuli lögð fram fyrir einhvern tilskilinn tíma.“ — Og nú kemur dagsetning. Hún gengi illa upp undir núverandi ríkisstjórn. Morgunblaðið nefnir 20. nóv. Hvað skyldu mörg frv. ríkisstjórnarinnar hafa verið lögð fram fyrir 20. nóv.? Eða hvað skyldu þau vera mörg sem komu eftir 20. nóv.? Eru nokkrar upplýsingar um það hjá hæstv. forseta hve mörg frv. ríkisstjórnin hefur lagt fram eftir 20. nóv.? Það breytir svo sem engu, en við vitum að meginhluti þeirra frv. sem verið er að fjalla um voru lögð fram eftir 20. nóv. og nokkur veigamikil frv. á síðustu dögum þingsins. — Þetta er bókin hans Egils. Ég vil ekki í neinu trufla hana því að hún verður að vera hér og hann verður að geta gengið að henni vísri þegar hann kemur til starfs í fyrramálið.

„Stjórnarfrumvörpum má og dreifa jafnara á starfstíma Alþingis, til að nýta hann betur — sem og þingdeildir. Mergurinn málsins er þó sá að ná sæmilegri sátt milli stjórnar og stjórnarandstöðu um vinnulag þingsins á mestu álagstímum þess. Það hefur jafnan tekist, þótt dýpra virðist á slíku samkomulagi nú en áður.“

Hér undirstrikar Morgunblaðið einmitt það, sem hv. þm. Svavar Gestsson var að segja frá áðan, að hann myndi ekki eftir því á þingsögu sinni að það hefði komið fyrir að það hefði ekki verið samkomulag á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um hvernig væri gengið frá frestun eða slitum þingsins þar til nú þegar þessi stóri meiri hl. er á hv. Alþingi. Þá telja forustumenn þessara flokka ástæðu til að leita ekki neins samstarfs við stjórnarandstöðuna heldur reyna að nauðga fram sínum vilja með valdi.

„Hvað veldur skal ósagt látið, en fjölgun þingflokka auðveldar ekki sátt af þessu tagi.“

Það mætti kannski segja það að fjölgun ríkisstjórnarflokka auðveldi ekki sátt af þessu tagi. Það er kannski meiri metingur innan ríkisstjórnarinnar sjálfrar um hvaða mál verði afgreidd en metingur á milli stjórnarandstöðu og stjórnar í heild. Ákveðinn grun hef ég um það. — Eru hv. sjávarútvegsnefndarmenn að fara af þingi? (GHG: Nei, nei, nei. Þeir eru bara rétt að teygja úr sér.) Já, það er rétt, svo þeir stirðni ekki upp. Það er alveg rétt. (GHG: Halda sér í horfinu.) (HBl: Finnst þér ekki miklu betra að hafa okkur hérna?) Jú, mikill munur að hafa ykkur hérna. (GHG: Ekki einn einasti stjórnarandstæðingur.) Þeir eru til hliðar.

„Það er á hinn bóginn hvorki í anda lýðræðis né þingræðis að stjórnarandstaða tefji eða torveldi meiri hluta löggjafarsamkomunnar með málþófi“ — Það er hverju orði sannara. — „að koma fram málum sínum. Stjórnarandstaða verður hins vegar að fá eðlilegan tíma til að tíunda sín sjónarmið.

Meðal stórra mála, sem þetta þing hefur fjallað um, eru húsnæðislánakerfið og fiskveiðistefnan, auk fjárlaga og lánsfjárlaga. Óvenjumörg og mikilvæg frv. tengjast síðan fjárlagafrv., enda má segja að tekjukerfi ríkisins sé nánast stokkað upp, samhliða því að stefnt er að breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Staðgreiðsla skatta hefst eftir fáeina daga, í endað „skattlaust ár“.“

Hér segir Morgunblaðið líkast til heldur mikið, herra forseti. Allar líkur benda til þess að það sé verið að koma í veg fyrir að skattkerfisbreytingarnar eigi sér stað þar sem ekki var orðið við ósk stjórnarandstöðunnar um að ganga frá tekjuskattsfrv. sem Nd. afgreiddi í nótt og stóð til boða frá okkar hendi að afgreiða þegar á fyrri fundi deildarinnar, en var hafnað af stjórnarsinnum. Vera má að Morgunblaðið sé að segja hér heldur meira en það getur staðið við og að staðgreiðsla skatta hefjist ekki fyrr en jafnvel eftir mánuð, jafnvel kannski tvo mánuði, vegna þess að allt það kerfi sem búið er að byggja upp til að sinna skattheimtunni nýtist ekki ef lögin verða ekki samþykkt fyrir áramót sem nú stefnir sjálfsagt að vegna þeirrar ótrúlegu afstöðu stjórnarflokkanna að hafna boði stjórnarandstöðunnar um að ganga frá þessu máli í gærkvöld.

„Og þær söluskattsbreytingar, sem stefnt er að, eru skref í átt að virðisaukaskatti. Slíkur skattur hefur verið tekinn upp í flestum viðskiptalöndum okkar. Líkur standa til að hann verði lögtekinn fyrir næsta ár.“ (Forseti: Ég minni á að frv. um stjórn fiskveiða er á dagskrá.) Það skal tekið tillit til þess og sjálfsagt, en við þær aðstæður sem nú eru í hv. deild taldi ég ekki óeðlilegt að það væri að nokkru fjallað um hina miklu tímaþröng. Fyrst svo var að málgagn aðalríkisstjórnarflokksins kom í hendur mér taldi ég rétt að fjalla lítillega stuttan hluta af ræðu minni um þá sérstöku stöðu sem nú er hér á hv. Alþingi og ég vænti þess að hæstv. forseti telji eðlilegt að það blandist nokkuð inn í þá umræðu sem hér fer fram. En ég mun stytta mál mitt um þennan þátt.

„Tilgangur uppstokkunar tekjukerfis ríkisins er margþættur. Skattakerfið er einfaldað. Eftirlit með réttum skattskilum er auðveldað. Innflutningsgjöldum breytt til að færa þá verslun frekar inn í landið sem landsmenn hafa í stríðum straumum sótt til útlanda. Þar fylgir hins vegar böggull skammrifi, er undanþágum söluskatts er fækkað. Tiltekin matvæli hækka í verði. Ríkisstjórnin staðhæfir að sú hækkun sé bætt eftir öðrum leiðum. Stjórnarandstaðan talar hins vegar um „matarskatt“ sem gangi þvert á meint sósíaldemókratísk viðhorf.

Fjárlagadæmið skarast síðan við þann efnahagsvanda sem við blasir um áramót: nauðsyn þess að draga saman þorskafla," — tengist beint þeirri umræðu sem við erum að fjalla um hér og er beinlínis staðfesting á því, sem ég var að ræða um hér, hvað hefði komið út úr kvótakerfinu sem nú gildir, þeirri stjórnun — „versnandi viðskiptakjör (m.a. vegna slæmrar stöðu bandaríkjadals), minnkandi hagvöxt, vaxandi viðskiptahalla, efasemdir um úthald fastgengisstefnunnar — og ýmiss konar verðbólguteikn.“

Ekki er fallegur listinn sem talinn er upp um stöðu þjóðarbúsins. Og að það skuli vera Morgunblaðið sem birtir þennan lista og þessa yfirlýsingu eftir að Sjálfstfl. er búinn að vera í ríkisstjórn frá því 1983. Þetta er þá viðskilnaðurinn. Viðskilnaðurinn tengist svo á síðustu tímum að Sjálfstfl. lét Framsfl. samþykkja fyrir sig og framlengja núverandi fiskveiðistefnu sem í flestu hefur mistekist.

„Fjárlagadæmið skarast ekki síður við þá kjarasátt sem aðilar vinnumarkaðarins verða að ná saman um undir hækkandi sól hins nýja árs. Sameinuð stendur þjóðin af sér vandamálin. Sundruð uppsker hún vorið frá 1983.“

Mikið er það satt. Sundruð uppskárum við ríkisstjórn framsóknar og íhaldsins. Vegna þess að vinstri flokkarnir, félagshyggjuflokkarnir, náðu ekki saman á þeim tíma uppskárum við ríkisstjórn framsóknar og íhalds og bjuggum við þá ríkisstjórn síðustu fjögur ár. Þjóðin sýndi þeim höfðingjum þó ekki þá tillitssemi að kjósa þá svo að þeir gætu haldið áfram ríkisstjórn og til að framlengja líf þeirrar ríkisstjórnar urðu þeir að fá Alþfl. sér til stuðnings og nú situr hér ríkisstjórn framsóknar, Sjálfstfl. og Alþfl.

Því er verr og miður, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, að ég var rétt að ljúka við að lesa leiðara Morgunblaðsins þar sem Morgunblaðið lýsir því hvernig ástandið sé í þjóðarbúinu nú og ekki er sú lýsing skemmtileg. Ofan á það bætist sú samþykkt, sem gerð var hér fyrir skömmu, að sjálfstæðismenn létu sig hafa það að samþykkja fyrir framsókn þá fiskveiðistjórn sem við búum við núna. (GHG: Er það í Morgunblaðinu?) Það er ekki komið í Morgunblaðið, en það má nærri því lesa það á milli línanna, það sé ein af hörmungunum sem yfir okkur gengu. Og aðrar hörmungar eru, ef ætti að lesa: Nauðsyn þess að draga saman þorskafla, versnandi viðskiptakjör, minnkandi hagvöxtur, vaxandi viðskiptahalli, efasemdir um úthald fastgengisstefnunnar og ýmiss konar verðbólgutákn, allt í sama liðnum. Og svo segir í lok leiðarans: „Sameinuð stendur þjóðin af sér vandamálin. Sundruð uppsker hún vorið frá 1983.“ Sundruð uppsker hún ríkisstjórn framsóknar og íhalds sem við erum búin að búa við síðan.

Þessa sundrung eigum við ekki að halda áfram með. Við eigum að hverfa frá þeirri sundrungu og við eigum ekki að láta það gerast, eins og hefur gerst undir ríkisstjórn framsóknar og íhalds, að á bestu aflaárum, bestu tíðarfarsárum sem yfir þjóðina hafi gengið séum við að ganga á höfuðstól þjóðarinnar, bæði í fiskstofnum og fjármunalega, með því að auka skuldir við útlönd og fjárfesta í hlutum sem eru lítið arðbærir.

Það er sjálfsagt ekki mikið meira í þessu ágæta Morgunblaði sem hægt er sérstaklega að fjalla um í tengslum við það mál sem við erum að ræða hér þannig að ég ætla að fletta því fljótlega og vita hvort ekki er eitthvað sem við þurfum sérstaklega að leggja áherslu á. Hér er bjórmálið. Við erum ekki að fjalla um það núna.

Það gæti verið að það bjargaði sjávarútveginum að menn færu að fiska flugvélar. Þeir eru byrjaðir á því á Suðurnesjum, virðulegi forseti. Það er víst enginn kvóti á því. (Forseti: Það er utan kvóta.) Það er utan kvóta. Það segir frá því í Morgunblaðinu, sem við höfðum reyndar heyrt í fréttum áður, að togarinn Ólafur Jónsson GK-404 hafi komið í gær til hafnar í Njarðvík með flugvélarflak. Hér er mynd af því í Morgunblaðinu og virðist vera furðuheillegt.

Eins og oft áður er Morgunblaðið sá fjölmiðillinn sem sinnir fréttum héðan af hv. Alþingi hvað best. Ekki vil ég segja að það sé alltaf best hjá Morgunblaðinu, en Morgunblaðið er með á bls. 41 fréttir af umræðum um fiskveiðifrv, á hv. Alþingi og í fyrirsögn blaðsins stendur: „Sjávarútvegsnefnd efri deildar fjórskipt í afstöðu til kvótans.“ Það væri kannski ekki úr vegi að átta sig á því hvernig Morgunblaðið fjallar um málið, en greinilegt er með því að líta á þetta að það hefur tekið vel eftir því hvað fulltrúi þess, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, hefur sagt um þetta. Fyrir okkur, sem vorum kannski um eitthvað að hugsa þegar hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson var að flytja ræðu sína í morgun, væri það kannski ekki úr vegi að við færum yfir ræðu hans eða uppkast Morgunblaðsins, útdrátt Morgunblaðsins af ræðu Guðmundar H. Garðarssonar, þannig að við gætum fundið þar einhverja nýja stefnumörkun — (GHG: Það var nú góð ræða.) Já, ég hugsa að það hafi verið góð ræða. — og fundið einhver rök fyrir því af hverju hv. þm. Sjálfstfl. standa svo fast að baki framsóknarmönnum í sambandi við þetta mál. En með leyfi hæstv. forseta segir Morgunblaðið:

„Kvótafrv. kom til 2. umr. í Ed. Alþingis í gær. Sjútvn. deildarinnar er fjórskipt í þessu máli, en meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt ásamt nokkrum brtt. Umræður stóðu lengi fram eftir og var ætlunin að afgreiða málið til Nd." — Ekki í gær. Það er kominn annar dagur. Klukkan að verða hálfátta þriðjudaginn 22. des. 1987. Í gær var 21. Það er ábyggilegt. Það var aldrei ætlunin að afgreiða málið þá til Nd.

„Guðmundur H. Garðarsson mælti fyrir áliti meiri hl. sjútvn. Ed. Meiri hl. leggur fram nokkrar brtt. við frv., m.a. að gildistími laganna verði þrjú ár í stað fjögurra.“

Við skulum muna að Guðmundur hefur gert þetta, þó kannski nauðugur hafi hann gert það, vegna þess að það var margbúið að lýsa því yfir að Sjálfstfl. ætlaðist til þess að gildistíminn væri bara tvö ár. Ekki hef ég nú sérstakar yfirlýsingar frá hv. þm. Halldóri Blöndal, en formaður þingflokksins hafði margoft lýst því yfir.

Ég hef komist að því að á 41. síðu Morgunblaðsins er glöggt fréttayfirlit yfir umræður í deildinni í gær og ég tel rétt, sérstaklega fyrir okkur stjórnarandstæðinga, að rifja upp ræðu þm. Guðmundar H. Garðarssonar og átta sig á aðalþungapunktum ræðunnar og undirstrika sérstaklega þar sem þm. hefur gengið kannski gegn yfirlýstri stefnu flokksins eins og það sem ég var að nefna í upphafi. (HBl: Hann er afleitur með þetta.) Hann er afleitur með þetta, já. (GHG: Lætur illa að stjórn.) (SvG: Það er munur eða Halldór Blöndal.) Það er munur eða Halldór Blöndal, það er rétt. En ég hafði bent á að flokkurinn hafði gefið út þá stefnumörkun að flokkurinn teldi eðlilegt og jafnvel nóg að gildistími laganna væri tvö ár, en eins og raun ber vitni um og fram kom í ræðu þm. og staðfest var í atkvæðagreiðslu í gærkvöld samþykktu sjálfstæðismenn þvert á skoðun sína að það skyldi vera þriggja ára tímabil sem fiskveiðistefnan skyldi gilda.

Og áfram hefur Morgunblaðið eftir Guðmundi H. Garðarssyni um fiskveiðistefnuna: „Þá er gert ráð fyrir að úr 5. gr. frv. verði felld ákvæði um sérstakt 10% álag á afla sem fluttur er óunninn á erlendan markað hafi hann ekki verið veginn hér á landi. Varðandi smábáta er lagt til að bátar undir 10 brl., sem stunda línu- og handfæraveiðar, þurfi eingöngu að sæta tímabundnum veiðibönnum eins og verið hefur.“

Er það staðreyndin? Er það tilfellið að í brtt. meiri hl. sé lagt til að hlutirnir séu eins og þeir hafi verið í sambandi við veiðiheimildir? (GHG: Þetta er frétt blaðsins.) Ja, tilfinning mín er sú að blaðið sé að hafa eftir hv. þm. það sem hann hefur sagt og ekki man ég betur en í brtt. séu ekki aðeins taldir upp ákveðnir stoppdagar (GHG: Það er rétt, stoppdagar.) heldur sé bætt við að ráðherra hafi heimild til að vera með sérstök tvö stopptímabil þegar honum hentar. Ekki man ég betur en að brtt. séu á þann veg. (HBl: Ráðherrann verður að hafa rúmar hendur.) Rúmar? Hvað er það? Rúmar hendur! En það er erfitt að gera það dæmi upp hvort Morgunblaðið hefur rétt eftir hv. þm. Maður verður að ætla að svo sé. Mér þykir miður ef þm. hefur verið að samþykkja allt annað en hann hefur talið sig vera að leggja fram. En það er eins og annað sem sjálfstæðismenn verða að láta yfir sig ganga í þessari bandingjatíð hjá íhaldinu.

„Í frv. er hins vegar gert ráð fyrir að allir bátar 6 brl. og stærri fái sérstök veiðileyfi með aflahámarki, en sú breyting er í samræmi við samþykktir 46. fiskiþings.“

Getur verið að það sé verið að hafa líka eftir þm. að þetta sé eftir samþykkt 46. fiskiþings? Mér finnst það ótrúlegt. Og getur það verið að þm. hafi verið að greiða atkvæði út frá þeim grundvelli að hann hafi verið með tillögur 46. fiskiþings inni í hv. Alþingi? (HBl: Hann sagði þetta, en það eru allt aðrir hlutir sem eru á prenti og fram lagðir og verða síðan að aftur og aftur.) Sagði hann þetta aftur og aftur? Ja, mér líst nú á þm. Sjálfstfl. ef þeir eru að telja sér trú um að þeir séu að flytja málefni og séu með innihald í tillgr. á allt annan veg en þeir eru með í huga og greiða svo atkvæði eftir því sem er í huga þeirra lögum. Ja, vondur er bandingjahátturinn!

Morgunblaðið heldur áfram og segir: „Meiri hlutinn telur að sem mestur jöfnuður eigi að ríkja varðandi meðalaflahámörk sóknarskipa og er ráðgert að setja í fyrsta skipti meðalaflahámark á karfaafla togara. Í því sambandi sé nauðsynlegt að taka tillit til þess að útgerðarkostnaður í hlutfalli við aflaverðmæti verði meiri við karfaveiðar en við þorskveiðar. Telur meiri hlutinn ... "

Það er ekkert verið að tala um fulltrúa Sjálfstfl. Það er bara talað um meiri hlutann. Eins og mér finnist að Morgunblaðið kæri sig lítið um það að eigna sér þennan meiri hluta. Þeir lemja stöðugt á því að tala um meiri hluta en ekki fulltrúa ríkisstjórnar eða Sjálfstfl.

„Telur meiri hlutinn því eðlilegt að karfaaflahámörk verði hækkuð nokkuð frá því sem lagt er til í drögum að reglugerð um stjórn botnfiskveiða árið 1988. Meiri hlutinn leggur líka til að þeim togurum sem velja sóknarmark með meðalaflamarki verði heimilt að veiða karfa í stað þorsks innan samanlagðs aflahámarks beggja tegundanna.“

Það skal benda einmitt á þetta. Þetta gleymdist alveg hreint í hinni almennu umræðu. Í sambandi við aflahámarkið á karfanum var karfastofninn allt í einu orðinn nógu stór, virðulegi forseti, og sunnantogarar eða hverjir aðrir togarar, sem vildu veiða karfa, gátu bara lagt til hliðar þorskkvótann sinn og veitt karfa út á hann. Ekki benti það beint til þess að það væri verið að breyta þessu út af því að það þyrfti að minnka sóknina í karfastofninn heldur alveg á þveröfugan veg. Það virðist svo að karfastofninn sé nógu stór eða að það eigi ekkert að fara eftir tillögum fiskifræðinga, ganga bara á karfastofninn. Getur verið að enn hafi hv. þm. ekki haft hugmynd um hvað þeir voru að samþykkja? Getur verið að þeir hafi verið í góðri trú að samþykkja að það mætti ekki sækja nema ákveðið magn í karfastofninn og eru svo með innbyggt í kerfinu hvata til að ganga enn frekar á stofninn?

Svo segir Morgunblaðið áfram: „Guðmundur H. Garðarsson sagði staðreynd málsins vera þá að gengið væri of nærri auðlindunum, sóknin væri of hörð og veiðin of mikil. Niðurstaðan hefði verið sú að takmarka þyrfti veiðar þar sem nauðsynlegt væri að beygja sig fyrir staðreyndum fiskifræðinga.“ Svo mörg eru þau orð.

Loksins hættir Morgunblaðið að tala um meiri hluta og færir umræðuna yfir á nafn hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar þegar þarf að undirstrika að fiskveiðistefnan, sem við höfum búið við á undanförnum árum, hafi mistekist. Þá notar Morgunblaðið ekki meiri hlutann heldur tengir það beint nafni framsögumannsins, þm. Sjálfstfl. hér í Reykjavík, 14. þm. Reykv., þegar þarf að undirstrika að stefnan í fiskveiðimálum á undanförnum árum hafi mistekist. Og ég skal endurtaka, ég skal lesa á nýjan leik það sem Morgunblaðið segir að Guðmundur H. Garðarsson hafi sagt um þessa hluti, með leyfi forseta:

„Guðmundur H. Garðarsson sagði staðreynd málsins vera þá að gengið væri of nærri auðlindunum. Sóknin væri of hörð og veiðin of mikil. Niðurstaðan hefði því verið sú að takmarka þyrfti veiðar þar sem nauðsynlegt væri að beygja sig fyrir staðreyndum fiskifræðinga“ og kvótakerfisins, hefði mátt bæta við, afleiðingum kvótakerfisins.

Og áfram segir Morgunblaðið: „Unnið hefði verið að þessu máli í fleiri mánuði og væru flestallir þm. sammála um að takmarkanir á veiði væru nauðsynlegar þó þeir væru kannski á móti einstaka efnisatriðum. Hér væri um að ræða heildarfiskveiðistefnu sem gæti tryggt öryggi þjóðarinnar á næstu árum. Mikilvægt væri að festa og ábyrgð réði um gjörðir manna þegar teknar væru ákvarðanir.“

Ja, mikið rétt. Þetta er reyndar í beinu framhaldi að því þegar Morgunblaðið ávarpar þm. sinn beint með nafni. Það er ekki nóg með það að Morgunblaðið vilji undirstrika að fiskveiðistefnan hafi mistekist og að þm. Sjálfstfl. séu að samþykkja slíka stefnu heldur vill það undirstrika ábyrgð þá sem þeir eru að taka á sig um leið og þeir samþykkja þessa stefnu til frambúðar.

Á fyrstu auglýsingasíðu Morgunblaðsins, bls. 43, kemur í ljós að enn er sú staða uppi að það vantar menn á fiskiskipaflotann. Á þessari einu síðu er auglýst eftir þremur stýrimönnum. Jafnvel þó almenningur í landinu hafi fundið fyrir því að sá fagnaðarboðskapur væri yfir okkur að ganga að það væri verið að samþykkja nýja fiskveiðistefnu á Alþingi er eftirsóknin eftir þessum störfum ekki meiri en svo að á fyrstu auglýsingasíðu Morgunblaðsins blasa við þrjár auglýsingar eftir stýrimanni.

Einnig er verið að auglýsa eftir vélavörðum, a.m.k. einum vélaverði. Og fyrst ég er að fara yfir fyrstu auglýsingasíðu Morgunblaðsins og tek eftir að þar er verið að auglýsa eftir sjómönnum á íslensk fiskiskip sé ég líka að Morgunblaðið er í svolitlum vandræðum þar vestra, vestur á Hellissandi. (GHG: Vantar beitningamenn?) Nei, nei. Það vantar blaðbera fyrir Morgunblaðið á Hellissandi. Það er auglýst eftir blaðbera. Ég vona að þetta ágæta blað fái einhvern duglegan mann þar vestra til að sinna því að maður fái nú Moggann sinn þegar maður kemst heim í jólafríið, hann safnist ekki allur saman upp á pósthúsinu.

Þá vildi ég biðja sjávarútvegsnefndarmenn Sjálfstfl. að doka aðeins við. (StG: Þeir hljóta nú að fá Moggann.) Fá Moggann? Það vona ég ef þá vantar ekki blaðburðarmann eins og fyrir vestan. Það vantar blaðburðarmann fyrir Morgunblaðið á Hellissandi. Það gæti farið svo að það væri eins í hverfunum hjá hv. þm. Ja, það er ekki skemmtilegt. (GHG: Blað allra landsmanna kemst ekki út.) Blað allra landsmanna kemst ekki út og menn geta ekki fengið það.

En ég vakti athygli á því í ræðu minni áðan að Morgunblaðið nefnir meiri hluta sjútvn. þegar það útlistar málflutning hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar þar til að því kemur í lok umfjöllunar blaðsins um ræðu þm. að það er greinilegt að blaðið telur nauðsynlegt að tengja það nafni þingmannsins og þar með í eðli sínu flokksins, flokksins hér í Reykjavík. Og það er sérkennilegt að hvaða málefni blaðið snýr sér þegar það nefnir nafn hv. þm. Mun ég lesa þetta upp að nýju:

„Guðmundur H. Garðarsson sagði staðreynd málsins vera þá að gengið væri of nærri auðlindunum. Sóknin væri of hörð og veiðin of mikil.“ Þetta sagði þm. allt saman. „Niðurstaðan hefði því verið sú að takmarka þyrfti veiðar þar sem nauðsynlegt væri að beygja sig fyrir staðreyndum fiskifræðinga.“ Greinilega vantar pínulítið þarna á eftir. Þm. sagði það ekki, nei, nei, nei, en það hugsa ýmsir svoleiðis. (Forseti: Má ég biðja hv. þm. að hafa hljóð í salnum.) Þarna er einmitt verið að staðfesta, þegar Morgunblaðið þarf að tengja nafn þm. síns við efnisatriði í ræðu hans, að kerfið hafi klikkað, fiskveiðistjórnun á undanförnum árum hafi ekki staðið sig. Það er verið að benda þm. á að hann sé og hafi verið málsvari meiri hluta sem sé að staðfesta kerfi sem hafi mistekist. Hv. þm. sagði þetta allt saman, en í fyrri hluta greinarinnar var bara talað um meiri hlutann. En þegar Morgunblaðið vill leggja áherslu á hlutina tengdi það það manninum og benti honum á að hann væri að gera sig ábyrgan. Og Morgunblaðið heldur áfram. Þar vísar það reglulega til þm. sinna. Þó það nefni ekki nema einn þm. í þessu tilfelli, sem óeðlilegt var og ekki eðlilegt, á það vitaskuld líka við þm. eins og Halldór Blöndal, hv. 2. þm. Norðurl. e., ekki síður. — Þá segir Morgunblaðið:

„Unnið hefði verið að þessu máli [og haft eftir Guðmundi H. Garðarssyni] í fleiri mánuði og væru flestallir þm. sammála um að takmarkanir á veiði væru nauðsynlegar þó þeir væru kannski á móti einstaka efnisatriðum. Hér væri um að ræða heildarfiskveiðistefnu sem gæti tryggt öryggi þjóðarinnar á næstu árum. Mikilvægt væri að festa og ábyrgð réði um gjörðir manna þegar teknar væru ákvarðanir.“ Sérstök áhersla á að tengja þetta sjálfstæðisþingmönnunum á Alþingi Íslendinga. (GHG: Góðir blaðamenn sem Morgunblaðið hefur.) Hafa djúpa og einlæga tilfinningu fyrir því hvernig staða þm. flokksins er og hvernig þeir eru bandingjar Framsfl. á hv. Alþingi.

Ég legg varla í að fletta Morgunblaðinu mikið meira af því að það geta komið upp ýmsar upplýsingar sem maður á ekki að vera að berja á hv. þm. Sjálfstfl. með í sambandi við stöðu þeirra í þessu máli. En ég er með smágrein eftir Jakob G. Pétursson, kennara í Stykkishólmi. Þessi maður, Jakob G. Pétursson, er búinn að vera kennari í Stykkishólmi í nokkur ár. Fyrir 30 árum var Jakob einn af fyrstu skipstjórum sem réru úr Rifshöfn á Snæfellsnesi. Sá þm. sem hér stendur var meðeigandi með Jakobi G. Péturssyni að trilluhorni þar vestra og það voru fyrstu kynni mín við útveg þar undir Jökli. Þetta var harðduglegur maður og laginn og var raunverulega, eins og ég hef sagt, viss landnámsmaður þar vestra í sambandi við útgerð frá Rifi. Trillan var svokallaður Breiðfirðingur, ætli það hafi ekki verið 7–8 tonna trilla, hét Bryndís, og Jakob stundaði sjó á henni í nokkra vetur. Síðan flutti hann inn í Flatey þaðan sem hann mun hafa átt ættir að telja og síðan í Stykkishólm og mun hafa allt þetta tímabil verið meira og minna tengdur sjóróðrum á smábátum.

En Jakob hefur talið ástæðu til að blanda sér í umræðuna í sambandi við fiskveiðistjórnunina og hefur tekið sig til og skrifað grein í Dagblaðið, mun þetta líkast til vera, 18. nóvember sl. Ég ætla með leyfi forseta, þar sem hér er fjallað beint um fiskveiðistjórnunina, að leyfa mér að lesa grein Jakobs. Ég hef mikla ánægju af því upp á gamlan kunningsskap við Jakob að þessi hans ágæta grein verði nú skráð í þingtíðindi Íslendinga. (Forseti: Um fiskveiðistjórnun.) Um fiskveiðistjórn, Ofstjórn og óstjórn heitir það. Og þá, með leyfi forseta, hefst lesturinn:

„Það er mikið fjallað um frelsi um þessar mundir," — mikið satt — „talað um frelsi í stjórnmálum, frelsi í fjölmiðlum, persónufrelsi meðal einstaklinga og fleira. En frelsi hverra til hvers? Hvað ber hæst í þeim umræðum? Ætla mætti að þar á meðal væri frelsi einstaklingsins til að marka sér sjálfstætt athafnasvið sér til lífsframfæris þar sem saman fara hans hagsmunir og þess samfélags sem hann lifir og hrærist í.

Var ekki einhvern tíma stofnaður stjórnmálaflokkur með þess konar frelsi að markmiði? Hefur nokkur haft spurnir af honum nýlega?"

Gæti verið að þeir menn sem sátu fyrir framan mig og voru að spjalla við mig áðan hefðu getað tilheyrt honum? Það er ekki gott að segja.

„Er máske svo komið að öðrum frelsisþáttum sé hampað oftar eða nánast einvörðungu í hinu umfangsmikla síbyljufimbulfambi fjölmiðla um frelsi hér og frelsi þar? Skiptir máske mestu að algert frelsi ríki í verslunarálagningu og hvers konar viðskiptabraski eða að ráðamenn í æðstu stöðum geti markað sér launakjör og fríðindi að vild? Eða er það toppur frelsisins að í boði sé auðfenginn áfengur bjór handa þorstlátum?"

Gæti verið að bjórinn tengdist eitthvað fiskveiðistefnunni. Aldrei að vita, aldrei að vita. Það er frelsi. Það er frelsi og höft. Já, það passar.

„Þennan formála læt ég mér nægja í því efni er ég vil lítillega fjalla um hér í blaði, en það er sú aðför sem virðist fyrirhuguð að rekstri smábáta við strendur landsins.

Tilkostnaður.

Sú árátta sýnist færast stöðugt í vöxt í þessu þjóðfélagi að ef þörf kallar á skipulag og stjórnun á einhverju sviði leiði það fljótlega til ofstjórnunar og lítillar sanngirni. Og verst er þegar svokölluð lagfæring stefnir til verri hátta en fyrir voru. Þetta kemur mjög í ljós um þessar mundir hvað varðar aflaheimildir fyrirhugaðar smábátum á næstu árum.

Þessir bátar, sem að vísu hefur fjölgað ört að undanförnu, virðast nú vera taldir aðalógnvaldurinn gagnvart fiskistofnum að mati kvótahönnuða. Þó sýna tölur að ársafli þeirra fer vart yfir 10–12% af heildaraflanum.“ Sem er sjálfsagt ofætlað hjá Jakob.

„Nú er vitað að þessir bátar skila hvað bestu hráefni að landi og með minnstum tilkostnaði.

Ef meta ætti þessa hluti með einhverju broti af réttsýni er einkum tvennt sem bæri að skoða. Annað er tilkostnaður við hráefnisöflun miðað við magn, annars vegar við smábátaveiðar og hins vegar stærri skipa. Þjóðarbúinu er lítill hagur í því aflaverðmæti sem fer til greiðslu á beinum og óbeinum tilkostnaði, oftast í erlendum gjaldeyri. Hins vegar ber að skoða þýðingu smábátaútgerðar fyrir ýmis byggðarlög í landinu. Þar gæti víða horft til auðnar ef tekst að drepa alveg þann atvinnuþátt eins og stefnt virðist að.

Grímseyingar hafa þegar látið til sín heyra. Auðvitað verður málum bjargað þar í bili (eitt kjörtímabil eða svo) með einhverri ölmusuviðbót.“ Það er varla svo að það verði gert. „Það mun trúlega verða gert á fleiri stöðum í bili. Og þingmenn munu vænta sauðtryggrar fylgisþjónustu íbúanna á viðkomandi stöðum fyrir greiðann.

Stjórn á búsetu?

Í raun er þetta aðeins lymsk aðferð við að fylgja eftir þeirri opinberu leynistefnu, sem æ oftar lætur á sér bæra, að smala eigi allri þjóðinni á eitt og sama landshornið.

Hví ekki að gefa krókaveiðar frjálsar á smábátum? Það mundi litlu breyta um heildarmagn. Aftur á móti má deila um netaveiðar, bæði smábáta og annarra, í því formi sem þær eru stundaðar hér við land. Allir þingmenn hljóta að vita að æðimörg sjávarpláss víðs vegar um landið eiga mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við útgerð smábáta að sumarlagi.

En það er fleira í þessu sambandi sem til óheilla horfir eins og þessi furðulegheit eru upp sett. Talað er um mikla slysahættu við útgerð smábáta. Enginn lastar þá umhyggjusemi. Að vísu skortir upplýsingar um samanburð í þeim málum gagnvart mismunandi stærðum fiskiskipa. En spyrja má: Getur nokkur hönnuður þessarar veiðistefnu verið svo skyni skroppinn að ætla að hún auki öryggi manna á smærri bátum?

Með því að takmarka svona aflamagn minnstu báta og ráðslagast að geðþótta með veiðitíma sumra þeirra hlýtur að skapast sú hætta að þeir sem í lengstu lög reyna að bjarga sér, þrátt fyrir allt, telji sig knúna til að nýta sem mest þær stundir sem þeir mega vera að og gætu í því kappstreði þá stundum teflt á tæpasta vaðið.

Tæpast verður því trúað að þessi fáránlega aðför að smábátaútgerð, eða öllu heldur útrýmingarherferð á þeim atvinnuþætti, fari í gegn á Alþingi. Eflaust munu allir smábátaeigendur og þeirra aðstandendur fylgjast náið með framgangi málsins. Þar er um stóran hóp að ræða. Varla finnast mörg dæmi um það í veröldinni að þjóðkjörnir landsstjórnendur telji æskilegt markmið að fólki sé af litlu tilefni meinað að velja sér búsetu vítt og breitt um náttúruauðug landsvæði til þess fyrst og fremst að afla á sem ódýrastan hátt þeirra undirstöðuverðmæta sem afkoma þjóðarinnar byggist mest á. Það er því kaldhæðnislegt ef tekst að fá þingsamþykkt fyrir þessu gerræði sem virðist mótað af þvermóðskufullum ráðherra og formanni félags þeirra útgerðarmanna sem gera út togara og stærri veiðiskip. Auðvitað undir yfirskini skynsamlegrar stjórnunar.

Ný stjórnmálaöfl.

Ef allt um þrýtur og blind gerræðishyggja ræður málum til niðurdreps hinu eina raunhæfa persónufrelsi og sjálfræði í framleiðslu sjávarafurða hljóta þolendur að bregðast við með afgerandi hætti. Eðlilegt væri að þeir mynduðu með sér pólitísk samtök fyrir næsta þingkjör. Þeir sem tengjast þessum atvinnuþætti skipta þúsundum. Afstaða einstakra þingmenn og þingflokka mun skýrast við lokaafgreiðslu þessa máls í þingsölum. Þá mun koma í ljós hvort ráðlegt sé fyrir þennan umrædda atvinnuhóp að mynda samstöðu við eitthvert núverandi stjórnmálaafl í næsta þjóðkjöri. Að öðrum kosti hlýtur að koma til alvarlegrar athugunar hjá þessu fólki að taka upp náið pólitískt samstarf við ný stjórnmálaöfl. Doði og ýmiss konar neikvæð vinnubrögð stjórnvalda í byggðamálum hafa þegar hrundið slíkum hreyfingum af stað.

Þegar svo er komið að kerfisvaldið færir sig stöðugt upp á skaftið og gerist æ ómennskara og andsnúnara stórum hópum starfsstétta og sér í lagi þeim er að sköpun grunnverðmæta vinna, þá er ljóst að breytinga er þörf.

Hverjir hrópuðu í vígamóði hér um árið: kerfið burt! Getur verið að þeir hinir sömu hafi snúið blaðinu við og æpi nú í eigin röðum: kerfið kjurt!

Það hefur of lengi viðgengist í okkar þjóðfélagi að menn gætu á auðveldan hátt aflað sér umboða til þingmennsku á fölskum og villandi forsendum. Vonandi er sjálfseyðingarhvötin ekki svo rík í fari fjölmennra hópa að slíkt megi lánast til lengdar.

Og vonandi auðnast útgerðaraðilum smábáta að standa saman í baráttu sinni gegn sálarlausum kerfisöflum sem af lítt skiljanlegum ástæðum leitast við að svipta þá möguleikum til sjálfstæðra athafna. Þá gæti svo farið að að þeir sjái brátt betri tíð fram undan með blóm í haga.“

Svo mörg voru þau orð míns ágæta vinar, Jakobs G. Péturssonar, kennara í Stykkishólmi. (SvG: Og lengi í Grímsey.) Var hann í Grímsey líka? Þetta er mikill höfðingi. Og gaman að þessi grein hans er nú komin á leið í þingtíðindin.

Ég mun nú stytta mál mitt, en minni á að ég er hér samflutningsmaður að till. með Júlíusi Sólnes og Danfríði Skarphéðinsdóttur um ákvæði til bráðabirgða, það verði ákvæði til bráðabirgða II, þar sem lagt er til að skip sem koma í stað eftirtalinna skipa, er fórust á árunum 1982–1984, skuli eiga rétt á veiðileyfi sem nemur meðaltali aflamarks skipa í sama stærðarflokki. Hér eru talin upp: Brimnes SH 257, Ragnar Ben ÍS-210 og Kári VE 95. Ég vænti þess að hv. þingdeildarmenn muni veita þessari till. okkar stuðning. En umræða um stöðu þessara skipa hefur verið í gangi alla umræðuna um frv.

Það mætti enn fjalla þó nokkuð mikið um frv., en ég mun stytta mál mitt, en langar þó til að benda á einn smáhlut í lokin. Ég hef þá tilfinningu að þetta frv. sé að mörgu leyti vel unnið, t.d. sæmilega unnið málfarslega og miklu betur en mörg önnur frv. sem hafa verið á borðum þm. Samt eru í því eitt og eitt orð sem eru svolítið skrýtin svo ekki sé meira sagt. Og merkilegt að þeir í sjútvrn. skuli ekki tengjast sjávarútvegsmálum betur málfarslega en raun ber vitni um. Það er nefnilega komið svo að þeim finnst endilega að aftan við orðið „útgerð“ þurfi að bæta nærri því hellu orði til þess að það sé skiljanlegt. Þeir geta ómögulega sagt: Hafi útgerð ekki valið á milli þessa og þessa heldur segja þeir „útgerðaraðili“. Óskaplega mikið atriði er nú að koma þessu „aðila„viðskeyti að. Ég er alveg viss um að foreldrar okkar hæstv. forseta hefðu alls ekki áttað sig á hvað væri verið að tala um hefði verið í þessu sambandi nefnd „útgerð“ á þennan máta. Útgerðaraðili, hvað skyldi það nú vera? Ég hélt að það dygði í íslensku máli, þegar við værum að tala um útgerð á skipi eða þegar við værum að tala um skipið sem útgerð, að þá næði þetta fallega íslenska orð fullkomlega yfir alla þá meiningu. En það er eins og fleira sem þeir þurfa að klúðra þar í ráðuneytinu. Þeir þurfa endilega að hengja þetta „aðila“-skraut aftan við þetta góða orð.

Það er eins og fleira sem þeir klúðra í sambandi við meiningu málsins, í sambandi við stefnuna og annað eftir því. Þó þetta sé kannski í litlu má segja að svona meðferð á þessu grundvallarorði í sambandi við sjávarútveg á Íslandi er vond meðferð. Ég vænti þess og mun nú beina því til hæstv. forseta, þar sem þetta er málfarslegur galli, ekki efnislegur galli, að hæstv. forseti bendi höfundum frv. á þetta þannig að svona „lapsus“, — það var ljótt orð — svona orðskrípi verði ekki í frv. Ég vænti þess að hæstv. forseti komi þessari ábendingu minni til skila. Mun ég nú láta máli mínu lokið. Fyrri ræðu minni við 3. umr. er nú lokið. En ég mun að sjálfsögðu koma upp aftur og nota tækifærið til að fjalla frekar um það sem kemur fram í umræðunum á eftir og hefur komið fram í umræðunum og ég hef ekki þegar fjallað um.