22.12.1987
Efri deild: 36. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2994 í B-deild Alþingistíðinda. (2152)

181. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. 2. minni hl. sjútvn. (Danfríður Skarphéðinsdóttir):

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að leggja aðeins orð í belg. Umræðan hefur nú farið vítt og breitt, enda staðið alllengi. Fyrst í máli mínu við 2. umr. málsins var ég að tala um hugmyndir og að mér hefði þótt á það skorta í sjútvn. að við ræddum raunverulegar hugmyndir. Það kom líka fram hjá mér að það komu ansi seint fram línurnar, hvaða línur lágu inn í sjútvn. Það tel ég að hafi tafið mjög fyrir og orðið til að lengja umræður núna.

Ég vil taka undir það, sem hv. fyrri ræðumenn hafa sagt hér áður, að það er margt undarlegt í sambandi við vinnubrögðin hér. Manni finnst hálfskrýtið að standa hér. Ég er næstum því viss um að hæstv. forseti, sem áður stundaði sama starf og ég, hefur ekki verið mjög kátur að tala yfir tómum bekk eða tala við töflu, eins og við kennarar neyðumst stundum til að gera þegar við finnum að athyglin er hvergi nærri.

En það er líka annað sem kemur upp í hugann og það er meðferð alla þeirra mála sem stjórnarandstaðan hefur lagt fram núna alveg frá 10. október, frá fyrsta degi þingsins. Þessum málum hefur hreinlega verið sópað til hliðar og þau mál sem koma í lok nóvember og byrjun desember fara í algeran forgang og eiga að vinnast með þeim hætti sem við erum að reyna að vinna þetta núna, með miklum hraða. Þetta eru stór, flókin og viðamikil mál. T.d. það mál sem er til umræðu núna, fiskveiðistefnan til næstu ára, er þvílíkt hagsmunamál allrar þjóðarinnar að það er ekki hægt að taka á því með neinum vettlingatökum. Þess vegna tel ég að þau skoðanaskipti sem fara fram hér innan stjórnarandstöðuflokkanna geti orðið okkur að miklu gagni. En ég harma að það skuli ekki fleiri stjórnarliðar taka þátt í umræðunum og þess vegna hef ég reynt með gögnum sem ég hef í höndunum að draga þá inn í umræðuna því margir hverjir hafa sett fram skoðanir sínar í blöðum. Þeir hv. þm. sem ég vitnaði til fyrr í máli mínu, hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, Kjartan Jóhannsson og Matthías Bjarnason, eiga reyndar allir sæti í Nd. og eru þess vegna ekki hér á staðnum af eðlilegum ástæðum, en væntanlega munu þeir tjá sig um sínar skoðanir þegar þar að kemur í Nd. ef ekki er búið að spyrða þá saman við alla hina eins og virðist vera reyndin hér. Ég minntist reyndar á, í gærkvöld trúlega, að þetta minnir mann helst á fólk sem er búið að hlekkja saman á ökklunum. Það verða allir að ganga í takt og taka sama skrefið til þess að það detti ekki öll keðjan. Þetta minnir á einhvers konar fangakeðju. En ef þessir hv. þrír þm. eru í raun þeirrar skoðunar sem kemur fram í blaðagreinum sem ég hef hér, annars vegar úr Dagblaðinu 13. nóv. sl., grein eftir hv. þm. Guðmund G. Þórarinsson, og síðan tvö viðtöl úr síðasta tölublaði Sjávarfrétta, þá er ég hrædd um að umræðan í Nd. eigi eftir að dragast enn þá lengur en hér vegna þess að þar eru helmingi fleiri þm. og þar eru greinilega þm. úr stjórnarliðinu sem þora að láta uppi skoðanir sínar.

En ég vil aðeins segja eitt varðandi vinnubrögð hérna. Það væri gaman að fá að vita frá einhverjum hv. þm. Alþfl. t.d. hvernig þeim líður. Þeir eru nýkomnir úr stjórnarandstöðu og væntanlega hafa þeir ekki upplifað neitt svipað og við erum að reyna núna því mér skilst að það sé að öllu leyti óeðlilegt ástand hversu seint málin eru á ferðinni. En það hlýtur að vera skrýtið að vera kominn hinum megin við borðið og í þetta að stíga ofan á hlutverk og gera fleira en gott þykir. Það hlýtur að vera undarlegt því það eru ekki nema nokkrir mánuðir síðan þeir voru hinum megin.

Ég gerði líka að umræðuefni fyrr hugmyndir og að við þyrftum að ræða hugmyndir varðandi þessa grundvallar efnahags- og atvinnuspurningu allrar þjóðarinnar. Það er mjög eðlilegt að mínu mati að þegar sett er á nýtt kerfi þurfi að endurskoða það tiltölulega mjög fljótlega. Því höfum við komist að t.d. með húsnæðislánakerfið. Í ljós kom að það þurfti að gera á því smálagfæringar til að draga þar úr sjálfvirkni. Það er eins með kerfið sem heitir fiskveiðistefna. Það hlýtur að þarfnast gagngerðrar endurskoðunar. Miðað við þær hugmyndir allar sem fram hafa komið, bæði í hópi stjórnarandstæðinga og stjórnarliða, eru komnar svo margar hugmyndir fram að það hlýtur að vera grundvöllur til að taka á einhverjum nýjum viðfangsefnum.

Tveir hv. fyrri ræðumenn hafa talað um þær till. sem voru felldar hér í nótt, allar felldar, allt fyrir fram ákveðið. Mér þótti það sjálfri ákaflega undarleg tilfinning að vera búin að undirbúa að mér þótti skynsamlegar og sjálfsagðar till. við 2. umr. fjárlaga og sjá þær allar stráfelldar. Þetta er mjög undarlegt. Þegar maður sér að svo er hægt að setja peninga í ýmislegt annað sem manni sjálfum finnst vera miklu minni þörf á.

En það hefur komið fram brtt. í nótt, sem ég er meðflm. að, og ég vildi gera aðeins grein fyrir henni núna. Ég hafði hugsað mér að hafa nafnakall og gera þá grein fyrir atkvæði mínu, en ég get alveg eins hugsað mér að nota tímann til þess núna. Það var varðandi skip sem menn misstu á árunum 1983 og 1984. Fram kom brtt. fyrr í nótt um að þau tíu skip sem fórust á þessum tíma fengju öll sínar veiðiheimildir til baka. Sú till. var felld þannig að við ákváðum að freista þess að reyna að ná inn þeim þremur sem hafa ákaft leitað réttar síns í þessu máli. Sú afgreiðsla gæti þá væntanlega orðið fordæmi fyrir þau sem eftir eru. Það var náttúrlega fellt, en vonandi hugsa menn sig um áður en tekið er á þessum þremur síðustu.

Ég var að tala hér um kerfi áðan. Þegar nýtt kerfi er tekið í notkun er mjög eðlilegt að eitthvað falli á milli þessara tveggja kerfa. Það er eitthvað sem lendir á milli skips og bryggju, eins og það heitir á sjómannamáli. Það er einmitt það sem hefur gerst með þessi skip. Þau hafa lent á milli í kerfinu og þess vegna dottið út. Nú virðist allt stefna í það að við festumst í þessu kerfi. Það hefur komið fram hér hvað eftir annað að allt útlit er fyrir að sama fiskveiðistefnan eða nánast sú sama gildi næstu þrjú til fjögur árin. Ég held að það væri mjög gott, ef yfirvöld hugsa sér að láta þess stefnu festast í sessi, að hreinsa út öll mál sem eru vafaatriði því hér er augljóslega um vafaatriði að ræða. Það þarf að gera þessi mál upp áður en kerfið er endanlega orðið sjálfvirkt.

Hugmynd mín með því að þessi skip komi inn aftur þýðir ekki endilega að það þurfi að auka heildaraflamagnið. Ég held að það hljóti að vera arðbærara fyrir okkur að taka frekar af stærri skipunum núna. Með því að reyna að halda aflanum í skefjum held ég að við veiðum betri fisk eftir nokkur ár og þá vinnum við þetta upp þó það gæti orðið eitthvert kreppuástand um stund. En við höfum lifað, ýmislegt af í sambandi við okkar atvinnuvegi. Ég efast ekkert um að þetta geti gengið með skilningi og góðri samvinnu manna.

Það er annað líka sem mjög oft ber hér á góma og ég hafði eiginlega hugsað mér að minnast ekki á sérstaklega, en ég held að ég geri það úr því sem komið er. Það eru blessaðir smábátarnir. Ég minntist á það reyndar fyrst í máli mínu í gærdag, eftirmiðdaginn, að mér þætti undarlegt hversu þöglir útgerðarmennirnir eru eða „lénsherrarnir“ eins og bæði Guðmundur G. Þórarinsson og Kjartan Jóhannsson kalla útgerðarmennina. Það er undarlegt hversu náin og góð samvinnan er og hvernig þeir spila alveg á sömu strengina, LÍÚ og hæstv. sjútvrh. Mig grunar að það sé eins og venjulega að við mennirnir séum búnir að gera að náttúrulögmáli að ráðast alltaf á garðinn þar sem hann er lægstur. Það þekkjum við sem höfum staðið í launabaráttu t.d. að það er alltaf leitað á lægstu launahópana. Það eru þeir sem þurfa að bera tekjuskerðingu þegar verið er að semja.

Ég fór að tala um arðsemi áðan. Það er dálítið teygjanlegt hugtak hvað er arðbært. Ég held að við þurfum að skilgreina upp á nýtt hugtakið „arðsemi“. Nágrannar okkar í Mið-Evrópu t.d. eru sem óðast að uppgötva að það er ekki tæknin sem er endilega lausnarorðið fyrir mannkynið eins langt og við erum komin á þeirri braut. Við getum auðvitað notað tæknina tækninnar vegna, en við eigum ekki að gerast þrælar hennar. Það má segja t.d. um landbúnaðinn að það er held ég æ fleiri að verða ljóst að eina lausnin í sambandi við landbúnaðarmálin er einhvers konar afturhvarf til náttúrunnar, ef ég má orða það svo, eða afturhvarf til þeirra vinnubragða sem tíðkuðust fyrr á þessari öld. Þessi gegndarlausa tæknivæðing hefur ekki leitt það af sér sem menn vonuðust til.

Mér dettur í hug að lesa smágrein sem birtist í Morgunblaðinu miðvikudaginn 25. nóvember og heitir: „Smábátaveiðar í þjóðarhag.“ Greinin er skrifuð af Níelsi Einarssyni. Með leyfi forseta segir þar:

„Þessa dagana er verið að vinna að nýjum lögum um stjórnun fiskveiða og hefur sjútvrh. lagt fram sínar tillögur. Í þeim tillögum felst m.a. að verulega verði gengið á rétt þeirra sem eiga lífsafkomu sína undir veiðum á smábátum og hafa smábátaeigendur því eðlilega mótmælt harðlega. En hvers vegna á að leyfa trillukörlum að stunda sjóinn án boða og banna yfirvalda? Hér eru þrjár röksemdir mikilvægastar.

Í fyrsta lagi færa trillukarlar sem stunda dagróðra að landi ferskan fyrsta flokks fisk sem vinna má úr verðmætustu vöruna sem skilar mestu í þjóðarbúið.

Í öðru lagi er mun minni kostnaður á bak við hvert kg af trillufiski ef miðað er t.d. við togarafisk. Hér má taka sem dæmi að á meðan skuttogari af minni gerðinni notar um 330 lítra af olíu á hvert eitt tonn má búast við að hefðbundinn trillubátur noti liðlega 30 lítra eða um tífalt minna á tonn. Með þetta í huga er hægt að fullyrða um þjóðhagslega hagkvæmni smábátaveiða.

Í þriðja lagi má búast við að menn fari að róa harðar og meir í tvísýnum veðrum ef þeim er skammtaður tíminn til veiða. Nógu mörg og löng eru þau tímabil sem ekki má veiða nú þegar og trillukarlar verða eins og aðrir að sjá sér og sínum farborða.

Afskipti yfirvalda af veiðum smábáta eru ekki af hinu góða. Þau þjóna í mesta lagi stundarhagsmunum þeirra stórútgerðarmanna sem er eftirsjá í afla smábáta sem þó er nú aðeins 8% af þorskafla landsmanna. Sömu útgerðarmönnum er einnig í mun að stöðva flótta sjómanna frá stóru skipunum til smábátanna. Þessir sjómenn vilja nú koma undir sig fótunum sem sjálfstæðir trillukarlar, enda margir búnir að fá nóg af því að eyða meiri hluta ársins á sjó án þess að bera mikið meira út býtum en meðaljóninn í landi. Það verður ekki fyrr en sjómenn fá aftur þann skiptahluta sem rænt var frá þeim fyrir fjórum árum að þeir hætta að flýja stóru bátana. Sjómenn gera það ekki að gamni sínu að vinna erfitt og hættulegt starf sem krefst að auki þeirra fórna sem langtímafjarvera frá heimilum hefur í för með sér.

Að lokum. Ef það fólk sem ákveður fiskveiðistefnu næstu ára hefur skynsemi og þjóðarhag að leiðarljósi mun það komast að þeirri niðurstöðu að trillukarlar skuli fá að stunda sinn veiðiskap í friði. Í þessu tilfelli er smátt svo sannarlega fagurt.“

Ég held einmitt að það sé þetta smáa sem gæti verið fagurt sem við ættum að reyna að líta á, líta aðeins nær okkur sjálfum og í okkar nánasta umhverfi og athuga aðeins okkar gang, hvað það er í rauninni sem er einhvers virði í þessu lífi og hvað er raunverulega arðbært. Það er ein af þeim spurningum sem við þurfum að gera upp við okkur frá byrjun.

Það vekur enn furðu að ekki skuli hv. stjórnarliðar vera komnir á fætur eða hvar sem þeir nú eru. Það er kannski svo hlýtt inni í þeirra herbergjum að þeir sjái sér alls ekki fært að koma hingað þar sem andar köldu frá okkur, að þeim finnst hugsanlega, en við vildum gjarnan skiptast á skoðunum og hugmyndum við þá. Við höfum ítrekað það í alla nótt og það er undarlegt hvernig þeir koma, eins og hv. 7. þm. Reykv. sagði áðan, eins og Gluggagægir eða Gáttaþefur, rétt koma hér í gættina og forða sér hið snarasta aftur.

En það er líka önnur spurning: Er mönnum svolítið kalt þarna uppi á toppnum? Næðir um þá? Það getur verið að það sé einangrandi að vera þarna og finna næðinginn alls staðar í kringum sig og vera þar að auki hugsanlega með slæma samvisku.

Í máli mínu hefur komið fram að ég hef flutt hér tillögu sem felur í sér að það koma hér ný skip til veiða. Sömuleiðis hef ég samúð með smábátamönnum og þeirra hagsmunamálum, en ég sagði í upphafi máls míns að ég liti alls ekki svo á að við gætum leyft meiri veiðar. Ég held að þetta sé spurningin um að þora að taka af aflanum þar sem hann er mestur. Það er eins með launabaráttu og laun, það er að þora að taka einu sinni af þeim best settu og gera vel við þá lægst launuðu. Ég vildi ítreka þetta. Ég er ekki að efna til ofveiði vegna þess að ég mælti mjög á móti henni í upphafi máls míns.

En það er ýmislegt fleira sem hægt er að velta vöngum yfir hér. Eins og margoft hefur komið fram í máli okkar erum við undrandi á því að standa hér og tala hvert við annað. Maður veltir oft vöngum yfir því hvort maður ætti kannski að standa í bréfaskriftum í gegnum Alþingistíðindi við einhverja, en ég vona að hv. stjórnarliðar gefi sér tíma til að lesa þær perlur í jólabókaflóðinu sem Alþingistíðindi þessarar nætur verða væntanlega.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt mikið úr þessu vegna þess að það eru fleiri á mælendaskrá sem vilja gjarnan komast að. Ég held að ég hafi reifað þær meginhugmyndir sem ég vildi ræða í þetta sinn, en þessari umræðu er nú reyndar ekki lokið. Við ætlum einmitt í dag að fjalla um hina perluna í jólabókaflóðinu, þ.e. fjárlögin, Jónsbókina, og erum að undirbúa líka í huganum að reyna að flytja eitthvað af þeim brtt. sem við fluttum þar og voru kolfelldar.