22.12.1987
Efri deild: 36. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3008 í B-deild Alþingistíðinda. (2154)

181. mál, stjórn fiskveiða

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér hefur staðið yfir umræða í 24 klukkustundir með litlum hléum þar sem rætt hefur verið um stjórn fiskveiða, en fleira býr undir þessari umræðu eins og allir vita. Ég vil í þeim efnum taka eftirfarandi fram:

Í fyrsta lagi að með málflutningi okkar í gær og í nótt höfum við viljað undirstrika tillögur okkar um breytingar á kvótakerfinu. Ég hygg að þess séu ekki dæmi áður úr meðferð kvótamálsins á hv. Alþingi að stjórnarandstöðuflokkar og reyndar einstakir þm. úr stjórnarflokkum hafi lagt fram jafnviðamiklar brtt. við það kerfi sem notast hefur verið við í kvótamálinu og gert hefur verið nú. Þessar tillögur höfum við undirstrikað með málflutningi okkar í gær og í nótt.

Í öðru lagi höfum við með málflutningi okkar viljað leggja á það áherslu að við gerum það sem við getum, þó að við séum lítill minni hluti, aðeins þriðjungur þingsins, til þess að verjast eins og kostur er þegar að okkur er sótt. Þessar umræður eru hluti af því þrátefli sem nú er um að ræða í þinghaldinu á þeim klukkutímum sem eftir lifa af því fram að jólum. Auðvitað beinist þetta þrátefli og þessi pólitísku átök ekki síst að matarskattinum illræmda sem enn er til 1. umr. í Nd. Þráteflið, átökin og samkomulagsleysið í þinginu núna stafa fyrst og fremst af því að ríkisstjórninni hafa verið mislagðar hendur um framlagningu mála og verkstjórn alla á hv. Alþingi. Stjórnarflokkarnir hafa komið sér seint og illa saman um einstök mál og þar af leiðandi hefur tekið lengri tíma en ella að koma þeim fram, bæði til að leggja þau fyrir þingið og eins til að taka þau fyrir eftir að þau voru komin inn í hv. Alþingi.

Hitt vil ég einnig undirstrika nú eftir þennan langa fund að stjórnarandstaðan gerði til þess ítrekaðar tilraunir í nótt og í gærkvöld að fá til meðferðar frv. til l. um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt, sem er mikilvægur þáttur staðgreiðslukerfis skatta sem á að taka gildi frá og með 1. janúar nk., og reyndar er það svo að í kvöld á að hefja keyrslu hjá Skýrsluvélum ríkisins og Reykjavíkurborgar á launum og launamiðum þúsunda launamanna.

Ég tel einnig nauðsynlegt að undirstrika eftir þennan sólarhrings fund að málflutningur okkar hefur ekki síst beinst að því að undirstrika sjálfstæði minni hlutans. Minni hlutinn á hv. Alþingi, þó hann sé aðeins þriðjungur þingheims, lætur ekki bjóða sér hvað sem er, lætur ekki meiri hlutann, þó hann sé 2/3 þingheims, ganga yfir sig umyrða- og möglunarlaust. Ég vænti þess að eftir þessa nótt hafi hv. meiri hluti og forustumenn hans gert sér grein fyrir þessari staðreynd. Hér er ekki um að ræða það sem venjulega er kallað málþóf. Hér hefur ekki verið um það að ræða að einstakir þm. stjórnarandstöðunnar hafi fullnýtt þá ræðumöguleika sem þingsköpin opna fyrir, langt frá því, hvorki við 2. eða 3. umr. málsins. Það liggur t.d. fyrir að því fer víðs fjarri að við höfum, andstæðingar frv., tæmt þann rétt sem þingsköp skapa okkur. Hins vegar er það okkar skoðun að nú þegar klukkan er orðin liðlega tíu sé eðlilegt að ljúka þessari umræðu þar sem gert hafði verið ráð fyrir að hér hæfist fundur í deildinni á þessum tíma til að fjalla um tekju- og eignarskattsfrv. og við viljum greiða fyrir því að það mál fái þinglega meðferð.

Ég veit að það er óvenjulegt, en ég vil af minni hálfu segja að það hefur verið einkar athyglisvert að fylgjast með því að alla þessa 24 tíma hafa setið á pöllunum fulltrúar þeirra manna sem hvað mestra hagsmuna eiga að gæta varðandi afgreiðslu þessa máls. Það kannski sýnir betur en margt annað að við erum ekki aðeins að fjalla um kvótafrv., sem er pappír, heldur um fjöregg, um lífskjör þúsunda manna í landinu sem bíða nú milli vonar og ótta eftir því hvað kemur út úr þessum málum. Þetta er fólk sem trúði því og hélt að Alþingi Íslendinga væri lýðræðisleg stofnun þar sem menn tækjust á með rökum og gagnrökum, gengju frjálsir, ekki bundnir af neinu nema samvisku sinni, til atkvæða, að Alþingi Íslendinga væri ekki stofnun þar sem menn væru handjárnaðir af einstökum ráðherrum og neyddir til að taka ákvörðun þvert gegn sinni eigin samvisku.

Þessi atriði, herra forseti, vildi ég undirstrika um leið og ég leyfi mér að þakka hæstv. forseta fyrir einkar ánægjulegt fundarhald þessa síðustu 24 klukkutíma.