22.12.1987
Efri deild: 37. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3016 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel að þó þetta frv. sé seint hingað komið, sem er auðvitað ríkisstjórninni að kenna vegna þess að hún þrjóskaðist við að halda uppi tilgangslítilli umræðu í alla nótt til að þræla í gegn þessu kvótakerfi sínu, verði að afgreiða það, verði að ná á þessu afgreiðslu. Það kann að vera að það sé ekki þinglegt að segja það, en niðurstaða mín er engu að síður sú að okkur er ekkert annað eftir skilið eða lítið annað eftir skilið en að treysta á niðurstöðu og yfirferð hv. Nd. á málinu. Hugmynd manna var sú að þessi ákvörðun varðandi staðgreiðslukerfið yrði til að flýta fyrir meðferð þingmála að öðru leyti. Nú berast mér þær fregnir að það eigi að halda áfram að berja höfðinu við steininn, djöflast, með leyfi forseta, á þingræðinu það sem eftir er af þessum sólarhring og sjálfsagt þann næsta líka. Ríkisstjórnin setur núna skilyrði á skilyrði ofan um hin ýmsu mál. Ég verð að segja að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjmrh. sýna ekki sömu tillitssemi gagnvart stjórnarandstöðunni að þessu leyti og þingræðinu eins og stjórnarandstaðan sýndi gagnvart hæstv. fjmrh. í nótt. Þegar ég spurði að því hér í hv. deild hvort það væri ekki hugsanlegt að taka fyrir 1. umr. þessa máls, strax þá, var okkur tjáð að hæstv. fjmrh. væri nýlega sofnaður og það væri ekki við hæfi að vekja hans hátign þó mikið lægi við. Við þessar ábendingar gerðum við það, eins og við erum vön af því að við erum sanngjörn, og sögðum sem svo: Hinkrum til morguns. Nú er hins vegar meiningin hjá hæstv. ríkisstjórn, eftir því sem ég hef fregnað nýjast, að klára helst fyrir jól afgreiðslu fjárlagafrv. og skapa ekkert svigrúm til að taka á því máli bak jólum. Þetta er auðvitað þvílík frekja og þvílíkt tillitsleysi eftir það sem á undan er gengið að ég segi a.m.k. fyrir mig, herra forseti: Ég kann ekki að meta þessi vinnubrögð. Ég læt það hins vegar ekki hafa nein áhrif á afstöðu mína til þess máls sem hér er uppi og mun gera allt sem ég get til þess sem nefndarmaður í hv. fjh.- og viðskn. að greiða götu málsins.

Mér er tjáð að í kvöld eigi að prenta út launamiða opinberra starfsmanna í Skýrsluvélum ríkisins og Reykjavíkurborgar. Það má ekki stofna staðgreiðslukerfinu í uppnám, stofna því í hættu og stefna í uppnám, á þessum síðustu klukkustundum sem eftir lifa af þinghaldinu fram að jólum. Þess vegna mun ég fyrir mitt leyti gera það sem mér er unnt til að hjálpa til að málið fái afgreiðslu.

Ég vísa í þessu sambandi, herra forseti, til ítarlegs nál. hv. 4. þm. Norðurl. e. í Nd., sem hann gaf út um þetta mál, ásamt fylgiskjali með séráliti Ragnars Árnasonar úr milliþinganefnd um staðgreiðslu skatta, í öðru lagi fylgiskjals Il, sem er frá Þjóðhagsstofnun, athugun á tillögu Alþb. um tekjuskatta, og enn fremur vísa ég til þeirra brtt. sem við fluttum í Nd. og ég áskil mér rétt til að endurflytja í þessari hv. deild.

En það eru hins vegar tvö efnisatriði í frv. sem ég neyðist til að nefna hér. Það er fyrst varðandi vaxtaafslátt þeirra sem hafa notið hans á undanförnum árum. Samkvæmt gildandi kerfi eins og það hefur verið lagt hér fyrir er ljóst að þeir sem hafa haft verulegan vaxtaafslátt frá sköttum fá ekki notið hans fyrr en í ágúst til september og síðar á árinu 1988. Það þýðir að skattbyrði þeirra sem skuldugastir eru, þeirra sem hafa verið að byggja og basla á undanförnum árum, þyngist verulega á fyrri hluta ársins, janúar til ágúst. Og ég vil inna hæstv. fjmrh. eftir því hvaða hugmyndir ráðuneytið er með um að koma til móts við þetta fólk. Ég tel að það sé unnt m.a. með því að veita og úrskurða bráðabirgðafrádrátt á fyrri hluta ársins í samræmi við skattaframtal viðkomandi einstaklinga sem skilað er í lok janúar eða byrjun febrúar á næsta ári. Ég tel þess vegna að það sé ekkert annað en hver annar kerfisstirðleiki ef menn fást ekki til að taka á þessu máli.

Hitt málið snertir vasapeninga aldraðra og öryrkja í stofnunum. Mér hafa borist upplýsingar um það frá fjmrn. og embættismönnum þess að ætlunin sé að ganga þannig frá þessu máli að í fyrsta lagi myndi þessir vasapeningar ekki staðgreiðsluskattstofn og í öðru lagi verði gefinn út á móti vasapeningunum frádráttur jafnhár vasapeningunum, dagpeningunum á þessum stofnunum, þannig að þetta myndi heldur ekki tekjuskattsstofn.

Ég vildi gjarnan að þetta yrði einnig nefnt í svarræðu hæstv. fjmrh. þegar við 1. umr. ef það mætti verða til að greiða fyrir meðferð málsins. Það kann að vera að hæstv. fjmrh. hafi nefnt eitthvað af þessu í sinni upphaflegu ræðu, en lái mér hver sem vill að hún var á þann veg lesin að mér auðnaðist ekki að nema hana sem skyldi.