22.12.1987
Efri deild: 37. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3019 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Hér hefur verið lagt fram frv. um breytingu á lögum nr. 75 frá 1981, um tekju- og eignarskatt, með síðari breytingum. Þetta frv. kemur í framhaldi af því frv. sem samþykkt var á síðasta þingi og átti að vera til leiðréttingar á því, en í meðförum þess þings var ákveðið að stofnuð skyldi milliþinganefnd sem mundi taka til athugunar þau álitaefni sem þm. á síðasta þingi þótti að yrði að breyta. Ég átti sæti í þessari milliþinganefnd sem varamaður Óla Þ. Guðbjartssonar, 6. þm. Suðurl., sem var skipaður af hálfu Borgarafl. í nefndina. Ég mætti þarna í nokkur skipti og tók þátt í því að gera tillögur til fjmrn. um tilhögun á þessum málum.

Ég verð að segja það hér að ég sakna þess mjög að ein tillagan, sem fram kom í þessari nefnd, skuli ekki hafa verið tekin upp í frv. sem hér liggur fyrir. Það er að ónýttur persónufrádráttur maka skuli vera yfirfæranlegur á hinn makann að fullu. Það var samdóma álit allra nefndarmanna að þetta skyldi vera tekið upp. Ég nefni þetta hér því í máli hæstv. fjmrh. kom fram sú rangfærsla að frv., sem hér liggur frammi, hafi verið byggt á áliti þessarar nefndar. Það var það eina sem ég gat greint í orðum hans. Ég vil því beina því til þm., þegar mál þetta verður tekið til meðferðar í nefnd, að þetta atriði verði athugað sérstaklega.

Ég er ekki sammála hv. 7. þm. Reykv. Svavari Gestssyni og 6. þm. Reykv. Guðrúnu Agnarsdóttur að því leyti til að mikil nauðsyn sé að koma frv. í gegn. Ég tel að í frv. felist veruleg skattahækkun beinna skatta frá því sem verið hefur. Þetta kemur m.a. fram í grg. með frv. undir liðnum „skattbyrði“. Ætla ég, með leyfi forseta, að lesa upp nokkur atriði þegar talað er um skattbyrði:

„Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1987 og breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt vegna álagningar á því ári var miðað við að beinir tekjuskattar einstaklinga til ríkis að meðtöldu gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra og að viðbættum sóknar- og kirkjugarðsgjöldum yrðu um 4,3% af heildartekjum einstaklinga. Skattbyrði mæld með þessum hætti átti þannig að lækka frá 4,6% árið 1986 eða um 0,3%. Lækkun þessi svaraði til 300 millj. kr. Til viðbótar þessari lækkun ákvað núverandi ríkisstjórn við valdatöku á miðju þessu ári hækkun barnabótaauka sem svaraði til um 0,1% í skattbyrði. Samkvæmt því átti skattbyrði þessa árs að vera 4,2% hefðu áætlanir um verðlags- og kauplagsþróun gengið eftir og fékk nefndin það verkefni í erindisbréfi sínu að endurmeta álagningarreglur laganna með tilliti til þess að sömu skattbyrði yrði náð í nýju kerfi.“

Þarna segir að það eigi að miða við sömu skattprósentu og gamla kerfið gerði ráð fyrir við álagningu. En nú er það þannig að í gamla kerfinu eru eftirágreiddir skattar. Peningar sem álagðir eru rýrna vegna verðbólgu. Því kemur fram í seinni hluta þessarar sömu grg., eins og þar segir:

„Eins og kunnugt er varð þróun kauplags og verðlags önnur en ætlað var í upphafi árs. I stað um 20% hækkunar á launum milli áranna 1986 og 1987 lítur nú út fyrir að þessi hækkun verði 37–38%. Leiðir það til þess að skattbyrði af tekjuskatti til ríkisins og öðrum framangreindum gjöldum verður um 3,4% í stað 4,2% eins og áformað var.“

Þetta segir að skattbyrði 1987 er 3,4% en ætlunin er á næsta ári með staðgreiðslunni að hækka hana upp í 4,2% þegar tekið hefur verið tillit til hækkunar vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Í þessu felst mismunur upp á 0,8% í skattbyrði. Þarna er um verulega þyngingu að ræða á beinum sköttum. Ég held að fólk verði að átta sig á þessu þegar þetta nýja skattkerfi er metið.

Þá vil ég minna á að þetta nýja skattkerfi, staðgreiðslan, gerir ráð fyrir að skattur verði borgaður alla tólf mánuði ársins en ekki tíu eins og gamla kerfið gerði ráð fyrir. Þó að fólk sjái kannski nú að það borgi álíka skatta og á síðasta ári verður það að gera sér grein fyrir því að þarna er um tólf mánaða greiðslur að ræða en ekki tíu eins og áður var.

Þetta vil ég sérstaklega að komi fram við 1. umr. svo nefndarmenn geti gert sér grein fyrir við hvaða atriði þeir eiga að staðnæmast þegar þeir leggja mat á þetta nýja kerfi. Það er sem sagt skattbyrðin og sú tillaga nefndarinnar að taka ónýttan persónuafslátt maka að fullu til greina.

Þá vil ég við þessa umræðu geta þess að við þm. Borgarafl. í Ed. munum leggja fram brtt. við þetta kerfi er feli í sér m.a. það sem ég nefndi hér áðan um ónýttan persónuafslátt og svo önnur atriði, þar á meðal um starfslok, að þegar maður hættir ævistarfi sínu fái hann að njóta þess að þurfa ekki að borga skatt síðasta árið. Einnig mun koma fram í þessum brtt. að barnabætur verði greiddar til 18 ára aldurs í stað 16 ára eins og gert er ráð fyrir í frv.

Ég vil að þessum orðum mæltum ekki tefja þessa umræðu öllu frekar þó ástæða væri til þess miðað við þær fregnir sem maður fékk áðan, fyrir þessa umræðu, að það á að kýla öll þau mál sem ríkisstjórnin leggur áherslu á á mettíma í gegn og það á ekkert að hætta fyrr en það er búið. Fundir eru búnir að standa hérna yfir sleitulaust frá kl. 10 í gær og svo ætlar ríkisstjórnin með hörku að kýla mál í gegn og fá þetta staðgreiðslukerfi sitt í gegnum allar þrjár umræðurnar í dag. Mér finnast þetta ómanneskjuleg vinnubrögð og ekki til þess fallin að auka virðingu þingsins, a.m.k. ekki fyrir þessu frv. Hér er þó um veigamikið frv. að ræða sem felur í sér það sem fólk gerir sér miklu betur grein fyrir, en það eru beinu skattarnir, frekar en þeim óbeinu. Ég tel það skyldu okkar þm. að gaumgæfa þetta frv. vel því í því felst veruleg kerfisbreyting frá því sem áður var þegar skattar voru eftirágreiddir, fyrir utan það að fólk úti í þjóðfélaginu gerir sér ekki grein fyrir hvað í frv. felst.

En eins og ég sagði áðan vil ég ekki tefja þessa umræðu öllu frekar eða segja meira um frv. að sinni, en áskil mér rétt við 2. umr. að fara ítarlega ofan í greinar frv. og frv. í heild og hvernig það geti komið til með að verka á næsta ári þegar skattayfirvöld fara að herja á hinn almenna borgara með þessu kerfi.