22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

Framlagning stjórnarfrumvarpa

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs um þingsköp til að ræða nokkuð framlagningu mála hér á hinu háa Alþingi. Nú hefur það gerst á stuttum tíma, á þeim tæplega tveimur vikum sem Alþingi hefur starfað, að tvö meiri háttar stjfrv., eða öllu heldur svokölluð stjfrv., hafa birst okkur á Alþingi með nokkuð sérkennilegum hætti.

Fyrst var það fjárlagafrv. sem kom með mjög sérkennilegum fyrirvörum einstakra þm., einstakra hæstv. ráðherra og jafnvel heilla þingflokka og þar á meðal var hæstv. landbrh. þannig sinnaður gagnvart frv. að hann gat í raun og veru eingöngu sætt sig við tekjuhlið þess eins og fram kom.

Í gær tók steininn úr, herra forseti, þegar á borðum hv. þm. birtist frv. um húsnæðismál, 47. mál á þinginu, frá hæstv. félmrh. og samtímis, jafnvel áður en frv. birtist á borðum alþm., fóru að heyrast í fjölmiðlum fyrirvarar af ýmsu tagi frá einstökum hv. þm. og jafnvel heilum þingflokkum stjórnarliðsins, ekki stjórnarandstöðunni heldur frá stjórnarliðum sjálfum. (Forseti: Forseta finnst orka tvímælis að þetta sé um þingsköp. Vill hv. þm. koma að því sem varðar þingsköp?) Ég hygg að ef virðulegur forseti hefði ögn meiri þolinmæði og ég kæmist aðeins lengra í máli mínu kæmi það skýrt fram að ég er að ræða um sjálf grundvallaratriði stjórnunar þingsins, þ.e. með hverjum hætti þingmál eru fram lögð, hvern svip þau bera, hvað þau heita þegar þau birtast á borðum alþm. Ég vil þá biðja virðulegan forseta að leiðrétta mig ef það er ekki tilefni til þess að spyrjast fyrir um þingsköp eða verkstjórn hér á þinginu og einnig að spyrja talsmenn hæstv. ríkisstjórnar hvernig þeir hyggist haga verkum sínum og hvað þau þingmál, sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að leggja hér fyrir í vetur, eiga að heita. Ef ég má, með leyfi forseta, halda ögn lengra áfram langar mig til að bera fram spurningar sem þetta varða.

Það sem ég tel alveg óhjákvæmilegt að fá botn í áður en þinghaldið heldur lengur áfram er hvort við þm. eigum að búa okkur undir það í framtíðinni að frv. sem birtast á borðum þingsins án þess að getið sé sérstaklega flutningsmanna — sem hefur venjulega haft þá merkingu, a.m.k. þann tíð sem ég hef verið hér, að þau hafa verið kölluð stjfrv. Við höfum fyrir okkur fordæmi um að einstakir ráðherrar hafa lagt fram í eigin nafni frv. og þá hafa þau haft aðra stöðu eðli málsins samkvæmt og allir hafa gert sér grein fyrir að þau hefðu ekki þá stöðu sem stjfrv. almennt gera, þ.e. að vera borin fram af allri ríkisstjórninni og væntanlega studd af þingmeirihluta ríkisstjórnarinnar. Þess vegna vil ég í fyrsta lagi spyrja hæstv. forseta:

Hefur honum, hæstv. forsetanum, verið gerð grein fyrir því að upp sé tekin ný tilhögun, að hér sé komin á nokkur nýbreytni í sambandi við framlagningu mála af hálfu hæstv. ríkisstjórnar?

Og ég vil spyrja hæstv. forsrh. sem verkstjórnanda ríkisstjórnarinnar: Er hér uppi nýbreytni? Ber að skilja það svo að ómerkt frv., stjfrv., hafi einhvers konar minnihlutastöðu eða séu einhvers konar einkafrv. viðkomandi ráðherra í hverju tilfelli? Það er mjög ankannalegt, herra forseti, svo að ekki sé meira sagt, að samtímis og stjórnarfrumvarp birtist á borðum þm. geri heilir þingflokkar eða einstakir þm. stjórnarliðsins grein fyrir miklum fyrirvörum, jafnvel lýsi beinni andstöðu við ákvæði í viðkomandi frumvörpum. Ég vil fá alveg hreint úr því skorið hvort þetta á eingöngu að miðast við þessi tvö frumvörp sem hafa verið lögð fram með þessum hætti, fjárlagafrv. og nú frv. um húsnæðismál, eða hvort þess er að vænta að önnur frumvörp af hálfu hæstv. ríkisstjórnar feli þetta í sér. Þá er nærtækast að spyrja hæstv. forsrh.: Er hér ekki um venjulega þingbundna meirihlutaríkisstjórn að ræða sem hann verkstýrir? Er hér upp tekinn einhver nýr háttur? Sitja e.t.v. í landinu þrjár minnihlutastjórnir, þ.e. minnihlutastjórnir stjórnarflokkanna þriggja hvers um sig og á það eftir að endurspeglast í framlagningu mála hér á þinginu?