21.12.1987
Neðri deild: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3083 í B-deild Alþingistíðinda. (2176)

196. mál, söluskattur

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu er liður í viðamikilli skattkerfisbreytingu, liður í viðamikilli breytingu á tekjuöflunarkerfi ríkisins. Ég hygg að flestir ef ekki allir séu sammála um það að breytinga er þörf. Annars vegar vegna þess að okkar tekjuöflunarkerfi er orðið glettilega flókið. Einföldun er til mikilla bóta. Um það held ég að menn greini ekki mikið á. Hins vegar vegna þess að menn hafa talið að í því tekjuöflunarkerfi sem við búum við séu glettilega margar leiðir til undanskots á skattgreiðslum. Það er án efa á ábyrgð stjórnvalda að haga lagasetningu og framkvæmd laga á þann hátt að slík undanskot og möguleikar til slíkra undanskota séu sem minnstir.

Það frv. sem hér er til umræðu um söluskatt fjallar um viðamesta og langstærsta tekjustofn íslenska ríkisins. Álit sérfræðinga og innheimtumanna, sem um þessi mál hafa fjallað, hefur verið á eina lund, á þá lund að undanþágur frá söluskatti geri kerfið hriplekt, geri það að verkum að eftirlit með innheimtu söluskattsins sé mjög erfitt ef ekki nánast óframkvæmanlegt. Það hlýtur því að vera ljóst að það er nauðsynlegt fyrir framkvæmdarvaldið að reyna að breyta þessu og raunar a ábyrgð allra þm. að takast á við slíkan vanda. Það hygg ég að flestir séu sammála um.

Annað mál kann að vera, þó að menn séu sammála um breytingar, að ekki séu allir sammála um hverjar þær breytingar skuli vera. Einföldun leiðir ekki alltaf til réttlætis. Einföldun er í eðli sínu slík að hún samræmir og gerir sem minnstan mun á milli einstaklinga og þegna í þjóðfélaginu. Það segir í Njálu einhvers staðar að vandskept sé almannaspjót og það er því alveg ljóst að sú breyting sem hér er verið að gera er mjög vandasöm og hún er líka unnin á skömmum tíma og mér dettur ekki í hug að halda því fram að hún sé gallalaus frekar en önnur mannanna verk. Það er alveg ljóst að ábyrgð þm. og embættismanna við gerð þessara laga og framkvæmd þeirra er mikil. En það þýðir ekki að það sé ástæða til að hlaupast frá vandanum eða að koðna niður í vöflum. Breyting er nauðsynleg og hún verður að koma fram. En sú breyting sem hér fjallar um er mjög viðamikil breyting á verðlagningar- og álagningarkerfi. Og það er engan veginn auðvelt að sjá fyrir hversu þessar breytingar koma við hina ýmsu hópa og þjóðfélagsþegna.

Þeir reikningar, sem við höfum að mestu í höndum, miðast við meðaltöl, meðaltalsreikninga og meðaltalsathuganir. Meðaltalsreikningar sýna okkur að framfærsluvísitala eigi ekki að hækka þó að gripið sé til þessara skattkerfisbreytinga, enda er um að ræða hliðarráðstafanir sem hafa þar veruleg áhrif.

En eins og ég sagði áðan þá hefur einföldun ekki alltaf í för með sér réttlæti og það er auðvitað mikil ábyrgð sem fylgir því þegar ákvörðun er tekin í þessum málum að gæta þess að þessar breytingar komi ekki þar niður sem síst skyldi, að þær leggi ekki byrðar á þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Þess vegna eru viðhlítandi hliðarráðstafanir nauðsynlegar jafnhliða því sem nauðsynlegar aðgerðir eru gerðar til einföldunar og til þess að gera skattkerfið skilvirkara.

Ég hef margoft lýst því yfir bæði í viðtölum og greinum að ég tel að söluskattur á matvæli sé óframkvæmanlegur nema gripið sé til viðhlítandi hliðarráðstafana. Það er ljóst að samhliða þessum aðgerðum verður varið rúmlega 2000 millj. til niðurgreiðslna á matvælum og í barnabætur og lífeyrisgreiðslur. Verðbreytingar á hefðbundnum landbúnaðarvörum eiga að verða á flestum engar og sumum litlar. Í þingflokki framsóknarmanna hefur eðlilega verið mikið rætt um þessar breytingar. Þar hafa margir þm. lýst áhyggjum sínum vegna verðhækkana sem verða á fiski og brauði við þessar breytingar. Menn hafa ítrekað rætt hversu megi við því bregðast og hvort unnt sé að finna leiðir til að koma í veg fyrir þær hækkanir. Vandinn er að finna leiðir þannig að þær geri ekki að engu það markmið breytinganna að setja undir undanskotsleiðir. Ég vil þess vegna segja það hér að það var mér gleðiefni að heyra í viðtali við forsrh. í sjónvarpi í gær að ríkisstjórnin hefði fundið leið til að sjá til þess að hækkanir á fiski kæmu ekki fram nema þá að hluta. Ég tel það ákaflega mikilvægt og tel að þar sé komið til móts við þær sterku raddir sem verið hafa innan þingflokks framsóknarmanna í þessa átt.

Brauðið er reyndar eftir. Hvort unnt er að finna leiðir í þá átt á eftir að leysast. Í því sambandi vil ég nefna annað mál sem snertir innflutning á brauði og kökum þó að ekki tengist þessu beint. En ég hygg að það sé eðlilegt að heilbrrh. athugi það alveg sérstaklega hvort unnt sé að koma við jafnvel banni eða sérstöku eftirliti með innflutningi á kökum og brauði þar sem blandað er í rotvarnarefnum.

Þetta tel ég að sé nauðsynlegt að hér komi fram varðandi mína afstöðu sem ég hef nú sagt. Kerfisbreyting er nauðsynleg. Það er á ábyrgð þm. að viðhalda kerfi sem býður upp á viðamiklar undanskotsleiðir. Það er á ábyrgð þm. en það er jafnframt á ábyrgð þm. að gæta þess að slík kerfisbreyting komi ekki niður þar sem síst skyldi, að hún verki ekki á þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu.

Það er erfitt mál að meta hvort þær hliðarráðstafanir sem gripið er til séu fullnægjandi. Það er ekki einfaldur reikningur. Menn binda miklar vonir við þær, en það er enginn vafi að það þarf að fylgjast vel með.

Ég ætla ekki að gera þetta söluskattsfrv. að umræðuefni í smáatriðum. Ég hygg að þar séu mörg atriði sem kunni að orka tvímælis eins og reyndar allt gerir þegar gert er. Ég vil þó taka undir eina athugasemd sem hér hefur komið fram. Mér þykir það óeðlilegt þegar komið er að heilsuræktinni og fyrirbyggjandi aðgerðum í heilbrigðismálum þjóðarinnar að þeir sem stunda sund skuli sleppa við að greiða söluskatt og þeir sem stunda skíði skuli sleppa við að greiða söluskatt, en hinir, sem velja það að stunda leikfimi, skuli þurfa að greiða söluskatt í heilsurækt. Þetta finnst mér að þurfi að endurskoða, þó að ég grípi hér aðeins á einu atriði, og ég mun vissulega beita mér fyrir endurskoðun þessa atriðis í nefnd.

Ég vil enn á ný benda á það og þá í tengslum við frv. sem ég hef flutt hér í þinginu að þetta frv., sem nú liggur fyrir, leiðir ekki til breytingar á 1. mgr. 21. gr. laganna um söluskatt, þar sem heimild er í höndum ráðherra að fella niður söluskatt ef sérstakar ástæður þykja fyrir hendi, en athugun bendir til að túlkun þeirra orða „sérstakra ástæðna“ hafi verið mjög rúm. Haldi menn sér sterkt í það að undanþágur virki og vinni gegn skilvirkni laganna, þá er óeðlilegt annað en að fella þessa heimildargrein út.

Að lokum þetta, herra forseti. Sú breyting sem hér er verið að gera er jákvæð í eðli sínu. Hún er jákvæð og hún er nauðsynleg til þess að gera kerfið skilvirkara. En hún er vandasöm í framkvæmd og sú ábyrgð hvílir á þingi og ríkisstjórn að hún bitni ekki á þeim sem minnst mega sín. Sú ábyrgð hvílir því á ríkisstjórn að fylgjast vel með þeim hliðarráðstöfunum sem gerðar eru og grípa inn í telji menn að þær dugi ekki til þeirra aðgerða sem þeim er ætlað.