21.12.1987
Neðri deild: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3108 í B-deild Alþingistíðinda. (2180)

196. mál, söluskattur

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu en vegna þeirra fsp. sem hv. þm. beindi hér til mín í upphafi síns nokkuð langa máls en kannski ekki að sama skapi efnismikla tek ég fram að þær umræður sem fram fóru á milli fulltrúa stjórnarflokka og stjórnarandstöðu fólu ekki í sér nein verslunarviðskipti um þau mál sem hér eru til meðferðar.

Það er líka útúrsnúningur hjá hv. 4. þm. Norðurl. v. að segja að ríkisstjórnin hafi verið að falbjóða tveimur aðilum breytingar á þeim frumvörpum eða einu þeirra frumvarpa sem hér liggja fyrir og er til umræðu í kvöld. (RA: Það er ljóst að þú gerðir það.) Ég vil einungis taka hér fram og ítreka það sem átti sér stað og fram hefur komið af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Innan stjórnarflokkanna þriggja höfðu að undanförnu farið fram umræður og bollaleggingar um að söluskattshækkun á neyslufiski þyrfti ekki að koma að öllu leyti til framkvæmda. Þessar umræður áttu sér m.a. stað vegna þess að nú standa fyrir dyrum kjarasamningar og það var mat stjórnarflokkanna að slík breyting gæti auðveldað samningsaðilum að ná saman. Það var hins vegar engin ákvörðun af hálfu stjórnarflokkanna að blanda sér í kjarasamningaviðræður með þessum breytingum. Það hlaut að verða einhliða ákvörðun ríkisstjórnar að stíga slíkt skref.

Þegar viðræður fóru fram milli fulltrúa stjórnar og stjórnarandstöðu um framgang mála í þingi þótti mér ekki óeðlilegt að ígrunda það hvort ákvörðun af þessu tagi, ef hún yrði tekin fyrr en ella, gæti greitt fyrir framgangi mála hér í þingi því að þetta var eitt af þeim atriðum sem höfðu valdið ágreiningi. Ekki er um nein verslunarviðskipti að ræða og ég ímynda mér ekki að stjórnarandstaðan vilji setja sig í þá stöðu að vera að versla með efnisatriði í málum ríkisstjórnarinnar. Hitt er annað að ef ríkisstjórnin er að undirbúa breytingar sem fara saman við meginskoðanir þm. og þingflokka og er tilbúin að flýta slíkum ákvörðunum er ekki óeðlilegt að líta svo á að slík ákvörðun megi greiða fyrir framgangi mála sem deilum valda í þinginu. Að tala um verslunarviðskipti í þessu sambandi er auðvitað fjarri lagi og sömuleiðis auðvitað út í hött að tala um að vera að tvíselja slíkar vörur. Hér er einfaldlega engin vöruskiptaverslun, ekki á nokkurn hátt.

Hv. þm. talaði um lélega verkstjórn. Það er rétt að tekjuöflunarfrumvörpin sem tengjast fjárlagafrv. komu seint fram. Á því hafa verið gefnar eðlilegar skýringar. Hér er um að ræða einhverjar umfangsmestu kerfisbreytingar í tekjuöflun ríkisins sem um getur og það tók allnokkurn tíma í ráðuneyti að undirbúa þessi mál áður en þau gátu komið hér inn í sali Alþingis. Eftir það hefur umræðu og skipulagi allra umræðna verið háttað með mjög eðlilegum hætti og án þess að íþyngja um of, miðað við það sem venjulegt er á þessum árstíma, kröftum alþm.

Þetta vildi ég að kæmi skýrt og greinilega fram vegna upphafsorða hv. 4. þm. Norðurl. v. Ég ætla ekki að fara hér í efnisatriði í ræðu hans. Hann fjallaði þó allmikið um undanþágur og skipulag söluskattsmála, ræddi m.a. um söluskatt á menningarvörur. Ég ætla bara að rifja upp að þegar hv. þm. var fjmrh. framkvæmdi hann mjög ítarlegt mat á því hvernig ætti að skattleggja menninguna í landinu. Niðurstaða hv. þm. meðan hann var fjmrh. var sú að halda áfram skattlagningu á bækur en fella niður söluskatt af Speglinum.