21.12.1987
Neðri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3126 í B-deild Alþingistíðinda. (2190)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. beindi til mín ákveðnum tilmælum í máli sínu áðan í framhaldi af umræðum um ákvæði frv. um húsnæðisbætur til handa þeim sem festu kaup á íbúð í fyrsta sinn og njóta húsnæðisbóta til sex ára. Voru tilmæli hans á þá leið að það yrði skoðað hvort ekki væri unnt að verða við því að taka tillit til kostnaðar leigjenda með húsnæðisfrádrætti, jafnvel þótt það yrði ekki innan staðgreiðslukerfisins heldur sem hluti af eftiráuppgjöri skatts.

Um þetta vil ég segja að það er nægur tími til að skoða þetta mál betur því við erum ekki að tala um það innan staðgreiðslunnar. Til þess höfum við nægan tíma. Persónulega er ég vissulega reiðubúinn til þess að skoða það mál gaumgæfilega þó ég taki jafnframt skýrt fram að þetta er ekkert fyrirheit eða loforð af minni hálfu. Málið var rætt í milliþinganefndinni á sínum tíma. Vafalaust þarf að skoða vendilega hvaða fjárhæðir hér er um að ræða, hvaða kostnað er hér um að ræða, en að svo miklu leyti sem þessi tilmæli varðar um að málið fái rækilega skoðun er til þess bæði tími og vilji.