22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

Framlagning stjórnarfrumvarpa

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að rifja upp að þegar stjfrv. eru lögð fram í þinginu og fá meðferð er það svo að þau eru sett fremst á dagskrá deildafundanna og hafa þar forgang í umræðum. Stjórnarandstaðan hefur í raun og veru sætt sig við að svo sé.

Nú hins vegar stöndum við frammi fyrir þeirri nýbreytni af þessari þríeinu ríkisstjórn sem situr hér í landinu að hún er flytjandi frumvörp í dulbúningi stjfrv. Þetta eru í raun og veru ekki stjfrv. vegna þess að til þess að frv. geti heitið stjfrv. þurfa ríkisstjórnarflokkarnir að standa að þeim. Það liggur hins vegar fyrir með þessi tvö frv. sem ríkisstjórnin hefur af alkunnum dugnaði sínum komið hér fram fyrir þingið að það er stórkostlegur ágreiningur um þessi mál í öllum stjórnarflokkunum. Fjárlagafrv. er þannig að hæstv. landbrh. segir: Ég styð bara tekjuhliðina, ég er á móti gjaldahliðinni. Alvarlegar athugasemdir við gjaldahliðina þó að það sé hins vegar algengt að menn reyni að taka jafnt afstöðu til tekju- og gjaldahliða í frumvörpum eins og fjárlagafrv.

Hæstv. félmrh. hefur lagt fram frv. um húsnæðismál sem formaður þingflokks Framsfl. lýsir yfir að sé vandræðafrv. og að á því þurfi að gera verulegar breytingar. Hv. þm. Halldór Blöndal, orðvar að vanda, segir í fréttum sjónvarps og útvarps í gærkvöldi: Um þetta frv. er best að hafa sem fæst orð. Fæst orð hafa minnsta ábyrgð. Hann bætir síðan við: Sjálfstfl. hefur verulegar efnislegar athugasemdir við frv. Hér er alveg augljóslega um alveg nýja stöðu að ræða og það er nauðsynlegt að þetta komi fram vegna þess að þess er ekki getið í greinargerðum frumvarpanna, sem væri eðlilegt að gera, að einstakir ráðherrar eða stjórnarflokkar hefðu fyrirvara í þessum efnum. Og það er nauðsynlegt fyrir stjórnarandstöðuna vegna áframhaldandi meðferðar mála hér á þinginu á þessum vetri að því verði komið á hreint hvað er stjfrv. og hvað er þmfrv.

Þetta er bráðnauðsynlegt til þess að þingstörfin, herra forseti, geti gengið eðlilega fyrir sig og ég veit að hæstv. forseti Sþ. vill gjarnan að svo geti orðið og ég er sannfærður um að stjórnarandstöðuflokkarnir allir eru tilbúnir að aðstoða forsetann eftir bestu getu í þeim efnum sem ekki mun af veita andspænis hinum sundurleitu stjórnarflokkum.