22.12.1987
Efri deild: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3129 í B-deild Alþingistíðinda. (2202)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 425 birtist nál. frá minni hl. fjh.- og viðskn. sem er á þessa leið:

„Í frv. þessu felast ýmsar lagfæringar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem tengjast gildistöku staðgreiðslu skatta um næstkomandi áramót. Eru þar í flestum tilfellum á ferðinni breytingar sem milliþinganefndin lagði til að gerðar yrðu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og staðgreiðslu skatta og eru til bóta.

Skattkerfisbreyting sú, sem í frv. þessu felst og fylgifrv. þess, felur í sér verulega einföldun álagningar og staðgreiðslu skatta. Þessum meginmarkmiðum er þingflokkur Alþb. samþykkur og hefur áður lagt slíkt til með flutningi frumvarpa og tillagna. Þar skilur þó á milli stefnu Alþb. og ríkisstjórnarinnar að Alþb. vill láta eitt yfir alla ganga og hefur lagt til hliðstæðar breytingar á skattlagningarreglum fyrirtækja.

Því miður er ljóst að þær breytingar, sem nú verða á staðgreiðslu einstaklinga, leiða ekki til skattalækkana hjá launafólki í heild. Þvert a móti munu þær álagningarprósentur, sem ríkisstjórnarmeirihlutinn leggur til, leiða til verulega þyngri skattbyrði einstaklinga í heild miðað við tekjur á greiðsluári. Kemur hún til með að nema allt að 25% milli áranna 1987 og 1988. Þar með er einnig ljóst að það markmið að lækka eða afnema tekjuskatt af almennum launatekjum er enn jafnfjarri sem fyrr.

Tillögur þær, sem þingflokkur Alþb. hefur lagt fram á Alþingi í skattamálum, bæði í formi frumvarpa og breytingartillagna við einstök skattafrumvörp og fjárlög, fela í meginatriðum í sér eftirfarandi:

— Skattbyrði er færð af fólki með meðaltekjur og lægri yfir á fólk með hátekjur og eignamenn og fyrirtæki.

— Skattbyrði einstaklinga í heild er lækkuð um nálægt 1500 millj. kr. með hækkun persónufrádráttar og breytingum á skattstiganum. Sú hækkun er borin uppi af auknum skattgreiðslum eignamanna, fjármagnseigenda og fyrirtækja.

— Frádráttarheimildir fyrirtækja eru afnumdar, komið í veg fyrir að einkaeyðsla og risna sé færð á kostnað fyrirtækja og tekjuskattsprósenta fyrirtækjanna hækkuð til samræmis við hátekjuskattþrep einstaklinga.

— Skattfrelsismörk einstaklinga hækka og skattbyrði léttist miðað við tillögur ríkisstjórnarinnar á tekjum upp að rúmlega 100 þús. kr. á mánuði. Útgjöld vísitölufjölskyldunnar eru nú áætluð nálægt 110 þús. kr. á mánuði.

— Skattar á tekjum yfir 110 þús. kr. á mánuði hækka með sérstöku hátekjuskattþrepi, en samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar mundu skattar lækka á hæstu tekjur frá því sem verið hefur.

Auk þess felast í tillögum Alþb. fjölmargar leiðréttingar og úrbætur í skattamálum, svo sem ákvæði um virkara eftirlit, ákvæði sem tryggja eiga hagsmuni leigjenda, sem ríkisstjórnin ætlar að setja út á klakann, og síðast en ekki síst má nefna frv. um sérstakan skattadómstól," sem liggur fyrir þessari hv. deild.

„Á sérstöku þingskjali flytur undirritaður brtt. um nokkrar helstu lagfæringar sem hann telur óhjákvæmilegt að gera á frv. ríkisstjórnarinnar og lögum um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e. þau ákvæði sem snerta skattlagningu einstaklinga. Að öðru leyti leggur minni hl. til að frumvarpið verði samþykkt.“

Á þskj. 426 eru brtt. undir fjórum töluliðum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að um verði að ræða tvö skattþrep í stað eins. Við gerum ráð fyrir því að þrepin verði þannig að það verði greidd 26,75% af tekjum upp að 744 þús. en 38% af tekjum þar fyrir ofan. Skattstigi tekjuskatts í frv. ríkisstjórnarinnar er 28,5%.

Skv. þessu frv. er gert ráð fyrir því að 1. tölul. 67. gr. laganna orðist svo: „Af tekjuskattsstofni reiknast 26,75% á mánaðartekjur upp að 62 þús. kr. en 38% á það sem er umfram 62 þús. kr.“

2. tölul. á þskj. 426 gerir ráð fyrir því að um verði að ræða nokkra hækkun á persónuafslætti, þ.e. að í stað tölunnar 158 þús. og 20 kr., sem er í frv. ríkisstjórnarinnar, verði talan 188 þús. kr. á árinu.

Í tölul. 3 er um að ræða tvær brtt. Annars vegar er gert ráð fyrir breytingu á húsnæðisbótum. Húsnæðisbætur skulu vera 50 þús. kr. á ári fyrir einstakling sem kaupir eða byggir íbúðarhúsnæði skv. 1. mgr. og í öðru lagi er undir þessum tölul. gert ráð fyrir að leigjendur eigi rétt til húsnæðisbóta og þeir sem sannanlega greiða húsaleigu vegna leigu á íbúðarhúsnæði til eigin nota.

Tölul. 4 í brtt. minni hl. er við 14. gr. og er tvískiptur. Annars vegar er gert ráð fyrir því að felld verði niður takmörkunin sem gert er ráð fyrir í frv. á vaxtaafslættinum, en þar er gert ráð fyrir að þessi afsláttur geti verið til í allt að sex ár talið frá og með álagningarárinu 1988. Við leggjum til að þessi takmörkun verði felld niður og hygg ég að þetta sé í samræmi við brtt. sem Alþb. og Alþfl. fluttu á síðasta þingi.

Í b-lið 4. tölul. þessa þskj. flyt ég till. sem er á þá leið að á eftir 4. mgr. komi ný mgr. sem orðist svo: „Skattstjóri skal áætla vaxtaafslátt samkvæmt framtali skattgreiðanda strax og umsókn berst, en þó eigi síðar en í ágúst ár hvert.“

Hér er m.ö.o. gert ráð fyrir að það verði heimilt að framkvæma bráðabirgðaálagningu að því er vaxtaafsláttinn varðar og að heimilt verði að greiða út samkvæmt þeirri bráðabirgðaálagningu talsvert fyrr en gert er ráð fyrir í frv. ríkisstjórnarinnar, en eins og hv. þm. vita gerir frv. ráð fyrir að vaxtaafslátturinn verði allur greiddur út í einni greiðslu í ágústmánuði svipað og húsnæðisbæturnar. Hér er m.ö.o. opnað fyrir þann möguleika að þetta verði gert talsvert fyrr. Ef það er ekki gert hins vegar þýðir það verulega skattþyngingu hjá því fólki sem er með þyngstar húsnæðisskuldir í byrjun ársins 1988. Það er mjög veruleg og tilfinnanleg skattþynging og mér er ljóst að það er ekki einfalt að koma við leiðréttingu, en hins vegar tel ég að hér sé um svo mikla skattþyngingu að ræða að það sé full ástæða til að gera þá tillögu sem hér liggur fyrir um að skattstjórar einfaldlega áætli vaxtaafslátt samkvæmt framtali skattgreiðanda strax og skattgreiðandinn sækir um það og síðan geti skattyfirvöld endurgreitt þennan vaxtaafslátt og byrjað á því fyrr en í ágúst, t.d. í mars eða svo, ef gert er ráð fyrir því að skattaframtölum verði skilað í lok janúar eða byrjun febrúar.

Ég tók eftir þeirri yfirlýsingu sem fjmrh. gaf varðandi vasapeninga aldraðra og öryrkja á stofnunum. Ég hef engu við það mál frekar að bæta. Það er skýrt að á þá peninga verður ekki lagður skattur.

Ég tel að það sé mjög brýnt að þetta mál verði að lögum. Neðrideildarnefndin fór rækilega yfir málið. Flokkarnir fóru einnig mjög rækilega yfir þetta mál á síðasta þingi þannig að þeir sem voru á síðasta þingi þekkja þetta mál mjög vel.

Efrideildarnefndin eyddi ekki löngum tíma í að fara yfir þetta mál, en ég hygg að hún hafi þó farið yfir það eins og hægt er að ætlast til miðað við þær aðstæður sem nú eru á hv. Alþingi.

Ég held að hér sé um að ræða mikið framfaraspor í íslenska skattakerfinu, verulega mikið framfaraspor, og skipti miklu máli um að það takist vel til um framkvæmdina og ég held að kynningarstarfið þurfi að taka til sérstakrar skoðunar.

Ég er sannfærður um það reyndar að til að byrja með mun hið nýja kerfi valda margvíslegri óánægju og misskilningi. Það er mjög nauðsynlegt að allt embættismannaliðið og allir starfsmenn skattstofanna sýni lipurð og aðgát við framkvæmd á þessu kerfi, annars gæti illa farið. En ég óttast að það sé fyrst og fremst einn hópur sem fer mjög illa út úr kerfisbreytingunni. Það er misgengishópurinn. Hann fer mjög illa út úr kerfisbreytingunni alveg örugglega frá janúar og fram í júlí á næsta ári þangað til vaxtaafslátturinn verður greiddur út. Ég er sannfærður um að þessi hópur mun hækka verulega í sköttum frá því sem var á síðasta hluta ársins 1987 núna í janúar strax og af dæmum sem hv. þm. geta sett niður á blað fyrir framan sig eftir bráðabirgðaákvæði I í frv. er alveg ljóst að þessi skattþynging getur numið um 15 þús. kr. á mánuði, hið mesta að vísu, sem er býsna mikil skattþynging þegar um er að ræða að fólk sem ella hefði 25 þús. á mánuði í skatta fær eftir þessa kerfisbreytingu 40 þús. kr. á mánuði í janúar, febrúar, mars, apríl, maí, júní, júlí. Þetta er gífurleg þynging á þessu fólki og ég legg á það mjög mikla áherslu að allt verði reynt sem hægt er til að þetta verði sem sársaukaminnst. Ég játa alveg að ég hef ekki aðferðina, hvernig á nákvæmlega að framkvæma það, en ég er viss um að það verður svo víðtæk óánægja og sárindi í þessum hópum að nauðsynlegt sé að hafa þá sérstaklega í huga, ekki síst þegar þess er gætt að í störfum félmrh. og fjmrh. sitja einstaklingar sem gáfu giska hátimbruð fyrirheit varðandi stuðning við misgengishópinn fyrir síðustu kosningar og ég er viss um að eftir því verður leitað að við þau fyrirheit verði staðið.