22.12.1987
Efri deild: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3133 í B-deild Alþingistíðinda. (2203)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Sem fulltrúi Borgarafl. í hv. fjh.- og viðskn. Ed. hef ég skrifað undir álit meiri hl. nefndarinnar með fyrirvara. Í fyrirvara mínum felst aðallega tvennt. Ég óttast viss neikvæð áhrif þessarar skattkerfisbreytingar. Ég vil þó flýta mér að taka fram að ég tel að þrátt fyrir allt eigi þessi kerfisbreyting rétt á sér. Hún felur í sér vissa einföldun á skattkerfinu sem er mjög kærkomin. En ég held engu að síður að við megum ekki gleyma að horfast í augu við viss neikvæð áhrif sem mjög auðveldlega geta komið fram og eiga áreiðanlega eftir að koma fram á næsta ári.

Í fyrsta lagi þekktu menn gamla skattkerfið mjög vel og vissu að hverju þeir gengu þar ár hvert þegar var verið að leggja á skatta miðað við þær tekjur sem þeir höfðu á fyrra ári. Það sem getur gerst í staðgreiðslukerfi er einfaldlega að verði mikil verðbólga hér, sem allt virðist nú benda til, því miður, að verði á næsta ári, er mjög fljótt í að skattbyrði verði verulega hærri með staðgreiðslukerfi skatta en var með gamla kerfinu. Þannig höfum við látið reikna út áhrif verðbólgu með því að taka nokkra ákveðna markhópa skattgreiðenda, t.d. fjölskyldu með eða án húsnæðisbóta, og kannað hvernig skattbyrði þessarar fjölskyldu hefði orðið miðað við gamla skattkerfið og borið það saman við skattbyrðina eins og hún verður í staðgreiðslukerfinu miðað við mismunandi verðbólgustig. Það kemur þannig út að þegar verðbólgan er farin að nálgast 25 og 30% og þar yfir, og því miður verð ég að endurtaka að það er ýmislegt sem bendir til þess að þetta geti einmitt orðið verðbólguþróunin á næsta ári, þá er alveg ljóst að skattbyrðin fyrir meginþorra skattgreiðenda verður meiri í staðgreiðslukerfinu en í gamla kerfinu.

Þessi skattkerfisbreyting hefur fyrst og fremst verið seld launþegum með þeim slagorðum að hér væri um mikla einföldun á skattkerfinu að ræða og mun auðveldara væri fyrir launþega að fylgjast með sköttum sínum, hvað þeim bæri að greiða í skatta og hvaða tekjur þeir hefðu til ráðstöfunar að greiddum sköttum.

Það er alveg rétt að í gamla kerfinu var þetta ekki eins ljóst. Þó má segja að langflestir launþegar greiddu einhvers konar staðgreiðsluskatt í gamla kerfinu vegna þess að atvinnurekendum var skylt að halda eftir af launum vegna fyrirframgreiðslu skatta fyrri hluta árs og seinni hluta árs eftir að álagningin var ljós bar atvinnurekendum að halda eftir af launum launþeganna skatthlutanum. Þannig er þetta í sjálfu sér ekki mjög mikil breyting fyrir langflesta launþega að öðru leyti en því að ég tel að margir munu vakna upp við vondan draum þegar þeir skyndilega ekki njóta skattlausu mánaðanna, þ.e. janúar og júlí, sem mjög margir launþegar notuðu einmitt í gamla kerfinu til að rétta við fjárhag sinn. Það var mjög algengt að menn gátu loksins andað aðeins léttar einmitt í janúar og svo aftur í júlí og þannig náð áttum á nýjan leik með því að notfæra sér þessa tvo skattlausu mánuði til að ná landi í skuldasúpunni sem því miður þjáir marga launþega hér á landi vegna allt of lágra launa. En eins og ég hef sagt eru líkur á því að skattbyrði í nýja kerfinu verði óþarflega há og mun hærri en í gamla kerfinu strax og verðbólgan fer á hreyfingu.

Þá er ég ekki viss um að hvernig skattbyrðin dreifist á mismunandi launþega í samræmi við tekjur þeirra sé sanngjarnt eða hvort hún gæti ekki öllu heldur verið sanngjarnari, svo að ég orði það þannig. Við höfum látið kanna ýmsar leiðir. M.a. höfum við athugað hvaða áhrif það hefði að breyta bæði persónuafslætti og heildarskattprósentu frá því sem liggur fyrir í frv., en þær tölur voru reyndar orðnar nokkuð ljósar á síðasta þingi. Í frv. er gert ráð fyrir að persónuafslátturinn, sem hver einstaklingur fær til frádráttar sköttum þegar búið er að reikna þá út, verði um það bil 14 700 kr., þegar búið er að reikna persónuafsláttinn út miðað við 1. des. í ár, og skattprósentan, sem einnig inniheldur útsvarið til sveitarfélaganna, hefur endað í tölunni 35,2%. Þetta þýðir ákveðinn feril skattbyrði miðað við mismunandi tekjur einstaklinga og sambýlisfólks.

Það væri hægt að hugsa sér að auka persónuafsláttinn verulega, t.d. fara með hann upp í 30 þús. kr., og auka skatthlutfallið samtímis því. Þannig höfum við skoðað mismunandi ferla fyrir skattbyrði sem fall af tekjum miðað við tölur eins og ég gat um, 30 þús. kr. í persónuafslátt og 45–48% heildarskattálagningu. Slíkir skattbyrðisferlar virðast koma mun sanngjarnar út fyrir launþega og sérstaklega lágtekjufólk því að þeir eru að því leyti frábrugðnir þeim skattbyrðarferli sem frv. gerir ráð fyrir að þar verða almennar launatekjur nánast skattlausar, skattleysismörk verða nærri 80 þús. kr. fyrir einstaklinga, en skattbyrðin eykst verulega hjá þeim sem hafa tekjur umfram við skulum segja 1,8 til 2 millj. kr. á ári. Nú er það að vísu rétt, en við höfum ekki haft nægilegar upplýsingar þó að þær liggi nú orðið fyrir í áliti milliþinganefndar, að hafa þarf inni í þessum útreikningum sem hliðarskilyrði að ríkissjóður skuli ná inn sömu skatttekjum í báðum tilvikum, þ.e. með þeim skattferli sem lagður er til grundvallar í frv. og þeim skattferlum sem við höfum verið að skoða. En þar er einmitt komið að kjarna málsins. Um árabil hafa stjórnmálaflokkarnir, a.m.k. sumir hverjir, lofað því að almennar launatekjur skuli verða skattlausar. En ég er ansi hræddur um að með staðgreiðslukerfinu takist að loka fyrir þann möguleika í eitt skipti fyrir öll. Ég er hræddur um að við eigum aldrei eftir að heyra framar í kosningabaráttunni loforð sem þessi, að launamannaskatturinn skuli burt. Einkum hefur Sjálfstfl. verið duglegur við að lofa þessu í undanförnum kosningum og hafa þeir tekið ýmis heljarstökkin til að reyna að sýna kjósendum fram á að þetta markmið hafi náðst. Það er hins vegar víðs fjarri að þetta markmið hafi náðst. Eftir sem áður verða miðlungs launatekjur með töluvert þungri skattbyrði.

Við höfum lagt fram brtt. við frv. í hv. Nd. og við höfum leyft okkur að endurflytja þessar brtt. við frv. í hv. Ed. Langar mig til að greina í örstuttu máli frá þeim hugmyndum sem liggja til grundvallar brtt.

Okkur þótti í fyrsta lagi að 2. gr. frv., þar sem er verið að fjalla um gjafir til líknarstofnana og ýmissa annarra stofnana sem gætu orðið skattlausar, væri dálítið illa orðuð þannig að það væri ekki alveg ljóst hvernig ætti að túlka hana. En þetta er ekki mikið ágreiningsmál af okkar hálfu.

Hins vegar höfum við lagt til viðamikla breytingu á 5. gr. þar sem við leggjum til að persónuafsláttur færist óskertur milli maka. Þetta á ekki síst við þegar um er að ræða að annar makinn sjái um heimilið og hinn makinn um að afla allra tekna fyrir heimilið. Þar teljum við rétt og skynsamlegt að persónufrádráttur þess makans sem ekki hefur neinar atvinnutekjur færist óskertur yfir til hins makans sem aflar teknanna.

Nú er okkur tjáð að þetta kosti ríkið of mikið þannig að það sé alveg fráleitt að gera þetta. Eins og frv. gerir ráð fyrir færast 80% af ónýttum persónuafslætti makans til þess maka sem hefur allar tekjurnar. Það mun vera allt of dýrt að færa þennan persónuafslátt yfir að fullu. Það skal viðurkennt að við höfum ekki látið reikna þetta út, enda gerum við ekki ráð fyrir því að þessar brtt. okkar verði samþykktar, en þær eru samt settar hér fram í þeim tilgangi að vekja menn til umhugsunar. Ég er ekki í nokkrum vafa um að á næsta þingi munum við eiga eftir að slást við staðgreiðslufrv. einu sinni enn vegna þess að þá koma í ljós alls kyns agnúar og ambögur sem mönnum hafa yfirsést. Þá liggur reynslan fyrir eftir eitt ár og ég er ekki í nokkrum vafa um að við þurfum enn á ný að taka til við að lagfæra lög nr. 75 frá 1981, um tekju- og eignarskatt, með síðari breytingum, og lagfæra ýmsa þá agnúa sem kunna að koma í ljós þegar reynslan kemur fram.

Þá höfum við lagt til að það verði alvarlega hugsað um að foreldrar njóti barnabóta og barnabótaauka fyrir börn sem eru á heimili þeirra allt fram til 18 ára aldurs. Þetta er í samræmi við þá þjóðfélagsbreytingu, sem er að eiga sér stað núna seinni árin, að börn og unglingar dveljast lengur á heimilum en var fyrir við skulum segja 10–15–20 árum. Þetta er vegna þess að húsnæðisvandamál ungs fólks eru orðin svo gífurleg að ungt fólk reynir að vera eins lengi heima og það getur. Það er eðlilegt vegna þess að 16–18 ára unglingar eiga ekkert heimangengt. Þeir geta hvergi fengið húsnæði sem er viðráðanlegt fyrir þá. Það segja allir sem ég hef talað við að það sé sameiginleg reynsla þeirra að börnin dveljast nú orðið lengur á heimilum en var fyrir svo sem 10–15 árum. Þarna hefur orðið mjög merkileg breyting sem ég tel að stafi af því að húsnæði er orðið svo miklu, miklu dýrara en var áður. Þess vegna væri ekkert á móti því að láta heimilin njóta góðs af þessu, enda er það ljóst að börn eru lengur á framfæri fjölskyldna sinna en var áður.

Þá höfum við lagt til, reyndar var það tillaga sem hv. 5. þm. Reykv. Albert Guðmundsson, þáv. fjmrh., beitti sér fyrir, að fólk sem er að ljúka starfsævi sinni þyrfti ekki að greiða skatta af síðasta starfsári sínu. Í staðgreiðslukerfinu er ekki gert ráð fyrir þessu því þeir sem eru að ljúka starfsævi sinni greiða staðgreiðsluskatt af síðustu tekjum sínum. Ég sé ekki að það sé neinn munur þarna á. Hvort menn greiða skattinn eftir á eða þeir greiða hann samtímis því að þeir afla teknanna síðasta starfsárið skiptir í mínum huga ekki meginmáli. Ég tel þess vegna, og við höfum lagt fram brtt. þar að lútandi, að maður sem er að ljúka starfsævi sinni eigi rétt á því að fá endurgreiddan þegar greiddan tekjuskatt síðustu tólf mánuði fyrir starfslok.

Ég þykist vita að viðbrögð stjórnarliða verði með þeim hætti að þetta sé allt of dýrt og komi ekki til greina. Gott og vel. Við því er ekkert að gera. En ég vonast þá til þess að menn hugsi um þessar hugmyndir og velti þeim fyrir sér því eins og ég gat um er alveg ljóst að við þurfum áreiðanlega að taka til við að gera ýmsar breytingar á þessum sömu lögum á næsta haustþingi.