22.12.1987
Neðri deild: 37. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3142 í B-deild Alþingistíðinda. (2213)

Vinnuálag á Alþingi

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég harma að hafa fengið mjög ófullkomið svar. Við vorum hér fram eftir síðustu nótt, höfum verið á næturfundum áður þannig að það er farin að safnast þreyta bæði í menn í þessari deild og í Alþingi almennt. Ég var aðallega að tala um starfsfólkið þó ég leiddi mína fsp. með því að byrja á því að tala um þm., en þeir eru minna virði en starfsfólkið í þessu tilfelli. Það kemur ekki bara okkur við hvað skeður í Ed. Það er sama starfsfólkið fyrir þessa deild og Ed. Fyrir utan að það eru forsetafundir sem taka ákvarðanir um gang mála og dagskrár Alþingis. Hæstv. forseti þessarar deildar getur ekkert vísað því frá sér að svara hvað þessi deild ætlar að bæta á vinnu starfsfólksins sem er í störfum fyrir þessa deild núna og hefur verið í vinnu samfleytt frá því það vaknaði til vinnu í gærmorgun. Þetta er ekkert gamanmál, ef hæstv. iðnrh. er að gefa mér eitthvert sérstakt merki með því að brosa til mín þegar ég spyr. Þetta er ekkert gamanmál og ég óska eftir því að forseti svari öðruvísi og betur en hann gerði.