22.12.1987
Neðri deild: 37. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3146 í B-deild Alþingistíðinda. (2221)

Vinnuálag á Alþingi

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Með vísan til þeirra orða sem fallið hafa frá hv. þm. stjórnarandstöðunnar um að enn væri vilji til samkomulags um að greiða fyrir þingstörfum vildi ég í allri vinsemd koma á framfæri hugmynd sem felur í sér að greiða fyrir gangi mála en tryggja jafnframt að þeir þm. sem lifað hafa andvökunótt fái nokkra hvíld fyrir afgreiðslu fjárlaga. Mín hugmynd væri einfaldlega sú, sem ég leyfi mér að koma á framfæri við forseta, að við gengjum nú til þess verks að heimila framsögu fyrir tveimur óafgreiddum málum í deildum, þ.e. fyrir lánsfjárlagafrv. í hv. Nd. og tekju- og eignarskattsfrv. í Ed., en það gæti hugsanlega tryggt að hv. þm. fengju þó ekki væri nema fjögurra tíma hvíld fyrir afgreiðslu fjárlaga. Ég hreyfi þessari hugmynd og kem henni á framfæri við hæstv. forseta í því skyni að það gæti orðið til að greiða fyrir framgangi mála en tryggja fólki a.m.k. einhverja lágmarkshvíld.