22.12.1987
Neðri deild: 37. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3147 í B-deild Alþingistíðinda. (2223)

196. mál, söluskattur

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Mér þykir mjög slæmt ef fjmrh. getur ekki verið hér. Ég var búin að óska eftir því að hann yrði það. Hann mun vera að mæla fyrir tekjuskatti í Ed. þannig að ég veit ekki hvernig maðurinn getur verið á tveim stöðum í einu. (Gripið fram í.) Já, ég veit það, en ég var búin að óska eftir því að hann yrði hér þegar ég talaði. Ég veit ekki hvernig á að leysa þetta vandamál. (Forseti: Við getum að sjálfsögðu gert hlé þangað til fjmrh. hefur lokið sinni ræðu. Ef það hins vegar nægir ræðumanni gæti ég kallað í forsrh., sem líka ber ábyrgð á málinu, og mun ég skjóta því til ræðumanns hvort hún getur átt við hann orðastað á meðan hæstv. fjmrh. lýkur ræðu sinni.) Ég vildi helst að hæstv. fjmrh. yrði hér meðan ég talaði vegna þess að það kemur beint inn á hans verksvið sem ég ætla að ræða, en get alveg beðið. (Forseti: Þá bíðum við á meðan og ég geri fjmrh. aðvart. — Það hefur komið fram að hæstv. fjmrh. er enn þá að mæla fyrir frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt, en viðskrh. hefur tjáð að hann muni taka niður spurningar til hans og ég beini því til hv. ræðumanns hvort það nægi til að hann geti haldið áfram máli sínu.)

Ég ætla að óska eftir því til að tefja ekki lengur að hæstv. samgrh. muni þá koma því það varðar örlítið samskipti samgrh. og fjmrh. sem ég ætlaði aðeins að koma inn á líka. Ég mun þá hefja mál mitt. Ég mun gera hlé á máli mínu það þegar þar að kemur. Er hann í húsinu? (Forseti: Hæstv. samgrh. er ekki í húsinu, en það munu verða gerðar ráðstafanir til að aðvara hann um að hans sé óskað við þessa umræðu.) Ég mun þá hefja mál mitt í trausti þess að viðskrh. muni koma þeim boðum til fjmrh. sem ég hef fram að færa.

Herra forseti. Ég þarf varla að taka fram að við kvennalistakonur erum ákaflega mikið á móti þeim matarskatti sem hér hefur verið mikið talað um og ætla ég ekki að endurtaka öll þau rök sem mæla gegn honum. Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir gerði ágæta grein í gær fyrir afstöðu Kvennalistans í þessu máli þannig að ég ætla ekki að halda langa ræðu um það og tel slíkt óþarfa á þessu stigi málsins.

Tilgangurinn með frv. er sagður vera að gera innheimtu söluskatts einfaldari, skilvirkari og réttlátari. Ef litið er á fyrsta atriðið, einföldun, virðist ekki vera vafi hjá hæstv. ríkisstjórn að það sé mjög einföld aðgerð að setja söluskatt á matvæli. Í afhugasemdum með frv. því sem hér er til umræðu stendur á bls. 6, með leyfi forseta:

„Matvæli verða á ný að fullu söluskattsskyld. Það er staðreynd að engin aðgerð hefur grafið jafnmikið undan framkvæmd söluskatts og afnám söluskatts á matvælum gerði á sínum tíma.“

Af þessu mætti halda að mestu söluskattssvik væru tengd sölu matvara, alla vega að dómi hæstv. ríkisstjórnar, en ef gluggað er aðeins í skýrslu fjmrh. um störf nefndar sem kannaði umfang skattsvika og lögð var fyrir Alþingi hinn 18. apríl 1986, stendur þar á bls. 9, með leyfi forseta, þar er um að ræða samandregnar niðurstöður:

„Niðurstaða starfshópsins er sú að umfang dulinnar starfsemi hérlendis sé á bilinu 5–7% af vergri landsframleiðslu. Ef miðað er við 6% , sem er meðaltal, nemur það um 6,5 milljörðum kr. árið 1985 miðað við áætlaða verga landsframleiðslu.“

Og aðeins síðar: „Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar og matsnefndarinnar eru mestar líkur fyrir dulinni starfsemi og skattsvikum í eftirtöldum greinum, raðað eftir áhættustigi: a. byggingarstarfsemi.“

Ég ætla ekki að lesa meira um það, en ég tek fram að verslunin er síðust í upptalningunni í þessari röðun.

Vegna þess að svo virðist sem mestu skattsvikin séu einmitt í byggingarstarfsemi samkvæmt þessari skýrslu mætti halda að það hafi verið sérstaklega tekið á þar til að einfalda skattheimtu í þeirri grein. En ef við lítum aðeins nánar á undanþágur sem veittar eru frá söluskatti í 3. gr. frv., kafla B, þar sem upp er talin sú starfsemi og þjónusta sem undanþegin er söluskatti, þá er þar í 1. tölul., með leyfi forsefa:

„Vinna manna við húsbyggingar og aðra mannvirkjagerð svo og við endurbætur og viðhald slíkra mannvirkja.“ — Þetta er það sem er undanþegið. — „Á þetta við um hvers konar mannvirki og skiptir ekki máli hver lætur vinnuna í té. Undanþágan tekur einvörðungu til vinnu á byggingarstað en ekki til vinnu við framleiðslu eða aðvinnslu byggingarvara í verksmiðju, verkstæði eða starfsstöð.“

Því hefur verið haldið fram af þeim sem eitthvað þekkja þessi mál að einmitt það atriði sem þarna stendur valdi miklu eða alla vega að þar séu miklir möguleikar til undandráttar. Ég veit ekki sjálf hversu mikil brögð eru að því, en því er haldið fram að þeir sem vinna t.d. á byggingarstað eða vinna að mannvirkjagerð telji sig vinna meiri hlutann af öllu, sem gert er, á byggingarstað þó svo sé alls ekki í raun. Þetta veldur ákveðnum ruglingi og er síður en svo til einföldunar að hafa þetta ákvæði eins og þarna er. Ég er ekki að segja að ég geti bent á neina góða leið til að koma í veg fyrir þetta, en þetta er a.m.k. ekki mikil einföldun. Þar sem það er tekið sérstaklega fram í þeirri skýrslu sem ég vitnaði til áðan að mestu undanskotin séu í byggingarstarfsemi mætti líta betur á þetta atriði og reyna að einfalda úr því að sá er tilgangurinn með þessu frv.

Lítum aðeins nánar á 4. gr. frv. þar sem talið er upp það sem fjmrh. er heimilt að fella niður eða endurgreiða söluskatt af. Það var kannski ekki síst út af þessari grein sem mig langaði sérstaklega til að fjmrh. væri staddur hér. Það var líka einmitt vegna þessa liðar sem mig langaði til að samgrh. væri hér. Ég spyr forseta hvort samgrh. sé kominn í húsið. (Forseti: Hann er ekki kominn í húsið, en það er búið að aðvara hann þannig að hann mun vera væntanlegur. En ég skal ganga frekar úr skugga um hvenær hans er von.) Mál mitt verður ekki langt. Ég verð að treysta á að viðskrh. komi einnig boðum til hans. Ég vil ekki tefja allt of lengi. En það sem mig langaði til að vekja sérstaka athygli á er í 10. lið í 4. gr. frv., sem verður þá 7. gr., þar sem eru talin upp þau atriði sem fjmrh. er heimilt að fella niður. Þar sem búið er að skamma fjmrh. svo mikið fyrir frv. langar mig þó til að lýsa ánægju minni með þetta atriði. Það eru að koma jól og hann verður að fá eitthvað jákvætt.

Mig langar til að beina því til fjmrh. að hann noti þessa heimild til að fella niður söluskatt eða endurgreiða — ég veit ekki hvort hann telur einfaldara, hann verður að finna það sjálfur út — búnað til notkunar við leitar- og björgunarstörf úr sjávarháska. Ég tel þetta ákaflega mikilvægt atriði. D-liður 10. liðar hljóðar svo, með leyfi forseta: „Flot- og björgunarbúningum, sem viðurkenndir eru af Siglingamálastofnun, til notkunar um borð í skipum.“ Þetta er það sem ráðherra er m.a. heimilt að veita undanþágu fyrir. Ég vek athygli á þessum lið vegna þess að í sjónvarpsfréttum, í ríkissjónvarpinu, fimmtudaginn 17. desember, var fjallað um öryggisbúninga og í fréttinni var talað um öryggisbúninga sem seldir hafa verið í Danmörku og eru stórhættulegir fyrir þá sem þá nota. Þar var m.a. talað um að sex manns hefðu beinlínis látist vegna notkunar á þessum búningum. Því var lýst þannig í fréttinni að ef búningarnir voru í vatni tóku þeir svo mikið vatn í sig að þeir sukku undan sínum eigin þunga. Þarf ekki að spyrja að því ef fólk væri í búningunum hversu þungir þeir yrðu þá. Það var talað um í þessu tilfelli í Danmörku, sem var held ég frá því 1982, þegar sex menn dóu, að þeir hefðu verið svo þungir að það þurfti þrjá menn til að lyfta þeim upp úr sjónum af því að búningarnir voru svo þungir.

Ég hef haft spurnir af því að þessir búningar væru líka til sölu á Íslandi og væri búið að selja þá hér í tvö til þrjú ár. Ég ætlaði einmitt að beina því til fjmrh. og þá um leið samgrh., sem er yfirmaður Siglingamálastofnunar, að sjá til þess að fjmrh. veiti ekki undanþágu frá söluskatti vegna slíkra búninga og að samgrh. sjái til þess að svona búningar séu ekki seldir hér á landi. Núna er kannski fólk að kaupa búninga í tilefni jólanna er til að gefa ástvinum sínum í jólagjöf. Ef þessir búningar eru til sölu hér vona ég að það sé ekki með vitund Siglingamálastofnunar. Það þarf ekki að hafa fleiri orð um hversu hættulegt og hversu sorglegt þetta getur verið ef það er rétt, sem ég held að þessir búningar séu seldir í verslunum hér.

Það var einmitt þetta sem ég vildi sérstaklega koma til þeirra tveggja í fullri vinsemd og benda á að þarna verður að fara sérstaklega varlega þegar verið er að ræða um öryggisbúnað.

Ég sé það að hæstv. samgrh. hefur ekki komist í tæka tíð þannig að ég ætla að ljúka máli mínu núna en vonast til þess að hæstv. viðskrh. komi þeim boðum til bæði fjmrh. og samgrh. sem ég hef beint til þeirra.