22.12.1987
Neðri deild: 37. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3150 í B-deild Alþingistíðinda. (2224)

196. mál, söluskattur

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég veiti því athygli að hér er annar fundur í gangi og ég sé ekki ástæðu til að ræða málin á meðan. (Forseti: Forseti var truflaður augnablik og missti af orðum hv. þm.) Ég sagði að ég sé og heyri að það er hér annar fundur í gangi þannig að ég sé ekki ástæðu til að hefja ræðu mína. (Forseti: Ég vil biðja hv. þingdeildarmenn að láta af samtölum hér innan dyra svo friður gefist til ræðuhalda í hv. deild.) Já, ég vænti þess að það verði sæmileg kyrrð yfir, ekki síst þar sem skammt er í jólahátíðina og menn væntanlega að komast í hátíðaskap, einnig hér innan veggja á hv. Alþingi, þó ástandið sé með nokkuð óvanalegum hætti í aðdraganda jólanna.

Ég hlýt, vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram um þetta frv. og þess utan í tengslum við önnur mál, virðulegur forseti, að vekja athygli á hvernig mál eins og þetta hefur borist inn í þingið, hvaða ráðrúm við höfum haft undanfarna daga til að taka á hverju stórmálinu á fætur öðru. Ég hef fyrir framan mig útskrift yfir þingmálin og vil nefna ein átta þingmál, hvenær þau eru lögð fram. Það er í fyrsta lagi frv. um launaskatt, það kom inn í þingið 24. nóv., frv. um tekjuskatt og eignarskatt þann 4. des., um gildistöku staðgreiðslu opinberra gjalda sama dag, 4. des., um stjórn fiskveiða, mál sem hefur verið til umræðu í sólarhring í hv. Ed., það kom inn þann sama dag 4. des., frv. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þann 10. des., frv. um söluskatt, sem hér er til umræðu, þann 9. des. og frv. um vörugjald og tollalög, sitt hvort frv., þann sama dag. Af þessu yfirliti mega menn ráða hvernig aðstæður eru hér til þingstarfa og um hvað við höfum þurft að fjalla hér síðustu 10–15 dagana, aðallega þó á einni viku. Það er ekki með góðri samvisku sem maður gengur hér til afgreiðslu mála miðað við þann örstutta tíma sem er til að skoða þau og ég hygg að sú umræða sem hér hefur farið fram um málin beri þess nokkur merki að þm. eru áhyggjufullir út af starfsháttum og meðferð einstakra mála.

Ég ætla hér að ræða fyrst og fremst frv, um söluskatt og ýmislegt í tengslum við það og ég vildi óska eftir því, virðulegur forseti, að hér verði viðstaddir hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. Ég treysti mér ekki til að halda áfram máli mínu nema þessir hæstv. ráðherrar séu hér viðstaddir því ég þarf að beina máli mínu til þeirra. Það þjónar ekki tilgangi að vera að endurtaka það þannig að ég óska eftir nærveru þerra. (Forseti: Hæstv. forsrh. er viðstaddur, en hins vegar mun ég koma orðum til fjmrh., hvort hann geti vikið hingað yfir, þó ég viti að hann sé við umræður í Ed. Ég mun gera ráðstafanir til þess.) Ég þakka, virðulegur forseti, og ég mun eitthvað halda áfram máli mínu og við munum þá athuga þegar ég kem sérstaklega að þáttum sem ég vil beina til hæstv. fjmrh., og þeir eru reyndar allmargir, hvort hann verður ekki kominn í þingsal. Ég vildi biðja virðulegan forseta að greina hv. 10. þm. Reykv. Guðmundi G. Þórarinssyni frá því að ég mun aðeins víkja máli til hans vegna ræðu sem hann flutti um daginn. Ég geri að sjálfsögðu enga kröfu um að þm. sé viðstaddur, en finnst eðlilegt að hann fái um það vitneskju. (Forseti: Ég mun greina hv. 10. þm. Reykv. frá því.)

Það hafa komið fram undanfarna daga margar yfirlýsingar frá hæstv. ráðherrum og vegna þess að hæstv. forsrh. er viðstaddur er rétt að ég komi aðeins að hans þætti í þeim efnum sem tengist þeim tekjuöflunarfrv. og kerfisbreytingum í fjáröflun ríkisins sem eru til umræðu. Hæstv. forsrh. tók þátt í umræðu í gær, ég man ekki hvort það var í umræðu um söluskatt eða í þingskapaumræðu, en hann fjallaði þar um tilboð sitt til að breyta því frv. sem hér er rætt, frv. um söluskatt, á þann veg að breyting yrði á álagningu á söluskatti á fisk til neyslu. Ekki kom sú útfærsla nákvæmlega fram, en það kom fram á fundi, sem hefur verið rætt um hér í umræðunum og hæstv. forsrh. ásamt fleiri forustumönnum úr ríkisstjórnarliðinu átti með stjórnarandstöðunni sl. sunnudag, að þar bauð hæstv. forsrh. einhverja breytingu á þessum þætti fyrirliggjandi frv. Við hlýddum síðan á hæstv. ráðherra lýsa því yfir í sjónvarpi sama kvöld að það hefði komið fram tilboð af sama tagi við verkalýðshreyfinguna eða talsmenn hennar þann sama dag og um það hefur verið rætt hér að það sé nokkuð sérkennilegt að hæstv. ríkisstjórn með forsrh. hæstv. í fararbroddi sé að sýna á kort af þessu tagi á tveimur vígstöðvum í senn í von um að bitið sé á agn af þessu tagi. Hæstv. ráðherra tók það fram í umræðu í gær að það hafi ekki verið ætlunin að blanda sér inn í kjarasamninga heldur yrði um einhliða ákvörðun að ræða, en hins vegar hafði hann talið rétt að ígrunda, ég held að hann hafi notað þá sögn, „að ígrunda“, hvort ákvörðun um breytingu á álagningu söluskatts á neyslufisk gæti greitt fyrir starfi í þingsölum.

Þessi tilboð hæstv. fjmrh, eru með því sérstæðara sem fram hefur komið í þrátefli sem hér hefur verið undanfarna daga í sambandi við mál og tengjast þeirri lotu sem fram undan er hjá ríkisstjórninni, að því er hæstv. ráðherrar boða að gera hér efnahagsráðstafanir en reyna jafnframt að stuðla að samningum á vinnumarkaði.

Ég held að sú samningatækni sem þarna er viðhöfð sé ekki vænleg af hálfu hæstv. ríkisstjórnar til að skila miklum árangri. Ég ætla ekki að fara að gefa þessum samningum eða samningaviðleitni hæstv. forsrh. neina nýja einkunn eða nýtt heiti. Hann notaði orðið „vöruskiptaverslun“ og neitaði því að um slíkt væri að ræða.

En ég vek athygli á því, virðulegur forseti, og vænti að boð hafi komist til hv. 10. þm. Reykv. (Forseti: Ég hef sent honum boð.) Er þm. í húsinu? (Forseti: Hann er í húsinu, já.) Þá teldi ég nú rétt að doka við í eina mínútu eða svo og vita hvort hv. þm. kemur í þingsal svo ég þurfi ekki að endurtaka mál mitt er hann birtist.

Ég sé, virðulegur forseti, að hv. 10. þm. Reykv. er genginn í þingsal. Það er af kurteisi við hann að ég óskaði eftir nærveru hans þannig að hann vissi að ég ætlaði aðeins að víkja orði að máli hans í gær í umræðu um frv. það sem hér er rætt. Það tengist tilboðum hæstv. forsrh. til stjórnarandstöðu, til aðila á vinnumarkaði. Það upplýstist í ræðu hv. 10. þm. Reykv. að það væri þriðji vettvangurinn þar sem þetta tilboð hefði átt að hrífa, um að breyta álagningu söluskatts á neyslufiski. Þessi þriðji aðili er þingflokkur Framsfl. eða a.m.k. hluti þess þingflokks. Þetta kom skýrt fram í ræðu hv. 10. þm. Reykv. því að hann greindi frá því að það hefðu verið þungar áhyggjur í þingflokki framsóknarmanna út af verðhækkunum, eins og hv. þm. sagði, ekki aðeins á fiski heldur einnig á brauði, og þess vegna hefði viðtalið við hæstv. forsrh. í sjónvarpi sl. sunnudagskvöld orðið sér sérstakt gleðiefni. Þarna er þriðji aðilinn sem hæstv. forsrh. er að tala til með þessum annars óútfyllta víxli sínum, þ.e. einn af þremur samstarfsaðilum í ríkisstjórn.

Hv. 10. þm. Reykv. taldi að hér væri um mjög mikilvægt atriði að ræða og hér væri komið til móts við þær sterku raddir sem hafa verið innan þingflokks Framsfl. að þessu leyti þannig að hæstv. forsrh. er í gervi huggarans á mörgum vígstöðvum í senn eins og sjá má af þessu. (Forsrh.: Hefur hann nokkuð á móti því, hv. þm.?) Nei, en þetta er afskaplega athyglisverð samningatækni, svo notað sé orð sem þekkt er á vinnumarkaði og hæstv. forsrh. kannast við. En þetta var ekki upplýst, þessi þriðja „addressa“ var ekki upplýst fyrr en hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson greindi frá áhyggjum þingflokks framsóknarmanna og hvernig menn hefðu kippst við, hvernig hjarta þeirra hefði tekið kipp þegar þeir heyrðu í hæstv. forsrh. í sjónvarpi. Má nú segja að ekki þarf mjög mikið á þeim bæ til huggunar og ekki virðist vera að menn standi þar fast í ístaðinu þegar verið er að semja um málin á vettvangi ríkisstjórnar, hvað þá þegar þingflokkar eru að fjalla um málin, og kemur það út af fyrir sig ekki mjög á óvart þar sem Framsfl. er annars vegar því að honum reynist það afskaplega hægt og auðvelt að tala tveimur tungum. Það er hans eðli. Hæstv. forsrh. veit það og hann notfærir sér það. En samstarfsaðilar í ríkisstjórn hafa mátt reyna þessa náttúru, þetta eðli Framsfl. óspart að undanförnu, m.a. í formi yfirlýsinga í fréttamiðlum fyrir utan þau orð sem falla á þingi.

En hv. 10. þm. Reykv. sagði eitt sem ég held að sé nauðsynlegt að árétta ef það hefur farið fram hjá hæstv. forsrh., hann sagði eitt til viðbótar, þannig að huggarinn á stjórnarheimilinu geti haft það í huga næst þegar hann kemur á sjónvarpsskjáinn og fjallar um söluskattinn. Það var eitthvað á þessa leið af vörum hv. 10. þm. Reykv.: Brauðið er reyndar eftir. Fiskurinn er kominn að mati hv. þm., enda búið að heita því af hæstv. forsrh., en brauðið er reyndar eftir og eftir er að sjá hvort leiðir finnast varðandi það líka. (Forsrh.: Hv. þm. hefur ekki minnst á leikina.) Hæstv. forsrh. er með eitthvert innskot og kannski ég ætti að víkja aðeins úr ræðustól og leyfa honum að blanda sér í umræðuna með beinum hætti. Ég hefði ekkert á móti því, virðulegur forseti, alls ekkert. (Forseti: Þess verður ekki farið á leit. Ég vil aðvara þingdeildarmenn og minna þá á að hv. ræðumaður hefur orðið.) Ég hef, virðulegur forseti, síst á móti því að eiga orðastað við hæstv. ríkisstjórn meðan ég stend í ræðustól því það er ekki svo auðvelt að fá hæstv. ráðherra til að taka mikinn þátt í umræðum, efnislegum, um þessi mál.

En það er sannarlega orð að sönnu hjá hv. talsmanni Framsfl. í þessari umræðu, 10. þm. Reykv., að það er margt tilfinnanlegt sem tengist þeim söluskatti sem leggst á matvörur í landinu og þar er brauðið eftir og margt, margt fleira.

Hv. þm. gat um eitt atriði til viðbótar og það er kannski svolítið minna mál þannig að hæstv. forsrh. gæti haft það í huga ef hann ætlar ekki að spila stórt út gagnvart þingflokki Framsfl. næst. Það er atriði sem stjórnarandstaðan flutti um brtt. í hv. Ed., þættir eins og heilsurækt af ýmsu tagi og kvikmyndir o.fl. Hv. 10. þm. Reykv. nefndi heilsuræktina sérstaklega.

Já, ég nefndi það, virðulegur forseti, að Framsfl. kæmi kannski ekkert á óvart upp á síðkastið, en kveðjurnar sem gengið hafa fram frá hæstv. utanrrh., sem er nú utan þings þessa dagana en hér situr varamaður hans, hafa verið í snarpara lagi, þær yfirlýsingar sem fram hafa komið af hálfu hæstv. forsrh. Nægir í því sambandi að vísa til viðtals sem birtist við hæstv. utanrrh. laugardaginn 19. des. sl. þar sem hæstv. ráðherra í rauninni afneitar efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar næstum „en gros“, næstum í heild sinni. Hann munar ekkert um það, hæstv. ráðherra, að gefa þær yfirlýsingar þann 19. des. eftir að það var í Morgunblaðinu, líklega 5. des., á þessari gleðistundu sem rann yfir ríkisstjórnina og eigum við ekki að ætla landslýðinn líka, þann 5. des., að menn lásu í Morgunblaðinu um samkomulag ríkisstjórnarinnar um skatta- og tollabreytingar sem hér liggja fyrir. Þá tók sig til hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., sem er afbragðs túlkandi stefnu þess flokks með tvær tungur uppi þegar henta þykir, og greindi frá því, sem er svolítið á skjön við það sem hv. 10. þm. Reykv. sagði okkur hérna, að það væru miklar og þungar áhyggjur í þingflokki Framsfl. út af fiski, út af brauði, út af heilsurækt og hver veit hverju, en þetta kemur eftir að hæstv. utanrrh. lýsir yfir eftirfarandi, með leyfi virðulegs forseta, í Morgunblaðinu 5. des. sl. Þar er eftir honum haft svo látandi:

„Steingrímur Hermannsson utanrrh. sagðist vilja leggja á það verulega áherslu að full samstaða væri á milli stjórnarflokkanna um þessi mál, en enginn vafi léki á að hægt væri að finna að ýmsum atriðum þegar svona mikilvægar breytingar væru gerðar. Í heild væru þó langtum fleiri atriði til bóta og ýmsir agnúar hefðu verið sniðnir af í meðferð þessara mála síðustu daga.“

Og einnig segir hæstv. utanrrh. við blaðamann Morgunblaðsins: „Steingrímur sagðist jafnframt vilja leggja á það áherslu að enn væru í söluskattskerfinu fjölmargar undanþágur sem ekki hefði tekist að ráða við og yrði ekki fyrr en með virðisaukaskattinum. Þar væri enn þá margt ógert sem ríkisstjórnin muni taka á á næsta ári.“

Nú veit ég ekki hvort þessi upplestur úr Morgunblaðinu á orðum hæstv. utanrrh. hefur orðið til hugarléttis fyrir hv. 10. þm. Reykv. sem var í ræðu sinni í gær að lýsa áhyggjum þingflokks framsóknarmanna ofan í þær gildu yfirlýsingar, þær ákveðnu yfirlýsingar sem formaður flokksins, hæstv. utanrrh., gaf þegar stóra stundin rann upp 4, eða 5. des. og ríkisstjórnin gerði samkomulag um skatta- og tollabreytingar sem síðan hefur snjóað yfir Alþingi á dögum sem síðan eru liðnir.

En það má segja að vinarþelið á ríkisstjórnarheimilinu sé með nokkuð svipuðum hætti og verkstjórnin á Alþingi undir forustu hæstv. forsrh. sem auðvitað er sá sem er þar við stýrið fyrst og fremst. Hnúturnar ganga á milli, ekki aðeins varðandi söluskatt heldur varðandi aðra þætti eins og vextina, eins og vaxtamálin sem rædd voru í gær, m.a. ítarlega af hv. þm. Stefáni Valgeirssyni sem mælti margt skynsamlegt í þeim efnum. Þar skortir ekki yfirlýsingarnar og þær ganga dálítið á víxl.

Við minnumst merkrar stefnuræðu hæstv. forsrh. á Alþingi í októbermánuði síðla. Þar sagði forsrh. fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar um vaxtamálin sem eru eitt helsta afrek fyrri ríkisstjórnar og boðað var sem þáttaskil í Íslandssögunni af hæstv. forsrh. í ágúst 1985 þegar frjálsræðið var innleitt í vaxtamálum á Íslandi. Og hæstv. forsrh. hnykkti á í stefnuræðu sinni með svofelldum orðum um þetta efni, með leyfi virðulegs forseta:

„Ákvörðun um að heimila bönkum og sparisjóðum að ákveða eigin vexti í ágúst 1984“ — Ég hef farið áravillt, hæstv. forsrh., ef þetta er rétt ártal hér. Ég bið velvirðingar ef svo er sem trúlegt er. — „var fyrsti áfangi á braut frjálsræðisþróunar á peninga- og lánsfjármarkaði hér á landi. Síðan hefur hver áfanginn rekið annan í átt til aukins frjálsræðis á þessu sviði. Þessi grundvallarbreyting hefur verið mikilvæg forsenda vaxtar í þjóðarbúskap okkar Íslendinga.“

Þetta segir hæstv. ráðherra í stefnuræðu sinni í október sl. varðandi vaxtamálin og væri nú gott ef hæstv. viðskrh. að fjmrh. fjarverandi vildi vera viðstaddur til að bera á milli þau efni sem að þessu snúa, að þeim sem flytur hér inn í þingið frv. til l. um söluskatt sem tengist að sjálfsögðu verðþróunarmálum í landinu.

En hæstv. utanrrh. er ekki aldeilis á sama máli og forsrh. í þessu efni því hann segir í Tímanum sl. laugardag, hæstv. utanrrh., virðulegur forseti, ég vona að ég hafi leyfi til að vitna til orða formanns Framsfl.:

„Ég vil því segja að núna þegar það virðist vera orðið almennt viðurkennt að raunvextir hér á landi séu allt upp í þriðjungi til tvöfalt hærri en gerist í nágrannalöndum okkar, eins og kom glöggt fram í yfirlitinu í Tímanum, þá held ég nú að menn hljóti að fara að viðurkenna að svona getur ekki gengið. Þetta mun ríða fjölmörgum fyrirtækjum að fullu og getur ekki gert annað en að blása mjög í glóðir verðbólgunnar. Ég er því ósammála því, sem kom fram hjá viðskrh. Jóni Sigurðssyni, að menn ættu nú að bíða og sjá til hvort þetta markaðslögmál virki. Ég er ansi hræddur um að menn bíði of lengi og skaðinn verði orðinn of mikill. Ég legg á það áherslu að þeir sem með peningamálin fara geri strax tillögur til ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til þess að draga úr vaxtamun bankanna og draga úr þessu raunvaxtaokri sem er að drepa hér annað hvert fyrirtæki.“

Þetta segir formaður Framsfl., maðurinn sem var í forsæti þeirrar ríkisstjórnar sem innleiddi þessa vaxtaokurstefnu, sem tók þær ákvarðanir sem leitt hafa til þeirrar dæmalausu vaxtaokurstefnu sem hér ríkir og er einsdæmi í Evrópu a.m.k.

Og hvað skyldi svo ganga eftir? Ætli þetta sé bara eitt af þessum áhyggjuópum sem hæstv. utanrrh. er að flytja út úr þingflokksherbergi Framsfl. til að hugga menn þar, hugga þingflokkinn sinn, að hann hafi nú nefnt þetta í Tímanum 19. des., geti vísað til þess, bent á að hann sé ekki sammála hæstv. viðskrh. Jóni Sigurðssyni í vaxtamálum. Það skyldi nú ekki vera. Eða meinar Framsfl. nokkurn skapaðan hlut með því sem forustumenn hans eru að segja? Er ekki bara á ferðinni þessi gamla saga, þessi alþekkta saga, hvernig Framsfl. leikur það af talsverðri list og nokkurri reynslu að mæla tveimur tungum og meina í rauninni ekkert með því hvort er nú reynt að tala til vinstri eða til hægri. Aðalatriðið er að miðjumoðið blífi.

Hæstv. viðskrh. vill doka við og sjá til enda þessarar þróunar, hvort það gerist nú ekki eins og hann og seðlabankastjóri, Jóhannes Nordal, hafa trú á, að það komi sú stóra stund á Íslandi að markaðslögmálin hvað snertir fjármagnskostnað fari að virka á Íslandi. Ég spyr hæstv. viðskrh. og fjmrh. og ekki síst hæstv. forsrh.: Hvað ætla þeir að bíða lengi? Hefur það verið tímasett? Er það út næsta ár? Er það til loka kjörtímabilsins sem þeir ætla að doka við og sjá hvort vaxtamarkaðslögmálin fari ekki að virka og það fari að slá á eftirspurn eftir lánum á Íslandi vegna þeirrar vaxtastefnu sem hér er rekin og þeir hafa trú á að verði til að hamla eftirspurn eftir lánsfé og draga úr þenslu.

Ég komst ekki hjá því, virðulegur forseti, að nefna þessi atriði í tengslum við þetta mál vegna þess að allt er þetta ein samvafin heild, þessi efnahagsstefna þessarar ríkisstjórnar. (Forseti: Ég vil geta þess við hv. ræðumann að ég sagði í upphafi fundar að við mundum gefa fundarhlé um það leyti sem fundi í Ed. lyki og ráðgast þá þingforsetar og jafnvel formenn þingflokka um áframhaldið. Nú er fundi lokið í Ed. og mun ég gefa hv. ræðumanni færi á því, ef hann er með einhver kaflaskipti í ræðu sinni, að ljúka máli sínu á örfáum mínútum en síðan verður gefið fundarhlé til kl. hálftvö.) Já, virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þau skilaboð og ég vil nota mér það að gera þáttaskil í ræðu minni og taka fáeinar mínútur í viðbót sem snerta þau einkennilegu skilaboð sem fara fram ekki aðeins hér í umræðum á Alþingi heldur ekki síður á síðum stjórnarmálgagnanna, málgagna ríkisstjórnarinnar, milli hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni varðandi efnahagsmál og þau frv. sem við erum að ræða á Alþingi. Það skal ekki þurfa að vera mjög langt og ég bið virðulegan forseta að spara ekki að gefa mér merki ef hann telur að mál sé að fresta fundi því að ekki ætla ég að hafa á móti því að menn taki sér hlé. (Forseti: Ég hafði hugsað mér að fresta fundi um tólfleytið þannig að það er heimilt að halda áfram ræðunni að sjálfsögðu.) Já.

Nýjast af nálinni, virðulegur forseti, í þeim sérkennilegu skilaboðum sem ganga á milli hæstv. ráðherra í ríkisstjórn kemur fram sl. sunnudag í Morgunblaðinu og kann þó að vera að blöð dagsins, þessa þriðjudags, hafi ný boð að flytja, en ég hef ekki haft tóm til að fara í gegnum þau. En þar talar hæstv. fjmrh., sem enn er fjarri góðu gamni, og nú spyr ég virðulegan forseta: Er hæstv. fjmrh. ekki í seilingarfjarlægð eða kallfæri? Varla er hann bundinn við umræðum í Ed. lengur. (Forseti: Ég vil upplýsa að við munum hafa misst hæstv. fjmrh. úr húsinu. Ég mun láta ganga úr skugga um það.) Já, en hæstv. viðskrh. situr hér stilltur og prúður og ég treysti honum fyllilega til að færa á milli þær athugasemdir sem ég ætlaði að gera hér því ég vil síst verða til að tefja þingstörfin á þessum annasömu dögum.

En þetta snertir þær yfirlýsingar sem er að finna í máli hæstv. fjmrh. í Morgunblaðinu sl. sunnudag. Morgunblaðið greinir frá því eftir að hafa gefið þessu fyrirsagnir með svofelldum orðum. Virðulegur forseti. Ég vitna í Morgunblaðið:

„Fjmrh. sagði í ræðu á Alþingi aðfaranótt fimmtudags að ástandið væri þannig nú að það kallaði á umtalsverðar efnahagsaðgerðir. Þegar Morgunblaðið spurði fjmrh. hvað hann ætti við sagði hann að síðan ákvarðanir voru teknar á miðju sumri um t.d. að frysta hluta af uppsöfnuðum söluskatti vegna sjávarútvegs hefði efnahagsástandið snúist til hins verra og nú væri ljóst að bæta þyrfti starfsskilyrði atvinnuveganna og sérstaklega fiskvinnslunnar.“

Og áfram segir ráðherrann samkvæmt Morgunblaðinu: „Jón Baldvin sagði að þáttur í lausn þessa vanda væri traustur ríkisfjárhagur en einnig þyrfti að koma böndum á fjármagnsmarkaðinn og koma á hóflegum raunvöxtum.“

Hér stoppa ég tilvitnun í Morgunblaðið. Það er tvennt hérna, virðulegur forseti, að endurskoða þyrfti bindingu eða frystingu eins og það er kallað á uppsöfnuðum söluskatti vegna sjávarútvegs. Við vorum að ræða þetta efni fyrir helgina, við vorum að ræða um launaskatt á sjávarútveginn og við vorum að ræða um uppsafnaðan söluskatt á fiskvinnsluna og við gengum á hæstv. ráðherra hvort það væri nú ekki ráð að breyta til, doka við, og við greiddum atkvæði gegn þessum launaskatti á fiskvinnsluna. En hæstv. ráðherra, sem tók loks til máls í þessu máli, gaf ekki á því nokkurn kost. Síðan kemur hann fram í Morgunblaðinu og fer að viðra þá hugmynd, sennilega gagnvart fiskvinnslunni, að þarna sé kannski pínulítið agn sem þeir ættu nú að athuga, talsmenn fiskvinnslunnar, en segir svo síðar í sama viðtali, dregur í land, því það er verið að veifa þessu agni ekki bara gagnvart fiskvinnslufyrirtækjunum heldur gagnvart launafólki, Verkamannasambandi Íslands. Og í þriðja lagi segir ráðherrann: En það má ekki raska jafnvægi í ríkissjóði því það er lykillinn að þessu.

Hér eru á ferðinni mjög svipuð og áþekk vinnubrögð og hjá hæstv. forsrh. í sambandi við söluskatt á fiski. Það er talað til margra átta í senn. Verið að sýna eitthvert agn og aðilum er ætlað að bíta á það. Í þessu tilviki kemur fjmrh. og heldur lokinu yfir sínum ríkissjóði áfram, en segir: Ég er hérna með uppsafnaðan söluskatt. Hann gæti kannski hjálpað eitthvað í fiskvinnslunni. Hann gæti kannski hjálpað í sambandi við þá kjarasamninga sem fram undan eru. Hvers konar ríkisstjórn er þetta? Hvers konar vinnubrögð eru hér á ferðinni? Ráðherrarnir eru að veifa plöggum, en það er ekki nokkur leið að greina hverjum merkið er ætlað, nema það er ljóst að það er ætlað mörgum í senn. Þetta sýnir ráðleysi sem ríkir á ríkisstjórnarheimilinu og það sýnir þann pólitíska vanda sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir vegna innra sundurþykkis og ósamkomulags sem endurspeglast í endurteknum stórum yfirlýsingum einstakra ráðherra, hnútum hver í annan á síðum málgagna ríkisstjórnarinnar og svo leikflétta af því tagi sem hér er á ferðinni af hálfu hæstv. forsrh. og ég hef vitnað til og hæstv. fjmrh. og gjarnan má hæstv. utanrrh. fylgja með í þeirri upptalningu.

En svo er það, virðulegur forseti, aðeins ein ábending inn í þetta einkennilega púsluspil til viðbótar. Ég þarf ekki að minna hæstv. viðskrh. á hvernig hv. þm. Árni Gunnarsson reynir að skapa sér fríspil í Alþfl. í sambandi við vaxtastefnuna sem viðskrh. afneitar jafnóðum. Ég ætla ekki að gera mikið úr því. Það er viðlíka eins og þegar hv. 10. þm. Reykv. er að tala um að nú sé brauðið eftir og að það þurfi að fá breytingar á því. En það er eitt stærra atriði sem ég vil nefna og það tengist húsnæðismálunum.

„Einnig kæmi til greina að hætta að binda ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna í byggingarlánasjóðum ríkisins. Ef það fé færi án skuldbindinga á fjármagnsmarkaðinn mundi framboð á lánsfé aukast og vextir minnka.“

Hann sagði síðan að endurskipuleggja þyrfti verðbréfamarkaðinn sem nyti ýmissa forréttinda umfram bankakerfið.

Hvað er hér á ferðinni? Við vorum að afgreiða sl. laugardag, virðulegur forseti, í þessari deild svokallað húsnæðisfrv. sem alþýðuflokksmenn hafa verið að reyna að gera að einhverjum tíðindum en öllum er að verða ljóst að er í rauninni afskaplega lítið mál og leysir ekkert þann vanda sem við er að fást í húsnæðislánakerfinu. En svo kemur yfirráðherra fjármálanna, hæstv. fjmrh., með þau skilaboð til hæstv. félmrh. væntanlega í gegnum þetta viðtal að það komi vel til greina að hætta að binda ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna í byggingarlánasjóðum ríkisins. Hvað er hér á ferðinni? Er þetta ætlun ríkisstjórnarinnar í alvöru? Eru menn búnir að gefast upp á því verkefni að semja við lífeyrissjóðina? Er það bara farið? Það virðist eins og enginn hafi tekið eftir þessum orðum hæstv. fjmrh. í víðlesnasta blaði landsins. Er það vegna þess að ráðherrar eru orðnir svo marklausir á Íslandi að tíðindi af þessu tagi þykja ekki lengur fréttnæm, að hætta að binda fjármagn lífeyrissjóðanna í byggingarsjóðum ríkisins þó menn hafa verið að veifa einhverjum lausnum framan í 10 000 umsækjendur sem bíða eftir lánum? Nei, það er hrein ráðgáta hvernig menn ætla að sigla áfram og það er best að hafa kaflaskilin þar, virðulegur forseti. — [Fundarhlé.]