22.12.1987
Neðri deild: 37. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3158 í B-deild Alþingistíðinda. (2226)

Jólakveðjur í neðri deild

Forseti (Jón Kristjánsson):

Síðan fundi var frestað höfum við forsetar og formenn þingflokka rætt saman. Það hefur verið ákveðið, þar sem sýnt er að umræðum um söluskatt lýkur ekki á þessum fundi, að slíta nú þessum fundi og það verði hlé fram að fundum í sameinuðu þingi sem hefjast væntanlega upp úr kl. hálfþrjú þegar umræðum lýkur í Ed. Þá hefst 3. umr. fjárlaga. Það verður því ekki fleira gert á þessum fundi og þetta er auk þess síðasti fundur sem haldinn verður í þessari hv. þingdeild fyrir jólahelgina.

Af því tilefni vil ég leyfa mér að þakka hv. þingdeildarmönnum gott samstarf það sem af er þingtímanum. Ég þakka varaforsetum og skrifurum mikilsverða aðstoð við mig við fundarstjórn. Skrifstofustjóra Alþingis og öllu starfsfólki þingsins þakka ég vel unnin störf þessa annasömu daga. Hv. þingdeildarmönnum og starfsfólki Alþingis óska ég gleðilegra jóla, farsæls nýárs og ég vona að við hittumst öll heil þegar Alþingi tekur til starfa aftur eftir hlé nú að lokinni jólahelginni.