22.12.1987
Sameinað þing: 37. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3159 í B-deild Alþingistíðinda. (2230)

1. mál, fjárlög 1988

Frsm. meiri hl. fjvn. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur nú lokið störfum fyrir 3. umr. fjárlaga fyrir árið 1988. Nefndin hefur á sínum síðasta fundi, sem haldinn var fyrir 30 mínútum, afgreitt formlega tillögu um skattvísitölu sem verður ný 7. gr. í frv., svo og tillögur um viðbót við heimildagrein frv., 6. gr. Þessum tillögum ásamt örfáum öðrum mun verða dreift í sérstöku þskj. sem er nú verið að ljúka við prentun á.

Þá hefur nefndin einnig á sínum síðasta fundi nú afgreitt tillögu ríkisstjórnarinnar um endurgreiðslu söluskatts á neyslufiski, svo og tekjuöflun í því skyni. Sú heildarafgreiðsla mun auka útgjöld fjárlaganna um 30 millj. kr. Þessar afgreiðslur hefur nefndin þegar gert og munu þær tillögur verða lagðar fram á hinu háa Alþingi innan örfárra mínútna, en tillögurnar eru nú í ljósritun eins og ég áður sagði.

Tillögur þær sem frá fjvn. berast og ég mæli fyrir að þessu sinni eru á þrem þskj. Fyrst eru það brtt. við 3. gr. fjárlaganna, tekjugreinina, og eru þær tillögur frá meiri hl. fjvn. og prentaðar á þskj. 394. Á sama þskj. frá meiri hl. fjvn. eru prentaðar brtt. við 5. gr. fjárlagafrv., þ.e. brtt. er varða rekstur svokallaðra B-hluta stofnana. Þessum tillögum tengjast ákvarðanir um gjaldskrárbreytingar sem nánari grein verður gerð fyrir síðar í framsögu.

Á þskj. 395 eru síðan brtt. sem fjvn. stendur öll að og eru það brtt. við 4. gr. frv., þ.e. við útgjaldahliðina, svo og við 6. gr. frv., heimildagreinina. Varðandi þessar tillögur ber að taka fram að fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjvn., sem standa að brtt. á þskj. 395, áskilja sér að sjálfsögðu rétt til þess að flytja aðrar brtt. en þar koma fram svo og að fylgja öðrum brtt. sem kunna að koma fram frá öðrum hv. þm. við 3. umr.

Þá flytur nefndin sameiginlega brtt. á þskj. sem enn hefur ekki verið útbýtt og veit ég því ekki þingskjalsnúmerið og eins flytur meiri hl. nefndarinnar brtt. um skattvísitölu, um nýja 7. gr., sem einnig er á leiðinni, sem ekki hefur enn verið gefið þingskjalsnúmer, en ég vona, hæstv. forseti, að til að spara tíma verði mér veitt heimild til að mæla fyrir þessum brtt. öllum í þessari framsöguræðu, enda á ég von á að umræddum tveimur þskj., sem nú er verið að ljósrita, verði útbýtt meðan á ræðu minni stendur.

Það yfirlit yfir tekjur og gjöld sem ég gef hér á eftir í ræðu minni er miðað við að tillögur fjvn. svo og tillögur meiri hl. fjvn. á öllum þeim þskj. sem ég hef hér getið um verði samþykktar.

Áður en tekið er til við að gera grein fyrir einstökum brtt. fjvn. og meiri hl. nefndarinnar og áhrif þeirra skýrð vil ég í örfáum orðum endurtaka þakkir mínar, sem ég viðhafði í 2. umr. í garð samnefndarmanna minna í fjvn., bæði meirihlutamanna og fulltrúa stjórnarandstöðu. Samstarfið í fjvn. hefur verið gott og fundastörf gengið greiðlega. Einnig vil ég þakka ritara nefndarinnar, starfsfólki hagsýslu, starfsfólki Ríkisendurskoðunar, starfsfólki í Þórshamri og í Alþingishúsinu, en allt þetta fólk, sem unnið hefur með fjvn., hefur lagt sig fram um að veita nefndarmönnum aðstoð og greiða götu þeirra.

Eins og að vanda lætur kom forstjóri Þjóðhagsstofnunar til fundar við fjvn. fyrir 3. umr. fjárlaga og lagði fyrir nefndina endurskoðaða tekjuáætlun fjárlagafrv. fyrir árið 1988, en þá endurskoðun hafði Þjóðhagsstofnun unnið í samráði við fjmrn. að beiðni fjvn. Þessi endurskoðun náði annars vegar til áætlana um tekjur ríkissjóðs á árinu 1987 í ljósi nýjustu upplýsinga um innheimtu tekna á síðustu mánuðum og hins vegar til tekjuáætlunar fyrir næsta ár vegna breytinga sem ákveðnar hafa verið og fyrirhugaðar eru á tekjuöflun ríkissjóðs. Inn í þær breytingar hafa verið metin áhrif þeirra breytinga sem Alþingi hefur nú þegar gert á þeim þáttum, sérstaklega um breytta verkaskiptingu, sem áhrif hafa á niðurstöðutölu fjárlaga. Þannig hafa útgjöld til tónlistarfræðslu verið hækkuð í tillögum fjvn. um 52 millj. kr. og greiðslur í Jöfnunarsjóð lækkaðar um sömu upphæð vegna þeirrar ákvörðunar sem felst í tillögum félmn. Nd. Alþingis um frestun á því að kostnaður við tónlistarfræðslu færist alfarið af ríkissjóði og yfir til sveitarfélaganna. Hin endurskoðaða tekjuáætlun byggist því á þeim afgreiðslum sem framast er nú vitað að Alþingi muni hafa á tekjuöflunarfrv. hæstv. ríkisstjórnar svo og þeim frv. öðrum, eins og varðandi breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem tengjast afgreiðslu fjárlaga. Að öðru leyti byggist tekjuáætlun Þjóðhagsstofnunar og fjmrn. á forsendum þjóðhagsáætlunar sem lögð var fram á sama tíma og fjárlagafrv. í október um almennar efnahagshorfur á næsta ári.

Það má teljast til nýmæla við fjárlagaafgreiðslu nú að þegar fyrir 2. umr. fjárlaga gerði Þjóðhagsstofnun fjvn. grein fyrir bráðabirgðaáætlun um endurskoðaða tekjuhlið fjárlaganna, en þá kom fram að ýmislegt benti til þess að endurskoða þurfi sumar forsendur þjóðhagsáætlunar sem fjárlagafrv. byggir á. Í greinargerð Þjóðhagsstofnunar til fjvn. frá 12. des. sl., sem rakin var við 2. umr. fjárlaga, var sérstaklega tekið fram í þessu sambandi að horfur væru á meiri viðskiptahalla á næsta ári en spáð hafði verið og enn fremur er auðvitað ekkert vitað nú fremur en þá um innihald launasamninga annarra en þeirra sem þegar hafa verið gerðir við opinbera starfsmenn. Einnig liggur enn ekki fyrir afgreiðsla Alþingis á lögum um stjórn fiskveiða þannig að enn sem komið er verður ekkert fullyrt um hvaða áform verða um fiskafla á næsta ári. Eins og frá var skýrt við 2. umr. fjárlaga hefur sú ákvörðun að sjálfsögðu mikil áhrif á helstu þætti í þjóðarbúskapnum.

Eins og fram kom þegar við 2. umr. fjárlaga vinnur Þjóðhagsstofnun nú að endurskoðun þjóðhagsáætlunar, en telur sér ekki fært að ljúka henni fyrr en eftir áramót þar sem svo mikilvægar forsendur þjóðhagsspár eru enn óráðnar. Gefur auga leið að ekki er hægt að ljúka slíkri endurskoðun fyrr en fyrir liggja öruggar upplýsingar um ýmsa þá þætti sem ég hef þegar nefnt, svo sem eins og launamál og ákvarðanir um heildaraflamagn. Svo miklu máli skipta þessar efnahagsstærðir í spá um afkomu þjóðarinnar að til lítils er að ljúka endurskoðun a þjóðhagsáætlun fyrr en meira er vitað en nú.

Eins og raunar kom fram þegar fyrir 2. umr. hafa orðið verulegar breytingar á tekjuáætlun fjárlagafrv. sem lagt var fram í október. Þær breytingar tengjast að sjálfsögðu ákvörðun ríkisstjórnarinnar um gerbreytingar á öllum mikilvægustu tekjustofnum ríkisins svo og þeim hliðarráðstöfunum, svo sem eins og hækkun barnabóta og ellilífeyris, sem ríkisstjórnin hyggst grípa til í því skyni að bæta kjör hinna lægst launuðu og barnafólks í landinu. Ég vek hins vegar athygli á því að ekki er nú um stórvægilegar breytingar að ræða ef miðað er við bráðabirgðatölur þær um endurskoðaða tekjuáætlun sem kynntar voru fjvn. þann 12. des. sl. og gerð var grein fyrir við 2. umr. fjárlaga.

Breytingar frá bráðabirgðatölunum sem kynntar voru fyrir 2. umr. og til hinnar endanlegu áætlunar sem lögð var fram nú eru svo óverulegar að mér kemur satt að segja á óvart að sjá í blöðum umfjöllun um hina endurskoðuðu tekjuáætlun eins og um einhverjar nýjar fréttir væri að ræða. Meginniðurstaðan hefur þegar komið fram og á henni hafa litlar breytingar orðið. Einu breytingarnar eru hækkun óbeinna skatta um samtals 320 millj. kr. þar sem verulegur hluti eða allt að 200 millj. kr. skýrist af auknum hagnaði af Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, en í viðræðum við fjvn. milli 2. og 3. umr. lét forstjóri stofnunarinnar þess getið að rekstrarútkoma ársins 1987 hjá stofnuninni benti ótvírætt til þess að hagnaður ÁTVR yrði á næsta ári 150–200 millj. kr. meiri en fjárlagafrv. gerði ráð fyrir. Á þeim upplýsingum stofnunarinnar sjálfrar byggjast áformin um aukinn rekstrarhagnað í brtt. meiri hl.

Í þskj. 394 eru tólf tillögur frá meiri hl. fjvn. 1. till. er um breytingar á tekjugreininni, 3. gr., og eru þar raktar þær breytingar sem verða á tekjuöflunarkerfi ríkisins, annars vegar að teknu tilliti til endurskoðaðra veltumagns- og verðbreytinga og hins vegar með hliðsjón af þeim áformum sem fram koma í frv. þeim er varða tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs og breytta verkaskiptingu sem nú liggja fyrir þinginu.

Í brtt. 1 á þskj. 394 frá meiri hl. er hver skattstofn fyrir sig uppfærður með tilliti til þeirra breytinga sem ég hef rakið. Samandregin heildaráhrif eru þau hvað varðar óbeina skatta að tekjur af söluskatti hækka um 5 milljarða 427 millj. kr. Á móti þessari hækkun söluskatts kemur lækkun tolla og vörugjalds að fjárhæð 2 milljarðar 402 millj. kr. Aðrir óbeinir skattar hækka síðan um 320 millj. kr., en þar af er aukinn hagnaður af rekstri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins metinn 200 millj. kr. eins og ég sagði áður. Nettóhækkun óbeinna skatta nemur þannig skv. brtt. meiri hl. 3 milljörðum 390 millj. kr.

Beinir skattar hækka hins vegar nettó um 8 millj. kr. Skýrist það af því að eignarskattar hækka alls um 188 millj. kr. og er það eingöngu afleiðing af hækkun á fasteignamati milli ára svo og vegna bættrar innheimtu eignarskatts félaga. Tekjuskattar félaga hækka hins vegar um 140 millj. kr. vegna aukinna tekna félaga og bætts innheimtuhlutfalls, en á móti hækka barnabætur að tillögu ríkisstjórnarinnar um 320 millj. kr. þannig að tekjuskattar í heild lækka um 180 millj. kr. Í heild hækka því beinir skattar aðeins um 8 millj. kr. eða úr 8 milljörðum 247 millj. kr. skv. fjárlagafrv. í 8 milljarða 255 millj. kr. skv. niðurstöðum í tillögum meiri hl. fjvn. Á móti þessari hækkun skatta koma svo, eins og áður hefur verið bent á, stóraukin framlög til niðurgreiðslna svo og hækkaður ellilífeyrir, auk hækkunar barnabóta sem þegar hefur verið á minnst.

Verði brtt. meiri hl. fjvn. á þskj. 394 við 3. gr. samþykktar verða heildartekjur ríkissjóðs í fjárlagafrv. fyrir árið 1988 áætlaðar 63 milljarðar 91 millj. kr. sem er hækkun frá framlagningu frv. að fjárhæð 3 milljarðar 528 millj. kr. eða um 5,9%.

Miklar umræður hafa orðið á Alþingi sem annars staðar um þau tekjuöflunaráform sem felast í fjárlagafrv. og fylgifrv. þess. Auðvitað er það ljóst að í þeim áformum felst nokkur aukin skattheimta frá yfirstandandi ári, enda urðu tekjur ríkissjóðs á því ari lægra hlutfall af landsframleiðslu en gert var ráð fyrir, einkum og sér í lagi vegna mikils launaskriðs og veltubreytinga sem orðið hafa.

Miðað við óbreyttar aðstæður hefðu gjöld ríkisins í fjárlögum ársins 1988 orðið um það bil 8 milljörðum kr. umfram tekjur. Slíkur hallarekstur hefði ekki aðeins verið með öllu óviðunandi heldur í senn ábyrgðarlaus og stórhættulegur. Ríkisstjórnin tók því þá ákvörðun að stefna að hallalausum ríkisbúskap á árinu 1988. Það segir sig sjálft að án mjög verulegra kerfisbreytinga í ríkisrekstrinum, meiri kerfisbreytinga en aðstæður voru til að fá framkvæmdar á nokkrum mánuðum, hefði ekki verið unnt og verður ekki unnt að ná niður slíkum umframútgjöldum með niðurskurðinum einum saman.

Reynt hefur verið af fremsta megni að halda í við útgjaldaáform og draga saman seglin í rekstri ríkisins og stofnana þess eins og framast hefur verið unnt, eins og marka má af því að fjölmargir aðilar í þjóðfélaginu, bæði innan veggja Alþingis og utan, eru sáróánægðir með þær niðurstöður um fjárveitingar til framkvæmda og viðfangsefna sem felast í þessu fjárlagafrv. Slíkur niðurskurður getur þó einn alls ekki jafnað 8–10 milljarða mun á útgjöldum og tekjum miðað við óbreyttar aðstæður og var því ekki um annað að ræða og verður ekki um annað að ræða, ef menn vilja koma í veg fyrir hallarekstur á ríkissjóði, en að bæta nokkuð tekjur ríkisins og hefur það verið gert.

Það er hins vegar mikill misskilningur að með þessum áformum sé stefnt í miklu meiri skattbyrði og hærri skattlagningu hlutfallslega en fordæmi séu fyrir. Miðað við bráðabirgðatölur um verðlag vergrar landsframleiðslu að teknu tilliti til veltu- og verðlagsbreytinga, sem vitaðar eru, er líklegt að hlutfall ríkistekna af vergri landsframleiðslu, sem notuð er sem mælikvarði á skattbyrði, verði á næsta ári um 24,25%. Er það mjög svipað hlutfall og jafnvel öllu lægra en var t.d. á síðustu árum áttunda áratugarins og fyrstu árum þess níunda, en vissulega nokkru hærra hlutfall en var á yfirstandandi ári. Verði brtt. meiri hl. fjvn. við 3. gr. allar samþykktar verður heildartekjuöflun í fjárlögum því áætluð 63 milljarðar 91 millj. kr. sem er eins og áður sagði 5,9% hækkun frá þeim tölum sem voru í fjárlagafrv. þegar það var lagt fram. Það er sem sé þessi fjárhæð sem er til ráðstöfunar til útgjalda á vegum ríkissjóðs á næsta ári og fram úr þeirri fjárhæð mega áform um ríkisútgjöld ekki fara ef halda á við þau markmið ríkisstjórnarinnar að ekki verði stefnt í hallarekstur á ríkissjóði á árinu 1988.

Í fullu samræmi við þetta meginmarkmið eru útgjaldatillögur á þskj. 395 frá fjvn. miðaðar við að heildarútgjöld fari ekki fram yfir heildartekjur fjárlaganna og verði allar brtt. fjvn. á þskj. 395 samþykktar, svo og þær brtt. aðrar sem berast munu frá fjvn. og meiri hl. nefndarinnar munu heildarútgjöld fjárlaga 1988 nema 63 milljörðum 37 millj. kr. sem er nokkru minni hækkun á útgjöldum frá upphaflegu frv. en hækkuninni á tekjunum nemur. Tekjur verða þannig umfram gjöld að öllum tillögum fjvn. og meiri hl. fjvn. samþykktum að fjárhæð 54 millj. kr. sem er 27 millj. kr. betri staða en frv. gerði ráð fyrir í upphafi. Því til viðbótar er þess að geta að þá hafa ekki verið teknar inn í þessar tölur áhrif brtt. frá samvn. samgm., en verði þær samþykktar munu útgjöld á 4. gr. aukast um 18 millj. kr., né heldur hefur verið tekið tillit til áhrifa af tillögum formanna þingflokka sem hér hafa verið fluttar, en þær munu, ef samþykktar verða, auka heildarútgjöld ríkissjóðs um nokkrar milljónir kr. En þótt þessi atriði séu öll tekin með er ljóst að tekjur umfram gjöld við lokaafgreiðslu fjárlaga verða álíka miklar og fólust í frv. í fyrstu gerð þess og er þá að sjálfsögðu við það miðað að fleiri útgjaldatillögur en þær sem ég hef hér rætt um verði ekki samþykktar.

Þó svo að það sé bitamunur en ekki fjár þegar talað er um örfáa tugi milljóna í plús eða mínus við afgreiðslu fjárlaga með niðurstöðutölur að fjárhæð 63 milljarðar kr. er þó engu að síður ljóst að fari útgjöld ekki fram úr þessum afgreiðslum verða fjárlög ársins 1988 afgreidd án rekstrarhalla sem er meginkjarninn í þeirri stefnu sem ríkisstjórnin boðaði við framlagningu fjárlagafrv.

Frekari sundurgreining á heildargjöldum skv. tillögum fjvn. er sú að verkefni tengd landbrn. hækka þá um 642 millj. kr. samtals ef gengið er út frá fjárlagafrv. í upphaflegri gerð þess. Verkefni tengd heilbr.- og trmrn. hækka um 542 millj. kr., verkefni tengd menntmrn. um 348 millj. kr. og verkefni tengd öðrum ráðuneytum um 520 millj. kr. Ef gefið er frekara yfirlit um breytingar á útgjaldaflokkum frv. hækka launaútgjöld um 194,8 millj. kr. frá frv. og til lokaafgreiðslu verði brtt. fjvn. samþykktar og aðrar ekki, en þar er um 1% hækkun frá frv. til lokaafgreiðslu að ræða.

Önnur rekstrarútgjöld hækka út frá sömu viðmiðun um 2,6 milljarða kr. eða um 7,8%. Sértekjur lækka frá frv. í upphaflegri gerð þess um 25,1 millj. eða um 0,8%. Samtals hækka rekstrar- og tilfærslugjöld þannig um 2 milljarða 830 millj. kr. eða um 5,6%. Stofnkostnaður og viðhald hækkar hins vegar um 671,2 millj. kr. eða um 7,7%. Heildarhækkun útgjalda er þannig 3 milljarðar 501 millj. 700 þús. kr. eða 5,9%.

Enn skal minnt á að mjög stór hluti þessarar hækkunar í frv. frá upphaflegri gerð þess og til lokaafgreiðslu er vegna ákvarðana sem beinlínis tengjast tekjuöflunaráformum hæstv. ríkisstjórnar. Er þar að sjálfsögðu átt við framlög til niðurgreiðslna sem hækka um 1450 millj. kr. svo og aðrar breytingar og tilfærslur sent ákveðnar hafa verið í tengslum við önnur frv. svo sem eins og tekjustofnafrv. og verkaskiptingarfrv.

Ef þessi hækkun upp á 3,5 milljarða kr. er greind eftir uppruna erinda, en um það má að sjálfsögðu ávallt della í hvaða flokka eigi að skipa hverju erindi um sig, eru verðlags- og launaleiðréttingar upp á 215,6 millj. kr. eða 6,5% af hækkuninni. Afgreiðslur samkvæmt, tilmælum ríkisstjórnarinnar eru samtals upp á 2 milljarða 737 millj. kr. eða 78,2% af heildarhækkuninni og aðrar afgreiðslur fjvn. samtals 548,9 millj. kr. eða 16,4% af heildarhækkuninni frá frumvarpstölunni.

Sný ég mér nú að umfjöllun um brtt. eins og þær eru við 4. gr. á þskj. 395 og því þskj. sem væntanlega verður dreift síðar en ekki er enn komið fram.

1. till. varðar Alþingi og útgjöld þess. Um er að ræða tillögu um heildarhækkun á fjárlagafrv. um 45 millj. kr. Þar að auki kemur svo nýtt viðfangsefni sem er kostnaður vegna starfa umboðsmanns Alþingis. Í báðum þessum tilvikum er stuðst við skiptingu niður á viðfangsefni samkvæmt tillögum forseta Alþingis. Útgjöld vegna umboðsmanns Alþingis eru miðuð við að auk umboðsmannsins verði í starfi á næsta ári einn ritari svo og að tekið sé á leigu húsnæði til starfseminnar og keyptur búnaður. Á næsta ári mun hinn nýi umboðsmaður svo að sjálfsögðu í samráði við forseta þingsins og aðra taka stefnumótandi ákvarðanir um framtíðarskipan þessara mála.

Ástæða er til að staldra sérstaklega við staflið j í till. 1 á þskj. 395, en það er nýr liður, hönnunarkostnaður 6 millj. kr. Kom fram hjá forsetum þingsins að gerð er tillaga um 6 millj. kr. framlag til hönnunar á nýbyggingu Alþingis. Þannig segja forsetar að hægt sé að halda áfram því verki sem unnið hefur verið að á þessu ári skv. fjárlögum 1987. Gert er ráð fyrir að það fjárframlag sem nú er lagt til að ráðstafa í þessar þarfir nægi til þess að hönnunin nái því stigi sem nauðsynlegt er til þess að Alþingi geti tekið efnislega afstöðu til þeirrar tillögu sem hlaut 1. verðlaun í samkeppni um gerð og skipulag nýbyggingar fyrir starfsemi Alþingis. Eru þá teikningar komnar í það horf að skipulags- og byggingaryfirvöld geti tekið afstöðu til þeirra og gera megi kostnaðaráætlun sem Alþingi geti tekið mið af við ákvarðanatöku um hvort og hvenær hafist verði handa við byggingarframkvæmdir. Þá má ætla að lokið sé um 15–20% af heildarhönnun nýbyggingarinnar. Brtt. 2 á þskj. 395 varðar Ríkisendurskoðun og er þar um að ræða hækkun um 12,5 millj. kr. frá fjárlagafrv. Er þar um að ræða launakostnað og annan reksturskostnað, m.a. vegna nýrra verkefna Ríkisendurskoðunar sem tengist nú starfsemi Alþingis eins og áður hefur verið frá greint.

Brtt. 3 varðar jarðfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskólans og er efni tillögunnar að frá og með miðju næsta ári verði ráðinn sérfræðingur til starfa á jarðfræðistofu á sviði kaldavatnsrannsókna.

Brtt. 4 varðar Háskólann á Akureyri. Hækkun frá fjárlagafrv. er samtals að fjárhæð 15 millj. 150 þús. kr. Þegar frá fjárlagafrv. var gengið lágu ekki fyrir endanlegar tillögur um útgjöld vegna Háskólans á Akureyri sem á næsta ári mun hefja starfsemi sína. Þær tillögur bárust hins vegar fjvn. fyrir nokkru og hefur nefndin unnið sjálfstætt að skoðun þeirra tillagna. Verði brtt. nefndarinnar samþykkt mun hún gera Háskólanum á Akureyri fært að hefja eðlilega starfrækslu og starfsemi á næsta skólaári.

Brtt. 5 varðar Kennaraháskóla Íslands og er þar lagt til að samþykkt verði 1200 þús. kr. hækkun vegna sérstaks viðfangsefnis á Norðurlandi.

6. brtt. varðar tónlistarfræðslu og er til samræmis við breytingu sem gerð hefur verið á verkaskiptingarfrv. ríkisstjórnarinnar í meðferð málsins á hinu háa Alþingi.

Brtt. 7 varðar nýja starfsemi upplýsingaþjónustu stúdenta og er lagt til að 800 þús. kr. verði veitt til þessa viðfangsefnis.

Brtt. 8 tengist verkaskiptingarmálum. Felldur var niður liður í fjárlögum þar sem veittir voru styrkir m.a. til byggðasafna, en þau söfn eiga nú skv. verkaskiptingarfrv. að færast alfarið til sveitarfélaga. Inni á þessum lið voru auk byggðasafnanna nokkur önnur verkefni sem ekki færast til sveitarfélaga. Voru þau verkefni með verðlagsuppfærslu metin kosta um 3 millj. kr. á næsta ári. Jafnframt samþykkti fjvn. að leggja til 500 þús. kr. til viðbótar innan þessa verkefnis sem hluta af launakostnaði Harðar Ágústssonar sem skrifar nú byggingarsögu gamalla húsa.

Þá var í frv. inni á lið 5.01 Fasteign 8,4 millj. kr. til viðhaldsverkefna við húseign Þjóðminjasafns Íslands við Suðurgötu, en þar að auki á sama verkefnalið 2,7 millj. kr. til verndunar gamalla húsa. Fjvn. leggur til í tillögu 8 að þessi fjárhæð, 2,7 millj. kr., verði flutt út af umræddum viðhaldslið sem verði þannig sjálfstæður liður með númeri 501 og nefnist Húseign við Suðurgötu, en búinn verði til nýr liður, er heiti Verndun gamalla húsa, er fái til ráðstöfunar umræddar 3,5 millj. vegna tilfærslunnar svo og þær 2,7 millj. sem áður voru inni á viðhaldi fasteignar.

9. brtt. nefndarinnar varðar Listasafn Íslands og er þar lagt til að fjárveiting til Listasafnsins verði hækkuð um 3 millj. kr.

Brtt. 10 varðar Náttúruverndarráð og þarfnast ekki sérstakra skýringa umfram það að skv. brtt. sem þar eru lagðar til svo og öðrum tillögum sem þegar hafa verið samþykktar er gert ráð fyrir að verkefnið Sérfræðirannsóknir við Mývatn hafi til ráðstöfunar alls 8,5 millj. kr. og að hækkaðar verði nokkuð fjárveitingar til þjóðgarðsins í Skaftafelli og eru það breytingar sem óhjákvæmilegar eru bæði vegna viðhalds húsnæðis, sbr. d-lið, og vegna launakostnaðar þjóðgarðsvarðar, sbr. b-lið.

11. till. á þskj. 395 varðar Kvikmyndasjóð og er um að ræða að framlög til Kvikmyndasjóðs verði hækkuð um 20 millj. kr.

12. brtt. nefndarinnar varðar æskulýðsmál. Lagt er til að framlög til Ungmennafélags Íslands hækki um 5 millj. kr. og framlög til starfsemi KFUM og KFUK hækki upp í 1 millj. 250 þús., en í fjárlögum yfirstandandi árs var framlagið 1 millj. 50 þús. þannig að hér er aðeins um verðlagsuppfærslu að ræða, en framlagið var lækkað í fjárlagafrv. frá því sem það hafði verið í fjárlögum yfirstandandi árs.

13. brtt. nefndarinnar varðar Íþróttasamband Íslands. Leggur nefndin til að fjárveiting til þess verði hækkuð um 5 millj. kr. og er það til samræmis við þá tillögu sem nefndin gerir um hækkun á fjárframlagi til Ungmennafélags Íslands.

Brtt. 14 fjallar um tvö ný viðfangsefni. Annars vegar er tillaga gerð um 400 þús. kr. fjárveitingu til Dimmuborga í Mývatnssveit og hins vegar er tillaga gerð um byggingarframlag að fjárhæð 4,5 millj. kr. til skóla Ísaks Jónssonar.

Brtt. 15 varðar utanrrn. Þar er lagt til að framlag til viðskiptaskrifstofu á vegum ráðuneytisins hækki um 3,5 millj. kr. og jafnframt að umrætt verkefni, viðskiptaskrifstofa, verði gert að sérstöku viðfangsefni undir utanrrn.

Brtt. 16 varðar Háskóla Sameinuðu þjóðanna og er um verðlagsuppfærslu að ræða.

Brtt. 17 varðar Búnaðarfélag Íslands og er um að framlagið verði hækkað um 80 þús. kr. og er tillaga gerð um sundurliðun á þskj.

Brtt. 18 varðar Áburðarverksmiðju ríkisins. Gerð er tillaga um að framlag til hennar úr ríkissjóði verði 20 millj. kr. Í fjvn. kom fram að nauðsynlegt væri að taka rekstur verksmiðjunnar til sams konar meðferðar fyrir árið 1989 og allar líkur væru á og vilji væri til að styðja hana með sambærilegum hætti og nú er gert. Eftir það ættu ekki að þurfa að koma til sérstök framlög á fjárlögum til verksmiðjunnar þar eð hún mundi þá geta staðið alfarið á eigin fótum, en miklar breytingar hafa orðið til bóta í rekstri Áburðarverksmiðju ríkisins að undanförnu. Þessi ákvörðun um framlag á fjárlögum til Áburðarverksmiðju ríkisins tengist að sjálfsögðu ákvörðun um áburðarverð, en með þessari afgreiðslu mundi verksmiðjan standa undir rekstri sínum miðað við 21% hækkun á áburðarverði á næsta ári.

Brtt. 19 varðar viðfangsefnið Skógrækt ríkisins og er þar um tvö verkefni að ræða. Annars vegar nýjan lið, Til framkvæmda í Fljótsdal og Vallahreppi, sem gerð er tillaga um að 850 þús. kr. verði varið til. Hér er um skógræktarverkefni að ræða, en allar horfur eru á að jafnhá fjárhæð fáist úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins verði þessi till. samþykkt. Þá er lagt til í staflið b að framlag til nytjaskógræktar hækki um 3 millj. kr., en mikill áhugi er nú á að nýta sér kosti þeirrar nýju búgreinar.

20. brtt. tengist ákvörðun sem raunar er einnig verið að taka í öðru þingmáli, en það er að liðurinn Mat á landbúnaðafurðum verði sérstakur liður á fjárlögum, almenn rekstrarútgjöld, að fjárhæð 4 millj. 737 þús. kr., en að sértekjur að sömu fjárhæð fáist til viðfangsefnisins þannig að ekki er hér um útgjöld að ræða hjá ríkissjóði.

21. brtt. svo og 22. brtt. varða landgræðslu- og landverndaráætlun, en á vegum fjvn. hefur verið lögð mikil vinna í að uppreikna áætlunina til verðlags í samræmi við samþykktir Alþingis.

Tillögur 21 og 22 gera ráð fyrir að framlög hækki vegna verðlagsuppfærslunnar frá fjárlagafrv. um 38 millj. 421 þús. kr. og er nánari sundurliðun gerð í tillögunum.

Um tillögu 23 er vísað sérstaklega í sundurliðun á sérstöku yfirliti.

Tillaga 24 tengist þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að endurgreiða hluta kjarnfóðurgjalds til þess að ekki verði veruleg röskun á verðhlutfalli milli svokallaðs hvíts kjöts og eggja annars vegar og kindakjöts hins vegar vegna mikillar aukningar á niðurgreiðslum á því síðar nefnda.

Tillaga 25 er um uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir.

Tillaga 26 er um að safnliðurinn Landbúnaðarmál, ýmis verkefni, verði hækkaður um 450 þús. kr., en þessum lið mun fjvn. skipta með bréfi síðar eins og venja er.

Tillaga 27 varðar Bændaskólann á Hvanneyri. Þar er lögð til hækkun um samtals 1,5 millj. kr.

Tillaga 28 varðar Bændaskólann á Hólum og er þar lögð til hækkun um samtals 1,8 millj. kr. Tillaga 29 er um söluskatt í sjávarútvegi. Þar er ekki gerð tillaga um hækkun endurgreiðslu heldur um að sama afgreiðsla verði viðhöfð og síðast, að liðurinn Útflutningsráð Íslands komi sérstaklega þar inn með 30 millj. kr. fjárveitingu af samtals 350 millj. kr. endurgreiðslufjárhæð. Er þessi tillaga gerð að tilmælum sjútvrn.

Brtt. 30 varðar vinnuhælið að Litla-Hrauni og er þar gerð tillaga um 500 þús. kr. hækkun á viðhaldsfé.

Tillaga 31 er um lækkun sértekna á vegum skipulagsstjóra um 12 millj. kr. Er það tillaga ríkisstjórnarinnar sem fjvn. hefur gert að sinni.

Tillaga 32 varðar málefni fatlaðra. Er þar alls staðar um verðlagsuppfærslu að ræða, en hvergi í tillögum fjvn. er gert ráð fyrir neinni fjölgun á stöðum í sambýlum á vegum fatlaðra eins og frá var skýrt við 2. umr. fjárlaga. Engin breyting er gerð þar á.

Tillaga 33 varðar Sólheima í Grímsnesi. Að fengnum tillögum félmrn. gerir fjvn. tillögu um 950 þús. kr. hækkun á framlaginu til Sólheima. Er sú hækkun einvörðungu ætluð til að greiða leigukostnað vegna tveggja húsa fyrir vistfólk sem félmrn. hefur samþykkt. Stofnun þessi á hins vegar við mikla rekstrarörðugleika að etja og umtalsverðan rekstrarhalla. Eru mál hennar nú í sérstakri skoðun og ljóst er að huga verður að breytingum á starfsháttum stofnunarinnar sem og annarra sólarhringsstofnana. Er það mál í vinnslu hjá félmrn.

Tillaga 34 varðar lífeyris- og slysatryggingar á vegum Tryggingastofnunar ríkisins.

Tillaga 35 er um 600 þús. kr. hækkun á fjárveitingum til landlæknisembættisins.

Tillaga 36 varðar rekstrarvanda endurhæfingarstöðvar Sjálfsbjargar á Akureyri, en um nk. áramót verður samansafnaður rekstrarhalli á stofnuninni orðinn um 9 millj. kr. Verður að gera sérstaka könnun á málefnum þessarar stofnunar í þeim tilgangi að finna á þeim framtíðarlausn. Er hér gerð tillaga um að veittar verði 3 millj. kr. á fjárlögum sem greiðsla upp í umræddan rekstrarafgang.

Tillaga 37 varðar yfirstjórn mannvirkjagerðar á Landspítalalóð og er um að fjárveiting til K-byggingar á fjárlögum verði hækkuð um 20 millj. kr. Yfirstjórn mannvirkjagerðarinnar hefur lagt málefni K-byggingar fyrir nefndina og einnig hefur nefndin rætt við stjórnarnefnd ríkisspítala um sama mál. Í málflutningi forsvarsmanna byggingarframkvæmda hefur komið fram að nokkuð skortir á að takast megi að hefja lækningar með nýjum búnaði og tækjum. Þá hefur yfirstjórn mannvirkjagerðarinnar einnig lagt sérstaka áherslu á undirbúning og fyrstu framkvæmdir við innréttingu á þeim hluta sem þegar er risinn og til stefnumörkunar við framhald framkvæmda við þetta þýðingarmikla hús. Þessi tillaga um 20 millj. kr. viðbótarframlag til K-byggingar er gerð með hliðsjón af því að fjmrh. muni nýta á þessu ári lánsfjárheimild þá sem ráðherranum var veitt við síðustu fjárlagagerð vegna framkvæmdar við K-byggingu.

Tillaga 38 varðar 800 þús. kr. hækkun á framlagi til heilsugæslustöðva og tillaga 39 er um að nýr liður komi inn undir Heilbrigðismál, ýmis starfsemi. Nefnist sá liður Réttargeðlækningar og er gerð tillaga um 250 þús. kr. fjárveitingu til þessa viðfangsefnis.

Tillaga 40 er um að veittur sé 700 þús. kr. styrkur til Samhjálpar hvítasunnumanna. Er sá styrkur ætlaður til stuðnings við miklar framkvæmdir sem Samhjálp hvítasunnumanna stendur nú í varðandi endurnýjun vistheimilisins í Hlaðgerðarkoti.

Tillaga 41 varðar Stórstúku Íslands og er þar lögð til hækkun að fjárhæð 220 þús. kr.

Tillögur 42, 43, 44 og 45 varða skipulagsbreytingar í tollamálum.

Tillaga 46 varðar samgrn. og er um 240 þús. kr. hækkun sem heimili ráðningu ritara á árinu. Tillaga 47 varðar Póst- og símamálastofnunina og er um 14,3 millj. kr. hækkun í almennan rekstur, en nánar verður rætt um Póst- og símamálastofnunina þegar rætt verður um B-hluta stofnanir hér á eftir.

Herra forseti. Mér hafa nú borist þau tvö þskj., þskj. 429 og þskj. 430, sem ekki lágu fyrir þegar ég hóf mína ræðu og vegna þess að ég er að ræða um Póst- og símamálastofnunina vil ég vekja athygli á því þegar þessum þskj. hefur verið dreift, ef þeim hefur ekki þegar verið dreift, að í fyrra þskj. frá meiri hl. fjvn. eru villur þar sem fjallað er um Póst-og símamálastofnunina og útgjöld og tekjur hennar. Þær villur hafa engin áhrif á sjálfa niðurstöðuna heldur er aðeins um talnaleiðréttingar innbyrðis að ræða þannig að ég fer þess á leit, herra forseti, ef það samrýmist þingsköpum, að því sem segir í þskj. 430 um Póst- og símamálastofnun verði skotið inn í staðinn fyrir það sem um þá stofnun segir í brtt. meiri hl. fjvn. Það breytir engu um þá niðurstöðu sem ég kunngeri á eftir. Þarna er aðeins um að ræða villur í talnauppsetningu sem hafa komið í ljós eftir að búið er að prenta og dreifa þskj.

Tillaga 48 varðar sjóvarnargarða, en sundurliðun er á sérstöku yfirliti.

Tillaga 49 varðar flugmálastjórn og er hér aðeins um að ræða launaleiðréttingar vegna launasamninga sem gerðir voru eftir að fjárlagafrv. var samið nema hvað e-liður varðar framlag Alþjóðaflugþjónustunnar til Flugmálastjórnar.

Brtt. 50 varðar Ferðamálasjóð. Til fjvn. hafa borist erindi um rekstrarvanda nokkurra tiltekinna hótela. Fjvn. telur nauðsynlegt að erindum þessum sé sinnt, en til þess þarf meiri tíma en nefndinni gafst til að skoða málið. Leggur nefndin því til að samþykkt verði fjárveiting úr ríkissjóði, 15 millj. kr., sérstaklega í því skyni og mun nefndin gera tillögur um það til Ferðamálasjóðs hvernig með skuli fara á nýju ári.

Tillaga 51 varðar Landmælingar Íslands. Við 2. umr. var gengið nokkuð til móts við sjónarmið stofnunarinnar um nauðsyn á lækkun sértekna, en allar líkur bentu til að sértekjur stofnunarinnar hafi verið mjög verulega ofáætlaðar í fjárlögum undanfarinna ára og hefur það skapað mikla erfiðleika hjá stofnuninni. Á milli 2. og 3. umr. fékk fjvn. í hendur niðurstöður sérstakrar nefndar sem skipuð hafði verið til að skoða fjárhagsstöðu Landmælinga Íslands og gera tillögur um hvernig með skuli fara. Í nál. segir, með leyfi forseta:

„Augljóst er einnig út frá sömu forsendum að sértekjur stofnunarinnar eins og þær eru í fjárlagafrv. fyrir árið 1988 eru verulega ofmetnar og því leggur starfshópurinn eindregið til að við 3. umr. fjárlagafrv. verði sértekjur lækkaðar um 7 millj. kr. Þetta verður að telja algera forsendu fyrir nokkurn veginn óbrjáluðum rekstri Landmælinga Íslands 1988.“

Fjvn. hefur fallist að mestu á tillögur umrædds starfshóps en þó ekki að fullu og leggur til að sértekjur Landmælinga Íslands verði lækkaðar um 5 millj. kr. við þessa afgreiðslu og hefur þá lækkun sértekna stofnunarinnar alls orðið um 7 millj. kr. við fjárlagaafgreiðslu nú þegar höfð er hliðsjón af þeirri lækkun sem þegar hefur verið samþykkt við 2. umr.

52. brtt. varðar sértekjur á vegum Orkustofnunar og eru þær lækkaðar um rösklega 9 millj. kr.

Tillaga 53 varðar Orkusjóð, viðfangsefnið Sveitarafvæðingu. Í fjárlagafrv. voru 25 millj. kr. ættaðar til sveitarafvæðingar, en vegna nýrra reglna um greiðslur heimtaugagjalda er ljóst að sú fjárhæð öll mun einvörðungu ganga til þess að greiða skuldir vegna heimtaugagjalda frá árinu 1987. Leggur fjvn. því til að framlagið til sveitarafvæðingar verði nú hækkað um 15 millj. kr. þannig að eitthvert fé sé til ráðstöfunar á næsta ári til að greiða hlut kostnaðar við heimtaugagjöld sem ella mundi allur falla á notendur.

Tillaga 54 varðar síðan niðurgreiðslur á vöruverði og hefur þegar verið rætt ítarlega um það mál í þinginu.

Tillaga 55 og tillögur þar fyrir aftan eru síðan brtt. fjvn. og nýjar tillögur við 6. gr. fjárlagafrv. Ástæðulaust er að skýra þær tillögur hverja fyrir sig, þær skýra sig sjálfar, en rétt er að geta þess í sambandi við tillögur sem nefndin gerir og varða aðflutningsgjöld og söluskatt að hér eru aðeins gerðar tillögur um heimild til niðurfellingar aðflutningsgjalda og söluskatts vegna tiltekinna sérstakra viðfangsefna sem ekki eru heimildir til fyrir í viðkomandi lögum sjálfum skv. þeim frv. sem nú er verið að afgreiða um þessa tekjustofna í þinginu.

Áður en skilist er við þskj. 395 með brtt. frá fjvn. er rétt að minnast á mál sem tillögur eru ekki gerðar hér um en afgreiðslu hafa engu að síður hlotið í nefndinni þó að þær afgreiðslur séu ekki með þeim hætti að tillögur séu nú gerðar um fjárveitingar.

Í fyrsta lagi er þar um að ræða vandamál Iðnskólans í Reykjavík. Vegna þrengsla neyðist skólinn til að vísa frá stórum hópi nemenda, en Iðnskólinn í Reykjavík er eins og allir vita langöflugasti iðnfræðsluskóli landsins. Fjvn. hefur rætt málefni skólans, m.a. þær hugmyndir sem uppi hafa verið hjá forráðamönnum hans um leigu á húsnæði til kennslu sem kæmi a.m.k. til bráðabirgða í staðinn fyrir nýbyggingu. Þetta mál er ekki að fullu rætt, en nefndin hefur samþykkt að hún fari þess á leit við menntmrn. og fjmrn. að þessi ráðuneyti í samstarfi við Iðnskólann í Reykjavík og fjvn. leiti leiða til lausnar á húsnæðisvandamálum skólans sem gætu komið til framkvæmda á næsta skólaári.

Í öðru lagi hefur nefndin sérstaklega rætt vandamál í tengslum við smíði Breiðafjarðarferju. Til þess að ferjan komi að fullu gagni hið sama ár og smíði verður lokið, þ.e. árið 1989, þarf að skapa ferjunni hafnaraðstöðu á báðum endastöðvum hennar, þ.e. á Brjánslæk og í Stykkishólmi. Er nú unnið að framkvæmdum við ferjubryggjusmíði á Brjánslæk, en talið er að í Stykkishólmi þurfi að vinna mjög umtalsverðar hafnarframkvæmdir til þess að ferjan geti fengið þar varanlegt athafnasvæði. Í fjárveitingum til hafnarmála á næsta ári er ekki gert ráð fyrir slíkri framkvæmd við Stykkishólmshöfn. Nauðsynlegt er þó að taka það vandamál föstum tökum með það að markmiði að finna heildarlausn sem gæti tryggt að ferjusmíðin kæmi að tilætluðum notum. Á þskj. 430 eru nokkrar brtt. sem varða 4. gr. Þessar brtt. allar eru frá fjvn.

1. brtt. varðar hækkun á vörugjaldi. Þessa brtt. ber að lesa saman við brtt. 4 sem er um niðurgreiðslur á neyslufiski. Talið er að kostnaður við að greiða niður neyslufisk um 15% af þeim 25% sem fiskurinn mundi hækka í verði með tilkomu söluskatts muni nema 160 millj. kr. og er í brtt. 4 á þskj. 430 lagt til að sú niðurgreiðsla sé samþykkt. Brtt. 1 á sama þskj. er hins vegar um að liðurinn Vörugjald verði hækkaður um 130 millj. kr. Þetta er gert fyrst og fremst með því að leggja vörugjald á ýmsar snyrti- og fegrunarvörur, fyrir hið veikara kyn einkum og sér í lagi að ég held, en fram hefur komið í fjh.- og viðskn. og sjálfsagt í öðrum nefndum þingsins að allar líkur séu á því að hinir erlendu framleiðendur slíkra merkjavara mundu svara mikilli verðlækkun á þeim hér á innanlandsmarkaði einfaldlega með því að hækka verðið til Íslendinga þar eð þessir framleiðendur merkjavara eru ekki reiðubúnir að selja sína merkjavöru hér á landi á mun lægra verði en þeir telja eðlilegt að bjóða fyrir slíka vöru. Hér er um að ræða leiðréttingu í kjölfar þessara upplýsinga.

2. brtt. á þskj. 430 varðar Verslunarskóla Íslands. Hún fjallar um tölvunám við Verslunarskóla Íslands, en beiðni frá skólanum hefur legið fyrir fjvn. um sérstaka meðferð þessa máls. Umrætt nám hefur nú þegar verið undirbúið og allmargir nemendur hafa þegar verið innritaðir og mun tölvunámið fara af stað þegar í upphafi næsta árs. Hugmyndir hafa verið uppi um að ríkið greiddi vegna þessa náms kostnað sem samsvarar 56% hærri útgjöldum á nemanda en sá kostnaður er sem greiddur er fyrir nemanda á menntaskólastigi, en Verslunarskólinn er eins og kunnugt er einn af þeim framhaldsskólum sem útskrifa stúdenta. 56% hærri kostnaðargreiðsla á nemanda en því nemur sem greitt er fyrir nemanda á menntaskólabraut samsvarar fjárupphæð sem greidd er á nemanda við ýmsar deildir Háskóla Íslands.

Tillögur fjvn. um þetta viðfangsefni miðast við að sama greiðsla verði innt af hendi úr ríkissjóði til Verslunarskólans vegna tölvunámsins og nemur greiðslu þeirri sem innt er af hendi til skólans á nemanda í því námi öðru á vettvangi skólans sem nemendur stunda.

Þá er 3. brtt. á sama þskj. sem varðar Krabbameinsfélag Íslands. Í fjárlagafrv. er mjög mikil hækkun á framlagi til Krabbameinsfélagsins, en sú hækkun skýrist alfarið af samningi sem gerður hefur verið við Krabbameinsfélagið um tiltekin rannsóknarverkefni í krabbameinsrannsóknum og verða greiðslur inntar af hendi fyrir hverja rannsókn eins og nánar er skýrt í grg. með fjárlagafrv. Engin hækkun er hins vegar lögð til í fjárlagafrv. á öðrum greiðslum til Krabbameinsfélagsins, þar á meðal á rekstrarstyrk til félagsins sem verið hefur á fjárlögum í mörg ár. Tillaga fjvn. um 3 millj. kr. hækkun til Krabbameinsfélagsins er um að þær 3 millj. skoðist ekki sem viðbótarframlag vegna umræddra rannsókna heldur sem framlag beint til stuðnings við annan rekstur á vegum félagsins.

Herra forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir brtt. fjvn. við 4. gr. frv. svo og heildaráhrifum þeirrar breytingar á útgjöld frv. og einnig hef ég áður gert grein fyrir niðurstöðum brtt. meiri hl. fjvn. á tekjuhliðinni og samverkandi áhrifum útgjalda og tekna skv. þeim tillögum.

Þá sný ég mér aftur að brtt. á þskj. 394 við stofnanir í B-hluta. Þær brtt. eru á bls. 4, 5, 6, 7, 8 og 9 á því þskj. Ekki er ástæða til að rekja lið fyrir lið allar stofnanir í B-hluta fjárlagafrv. Þegar hefur verið rætt um Áburðarverksmiðju ríkisins og tillögur sem henni tengjast. Þá er frá því að segja að forsvarsmenn Skipaútgerðar ríkisins gengu á fund fjvn., en þeir töldu ekki liggja neinar ástæður fyrir því að fara fram á breytingar á þeim tillögum sem gerðar eru um málefni þeirrar stofnunar í fjárlagafrv. og hefur það ekki verið gert.

Eru þá þrjár stofnanir eftir sem tengjast ákvæðunum um gjaldskrá, en þær eru Póstur og sími, Rafmagnsveitur ríkisins og Ríkisútvarpið. Verða þeim stofnunum nú gerð sérstök skil.

Í viðræðum við forsvarsmenn Pósts og síma kom fram að nú stefnir í 213 millj. kr. greiðsluerfiðleika hjá stofnuninni í árslok 1987. Ástæðuna má m.a. rekja til mun meiri fjárfestinga í ár en samþykktar voru við afgreiðslu fjárlaga fyrir einu ári. Fjárfesting ársins í ár er þannig áætluð um 100 millj. kr. meiri en forsendur um framkvæmdir voru við afgreiðslu fjárlaga. Hefur stofnuninni verið skrifað af þessu tilefni og þess óskað að hún geri fjvn. skriflega grein fyrir því hvers vegna framkvæmt var fyrir svo miklu meira fé en ráð hafði verið fyrir gert. Eins og áður byggjast afgreiðslur þær sem tillaga er gerð um að gerðar verði nú á málefnum stofnunarinnar á tilteknum ákvæðum um fjárfestingar sem nema samtals 577 millj. kr.

Þess hefur verið farið á leit við Póst- og símamálastofnun að fjvn. og samgrn. fái að fylgjast reglulega með framkvæmdum á vegum stofnunarinnar þannig að tryggt sé að við framkvæmdaáform sé staðið eins og frá þeim er gengið sem forsendu fyrir þeirri ákvörðun um málefni stofnunarinnar sem hér er lögð til. Þá er staðreynd að mikillar tregðu hefur gætt í hækkun gjaldskrár Pósts og síma á undanförnum árum. Á tímabilinu frá fyrst í nóvember 1981 til fyrst í ágúst 1987 hefur gjaldskrá Pósts og síma þannig tvö og hálf-faldast á meðan lánskjaravísitala hefur ríflega fimmfaldast, launavísitalan tæplega fimmfaldast, gjaldskrá Ríkisútvarpsins sjöfaldast og gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur áttfaldast. Erfiðleikar í rekstri Pósts og síma og þröngur fjárhagur stofnunarinnar til umsvifamikilla framkvæmda og nauðsynlegrar uppbyggingar og endurnýjunar hefur takmarkast af þessu. Kemur það einnig niður á tekjumöguleikum stofnunarinnar því að forsendan t.d. undir því að stofnunin hafi mestar mögulegar tekjur af farsímakerfi eru að í umtalsverðar framkvæmdir sé ráðist á sviði radíómóðurstöðva og farsímastöðva.

Þá eru ýmsar nýjungar sem stofnunin áformar svo sem eins og þráðlaust kallkerfi, sem kostar nokkra fjármuni, en allar slíkar endurbætur og nýjungar verða að sjálfsögðu að byggjast á því að heimiluð sé eðlileg gjaldskrárhækkun hjá Pósti og síma. Þær gjaldskrárhækkanir sem reiknað er með að þurfi til að koma til að rekstur Pósts og síma standi í jafnvægi miðað við þau framkvæmdaáform sem þegar hefur verið lýst eru að meðaltalshækkun á gjaldskrá Pósts og síma verði um 20% og eru afgreiðslur meiri hl. sem leggur til að Alþingi staðfesti málefni stofnunarinnar við slíka gjaldskrárhækkun miðaðar.

Rafmagnsveitur ríkisins eiga í talsverðum greiðsluerfiðleikum, m.a. í sambandi við lánayfirtöku ríkissjóðs af fyrirtækinu í árslok 1986, en þar hafa yfirtökur lána ekki allar átt sér stað með sama hætti. Eru þau mál nú í sérstakri skoðun. Af þessum sökum m.a. hefur fyrirtækið þurft að taka bráðabirgðalán í Landsbankanum á þessu ári.

Þann 1. des. síðastliðinn hækkaði gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins um 16,8%, en Landsvirkjun hafði þá hækkað gjaldskrá sína frá og með sama tíma um 9%. Miðað við verðlagsforsendur frv. þarf ekki frekari hækkun á gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins en þegar hefur orðið til þess að dæmið gangi upp. Breytist forsendur fjárlaga um verðlag og laun þarf hins vegar að sjálfsögðu að endurskoða þetta. Þrátt fyrir það, eins og sagt er, að dæmið gangi þannig upp verður ljóst að verulegt rekstrartap verður hjá Rafmagnsveitum ríkisins á næsta ári, en það rekstrartap er samt nokkru minna en samanlagðar afskriftir hjá fyrirtækinu, en mun engu að síður valda fyrirtækinu verulegum greiðsluerfiðleikum.

Í afgreiðslum meiri hl. fjvn., sem gerð er tillaga um að staðfestar séu, er ráð fyrir því gert að tekið verði lán að fjárhæð 60 millj. kr. til línulagna niður á Krosssand á næsta ári, en það er undirbúningsframkvæmd undir það að hafinn sé flutningur á raforku til fjarvarmaveitu í Vestmannaeyjum. Til að ljúka því verki þarf auk þess að reisa háspennulínu frá Búrfelli niður á Hvolsvöll og er talið að heildarkostnaður muni nema 150–200 millj. kr. Mun þessi viðamikla framkvæmd tryggja orku til Fjarvarmaveitu Vestmannaeyja þegar framkvæmdinni lýkur, en til þess er ætlast að raforkuverðið til Vestmannaeyja nægi til að standa að fullu undir framkvæmdakostnaðinum og er þá miðað við að raforkuverðið yrði 50,5 aurar á kwst. Þar sem hér er um mjög viðamiklar framkvæmdir að ræða sem fjármagnaðar verða með lánsfé er hins vegar auðséð að þær framkvæmdir, þó endurgreiddar verði á löngum tíma í raforkuverði, muni skapa Rafmagnsveitum ríkisins erfiða greiðslufjárstöðu til nokkurrar framtíðar.

Þá er loks komið að Ríkisútvarpinu. Fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins er afar erfið í ár og eru yfirdráttarskuldir þess nú áætlaðar 115 millj. kr. auk launaskulda við ríkissjóð. Samtals munu þessar skuldir nema 240–250 millj. kr. Í lánsfjárlögum 1987 voru markaðar tekjur og aðflutningsgjöld til Ríkisútvarpsins skert að fullu, en á árinu öllu mundu þessar tekjur hafa numið 300 millj. kr. þannig að segja má að sú skerðing á tekjum sé álíka há og heildarskuldir þær eru orðnar sem myndast hafa vegna reksturs útvarpsins á yfirstandandi ári.

Með aukinni samkeppni í sjónvarps- og útvarpsrekstri hefur rekstrarstaða Ríkisútvarpsins versnað verulega. Einkum og sér í lagi kemur þetta fram í lækkun auglýsingatekna. Hlutdeild auglýsingatekna af heildartekjum Ríkisútvarpsins nam þannig 50% árið 1985, en er komin niður í 33,6% í ár. Að nokkru leyti skýrist þessi mikla lækkun af hækkun afnotagjalda á þessu ári en óbreyttri gjaldskrá auglýsinga. Þó fer ekki milli mála að það er ekki einhlít skýring heldur hafa auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins dregist verulega saman.

Í sambandi við þær afgreiðslur sem meiri hl. fjvn. gerir að tillögu sinni að gerðar séu á málefnum stofnunarinnar nú er við það miðað og um það er fullt samkomulag við stjórnendur Ríkisútvarpsins að stefna skuli að 10% raunhækkun auglýsingatekna hjá Ríkisútvarpinu á næsta ári og er það markmið sem stjórnendur Ríkisútvarpsins hafa sjálfir sett sér. Næðist sú raunaukning auglýsingatekna þarf jafnhliða 15% raunhækkun afnotagjalda á árinu 1988 að koma til og væri þá til þess ætlast að stofnunin stæði undir, auk rekstrarútgjalda á árinu 1988, þeim skuldum sem safnast hafa saman vegna rekstrarhallans á árinu 1987. 15% raunhækkun afnotagjalda á árinu 1988 mundi þýða að afnotagjald Ríkisútvarpsins yrði á mánuði röskar 1100 kr., en til samanburðar er afnotagjald á Stöð 2 nú um 1250 kr. á mánuði.

Ríkisútvarpið hefur óskað eftir 13% hækkun á afnotagjöldum þeim sem innheimta er nú í þann veginn að hefjast á. Hefur verið fallist á þær tillögur stofnunarinnar og hefur í dag verið gefin út auglýsing um 13% hækkun afnotagjalda. Til þess að endar náist saman miðað við afgreiðslu á tillögum meiri hl. vantar því enn 2% raunhækkun á afnotagjöld Ríkisútvarpsins sem fram þyrfti að koma við næstu útsendingu afnotagjaldaseðla og verður sú raunhækkun að vera því meiri þeim mun lengra sem liðið er af árinu 1988 áður en hún kemur til framkvæmda.

Skv. lögum skulu 10% af tekjum útvarpsins renna í sérstakan framkvæmdasjóð. Á næsta ári verður þetta 141 millj. kr. sem þannig rennur í Framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins. Gengið er út frá því að afborganir ásamt vöxtum af kaupleigusamningi sem Ríkisútvarpið gerði á árinu 1987 vegna kaupa á upptökubíl verði greiddar af þeirri fjárhæð, en upphæð afborgana og vaxta mun nema um 75 millj. kr. Einnig er út frá því gengið að af eftirstöðvum renni 11 millj. kr. til að jafna fjárveitingar úr Framkvæmdasjóði umfram tekjur á árinu 1987. Eftir eru þá til framkvæmda á árinu 1988 55 millj. kr. í Framkvæmdasjóði. Þeirri fjárhæð verður vart

breytt til lækkunar nema með breytingu á viðkomandi lögum og er ekki tillaga um það gerð við þessa afgreiðslu.

Allar þær forsendur, þar á meðal fyrir gjaldskrárhækkunum, sem hér hefur verið greint frá, eru þær hinar sömu gagnvart B-hluta stofnunum og er um A-hlutann og breytist þær forsendur, t.d. varðandi verðlag, gengi eða laun, frá því sem ráð er fyrir gert í fjárlagafrv. munu þær að sjálfsögðu hafa sín áhrif á B-hlutann með sama hætti og A-hlutann, þar á meðal einnig á gjaldskrárákvarðanir og gjaldskrárþarfir sem hér hefur verið greint frá.

Herra forseti. Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir brtt. bæði fjvn. og meiri hl. nefndarinnar við fjárlagafrv. 1988 við 3. umr. Ég legg til að frv. verði samþykkt að þeim breytingum gerðum.