22.12.1987
Sameinað þing: 37. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3180 í B-deild Alþingistíðinda. (2233)

1. mál, fjárlög 1988

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir lokaorð í ræðu seinasta ræðumanns, hv. 4. þm. Suðurl. Það er rétt sem ræðumaður sagði. Það er ástæðulaust annað en að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að ljúka megi þessu þingi sem fyrst með eðlilegum hætti þrátt fyrir þá hluti sem hér hafa gerst undanfarið.

Ég vil enn fremur í upphafi, hæstv. forseti, þakka samstarf sem verið hefur í fjvn. og þakka ekki síður öllu starfsfólki nefndarinnar kærlega fyrir samstarfið.

Það verður varla sagt með réttu að bjart sé yfir íslenskum þjóðmálum nú við 3. umr. frv. til fjárlaga fyrir árið 1988. Að vísu hefur fjvn. einungis komið fimm sinnum saman til fundar á milli 2. og 3. umr. og þá nánast til að meiri hl. gæfist kostur á að gera minni hl. grein fyrir tillögum sínum um þau atriði sem út af stóðu við 2. umr. Þá hefur staða ýmissa stofnana í B-hluta fjárlaga verið rædd á þessum fundum og fulltrúar þeirra, svo sem Rafmagnsveitna ríkisins og fleiri aðila, hafa gert nefndinni grein fyrir stöðu stofnananna og tillögum þar að lútandi.

Hinn 19. desember sl. komu fulltrúar Þjóðhagsstofnunar á fund fjvn. og gerðu nefndinni grein fyrir endurskoðaðri tekjuáætlun fyrir árið 1988. En fulltrúar Þjóðhagsstofnunar höfðu komið á fund fjvn. 12. desember sl. fyrir 2. umr. um fjárlagafrv. Það mun vera í fyrsta sinn sem Þjóðhagsstofnun gefur fjvn. slíkar nýjar upplýsingar fyrir 2. umr. fjárlaga. Yfirleitt mun slíkt hafa verið látið bíða fram til undirbúnings fyrir 3. umr., en nú var þessi nýbreytni upp tekin og er vissulega spor í rétta átt vegna þess að við 2. umr. eru meginlínur dregnar um gjaldahlið fjárlagafrv. hvað A-hlutann varðar sem yfirleitt mun fremur lítið breytast við þá þriðju. 3. umr. er einkum frágangur B-hlutans eins og við höfum heyrt í umræðunum fram að þessu, tekjuhliðar frv. og afgreiðsla fjárlaganna í heild.

Áður en ég sný mér að þeim yfirlitum sem Þjóðhagsstofnun gaf fjvn. um efnahagshorfur almennt, annars vegar 12. desember sl. og hins vegar 19. desember, vil ég fara nokkrum almennum orðum um það ástand sem hefur ríkt í vinnubrögðum hins háa Alþingis nú allra seinustu daga. Annir Alþingis í desembermánuði eru árvissar og alkunnar og þá einkum tengdar afgreiðslu fjárlaga. Ég býst við að álíka spenna einkenni flest þjóðþing af sama tilefni. Hér hafa að auki verið ríkar hefðir í heiðri hafðar um samskipti stjórnar og stjórnarandstöðu, grundvallaðar á grónu lýðræðismati þjóðarinnar og ekki síst því viðhorfi að minni hl. eigi einnig rétt sem meiri hl. leyfist ekki að brjóta á bak aftur og alls ekki með rangtúlkun eða óbilgirni. Ef nokkur setning lifir í vitund þjóðarinnar frá hinu háa Alþingi og langri sögu þess eru það þau orð sem féllu af þess konar tilefni í öldnu húsi Menntaskólans þegar þingið var þar háð í hallinum hér handan við lækinn. Nú stendur hins vegar svo á að til eindæma verður að telja.

Auk frv, til fjárlaga er til meðferðar nú í desember mikill fjöldi lagafrv, tengdra einhverjum þeim mestu umskiptum í tekjuöflunarkerfi ríkisins sem orðið hafa, a.m.k. í einu. Þessi málafjöldi er vel á annan tug. Enn fremur tengist þessari ætlan frv. til laga um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem aftur snertir ekki færri en tíu önnur lög, e.t.v. fleiri. Það mál var fyrst lagt fram 9. desember sl. Ótalið er svo það mál sem þýðingarmest af þeim öllum verður að telja, frv. til laga um stjórn fiskveiða sem ætlunin er að gildi næstu þrjú ár eftir því sem seinustu horfur benda til. Er nokkur furða þó að einhvers staðar hrikti í og mönnum ofbjóði sú ætlan, sem þeir er hér ráða för hafa vafalítið ætlast til, að öll þessi mál yrðu afgreidd án þeirrar umræðu, athugunar eða kynningar sem telja verður lágmark í nútímaþjóðfélagi sem a.m.k. kennir sig við lýðræði og þingræði?

Meiri hluti hæstv. ríkisstjórnar er stór en vel hefur það hins vegar komið í ljós á undanförnum dögum að hann er um margt sjálfum sér sundurþykkur um þau grundvallaratriði sem hér er verið að fjalla um. Mergur málsins er sá að hér hefur komið í ljós veruleg brotalöm í starfsháttum hins háa Alþingis. Greinilega skortir ákveðin tímamörk sem ríkisstjórn ellegar öðrum ættu að vera sett um flutning eða framlagningu þeirra mála sem ætlað er að afgreiða fyrir áramót. Þannig mörk eru ákvæðin um frv. til fjárlaga og önnur mál miðað við lok vorþings samkvæmt hinum nýju þingskapalögum. Það er greinilega ekki nóg að styðjast við áhrif eða myndugleik ráðherra eða ríkisstjórnar um þessi efni. Það þarf skýrari reglur.

Annars þarf ekki annað en að nefna fáein atriði sem einkenna bakgrunn þess ástands sem ríkir í efnahags- og fjármálum hins íslenska þjóðfélags um þessar mundir. Þau eru nánast öll á eina lund. Viðskiptahalli er geigvænlegur og fer vaxandi. Útflutningsatvinnuvegirnir í miklum vanda, m.a. vegna fastgengisstefnunnar. Vaxtakostnaður og vaxtakjör úr öllu hófi gengin. Verðbólgan hækkar stig af stigi. Skattagleði hæstv. ríkisstjórnar með þeim firnum að aldrei hefur annað eins sést hér á landi þar sem matarskatturinn trónir hæst og kemur verst við þá sem síst skyldi. Þessi lýsing á ríkjandi ástandi er ekki röng, en alvarlegast er þó að flest bendir til hatrammra átaka á vinnumarkaði í kjölfar þeirrar óbilgirni sem einkennt hefur viðhorf hæstv. ríkisstjórnar á nær öllum sviðum. Engu er líkara en að menn hafi með öllu litið fram hjá þeim mannlega þætti sem mikilvægastur er þegar skapa á svigrúm og aðstæður til hagstæðra kjarasamninga, en fátt skiptir íslenskt þjóðfélag nú meira máli en að þar takist betur til en nú a.m.k. horfir.

Ég mun nú fara nokkrum orðum um þær upplýsingar sem Þjóðhagsstofnun gaf fjvn. annars vegar 12. desember og hins vegar 19. desember um ástand og horfur almennt í efnahagsmálum þjóðarinnar um þessar mundir.

Efnahagshorfurnar fyrir árið 1988 hafa breyst, segja þeir vísu menn, frá því í október. Þjóðhagsstofnun vinnur að endurskoðun þjóðhagsspár fyrir næsta ár í ljósi þessara breytinga og það er stefnt að því að þessari endurskoðun verði lokið eftir áramót. Taki menn eftir því, eftir áramót, ekki fyrir áramót. Það ríkir veruleg óvissa um ýmsar mikilvægar forsendur þjóðhagsspár fyrir árið 1988. Það er ekki undan dregið. Þannig hefur t.d. hámarksafli einstakra fisktegunda á næsta ári ekki enn verið ákveðinn, enda er það í meðförum þessa hv. þings. Jafnframt virðist langt í land með að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði fyrir næsta ár verði gerðir og ég hef þegar gert það hér að umtalsefni hvernig búið er í hag þeirra samninga eða hitt þó heldur.

M.a. af þessum sökum er að svo stöddu, að mati Þjóðhagsstofnunar, einungis hægt að fjalla í almennum orðum um þær breytingar sem hafa orðið síðustu tvo mánuði á efnahagshorfum fyrir næsta ár. Í því sambandi eru fjögur atriði mikilvægust að mati stofnunarinnar.

Í fyrsta lagi eru það viðskiptakjörin. Þau hafa versnað síðustu tvo mánuði og horfur um viðskiptakjör fyrir næsta ár eru nú lakari en reiknað var með í október. Hér veldur gengislækkun bandaríkjadollars í kjölfar verðhrunsins á hlutabréfamörkuðum heimsins í lok októbermánaðar mestu, en jafnframt hefur álverð reiknað í dollurum lækkað og óvissa ríkir um verð á sjávarafurðum. Horfur um hagvöxt og þar með aukningu almennrar eftirspurnar í iðnríkjunum á næsta ári eru nú lakari en reiknað var með í haust. Erfitt er að meta áhrif þessa á eftirspurn eftir íslenskum útflutningsvörum en þó má gera ráð fyrir að hún verði heldur minni en ella hefði verið. — Og við þessar aðstæður þótti hinu háa Alþingi kjörið að hækka launaskatt á nýjum aðilum í útflutningsgreinum.

Enn fremur segir hér í umsögn Þjóðhagsstofnunar: Flest bendir nú til að framleiðsla sjávarafurða verði minni á næsta ári en miðað var við í þjóðhagsáætlun. Þar var reiknað með óbreyttri sjávarvöruframleiðslu frá því sem gert var ráð fyrir að hún verði á þessu ári og var það byggt á nokkrum samdrætti í afla sem talið var að breytt samsetning framleiðslunnar gæti vegið upp.

Fyrirsjáanlegt er, segir enn fremur í umsögn Þjóðhagsstofnunar, að halli á viðskiptum við útlönd á þessu ári verði meiri en reiknað var með í endurskoðaðri þjóðhagsspá fyrir árið 1987 í október. Þá var gert ráð fyrir að viðskiptahallinn á þessu ári yrði 2,4 milljarðar kr. eða sem svarar rúmlega 1% af landsframleiðslu. Þessi spá byggðist m. a. á því að afgangur yrði af vöruviðskiptum við útlönd að fjárhæð 1,4 milljarðar. Nú stefnir hins vegar í að afgangurinn af vöruskiptunum verði lítill sem enginn. Ástæðurnar fyrir þessu eru nokkrar og snerta bæði inn- og útflutning. Í fyrsta lagi hefur innflutningur aukist meira síðustu mánuði en reiknað var með. Í öðru lagi verða tekjur af útflutningi minni en gert var ráð fyrir vegna lakari viðskiptakjara sem rekja má til gengislækkunar bandaríkjadollars. — Flest annað í þessari skýrslu Þjóðhagsstofnunar til fjvn. er í sama dúr.

Í 4. gr. umsagnarinnar segir þetta:

Afkoma útflutningsfyrirtækja hefur því almennt versnað að undanförnu þar sem innlendur kostnaður hefur hækkað meira en verð útflutningsafurða í íslenskum krónum. Gengislækkun bandaríkjadollars hefur komið sér illa fyrir mjög mörg útflutningsfyrirtæki. Þetta á ekki síst við um fiskvinnslu, einkum frystingu, sem nú er rekin með verulegu tapi. Áætlað er að botnfiskvinnslan í heild sé nú rekin með tapi sem nemur 3–5% af tekjum. Þar af er áætlað að tap í frystingu nemi 7–9% af tekjum. Jafnframt eru ástæður víða erfiðar í öðrum útflutningsgreinum. Má í því sambandi m.a. minna a rekstrarerfiðleika ullariðnaðarins.— Allt voru þetta sjálfsagt kjörnar aðstæður til sérstakrar þyngingar í skattlagningu á þessa aðila. — Erfitt er að fullyrða nokkuð um stöðu innlendra framleiðslugreina sem keppa við innflutning, segir enn fremur í þessari skýrslu.

Þá er hér að lokum sérstakur kafli um verðlag sem er einkar athyglisverður:

Mikil óvissa ríkir um verðlagshorfur á næsta ári. Fyrir þessu eru margar ástæður. Ífyrsta lagi er ekki að svo stöddu unnt að segja hverjar verði niðurstöður kjarasamninga eins og fram hefur verið tekið fyrr í skýrslunni. Í öðru lagi hefur innlendur kostnaður hækkað mjög mikið á þessu ári en gengi krónunnar haldist að mestu óbreytt.— Þarna er efast um fastgengisstefnuna. — Þessi þróun getur ekki haldið áfram til lengdar, segir berum orðum hér í þessari skýrslu Þjóðhagsstofnunar.

Í þriðja lagi er stefnt að umfangsmiklum breyting um á tollum og öðrum óbeinum sköttum um áramótin, eins og hv. alþm. þekkja nú vel. Um það segir hér í þessari skýrslu Þjóðhagsstofnunar:

Áhrif þessara breytinga á verðlag verða víðtæk en erfitt er að meta þau með nákvæmni á þessari stundu.

Með þessum fyrirvörum er sú verðlagsspá sem fylgdi þessari vinnu Þjóðhagsstofnunar fyrir árið 1988.

Einni viku síðar komu sömu aðilar til fjvn. og staðfestu í rauninni nákvæmlega það sama og þeir áður höfðu sagt um þessar meginforsendur sem liggja til grundvallar fjárlagafrv. sem hér er til afgreiðslu.

Ég mun nú í framhaldi af þessu fara örfáum orðum um tillöguna í heild samandregna eins og hún kemur mér fyrir sjónir.

Varðandi tekjuhlið frv. eru þar náttúrlega mest einkennandi þær breytingar sem nú verða á milli 2. og 3. umr. Eignarskattar eru áætlaðir töluvert hærri en var við 2. umr. Þá var gert ráð fyrir að eignarskattar yrðu 1 milljarður 547 millj. kr. Það hefur hækkað í meðförum í 1 milljarð 735 millj. kr. eða um 888 millj. kr., um 12% hefur það hækkað í meðförum þingsins. Þessi hækkun er þó 36,5% frá gildandi fjárlögum. Beinir tekjuskattar lækka hins vegar í þessari meðferð þingsins.

Þegar frv. var lagt fram var gert ráð fyrir að tekjuskattarnir yrðu 6 milljarðar 700 millj. kr., en samkvæmt áætluninni eins og hún liggur fyrir eru tekjuskattar, beinir skattar, áætlaðir 6 milljarðar 520 millj. eða 180 millj. kr. lægri, þ.e. lækkun um 2,6% á milli umræðna. Engu að síður er þetta 25% hækkun beinna skatta frá gildandi fjárlögum og við skulum hafa í huga verðbólgustigið sem er um það bil 30 þessa stundina, 30%.

Mest er breytingin á milli umræðna varðandi innflutningsgjöld, vörugjald og söluskatt og það er einkar fróðlegt að sjá hvernig það dæmi lítur út. Þegar frv. var lagt hér fram í haust var gert ráð fyrir að tekjur ríkisins af innflutningsgjöldum yrðu 7 milljarðar 31 millj. kr. Endurskoðunin leiðir hins vegar í ljós að þessari upphæð er ætlað að lækka um 1 milljarð röskan eða 14,2% og verður nú 6 milljarðar 29 millj. kr. Vörugjald lækkar einnig úr röskum 3 milljörðum í upphafi niður í 1 milljarð 772 millj. Það er mesta lækkunin vegna tollabreytinganna.

Það er svo sannarlega upp borið í söluskattinum. Söluskatturinn var þegar frv. var lagt fram að upphæð 26 milljarðar 340 millj. kr. Við þessa endurskoðun hefur sú upphæð hækkað í 31 milljarð 860 millj., hvorki meira né minna en um 5 milljarða 520 millj., um 21% á milli umræðna, 21%. En frá gildandi fjárlögum hækkar söluskattur í þessu tekjumynstri ríkisins um 32,78%, frá lögunum í fyrra.

Launatengd gjöld eru áætluð mjög nærri því sem var þegar frv. var lagt fram í haust. Þá voru áætluð launatengd gjöld um 4 milljarðar 623 millj. kr. en eru nú 4 milljarðar 673 millj. kr. eða um 50 millj. kr. hækkun. Rekstrarhagnaður af ÁTVR hækkar einnig nokkuð, úr 4 milljörðum 75 millj. kr. í 4 milljarða 275 millj. kr. eða um 200 millj. kr.

Heildarniðurstaðan í þessari tekjuáætlun ríkisins er sú að þegar frv. var lagt fram í haust var gert ráð fyrir tekjum ríkisins að upphæð 59 milljarðar 563 millj. kr. Það hefur nú hækkað í 63 milljarða 91 millj. kr. eða um 3 milljarða 346 millj. kr., 5,9% hækkun frá því í haust, 46,2% hækkun frá gildandi fjárlögum. Ég bið menn að hafa í huga verðbólgustigið, um 30%.

Það er ýmislegt fleira í þessu stóra dæmi sem er fróðlegt til athugunar á þessari stundu, m.a. að bera saman þær tölur eins og ég hef hér verið að lesa frá því að fjárlagafrv. er lagt fram til þeirrar stundar að fjárlög eru samþykkt og síðan rauntölur þegar viðkomandi ár er liðið og uppgjör hefur farið fram. Ég er hér með fyrir framan mig upplýsingar um þrjú ár í þessu sambandi. Árið 1985 voru heildartekjur ríkisins 21 milljarður 980 millj. kr. eða 21,9 milljarðar þegar fjárlagafrv. var lagt fram. Það hækkaði verulega í meðförum þingsins eða upp í 25,3 milljarða. Það hækkaði um 15,3% í meðförum þess þings. Síðan líður árið 1985 og hækkun þessara tekna ríkisins verður síðan sú staðreynd að tekjurnar hækka um 7%. Þegar innheimt er af þjóðinni hækkuðu þessir 21,9 milljarðar í 27,1 þegar upp var staðið. Hækkunin frá því málið er lagt fyrir þing varð hvorki meira né minna en 22,3% frá fyrstu áformum til staðreyndarinnar.

Sams konar yfirlit yfir árið 1986 lítur þannig út. Þegar fjárlagafrv. var lagt fram var tekjuáætlun ríkisins að upphæð 33,5 milljarðar. Þegar fjárlögin voru síðan afgreidd fyrir 1986 höfðu þessir 33,5 milljarðar hækkað í 37,8 milljarða eða um 12,9%. Þetta er það fræga ár 1986 þegar verðbólgan er á niðurleið. Og þegar þessar tekjur ríkissjóðs eru innheimtar í árslok 1986 eru þessir 33,5 milljarðar sem átti að innheimta samkvæmt frv. orðnir að 38,1. Frá frv. til staðreyndar hafði hækkunin numið 13,6%.

Árið 1987 þegar frv. til fjárlaga er lagt fram var upphæðin nánast sléttir 40 milljarðar. Þegar fjárlögin voru afgreidd voru heildartekjurnar 43 milljarðar röskir, en þegar innheimtum lýkur í lok þessa mánaðar er ætlað að tekjurnar verði 47,5 milljarðar kr. Hækkun frá frv. í fyrra til staðreyndar í árslok er 18%.

Þegar hækkunarprósentur þessara þriggja mjög mismunandi ára, 1985, 1986 og 1987, eru lagðar saman, 22,3%, 13,6% og 18%, og við fáum við út ákveðið meðaltal, 17,96%, mjög svipað og útkoman er í ár. Ef við reynum að gera okkur í hugarlund hvernig hér verður ástatt að þessu leyti má búast við því að tekjuauki ríkisins, eingöngu af þessum ástæðum, eingöngu af veltiástæðum, vegna veltuaukningar og verðbólgustigs og annars sem því fylgir, verði hvorki meira né minna en 10,7 milljarðar kr. Þetta sýnir í rauninni hvers konar kviksyndi það er sem menn standa í þegar þeir reyna að áætla við þær aðstæður sem hér ríkja. Þess vegna er engin furða þó að hv. alþm. fari vinsamlega fram á það að þau frumvörp til laga sem tengd eru fjárlögum komi til meðferðar þingsins með sæmilegum fyrirvara þannig að hægt sé að vinna hér á eðlilegan hátt.

Hæstv. forseti. Ég mun senn fara að stytta mál mitt, en áður en ég lýk því vil ég segja þetta. Það frv. til fjárlaga fyrir árið 1988, sem hér er til 3. umr. án þess að margar forsendur þess hafi hlotið staðfestingu og samþykki þingsins, hefur mörg þau einkenni sem ganga þvert á stefnu Borgarafl. Borgarafl. er í meginatriðum andstæður þeirri skattastefnu sem er hornsteinn þess frv. sem hér liggur fyrir og raunar burðarás. Borgarafl. er algjörlega andvígur matarskattastefnu hæstv. ríkisstjórnar, í fyrsta lagi vegna þess að hún kemur þyngst niður á þeim sem síst mega við áþján af þessu tagi. Þetta er í hæsta máta óréttlát skattheimta, eykur þann kostnað sem fyrir var mun hærri en gerist með nágrannaþjóðum okkar. Í annan stað vegna þess að svo mikil skattheimta, um 25% nánast gegnumsneitt, er dæmd til að mistakast. Hún mun enn auka á misréttið í þessu þjóðfélagi hvað skattheimtu varðar þvert ofan í margyfirlýstan vilja stjórnvalda.

Í þessu sambandi má gjarnan minna á að það er ekki lengra en fáeinar vikur síðan hæstv. ríkisstjórn lagði fram þjóðhagsáætlun þar sem hún greindi frá stefnu sinni í ríkisfjármálum með því markmiði m.a. að veruleg fækkun söluskattsundanþága yrði framkvæmd, en síðan stóð í næstu línu: Jafnframt verði skatthlutfallið lækkað. Þetta fárra vikna margendurtekna loforð hefur nú verið svikið með eftirminnilegum hætti. Hæstv. ríkisstjórn mun vafalítið benda á auknar niðurgreiðslur sem málsvörn sína í þessu efni. En hún er bæði hæpin og í meira lagi lævísleg. Vísast verður þar um fasta fjárhæð að ræða sem hjaðnar og jafnast út í 30% verðbólguhraða eins og óumdeilt er að nú ríki.

Þessi skattheimtustefna hæstv. ríkisstjórnar er í grundvallaratriðum röng. Meginástæðan er sú að íslenskt þjóðfélag er að því leyti annarrar gerðar en flest nágrannaríki, a.m.k. þau sem mynda Evrópubandalagið, að við erum að miklum mun háðari innflutningi alls kyns neysluvöru en þau, en búum við fremur einhæfa útflutningsverslun. Þess vegna er svo mikið vægi skatta á seinasta stig viðskipta alls ekki vænlegasta leiðin til að ná þeirri skilvirkni sem æskileg er og hver hæstv. ríkisstjórn vill án efa stefna að.

Hæstv. núv. ríkisstjórn hefur sjálf kveðið upp dóminn yfir þeim árangri sem hún ætlar að ná, 400 millj. kr. í bættri innheimtu af 63 milljarða heildartekjum, 400 millj. einungis af 63 milljörðum eða rúmt 1/2%, sem telja verður mjög rýran árangur en líklega er þetta mat rétt og í réttu hlutfalli við viljann. Ég tel þessi einkenni í skattheimtustefnu hæstv. ríkisstjórnar versta þáttinn í því frv. til fjárlaga fyrir 1988 sem hér er til lokaafgreiðslu.

Við 2. umr. gerði ég að umtalsefni hve útgjaldaáform ríkisins væru í litlu samræmi við aðrar forsendur frv. þar sem útgjaldaaukning margra ráðuneyta næmi 50–80% hækkun á milli ára þegar 17–18% hækkun er meginverðlagsforsenda frv. Þegar þjóðhagsstofnunarfulltrúarnir komu á fund fjvn. 13. desember sl. gerðu þeir jafnframt grein fyrir því að áætlað væri að hækkun framfærsluvísitölu næmi 17% meðalhækkun á fyrra ári, takið eftir, 17% meðalhækkun frá fyrra ári, sögðu fulltrúar Þjóðhagsstofnunar. Fyrir fáeinum mínútum lauk síðasta fundi fjvn. fyrir þessa fjárlagaafgreiðslu. Þá var tilkynnt áform um að skattvísitalan yrði 131 miðað við 100 á sl. ári. Jafnframt var tilkynnt að hækkun framfærsluvísitölu næmi, ekki 17% eins og fulltrúar Þjóðhagsstofnunar höfðu áður sagt, heldur 27% frá samþykkt seinustu fjárlaga, ekki 17%, heldur 27%. Trúa mín er sú að mörg heimili í þessu landi eigi eftir að finna íþyrmilega fyrir þeim afleiðingum sem þessari staðreynd óhjákvæmilega fylgja.

Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti.