22.12.1987
Sameinað þing: 37. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3199 í B-deild Alþingistíðinda. (2239)

1. mál, fjárlög 1988

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Í tilefni athugasemda hv. 2. þm. Vestf. áðan út af heimildargrein um sölu á fóðurverksmiðju í Flatey og nýtingu á þeirri heimild vil ég aðeins segja það að nýting þessarar heimildar verður skoðuð því kannski leikur vafi á hvort sala hefur farið fram með lögformlegum hætti.

Annars vildi ég aðeins nota tækifærið þegar líður að verkalokum við fjárlagasmíð fyrir árið 1988 að þakka fyrir þá upplýstu og málefnalegu umræðu sem hér hefur farið fram. Að sjálfsögðu eru skiptar skoðanir um stefnu og einstök atriði. Samt hygg ég að það sé býsna víðtæk samstaða meðal hv. alþm. um það að það sé mjög æskilegt meginmarkmið í ríkisfjármálum við ríkjandi kringumstæður að tyfta sjálfan sig til þess að stefna að jöfnuði í ríkisfjármál um hvað svo sem líður ólíkum áherslum og ólíkum pólitískum viðhorfum einstakra þm. og flokka. Mér er það mikið ánægjuefni að þetta markmið hefur náðst við þá fjárlagasmíð sem hér er verið að lúka.

Ég vil enn fremur nota tækifærið til þess að færa öllum þeim sem lagt hafa haga hönd að verki sérstakar þakkir fyrir þeirra störf, hv. þm. öllum, sér í lagi fjárveitinganefndarmönnum og formanni fjvn. en á þeim mæðir meira en öllum öðrum í starfi þingsins og að öðrum ólöstuðum.

Ég vil ljúka máli mínu, herra forseti, og þakka jafnframt starfsmönnum þingsins fyrir þeirra mikla vinnuframlag. Við vitum að það hefur verið óvenjulega mikið og þykir það miður eins og fram hefur komið, en það minnsta sem hægt er að gera er að þakka fyrir að það hefur verið innt vel og dyggilega af höndum.