22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

Framlagning stjórnarfrumvarpa

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að leiðrétta útúrsnúning og rangfærslur sem hv. 7. þm. Reykv. viðhafði hér áðan og hafði reyndar gert áður um að ég styddi aðeins tekjuhlið fjárlagafrv. Ég gerði grein fyrir því í utandagskrárumræðu hér hvernig ríkisstjórnin varð sammála um að með skyldi fara skoðanamismun milli mín og fjmrh., um nokkra liði sem heyra undir landbrn., en í þessari umræðu dró hv. 5. þm. Reykn. í efa að ég styddi tekjuöflun ríkissjóðs. Af því tilefni sagði ég, eins og stendur hér í þingskjölum, „en ég styð tekjuhlið frumvarpsins og fjárlagafrv. að öðru leyti," að öðru leyti en þessum fáu liðum sem ríkisstjórnin varð sammála um hvernig með skyldi fara að komast að niðurstöðu um. Svo hamrar hv. 7. þm. Reykv. á að ég hafi sagt að ég styddi aðeins tekjuhliðina. En ég orðaði þetta svona beinlínis vegna þess að hv. 5. þm. Reykn. var áður búinn að draga í efa í umræðunni að ég styddi tekjuöflun ríkissjóðs. Ef málstaðurinn er ekki betri en þetta að það þurfi svona rangfærslur og útúrsnúninga þá er ekki von á góðu.