22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

Framlagning stjórnarfrumvarpa

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram að þessar umræður um þingsköp í nafni stjórnarandstöðunnar eru ekki í samráði eða með samþykki Borgaraflokksins. Við höfum ekki verið um það spurðir hvort þær ættu að fara fram.

En ég vil segja að frá stjórnarmyndun hef ég bent á þann grundvallarmun á stefnu þeirra þriggja flokka sem nú mynda ríkisstjórn. Framlagning áríðandi stefnumótandi frv. á þann hátt sem raun ber vitni, með fyrirvörum ýmissa stjórnarmanna og jafnvel hæstv. ráðherra, kemur borgaraflokksþingmönnum ekki á óvart.

Ég vil undirstrika það að við í Borgaraflokknum gerum ekki athugasemdir við framlagningu frv. stjórnarflokkanna né ríkisstjórnarinnar og alls ekki verkstjórn hæstv. forseta.

Við hv. 1. þm. Norðurl. v. vil ég segja að oftast nær, mig langar til að segja alltaf, er hann skemmtilegur og hressilegur þegar hann kemur í ræðustól, en frá mínum bæjardyrum séð er hér ekki um smástorm í vatnsglasi að ræða, ég held að það sé hávaðarok í vatnsbala á ríkisstjórnarheimilinu.