28.12.1987
Sameinað þing: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3208 í B-deild Alþingistíðinda. (2276)

1. mál, fjárlög 1988

Albert Guðmundsson:

Ég met orð forseta, en ég vil biðja hæstv. forseta, réttlátan eins og hann hefur verið, að taka tillit til þess að hér var vegið að mér sem persónu og eins að mínum embættisgjörðum sem fjmrh. við afgreiðslu þeirra fjárlaga sem nú eru til afgreiðslu. En ég skal stytta mál mitt mjög. Ég vil mótmæla því að íþróttahreyfingin hafi rýmri fjárhag en áður. Það er rangt. Ég vil líka segja að bæði lottóið, getraunirnar og líka afrakstur þeirrar vinnu sem íþróttahreyfingin og hver einstaklingur þar leggur á sig til að afla fjár á annan hátt er sjálfsaflafé þó svo landslög hagi því þannig að það skuli þurfa leyfi til frá opinberum aðilum að stunda þá fjáröflun. Það er ekki framlag Alþingis, hvorki lottó né getraunir. Það er sjálfsaflafé íþróttahreyfingarinnar og á ekki að rugla saman við afgreiðslu á fjárlögum.