22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

Framlagning stjórnarfrumvarpa

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég skal fúslega viðurkenna að ég hvorki bar mig saman við né bað leyfis Borgaraflokksins til að ræða hér um þingsköp, enda mun það ekki venja. Ég vil þakka virðulegum forseta fyrir það umburðarlyndi að leyfa að þm. skiptist á skoðunum og spyrji hæstv. ráðherra varðandi þetta efni, vegna þess að það snertir grundvallaratriði í meðferð mála hér á þinginu eins og fram hefur komið.

Ég hlýt að harma að hæstv. forsrh. svaraði jafnlitlu til og hann gerði. Það hefði verið fróðlegt að heyra álit hæstv. núverandi utanrrh. og fyrrverandi hæstv. forsrh. á þessu nýja verklagi arftaka hans. En hvað um það. Það er einnig bagalegt að hæstv. félmrh. skuli ekki vera hér til staðar vegna þess að sá hæstv. ráðherra hefur haft uppi stór orð um þá fyrirvara sem aðrir stjórnarliðar hafa þegar boðað og lýst í fjölmiðlum við þetta húsnæðismálafrv. Nú stendur þannig á, herra forseti, að á morgun halda átta fjölmenn félagasamtök í landinu ráðstefnu um húsnæðismál. Þar er hæstv. félmrh. auglýstur með ávarp og sá sem hér talar á þar einnig að sitja fyrir svörum. Mér finnst það skipta máli með hverjum hætti frv. hæstv. félmrh. verður þar kynnt, m. a. vegna þess að úti í þjóðfélaginu bíða 4000 manneskjur eftir svörum með sín lánsloforð, bíða þangað til þetta frv. verður afgreitt. Það liggur fyrir. Það skiptir því miklu máli hvort þetta frv. hefur ótvíræðan þingmeirihluta og fer greiða leið í gegnum þingið eða hvort fyrirvarar heilla þingflokka í stjórnarliðinu valda því að það tefst mikið í meðförum. Við þessu er nauðsynlegt að fá skýr svör því hér eru miklir hagsmunir í húfi.

Ég verð svo að segja að útúrsnúningar hv. 1. þm. Norðurl. v., formanns þingflokks Framsfl., Páls Péturssonar, eru varla við hæfi fyrir jafnmætan mann. Þeir eru varla við hæfi. Fyrst sagði hann: „Þetta eru auðvitað stjfrv.", en síðan kom löng upptalning um þá fyrirvara og þau „en“ sem væru þar á eftir. Það að leggja fram stjfrv. með þessum hætti í upphafi þinghaldsins, áður en tvær vikur eru liðnar af þinghaldinu, það er alveg sérstakur hlutur. Menn hafa orðið fyrir því að undir lok þinghalds, á síðustu dögum fyrir þingslit að vori, hafa einstakir ráðherrar tekið þann kost að leggja fram frv. í eigin nafni vegna þeirrar stöðu sem uppi hefur verið í ríkisstjórn að um þau mál hefur ekki náðst samstaða. Ég hygg að hæstv. fyrrverandi menntmrh. á þeirri tíð, Sverrir Hermannsson, hafi brugðið á þetta ráð í eina tíð í síðustu ríkisstjórn. Þá lá málið ljóst fyrir. Það lá ljóst fyrir að ríkisstjórnin náði ekki saman um þetta frv. og það var kynnt með þessum hætti. En ég verð að segja að ef frv. almennt eiga ekki að endurspegla stjórnarstefnuna heldur boða eitthvað allt allt annað, þá er hér uppi nýbreytni, hvað sem menn segja. Þá er hér á ferðinni ný tegund af stjfrv. hvað sem hæstv. forsrh. segir.

Að lokum þetta, herra forseti, vegna þess að ég veit að virðulegum forseta er eins og ræðumanni annt um virðingu Alþingis, ég tel að þó að hæstv. ríkisstjórn sé laus í böndunum þá eigi vinnubrögð á Alþingi ekki að laga sig að því.