28.12.1987
Sameinað þing: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3210 í B-deild Alþingistíðinda. (2287)

1. mál, fjárlög 1988

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það er oft talað um það fagurlega á Alþingi að ferðamannaiðnaðurinn sé ný og blómstrandi atvinnugrein sem skapi miklar gjaldeyristekjur og það er út af fyrir sig rétt. Hér er hins vegar verið að selja íslenska náttúru og það er ekkert lagt til sem heitið getur til að vernda hana gegn þeim átroðningi sem til er stofnað með ferðamennskunni. Eini votturinn sem ég sé í fjárlagafrv. sem hér er verið að afgreiða eru litlar 400 þús. kr. til Dimmuborga í Mývatnssveit og 200 þús. kr. til hönnunar ferðamannaaðstöðu við Gullfoss. Á þessu ári er ekkert veitt til umhverfisverndar á ferðamannastöðum utan 1 millj. kr. til Dimmuborga að mig minnir. Það sem hér er lagt til er aðeins örlítið brot af því sem þyrfti að verja til umhverfisverndar vegna ferðamennsku, þessar 10 millj. kr. sem hér eru lagðar til, og þyrfti það að vera fimmföld eða tíföld upphæð ef vel ætti að vera. Ég segi já.