28.12.1987
Sameinað þing: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3214 í B-deild Alþingistíðinda. (2300)

1. mál, fjárlög 1988

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er að ljúka afgreiðslu fjárlagafrv. fyrir árið 1988. Forsendur þessa frv. eru afar veikar og sumar hverjar reyndar þegar brostnar. Gengismálin eru í uppnámi, tekjuöflunarfrv., önnur meginhlið fjárlaganna, eru enn að velkjast í þinginu ósamþykkt. Mat sérfræðiaðila, svo sem Þjóðhagsstofnunar og Seðlabankans, á efnahagshorfum stangast á. Um eitt eru þessir aðilar þó sammála, þ.e. þá miklu óvissu sem fram undan er. Engar upplýsingar hafa legið fyrir við afgreiðslu fjárlaganna um afgerandi þætti eins og líkur á viðskiptahalla á næsta ári. Við þessar aðstæður væri að sjálfsögðu eðlilegast að hæstv. ríkisstjórn tæki málið til sín að nýju fremur en að láta samþykkja til málamynda fyrirsjáanlega ómarktæk fjárlög. Alþb. vísar allri ábyrgð af slíkum vinnubrögðum á hendur hæstv. ríkisstjórnar. Ég greiði ekki atkvæði.