28.12.1987
Neðri deild: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3216 í B-deild Alþingistíðinda. (2306)

181. mál, stjórn fiskveiða

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um stjórn fiskveiða fyrir árin 1988–1990. Hér er um mjög umfangsmikið mál að ræða sem væri ástæða til að fjalla um í löngu máli en þar sem mjög er mikilvægt að mál þetta nái fram að ganga fyrir áramót þá vil ég vísa til framsögu minnar í Ed. og þeirrar umfjöllunar sem hefur verið um málið á almennum vettvangi og hér á Alþingi að undanförnu.

Málið hefur verið til umræðu í þjóðfélaginu um nokkurra mánaða skeið. Það hefur verið tekið fyrir á þingum allra helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi og flestir hagsmunaaðilar, þ.e. hagsmunasamtök sjómanna, útvegsmanna og fiskvinnsluaðila, komist að þeirri niðurstöðu að það beri að byggja á þeim grunni sem lagður hefur verið á undanförnum árum. Vissulega hafa verið um málið miklar umræður, ýmsar skoðanir komið fram og lagðar hafa verið fram brtt. á hinum ýmsu stigum málsins. Margar þessara breytinga hafa þegar komið inn í frv. auk þess sem nokkrar breytingar hafa verið gerðar á málinu í hv. Ed.

Það má segja að það séu tveir meginkostir í fiskveiðistjórnun, annars vegar almennar sóknartakmarkanir eða sérstakar veiðiheimildir til einstakra aðila. Það er enginn vafi á því að sérstakar veiðiheimildir til einstakra aðila hafa ótvíræða kosti. Það er hægt að ná fram mun meiri hagkvæmni í veiðunum en með hinu laginu. Auðvitað fylgja báðum þessum aðferðum ókostir og kostir en sú síðari, þ.e. sérstakar veiðiheimildir til einstakra aðila sem kallað hefur verið kvótakerfi, hefur ótvíræða kosti sem leiðir til þess að hægt er að ná takmörkuðum afla með minni tilkostnaði en ella.

Við þurfum á því að halda að takmarka sókn í okkar fiskistofna með tvennum hætti, þ.e. takmarka fjölda fiskiskipanna og jafnframt að takmarka veiðiheimildir einstakra skipa.

Meginatriði þessa frv. sem ég vildi leyfa mér að fara yfir í stuttu máli er í fyrsta lagi það að í frv. eru ákveðnar allar helstu meginreglur um úthlutun veiðileyfa og þar hefur orðið veruleg breyting á því fyrst þegar slíkar heimildir voru afgreiddar fyrir árið 1984 og síðan 1985 var um almennar heimildir að ræða sem í meginatriðum voru síðan ákveðnar í reglugerð. Hér hefur orðið mikil breyting á sem betur fer því mikilvægt er að hægt sé að ákveða öll helstu atriði í lögunum sjálfum.

Gildistími þessa frv. eins og það er nú er ákveðið þrjú ár og endurskoðunarákvæði er í ákvæðum til bráðabirgða sem ekki er ástæða til að fara mikið út í en þar kemur fram að nefnd skal hafa skilað tillögum um endurskoðun laganna eigi síðar en haustið 1989. Það er mikilvægt mál fyrir sjávarútveginn að hann geti búið við sem stöðugust rekstrarskilyrði og það sé vitað nokkur ár fram í tímann, og helst sem lengst, hvers sé að vænta að því er varðar veiðiheimildir. Það er nauðsynleg forsenda þess að einstakir aðilar sem útgerð stunda geti tekið nauðsynlegar ákvarðanir, ekki síst til að koma við hagræðingu í rekstri sínum.

Mikilvægar breytingar eru gerðar með frv. á svokölluðu sóknarmarki. Sóknarmarkið hefur á undanförnum árum gefist vel og það má segja að með því hafi verið fundin leið til þess að komast frá þeirri viðmiðun sem ákveðin var í upphafi, þ.e. viðmiðunarárunum 1981–1983. Það var ljóst frá upphafi að slík viðmiðun gæti ekki staðist til lengdar og nauðsynlegt að finna almennt form þannig að hin ýmsu skip gætu unnið sér nýja reynslu. Þess vegna var sóknarmarkið ákveðið og hefur gefist vel en hitt er svo annað mál að nauðsynlegt er að það sé hægt að auka aflann ef slíkt kerfi á að virka vel til langframa. Skipin hafa haft möguleika til að auka aflareynslu sína samkvæmt sóknarmarkinu eða bæta 20% á hverju ári við sitt aflamark. Slíkt gat ekki gengið til lengdar og nú þegar ljóst er að draga verður saman afla verður að draga úr þessum heimildum og því gerir frv. ráð fyrir því að í stað 20% sé 10% heimild til aukningar á aflamarki ef skip velja svokallað sóknarmark.

Eitt er það atriði sem hvað vandasamast er í þessu frv. en það eru reglur um veiðar á úthafsrækju. Veiðar á úthafsrækju hafa gengið mjög vel á síðustu árum og hafa verið einn helsti vaxtarbroddur í sjávarútveginum á undanförnum árum. Nú er svo komið að það þykir nauðsynlegt að setja verulegar takmarkanir á þessar veiðar ef ekki eigi að ofgera rækjustofnunum. Um það hefur verið fjallað mjög ítarlega að undanförnu með hvaða hætti slíkar takmarkanir skulu settar og er gert ráð fyrir því að kvótar skuli ákveðnir fyrir einstök skip en jafnframt gert ráð fyrir því að heildartakmarkanir eða hámarkstakmarkanir verði settar á einstakar rækjuverksmiðjur þannig að þær geti ekki tekið á móti meiri afla en reynsla þeirra gefur til kynna á undanförnum árum. Með þessu er verið að ákveða að ekki skuli fjölgað þeim verksmiðjum sem vinna rækjuna meir en orðið er og að þær verksmiðjur sem nú starfa fái nokkra tryggingu fyrir því að þær geti haldið sínum hlut í vinnslunni.

Það eru mjög misjafnar aðstæður í landinu til að taka á móti rækju og misjafnir flutningsmöguleikar á milli landshluta. T.d. er ljóst að ekki er hægt með sama hætti að flytja hráefni til Vestfjarða og á milli t.d. Norðurlands og Suðurlands. Samgöngur leyfa það ekki að slíkir flutningar eigi sér stað. Það er því eðlilegt að landshluti eins og Vestfirðir sé nokkuð uggandi um sinn hag í þessu sambandi og því nauðsynlegt að veita þeim verksmiðjum sem þar eru og annars staðar meiri tryggingu en þær annars mundu hafa.

Auðvitað vakna spurningar í þessu sambandi hvort hið sama eigi ekki við um aðra fiskvinnslu og má vissulega segja það með nokkrum rökum. Það er hins vegar mikilvægt að reyna að tryggja eins mikið athafnafrelsi í þessari atvinnugrein og nokkur kostur er og því ekki á það bætandi að fara að setja vinnsluhámark á einstakar fisktegundir í landinu.

Mikið hefur verið fjallað um útflutning á óunnum fiski og er í frv. gert ráð fyrir því að sérstakt álag leggist á þann fisk sem fluttur er óunninn á erlendan markað þegar til útreiknings á kvóta kemur. Hefur þetta álag verið ákveðið 15% en í Ed. var fellt niður sérstakt vigtarálag sem var 10% eins og það var þegar frv. var upphaflega flutt.

Í 10. gr. frv. er fjallað um veiðar smábáta sem hafa valdið miklum umræðum á undanförnum vikum og hefur glögglega komið í ljós að þau hagsmunasamtök sem eigendur smábáta mynda hafa verið mjög óánægð með frv. og lýst andstöðu sinni við það í ýmsum atriðum.

Hér er í fyrsta skipti gerð tilraun til þess að ákveða aflakvóta fyrir einstaka smábáta, þ.e. báta undir 10 brl. að stærð, en bátum þessum hefur fjölgað mikið á undanförnum árum og því þykir nauðsynlegt að settar séu reglur til samræmis við aðra fiskibáta. Eins og greinin er eftir að henni var breytt í Ed. þá eru allir bátar undir 10 brl. að stærð frjálsir að stunda veiðar með línu og handfærum en eru bannaðar allar botnfiskveiðar 10 daga um páskahelgi, 10 daga um verslunarmannahelgi, 10 daga í júní og 10 daga í októbermánuði. Enn fremur frá 1. des. til 15. jan. Er þetta nokkur aukning á banndögum frá því sem áður var, þ.e. að í stað 7 daga stöðvunar í júní og um verslunarmannahelgi kemur 10 daga stöðvun og við bætist 15 daga stöðvun í desember. Sú stöðvun hefur ekki mjög mikla þýðingu í öllu venjulegu árferði og er ekki eðlilegt að miða við góð ár eins og nú er því venjulega er umhleypingasamt í desembermánuði og sá mánuður hefur ekki þótt fýsilegur til að gera út smábáta í. Auðvitað fer það nokkuð eftir landshlutum en hér áður fyrr var það afar sjaldgæft að bátar af þessari stærð reru í þeim mánuði. Það má einnig telja vafasamt út frá öllum reglum um öryggi að það sé æskilegt að hvetja til róðra í þeim mánuði.

Þá er gert ráð fyrir því að allir þeir bátar, sem stunda netaveiðar og eru undir 6 brl. að stærð og hafa stundað netaveiðar, fái heimildir til slíkra netaveiða áfram. Einnig hafi allir bátar á bilinu 6–10 brl. heimildir til netaveiða. Þessum bátum ber að ákveða aflahámark á grundvelli reynslu undanfarinna ára og hefur verið við það miðað að þeir fái að njóta reynslu sinnar á árunum 1985–1987 eða nánar tiltekið frá 1. nóv. 1984 til 1. nóv. 1987 og fái að njóta tveggja bestu ára sinna. Er gert ráð fyrir að þeir fái 90% af reynslu sinni en gert er ráð fyrir því að þorskafli þurfi að dragast saman um 10% og því þykir eðlilegt að miða þessa reynslu við 90% en verði þó bundin ákveðnu hámarki.

Það er eftir að ákveða hvert þetta hámark er en í uppkasti að reglugerð sem lagt var fram við umfjöllun málsins var gert ráð fyrir eigin reynslu eða meðaltalsafla, en þar var gert ráð fyrir 50 tonnum fyrir bátana sem eru 6–8 tonn að stærð en 70 tonnum fyrir bátana sem eru 8–10 tonn að stærð.

Það kom mjög glögglega fram við meðferð málsins í Ed. að aðilum þótti þessar tölur vera of þröngar og væri nauðsynlegt að rýmka þær nokkuð. Þá er að sjálfsögðu nauðsynlegt að taka mið af aflareynslu bátanna frá undanförnum árum og sýnist mér öll rök hníga til þess að rétt sé að rýmka þessi aflamörk nokkuð í samræmi við eindreginn vilja sem kom fram í hv. Ed.

Þá er það einnig ljóst að nokkur hluti þessa flota verður í verulegum vanda vegna þess að sumir þeirra hafa enga reynslu frá fyrri tíð, bátar þessir eru margir hverjir mjög dýrir og þess vegna mundu lág meðaltöl fyrir stærstu bátana, sem í reynd eru sumir hverjir stærri en 10 tonn, þær veiðiheimildir vera mjög þröngar.

Það virðist því vera nauðsynlegt að taka upp sérstakan flokk báta sem þessir aðilar gætu þá veitt innan en þess ber að gæta að veiðiheimildir slíkra skipa fari aldrei yfir veiðiheimildir þeirra sem eru í næsta flokki fyrir ofan.

Þótt eðlilegt sé og nauðsynlegt að þeir sem smábátaútgerð stunda njóti fyllstu sanngirni í þessum málum þá verður að sjálfsögðu að gæfa þess að þeir hljóti veiðiheimildir sem eru í eðlilegu samræmi við aðra sjómenn sem stunda veiðar við landið.

Veiðar smábáta hafa farið mjög vaxandi á undanförnum árum. Þegar kvótakerfið var tekið upp á sínum tíma var talið að veiðar þessara báta væru innan við 10 þús. tonn, en eru nú á bilinu 30–40 þús. tonn eða vel yfir 30 þús. tonn. Það er áætlað að þorskveiði þeirra geti orðið u.þ.b. 32 þús. tonn í ár þótt engar nákvæmar tölur liggi fyrir um það enn þá. Það er ljóst að ef þessir bátar njóta rýmri heimilda en aðrir, þá er við því að búast að sjómenn sæki í auknum mæli yfir á slík skip og fari af öðrum skipum í flotanum en smátt og smátt mundi það óhjákvæmilega koma við aflaheimildir annarra.

Menn gera stundum nokkuð lítið úr þessum afla og segja að hann skipti tiltölulega litlu máli en ég minni á að það nálgast nú að hér sé um að ræða 10% af þorskaflanum eða ríflega 8%. Auðvitað skiptir ekki meginmáli hver þessi afli hefur verið í ár eða á sl. ári. Það skiptir meginmáli í hvað stefnir ef þarna eru ekki takmarkanir eins og hjá öðrum. Hin mikla fjölgun bátanna hefur einnig orðið til þess að nauðsynlegt er að breyta reglum.

Það má vissulega um það deila hvort endurnýjunarreglur skuli vera fyrir hvern einasta smábát í landinu en þeir voru 1. jan. sl. yfir 1600 talsins og hefur farið fjölgandi. Slíkt er nær útilokað og því hefur verið ákveðið í þessu frv. að gera einungis ráð fyrir því að bátar sem eru 6 tonn og stærri séu háðir slíkum endurnýjunarreglum. Það er mikilvægur þáttur í okkar þjóðlífi að sem flestir geti notið þess að fara út á sjó og draga fisk, sérstaklega sér til skemmtunar. Það hefur verið mikilvægur þáttur í uppeldi margra manna í landinu og því mikilvægt að þessir bátar, þ.e. minnstu bátarnir, geti verið sem frjálsastir að því er varðar línu- og handfæraveiðar og ekki sé gripið til þess ráðs að allir þurfi að búa við endurnýjunarreglur.

Ég hef, herra forseti, aðeins drepið á nokkur mikilvæg atriði þessa máls sem er mjög þýðingarmikið og varðar hagsmuni hvers einasta byggðarlags í landinu og í reynd hvers einasta manns. Auðvitað er það svo að um það eru skiptar skoðanir og menn hljóta ávallt að leita lýðræðislega sátta í svo mikilvægu máli sem þessu. Ég tel að það hafi verið gert með umfjöllun þessa máls að undanförnu. Það hefur hlotið meiri umræðu og meiri umfjöllun úti í samfélaginu en flest önnur mál og það hefur verið tekið tillit til mjög margra ábendinga við gerð þess.

Auðvitað er það svo að það er ekki mögulegt að ákveða alla hluti til þriggja ára í senn og þess vegna hlýtur að þurfa að ákveða mörg veigamikil atriði með reglugerð og hafa drög að slíkum reglugerðum legið fyrir þótt þær séu engan veginn fullmótaðar. Það kemur fram í ákvæði til bráðabirgða II að sjútvrh. skuli í lok hvers árs setja reglugerð um meginþætti stjórnar botnfiskveiða á komandi ári og hafa um það samráð við sjútvn. Alþingis og samtök helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að þessi samráð séu höfð og legg ég á það áherslu að það verði gert og vænti þess að um það geti verið gott samstarf við sjútvn. þingsins og helstu hagsmunaaðila þótt ég vænti þess að þau drög sem þegar liggja fyrir að þessum reglugerðum greiði fyrir því starfi.

Ég vil að lokinni þessari umræðu, herra forseti, leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.