28.12.1987
Neðri deild: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3261 í B-deild Alþingistíðinda. (2313)

181. mál, stjórn fiskveiða

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru þrjár og hálf klukkustund síðan þetta mál var tekið til umræðu. Sex eru búnir að tala og fjórir af þeim styðja hæstv. ríkisstjórn. Það er um að ræða stjfrv. sem fær þessar viðtökur í hv. deild.

Það hlýtur að vera umhugsunar vert hvernig þessi mál standa. Ég get vissulega tekið undir síðustu orð síðasta hv. ræðumanns og raunar margt annað sem kom fram í hans máli þó að við séum ekki alla jafnan sammála, a.m.k. var það hér á fyrri árum, en svona geta hlutirnir breyst. Sjálfsagt hafa skoðanir beggja breyst á liðnum árum.

Ef ég hef skilið hæstv. sjútvrh. rétt kom fram í hans máli, að ég tel, að hann væri að boða hv. deild að hann væri til viðræðu um breytingar á 10. gr. frekar en hún er orðin. Hafi ég skilið hæstv. ráðherra rétt var galli á hans máli að ekki kom fram hverju hann væri tilbúinn að breyta í þessari grein. Ég held að ef þetta er réttur skilningur hjá mér mundi það hafa stillt ræður ýmissa ef það hefði komið betur fram í máli hans.

Það er margt sem ég hef velt fyrir mér í sambandi við þetta mikilvæga mál síðan hæstv. ráðherra lét mig hafa frv. eins og það var til umfjöllunar fyrir aðila í sjávarútvegi. Það eru margar spurningar sem hljóta að koma upp í hugann þegar slíkt mál er til umfjöllunar. Hv. þm. Jón Sæmundur Sigurjónsson, 5. þm. Norðurl. v., taldi að það væri 25 sinnum í frv. sem hæstv. sjútvrh. er nefndur, en ég komst að þeirri niðurstöðu, hvort sem hún er alveg rétt eða ekki, að ef maður tæki með þar sem stendur sjútvrn. eða sjútvrh. væri það a.m.k. 29 sinnum nefnt. Mér skilst þess vegna að það ætti að vera hægt að stytta þetta frv. nokkuð mikið þar sem það er í raun og veru allt í valdi ráðherra eða ráðuneytis hvernig á þessum málum er haldið því að það eru heimildir til að breyta þessu sitt á hvað í flestöllum greinunum. Ég held að það séu 2–3 þar sem það er ekki tekið fram að það eigi að gera hitt og þetta með reglugerð eða ýmsum ákvörðunum.

Ég man ekki til þess að það sé nokkurt frv., sem ég hef lesið eða fjallað um í þau rúm 20 ár sem ég hef verið hér, sem er gert með þessum hætti, og hafi mér ekki missýnst er um það bil 50% aukning á heimildum skv. þeim lögum sem nú eru að falla úr gildi. Þetta er í sjálfu sér umhugsunarvert atriði.

Það sem mér er þó fyrst og fremst í huga er 10. gr. Það er af mörgum ástæðum. Það er t.d. um viðmiðunarárin. Það er vegna þess að fiskigengd á grunnslóð er mjög misjöfn frá ári til árs. Ef ég tek þann landshluta sem ég þekki best var mjög lítið um fiskigöngu nú fyrir Norðurlandi. Hún kom aldrei t.d. inn á Eyjafjörð. Ég man ekki til eins mikils fiskileysis við Eyjafjörð og var á þessu ári.

Annað sem er í mínum huga er það að margir af trillumönnum, sem gera út þessa litlu báta, hafa haft verulegar tekjur af grásleppuveiðum. Nú horfir mjög illa um slíkt. Það þarf að taka tillit til þess einnig.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi ekki verið athugað um þá sem höfðu verulegar tekjur undanfarið ár af hrefnuveiðum og fengið jafnvel ádrátt hjá ráðuneytinu og ráðherra að þeirra sögn um að þeir mundu fá að veiða eitthvað á þessu og jafnvel síðasta ári en hefur ekki að þeirra sögn verið tekið tillit til þess í sambandi við botnfiskveiðar þessara báta. Þetta þarf að hafa líka í huga þó að þetta séu fáir menn. Þeir eru nógu margir til þess að það þarf að taka tillit til þeirra að mínu mati.

Ég mundi í fullri vinsemd vilja benda hæstv. ráðherra á að með því að breyta 10. gr. held ég að það sé hægt að ná sáttum í þessu máli. Ég væri ánægðastur með að hún væri eins og 9. gr. er í þeim lögum sem nú gilda að því undanteknu að ég held að það hafi verið mikil mistök um báta yfir 6 og 10 tonn að ekki skyldi hafa verið takmarkað hve mikið mætti fjölga þeim, en eins og orðið hefur á sl. árum er sú fjölgun mikil. Það eru held ég mistök. En þetta mál þarf að athuga og ég vil ekki trúa öðru en það væri hægt að ná sáttum í þessu máli ef hæstv. ráðherra leggur sig fram við það. Og þó að það séu ýmis önnur atriði sem ég hefði viljað hafa öðruvísi og jafnvel flestir þeir hv. þm. sem hér hafa talað hygg ég að 10. gr. muni vega þyngst í þessu máli.

Það kom fram hjá hv. 5. þm. Vestf. að minnstur kostnaður við veiðar væri hjá trillunum. Ég held að það sé alveg ugglaust rétt. Fyrir einum tveimur, þremur árum, þegar ég var að athuga þessi mál, það hefur líklega verið fyrir rúmum tveimur árum, þegar þau lög sem nú eru að falla úr gildi voru í meðferð, var talið að um 70% af aflaverðmætinu færu til mannsins eða mannanna sem á þessum bátum voru. Þá var talið að það væri alveg öfugt með stóru skipin, stærstu skipin. Eitthvað hefur þetta kannski breyst síðan, en þetta eru tölur sem þýðir ekki að loka augunum fyrir, fyrir utan að þarna er stór hópur manna og heilar byggðir í mikilli hættu ef á að skerða þennan afla eins og ég skil frv. þó að það hafi tekið breytingum í Ed. Ég veit t.d. um báta sem hafa verið keyptir nýlega og mér er sagt að fjármagnskostnaðurinn sé með netum og öllu hálf fjórða milljón. Þá geta menn séð með þeim vöxtum sem eru í dag hvað þessir bátar þurfa að hafa til þess að það sé lífvænlegt að reka þá og engin leið að selja þessa báta að öllu óbreyttu.

Ég ætla ekki að tala lengi. Ég vil þó segja að það er margt umhugsunarvert í þessu sambandi. Eins og horfir t.d. um hrefnu- og hvalveiðar og jafnvel um fjölgun á selastofninum munu þessi dýr taka nokkuð stóran hlut af þeim fiski sem annars væri óhætt fyrir okkur að veiða. (HG: Ekki hvalurinn.) Jú, jafnvel hvalirnir. Eftir því sem mér er sagt er það dálítið. (HG: Það er vitleysa.) Ja, það kann að vera, en mér er sagt þetta. En ég hef séð úr hrefnumaga líklega um eða yfir 100 kíló, úr hrefnu sem var á milli 4 og 5 tonn. Ég hef séð líka að selurinn tekur verulegt magn. M.a.s. er fullyrt að hann taki lax. Og ég hef veitt silung sem var selbitinn. Það fer áreiðanlega ekki á milli mála.

Hv. 5. þm. Vestf. var að fagna hvernig 1. gr. í þessu frv. er, með leyfi forseta:

„Fiskistofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“

Ég man ekki betur en í stjórnarsáttmálanum standi líka að það sé stefnt að því að lækka vexti — eða er það ekki, hv. þm.? En raunin er sú að þeir hafa dálítið hækkað. Á fimm mánaða tímabili hækkuðu vextirnir um 60% eða um 12% að meðaltali á mánuði. Það er ekki nóg að hafa markmið. Það þarf að fara eftir þeim. Og þó ég sé ekki að gefa það í skyn að frv. þetta sé eins slæmt og vaxtastefnan er áreiðanlega þörf á því og verða aldrei sættir um annað en breyta frv., a.m.k. 10. gr.

Forseti. Ég ætla að láta máli mínu lokið að sinni, en mun e.t.v. ræða þetta fyllra við 2. umr. ef ekki verður breyting á a.m.k. 10. gr.