28.12.1987
Neðri deild: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3264 í B-deild Alþingistíðinda. (2314)

181. mál, stjórn fiskveiða

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu stærsta mál þjóðarinnar og það sem varðar íslensku þjóðina mest. Sá tími sem okkur er ætlaður til að afgreiða þennan málaflokk hér á Alþingi er skammur. Það hefði verið ástæða til þess að Alþingi Íslendinga hefði fengið að fjalla ítarlega um þennan málaflokk og ræða hann mjög gaumgæfilega. En það er lögð áhersla á að þetta verði afgreitt í flýti og sem mest eftir vilja hæstv. sjútvrh.

Allt frá útfærslu landhelginnar 1975 í 200 mílur og með endanlegum yfirráðum okkar yfir fiskistofnum, auðlindum okkar í hafinu umhverfis landið hafa átt sér stað jákvæðir hlutir, en þó einnig óæskilegir. Það góða er að við höfum einir yfirráð og stjórn á fiskveiðum umhverfis landið. Þetta hefur orðið til þess að við búum nú við mesta góðæri í sögu landsins. Hin efnahagslegi ávinningur af yfirráðum okkar yfir fiskveiðunum er svo mikill að nú erum við með þjóðartekjur sem eru meðal hinna hæstu er þekkjast á vesturhveli jarðar. Það er hins vegar vandamál að fara svo vel sé með þann þjóðarauð sem hafið er okkur Íslendingum. Meginhluti þessa vanda er að við tryggjum ávallt að fiskistofnar séu verndaðir en um leið hámarksveiðar. Það er því ljóst að halda verður áfram með takmarkanir á aflamarki en ekki hvað síst með í huga að bylting hefur átt sér stað í fiskveiðum hin síðustu ár svo nánast er hægt að finna og veiða hvaðeina sem óskað er.

Undanfarin ár hefur verið hamlað gegn ofveiði með svokölluðu kvótakerfi. Þetta kerfi í núverandi mynd hefur gengið sér til húðar. Þar kemur ýmislegt til. Í fyrsta lagi var aldrei ætlunin að ákveðnir aðilar ættu alla fiska sjávar, öll auðæfi sjávar þjóðarinnar, og skiptu þeim á milli sín. Þessi auðæfi eru sameign allra landsmanna og þeir eiga að njóta þess. Í annan stað er núverandi fyrirkomulag siglt í strand vegna spillingar, fáránleika og heimsku sem þetta leiðir af sér. Í þriðja lagi hefur þetta leitt af sér óeðlilega breytingu á rekstri fyrirtækja í fiskverkun og veiðum eftir landshlutum og byggðarlögum. Samkeppni, framsýni, áræði og vilji til að vera fremstur meðal jafningja hefur verið drepið í dróma með gamla skömmtunarkerfinu þar sem aðilum er stundum hyglað eftir möguleika á atkvæðaöflun.

Þá er það fyrst atriðið, sem ég ræddi um, hvernig eignarhaldi á nytjum sjávarfangs er varið eða ætti að vera varið. Hver á fiskinn? Hver á þær lífverur sem við veiðum í hafinu kringum landið? Samkvæmt núverandi kerfi hafa þeir sem áttu skip þegar þetta fyrirkomulag var sett á laggirnar eignast fiskinn í sjónum að stórum hluta. Hvað þýðir það að einhver á kvóta? Jú, samkvæmt nýjustu upplýsingum um sölu á skipum geta menn selt hvert tonn af kvóta á töluvert háar upphæðir umfram dýrleika skipsins. Þetta eru staðreyndir sem verður ekki gengið fram hjá.

Við umræður um þetta mál og yfirlestur á því frv. sem hér hefur verið lagt fram hafa komið í huga mér hugmyndir Vilmundar heitins Gylfasonar varðandi þingnefndir og ýmsa þá stjórnarfarsbreytingu sem hann hafði í huga. Ég held að margt af því sem hann sagði hafi verið rétt.

Ég ætla ekki að fara nánar út í það hér, en ég vil minna á að sagan af þessu fyrirkomulagi er löng. Það voru margir menn sem stóðu að því að koma á 200 mílna landhelgi sem var sett á í mörgum þrepum eins og við vitum. Ég vil vitna í grein sem dr. Gunnar Thoroddsen heitinn skrifaði í Morgunblaðið sunnudaginn 2. sept. 1973, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir:

„Utan núgildandi 50 mílna marka eru mikilvæg fiskimið. Þar eru ýmsir nytjafiskar, bæði uppsjávarfiskar og djúpfiskar. Sumir þessara fiskistofna eru í bráðri hættu og mörg dæmi eru því miður um stórkostlaga ofveiði af hálfu erlendra fiskiflota á hafsvæðum á milli 50 og 200 mílna. Þessi ógn, sem yfir vofir, knýr okkur til aðgerða. Lífshagsmunir þjóðarinnar veita okkur rétt til þess. En það er einnig skylda okkar gagnvart framtíð íslensku þjóðarinnar. Og hverjum stendur það nær en strandríkinu, sem að öllum réttum rökum á þessi mið, að reyna að hindra rányrkju skammsýnna stórþjóða og gera það áður en það er um seinan?"

Þetta er meginmarkmiðið í fiskveiðistefnu okkar, að þegar við náðum yfirráðum yfir hafsvæðinu í kringum landið var það fyrst til að hindra rányrkju skammsýnna stórþjóða, síðan til að hindra rányrkju okkar sjálfra og nýta fiskinn sem best. Það fer ekki milli mála að það er meginmarkmiðið. En ef við lítum á það fyrirkomulag sem fyrst var tekið upp og það fyrirkomulag sem er núna sjáum við að þessi markmið hafa ekki náðst með núverandi fyrirkomulagi. Núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir hámarksafla af botnfiski og öðrum fisktegundum, en það hefur ekki skilað í raun því sem til stóð frekar en eldra fyrirkomulagið sem við bjuggum við þannig að núverandi fyrirkomulag hefur enga kosti fram yfir það fyrirkomulag sem við höfðum áður en núverandi lög voru sett. Það hefur ekki skilað neinu í heildaraflamagni, í heildarfriðun og heildarstýringu frekar en eldra kerfið nema það eru margir vankantar á núverandi kerfi.

Það er í fyrsta lagi að endurnýjun skipa er komin í sjálfheldu. Helst er það að menn taki gömul skip og geri þau upp og byggi í rauninni alveg ný skip úr þeim í staðinn fyrir að það þyrfti að verða endurnýjun á skipaflotanum, eðlileg endurnýjun. Þar að auki hefur það orðið nú upp á síðkastið að við endurnýjun og endurbyggingu skipa hefur aðbúnaði sjómanna verið ábótavant. Það hefur verið afturför varðandi þessi atriði. Það er farið að takmarka það rúm sem sjómönnum er ætlað um borð vegna þess að skipin eru höfð svo lítil að það er ekki pláss fyrir sjómennina.

Þá er það kaup og sala skipanna. Við höfum séð að söluverð skipa, eins og ég kom réttilega inn á áðan, hefur verið langt umfram það sem raunvirði skipanna er þannig að menn hafa verið að kaupa og selja skip á allt öðru verði en raunvirði þeirra er. Þetta er ekki þjóðhagslega hagkvæmt. Þá er núverandi kerfi þannig uppbyggt að okkar gamla stolt er úr sögunni, aflamennirnir sem börðust um fiskinn. Það var stolt allra að við áttum aflakónga. Nú er ekki miðað að því. Það skiptir ekki máli lengur því nú er allt njörvað niður og aflakóngarnir, sem voru mikið fréttaefni fyrr á árum, eru ekki lengur til. Þessi eiginleiki, sem er misjafn og ekki öllum gefinn, að veiða fisk, er drepinn í dróma. Síðan er það, og ekki hvað minnst, að það er ekki litið á tilkostnað við veiðarnar. Það liggur ljóst fyrir að minnsti tilkostnaðurinn er á smábátunum. Því er þjóðhagslega hagkvæmt að reka þessa báta og útgerðir þeirra. Nú á að setja bönd kvótans yfir á þessi hagkvæmu atvinnutæki.

Þau forréttindi sem kvótakerfið hefur skapað eru einstæð. Nú er að myndast ný stétt, svokallaðir „kvótaeigendur“, sumir hafa kallað þá „sjávargreifa“ eða öðrum slíkum nöfnum, sem á fiskinn í sjónum. Menn geta erft fiskinn í sjónum ef menn hafa átt skip á réttum tíma. Hagkvæmni og afrakstur eru ekki lengur aðalmarkmið í útgerð.

Ég minnist þess að þegar við færðum út í 200 mílurnar reit ég grein í Morgunblaðið, sunnudaginn 18. ágúst 1974. Þá sagði ég m.a.: „Það er mikill ábyrgðarhluti að öðlast einir yfirráð þeirra hafsvæða sem tilheyra Íslandi. Það er ekki nægilegt að fá ráðin yfir þessum auðugu fiskimiðum heldur verður einnig að varðveita þau og bæta. Við verðum að skipuleggja veiðar allt í kringum landið í samræmi við stærð fiskistofnanna. Kaup fiskiskipa og endurnýjun flotans verða að haldast í hendur við raunhæfa nýtingu fiskistofnanna. Sú happa- og glappaaðferð, sem ráðið hefur hingað til að mestu leyti, verður að víkja fyrir markvissum vinnubrögðum. Í dag stöndum við á tímamótum. Dugnaður og elja Íslendinga í sjávarútvegsmálum hefur skipað þeim í fremstu röð. En við verðum að horfast í augu við breytta tíma næstu áratugina og byggja sjávarútveginn upp með hliðsjón af þessu. Þegar það er haft í huga að fiskistofnarnir fara minnkandi og sú hætta vofir yfir að ofveiði geri út af við fiskisæld hér við land er ekki vonum seinna að tekið verði til óspilltra málanna og tilraunir hafnar til að auka fiskistofna með hjálp manna. Ef mið er tekið af árangri við fiskirækt og fiskeldi í ferskvatni er ekki fráleitt að álíta að svipaður árangur geti náðst í framtíðinni í sjónum.“

Því vitna ég í þessa grein mína hér, sem að vísu fjallaði meira um 200 mílurnar sem slíkar, að ég held að í þessum stutta kafla komi einmitt fram þau vandamál og það sem þurfti einmitt að leysa nú.

Það er ekki út í hött að það er barist um kvótana. Það er ekki aðeins að hér er um mikil verðmæti að ræða heldur mestu verðmæti þjóðarinnar sem um getur.

Ég held að þegar við lítum á hlutverk sjómannastéttarinnar sé hlutur hennar ekki mikill í þessu fyrirkomulagi. Ég minnist þess að Guðmundur Kjærnested skipherra skrifaði í 5. tölublað Víkings 1974 og sagði m.a., með leyfi forseta:

„Nú fara í hönd alþingiskosningar og ekki er þar margur sjómaðurinn í vonarsæti. Þeir hafa víst ekkert á þing að gera. Þar nægir að hafa lögfræðinga og kennara til þess að ákvarða landhelgina og bændur og leikara til þess að ákveða hvar má fiska í landhelginni. Þar eru ekki höfð í ráðum samtök sjómanna. Það eru aðrir spekingar sem þar vita betur. "

Ég held að að sumu leyti eigi þetta vel við hér. Raunverulega eru sjómenn, þeir sem vinna hörðum höndum og hafa dregið afla að landi, ekki hafðir með í ráðum. Það er gengið fram hjá þeim. Sérstaklega á þetta við smábátana. Ég held að þessi orð eigi vel rétt á sér í dag.

Í Morgunblaðinu, 4. nóvember núna í haust, var skrifuð merkileg forustugrein. Hún fjallaði að sjálfsögðu um þetta svokallaða kvótafrv. Eftirfarandi stendur þar, með leyfi hæstv. forseta:

Fyrirsögnin er svohljóðandi: „Fylgikvillar í haftabúskap.“

„Nýlega urðu umræður utan dagskrár á Alþingi vegna þess að Útgerðarfélag Akureyringa hefur keypt togarann Dagstjörnuna frá Suðurnesjum. Hefði þar með sjöundi togarinn verið seldur af þessu svæði. Í umræðum um málið kom fram að útgerð á Suðurnesjum ætti ekki síst undir högg að sækja vegna kvótareglnanna svonefndu, þ.e. þeirra reglna sem gilda um skiptingu afla á milli einstakra fiskiskipa og þar með landshluta.

Á þingi Verkamannasambandsins í síðustu viku vakti Þröstur Ólafsson, fulltrúi sambandsins í ráðgjafarnefnd um stjórnun fiskveiða, máls á sölu þessa sama togara og sagði m.a.:

„Ég hef heyrt að kaupverð á togaranum Dagstjörnunni hafi verið um 180 millj. kr. Glöggir menn telja að gangverð á svona skipi án kvóta sé um 50 millj. kr. Vátryggingarverð er um 80 millj. og það er venjulega allt of hátt. Kvóti skipsins, 2700 tonn, er því seldur á um 130 millj. kr., 50 þús. kr. tonnið og 50 kr. kg. Kvótinn verður reyndar notaður áfram til fjögurra ára verði það samþykkt á Alþingi og þá kostar hvert kg af fiski a.m.k. 12,50 kr.“

Þessar umræður um sölu á Dagstjörnunni eru hér rifjaðar upp til að varpa ljósi á eina hlið fiskveiðistefnunnar. Mótun þessarar stefnu fyrir næstu árin er nú í deiglunni. Fjölmenn ráðgjafarnefnd hefur haldið fundi undanfarnar vikur. Á döfinni eru þing Landssambands ísl. útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambandsins og formannaráðstefna Sjómannasambands Íslands auk fiskiþings. Þarna eru komnir saman fulltrúar þeirra sem standa fiskveiðistefnunni næst, ef þannig má orða það, auk fiskvinnslunnar.

Undirbúningur stefnumótunar er að verulegu leyti í höndum þessara aðila, en að lokum er það Alþingi sem tekur af skarið. Er mikið í húfi því að hér er ekki verið að fjalla um neina einkaeign þeirra sem sækja sjóinn eða vinna verðmæti úr aflanum, heldur sameign þjóðarinnar allrar, sjálfa undirstöðu þjóðarbúskaparins.

Ef þær tölur sem koma fram í ræðu Þrastar Ólafssonar og vitnað var til hér að ofan eru réttar, þá hafa fiskveiðistefnan og kvótareglurnar haft svipuð áhrif og innflutningshöft fyrir fjórum áratugum eða svo. Þá þurftu menn að leita til viðskiptanefndar og fjárhagsráðs ef þeir vildu fá erlendan gjaldeyri eða flytja inn varning frá útlöndum. Þá var svartur markaður með gjaldeyri hluti af hinu daglega lífi í landinu og vörur sem leyfi fékkst fyrir voru seldar á uppsprengdu verði af því að menn borguðu svo og svo mikið fyrir leyfið. Sagt var að jeppar sem kostuðu 20 þús. kr. væru seldir á 70 þús. kr. vegna þess hve leyfið sjálft var verðmætt í augum þeirra sem vildu eignast jeppa.

Efnahagssaga áranna 1930–1960 ætti að vera mörgum þeirra sem vinna að því að móta fiskveiðistefnuna í minni. Af eigin raun kynntust útgerðarmenn, sjómenn og fiskverkendur því hve fylgikvillar haftakerfisins voru alvarlegir. Ekki er nóg með það. Reynslan sýndi einnig að höft höfðu alls ekki þau áhrif sem stefnt var að með þeim. Atvinnulífið var drepið í dróma, opinber ofstjórn var óskilvirk og menn beittu öllum ráðum til að fara í kringum kerfið. Ættu þm. að huga að þessum kafla í sögu Alþingis og líta á tíðar umræður innan veggja þess um höftin og hindranir þegar þeir huga að opinberum afskiptum af fiskveiðum. Sagan sýnir að þeir sem voru andvígir höftum létu sig hafa það að kyngja þeim í þeirri trú að þeir væru að fórna minni hagsmunum fyrir meiri. Enginn stjórnmálaflokkur var sannfærðari um gildi opinberrar íhlutunar í málefnum atvinnu og verslunar en Framsfl. þótt ekki vildi hann þjóðnýtingu eins og Alþfl. og kommúnistar. Í skjóli þessa kerfis náði SÍS öruggri fótfestu.

Allir eru á einu máli um nauðsyn þess að hafa stjórn á sókn í takmörkuð auðæfi sjávar. Í þeirri viðleitni mega menn ekki horfa fram hjá fylgikvillunum. Þeir geta ekki síður orðið hættulegir en sá sjúkdómur sem ætlunin er að uppræta.“

Ég held að þessi leiðari eigi afskaplega vel við um þetta frv. Við í Borgarafl. höfum flutt brtt. við þetta frv. þótt við séum andvígir því í megindráttum vegna þess að við teljum að það þjóni ekki þeim hagsmunum, þeim markmiðum sem við setjum okkur við fiskveiðar.

Við höfum og munum leggja fram brtt. við þétta frv. sem eru samhljóða þeirri brtt. sem við fluttum í Ed.

Það er í fyrsta lagi það að við gerum þá brtt. við þetta frv. og óskum eftir því að það breytist að óheimilt sé að skipta landinu í veiðisvæði og stuðla að misrétti milli landshluta. Ég vil þó segja um þessar breytingar í heild að við flytjum þær brtt. sem við teljum að geti náð fram hér og séu raunhæfar þó að við vildum allt aðra stjórn á þessum fiskveiðum.

Þá komum við að nýrri grein sem við leggjum hér fram og er um það að sérstök framkvæmdanefnd fari með stjórn fiskveiða samkvæmt lögum þessum. Nefndin skal skipuð níu mönnum kosnum hlutfallskosningum til eins árs í Sþ. eftir gildistöku laga þessara. Kosnir skulu jafnmargir varamenn. Formaður nefndarinnar boðar hana til fundar í samráði við sjútvrh. Á fundum nefndarinnar ræður afl atkvæða. Ríkisstjórnin ákveður þóknun til nefndarmanna.

Verkefni framkvæmdanefndar um stjórn fiskveiða eru að gera tillögur til sjútvrh. um reglugerðir um framkvæmd laga þessara, að fjalla um leyfi, heimildir og undanþágur samkvæmt lögum þessum og reglugerðum og gera tillögur í þeim efnum til ráðherra. Að fjalla um álita– og ágreiningsmál, sem ekki falla undir fiskveiðidóm varðandi veiðileyfi, aflamark og sóknarmark samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim og að gera tillögur til ráðherra um úrvinnslu þeirra.

Ég held að við séum hér komin að mjög mikilvægum punkti í þessu máli. Hér er verið að færa valdið frá Alþingi, valdið frá dómstólunum undir framkvæmdarvaldið.

Það þótti, þegar lögin 1976 voru samþykkt, á mörkunum að þau stæðust samkvæmt stjórnarskrá Íslands. Þessi lög hér standast alls ekki þau meginmarkmið sem eru í okkar stjórnarskrá og ákvæði um þrískiptingu ríkisvaldsins í framkvæmdar-, löggjafar- og dómsvald. Í þessum lögum er aðeins eitt vald, þ.e. vald ráðherrans, vald ráðherra og ráðuneytis. Og eins og hv. 7. þm. Reykn. Júlíus Sólnes komst að orði í sinni ræðu í Ed. hefði þetta frv. alveg eins getað hljómað svona:

1. gr. Ráðherra er einráður um stjórnun fiskveiða.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Þegar maður er búinn að lesa allan þennan lagabálk liggur það ljóst fyrir að Alþingi ræður engu. Ráðherra ræður öllu. Þar að auki er dómsvaldið fært í hendur ráðherra, þannig að hann starfar sem dómstóll, framkvæmdarvald og löggjafarvald. Þetta frv. hér er raunverulega málamyndafrv. Það skiptir engu máli hvað stendur í því því að ráðherra er einvaldur um það sem í því stendur. Meginmálið er að Alþingi er hér valdalaust og það skiptir engu máli hvað við samþykkjum hér miðað við það frv. sem hér liggur fyrir vegna þess að ráðherra er einráður. Hann getur gert hvað sem er. Hann getur búið til reglugerðir eins og honum sýnist um hvað sem er og það skiptir engu máli í rauninni hvað við samþykkjum hér. Við stöndum hér á tímamótum í sölum Alþingis. Við stöndum á þeim tímamótum að við erum að taka afstöðu til þess hvort það er Alþingi sem setur lögin eða hvort það er ráðherra. Ef það er ráðherra þurfum við ekki Alþingi. Þetta er kjarnaatriði í okkar stjórnskipun. Stjórnarskráin kveður skýrt á um þetta og ég tel að þetta frv. jaðri við stjórnarskrárbrot. Það er farið algjörlega á skjön við okkar meginhugmyndir um lýðræði.

Þá vil ég koma að því sem við höfum lagt fram í brtt. Við leggjum til að réttur smábáta, 9. gr. sem var í gamla frv., verði óbreyttur. Það er alveg ljóst að smábátarnir eru ekki það afl að þeir ofveiði fiskinn. Ég mun vitna hér í bréf sem Hafrannsóknastofnunin hefur sent Landssambandi smábátaeigenda varðandi fyrirspurnir þess félags. Og það er dálítið athyglisvert bréf um margar sakir. Ég vil með leyfi forseta lesa hér úr því, en þar segir m. a.:

„Varðandi fyrirspurn ykkar um fiskifræðileg rök er liggja að baki aflatillögum Hafrannsóknastofnunar skal eftirfarandi tekið fram:

Fiskveiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar til stjórnvalda miðast við það að stuðla að skynsamlegri nýtingu auðlinda hafsins. Til þess að svo megi verða gerir Hafrannsóknastofnunin tillögur um aflahámark sem dregur úr eða kemur í veg fyrir ofveiði á viðkomandi tegund. Hugtakið ofveiði hefur í daglegu tali þrenns konar merkingu.

1. Ofveiði sem skerðir nýliðun, þ.e. að svo hratt er sótt í fiskstofn að hann nær ekki að endurnýjast eðlilega. Slík ofveiði leiðir fyrr eða síðar til viðkomubrests og hruns viðkomandi stofns. Nærtækt dæmi: Íslenska vorgotssíldin sem aldrei hefur náð sér eftir hrun seint á 7. áratug.

2. Ofveiði sem dregur úr nýtingu. Slík ofveiði getur verið með tvennum hætti.

Í fyrsta lagi þegar of hratt er sótt í stofninn í heild, þannig að vegna mikils sóknarþunga næst ekki hámarksafrakstur á nýliða. M.ö.o., fiskveiðidánarstuðlar í stofninum eru of háir til þess að einstaklingar nái þeim vexti sem gefur hámarksafrakstur.

Í öðru lagi þegar svo hratt er sótt að hlutfallsleg sókn í smáfisk er það mikil að einstaklingarnir í stofninum ná ekki að vaxa og afraksturinn því minni en ella.

Í þriðja lagi, hagræn ofveiði. Þegar sókn í fiskstofn er meiri en sú sem gefur hámarksarð. Hagræn ofveiði er oftast til staðar áður en líffræðileg ofveiði segir til sín. Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar varðandi þorskstofninn beinist fyrst og fremst að því að sporna gegn þeirri ofveiði sem dregur úr nýtingu hans. Til þess að bæta nýtingu stofnsins hefur Hafrannsóknastofnunin lagt áherslu á að dregið sé úr smáfiskadrápi með öllum tiltækum ráðum. Í þessu skyni hefur möskvi verið stækkaður í botnvörpupoka í 155 mm, komið hefur verið á friðuðum svæðum þar sem reynslan hefur sýnt að smáfiskur heldur sig jafnan. Enn fremur hefur verið gripið til skyndilokana þegar hlutur smáfisksins í afla hefur farið yfir svonefnd viðmiðunarmörk.

Nokkur árangur hefur náðst við að vernda smáfiska, en hin allra síðustu ár hefur sókn í smáfiska þó aukist á ný. Hægt hefur miðað að draga úr sókn í heild þar sem fiskveiðidánarstuðlar í þorskstofninum eru enn langt umfram æskilegt mark sem þarf til þess að stofninn gefi af sér hámarksafrakstur. Þess vegna hefur Hafrannsóknastofnunin árum saman lagt til ákveðinn hámarksafla sem miðar að því að draga úr þessari umframsókn í þorskinn. Tillögur um hámarksafla hafa tekið mið af því að nýta stærð þeirra árganga sem eru að koma inn í veiðistofninn á þann hátt að stofninn vaxi á næstu árum eða m.ö.o. að minna sé veitt úr stofninum en sem nemur árlegri endurnýjun hans.

Þegar litið er á sókn, veiðidánartölu, í þorskstofninn undanfarna þrjá áratugi er mjög áberandi að þrátt fyrir að nýliðun hafi verið svipuð undanfarna áratugi hefur afli ekkert aukist þótt sókn hafi tvöfaldast á þessu tímabili. Hins vegar hefur veiðistofn rýrnað allverulega á sama tíma. Minnstur varð hann um 800 þús. tonn árið 1983 en á árunum fyrir 1960 var veiðistofninn milljón lestum stærri. Stofninn hefur aftur farið vaxandi nú allra síðustu árin, fyrst og fremst vegna þess að tveir stórir árgangar frá árunum 1983 og 1984 eru nú að koma inn í veiðistofninn. En þegar þeirra nýtur ekki lengur við og lakari árgangar frá árunum 1986 og 1987 bætast í veiðistofninn mun stofninn minnka aftur ef veiðar verða ekki takmarkaðar.

Sú ráðgjöf sem Hafrannsóknastofnun hefur veitt nýlega miðar að því að nýta þessa tvo stóru árganga til endurreisnar stofnsins á þann veg að spornað verði við því að stofninn minnki á ný er fram í sækir. Meginrökin fyrir stækkun þorskstofnsins eru þau að þegar stofninn er stór eru í honum fleiri árgangar en þegar stofninn er lítill. Veiði á stórum stofni byggist því á fleiri árgöngum. Misfarist klak eitt árið verður minni sveifla niður á við í aflabrögðum en þegar veiði byggist á litlum stofni. Með stækkun þorskstofnsins er því fyrst og fremst verið að tryggja að aflasveiflur minnki frá ári til árs. Þótt ekki hafi fundist samband á milli stærða hrygningarstofnsins og fjölda nýliða er ljóst að með stærri stofni mun hrygning ná víðar í tíma og rúmi sem hugsanlega stuðlar að betri nýliðun. Þá mun meiri afli á sóknareiningu fást úr stórum stofni en litlum og stuðlar því stærri stofn einnig að hagkvæmari veiðum. Enn fremur er markmiðið að nýta stofninn í samræmi við fæðuframboð hverju sinni svo og í samræmi við gagnvirkni stofna í hafinu umhverfis landið og er unnið að rannsóknum á því sviði. Og nú kemur niðurstaðan.

Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt að framan fylgja svör við spurningum mínum:

1. Er jákvætt jafnvægi milli stofnstærðar og nýliðunar?

Svar: Ekki hefur fundist beint samband milli stærðar hrygningarstofns og nýliðunar. Ekki er heldur vitað hve hrygningarstofn þorsksins getur verið lítill án þess að viðkomu þorskstofnsins sé hætta búin. Víst er þó að einhvers staðar hljóta neðri mörkin að vera, a.m.k. yrði engin nýliðun án hrygningarstofns.

2.a. Er þorskstofninn svo illa á vegi staddur að það sé nauðsynlegt að grípa til róttækra takmarkana?

Svar: Íslenski þorskstofninn er ekki í hættu staddur að því er virðist. Hins vegar er mjög lítið af eldri fiski í stofninum, þ.e. fimm ára og eldri. Uppistaða hans er tveir árgangar sem nú eru að bætast í veiðistofninn, þ.e. árgangarnir frá 1983 og 1984. Ef ekkert er að gert til að draga úr veiði á þessum ungfiski er hætta á að árgangarnir nýtist illa vegna harðari sóknar einmitt þegar fiskurinn vex hvað hraðast. Þá telur Hafrannsóknastofnunin æskilegt að nýta þessa tvo árganga að nokkru leyti til að byggja stofninn upp svo að unnt verði að halda tiltölulega stöðugum afla enda þótt nýliðun versni hugsanlega á næstu árum.

b. Er Hafrannsóknastofnun þeirrar skoðunar að góðærið eitt sér ráði vexti fiska?

Svar: Það sem einkum ræður vexti fiska er fæðuframboð og sjávarhiti.

c. Eru fiskifræðingar ekkert hræddir við það að þorskurinn geti étið sig út á gaddinn?

Svar: Þorskstofninn er nú talinn vera rúm ein milljón tonna. Þetta er talsvert innan við helming þess sem hann var á sjötta áratugnum, ekki bara af því að hann æti sig út á gaddinn þá. Miðað við núverandi fæðuframboð og stærð stofnsins er slíkt mjög ólíklegt.

3. Hvað er það sem réttlætir sóknartakmarkanir þegar sóknarafrakstursferillinn er slíkur?

Svar: Þegar afraksturinn á hvern nýliða er reiknaður, sbr. ýsulínuritið á bls. 13 í skýrslu okkar, er gert ráð fyrir viðteknu fiskveiðimynstri. Ef þetta fiskveiðimynstur breytist þannig að meira eða minna er veitt af smáýsu en þarna er gert ráð fyrir minnkar og eykst afraksturinn á nýliða. Nú er væntanlegur í veiðistofni ýsu mjög stór árgangur. Þær takmarkanir sem nú er lagt til að verði á ýsuveiðum beinast einkum að því að þessi árgangur nái út nokkrum þroska áður en hann er allur uppurinn. M.ö.o. til þess að ná sem bestri nýtingu úr þessum árgangi er nauðsynlegt að takmarka sóknina í hann meðan hann er enn í örum vexti.“

Ég held að þetta sé mjög athyglisvert bréf og sýni svo að ekki verður um villst að það er langt frá því að okkar ágætu fiskifræðingar viti nákvæmlega hvað er að gerast. Það er líka ljóst að það verða ekki smábátarnir sem ofveiða fiskinn og ég hef ekki trú á því að þeir muni breyta miklu um þar.

Ég vil undirstrika það að við stöndum mjög fast við bakið á smábátaeigendum og höfum flutt og flytjum hér í deildinni við 2. umr. tillögu um það að 9. gr. sem núna er 10. gr. verði óbreytt frá fyrri lögum. Ég tel að reglur um smábáta eigi að fá að vera nánast óbreyttar. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Þetta er stórt mál, þetta varðar fjölda fólks og það er alvarlegt mál ef þessu verður breytt.

Þá er ég kominn að þeim hluta sem við gerum brtt. um. Við gerum ráð fyrir því að skipaður verði sérstakur dómstóll til að fjalla um brot gegn lögum þessum. Ég kom hér inn á áðan að það er áhyggjuefni að dómsvaldið skuli fært frá Alþingi, frá dómstólunum, þannig að dómsvaldið skuli vera í höndum ráðherra. Það væri vafalaust mikill léttir fyrir ráðherra og starfsmenn ráðuneytisins ef þeir þyrftu ekki að vera að fjalla um dómsmál. Eins og ég kom inn á fyrr í ræðu minni var þetta talið mikið álitamál þegar lögin voru samþykkt 1976 og núna tel ég að það sé ekki nokkur vafi að þetta stangist á við stjórnarskrána. Í nýföllnum dómi Mannréttindadómstóls Evrópuráðsins kom það mjög skýrt fram að dómsvaldið verður að vera sér. Það verður að vera þrískipting valdsins, í framkvæmdarvald, löggjafarvald og dómsvald. Og ég er sannfærður um það að við munum fá annað mál sem rekið verður fyrir Mannréttindadómstólnum í Evrópu ef ekki verður tekið inn ákvæði um dómstól í þessum lögum og íslensk stjórnvöld munu tapa því máli og við munum setja niður í annað skipti því að við höfum ekki farið eftir þeim reglum og þeim lögum sem við höfum samþykkt hjá Evrópuráðinu.

Það er mjög stórt atriði að við höldum okkur innan þeirra marka sem stjórnarskrá okkar setur okkur um þrígreiningu valdsins. Það er mjög mikilvægt að við framfylgjum stjórnarskránni því að þrátt fyrir að hún sé stutt er hún góð að mínu mati og ef farið er eftir því sem stendur í henni þurfum við ekki að örvænta. Sú stefna sem rekin hefur verið undanfarin ár, að færa æ meiri vald undir framkvæmdarvaldshafana, er hins vegar ekki í anda stjórnarskrárinnar, er ekki í anda lýðræðisins. Þess vegna er mikilvægt að við höldum okkur við ákvæði stjórnarskrárinnar og látum dómarana um dómsvaldið, Alþingi um löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið um sinn þátt.

Hér í umræðum í kvöld hafa komið fram mörg ágæt sjónarmið og flest eru í þá veru að menn eru langt frá því að vera ánægðir með frv. sem liggur fyrir. Það er meginniðurstaðan. Það er því ámælisvert þegar reynt er að þvinga þetta stærsta hagsmunamál þjóðarinnar í gegnum Alþingi undir yfirskini tímapressu í orðsins fyllstu merkingu.

Í Tímanum 23. desember er forsíðufrétt og þar stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Stjórnlaus veiði á miðunum í janúar. Svo getur farið verði frumvarp um fiskveiðistjórnun ekki samþykkt fyrir áramót. Sífellt fleiri alþýðuflokksmenn tvístígandi í afstöðu sinni til frumvarpsins.“ — Fréttin heldur áfram hér á innsíðu og þar er talað um að verði óheftar veiðar eða gripið til kyrrsetningar.

Það er áhyggjuefni að frv. skuli lagt fram svo skömmu fyrir áramót að það á að notfæra sér það til að knýja í gegn frv. nær óbreytt í nafni tímapressu. Það er mjög mikilvægt að í þessu stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar fái Alþingi tíma til að ræða um það og komast að þeirri niðurstöðu sem er talin best á hverjum tíma. Ég tek undir orð þau sem hv. 1. þm. Vestf. Matthías Bjarnason, fyrrverandi sjútvrh., hafði hér fyrr í kvöld um þessi mál þar sem hann lýsti yfir því að það væri mikilvægt að það væri samstaða, ekki aðeins með stjórnarþingmönnum, heldur einnig með stjórnarandstöðu um þetta stærsta hagsmunamál.

Ég held að þegar við lítum á þetta mál sjáum við að það er ábyrgðarleysi ef ekki næst samstaða um þetta og það er ábyrgðarleysi af ríkisstjórn Íslands að ætla að knýja þetta frv. í gegn undir því yfirskini að við séum að falla á tíma. Það er ábyrgðarleysi ef á að knýja það, eins og það liggur fyrir, í gegn. Ég tel, eins og ég hef komið inn á áður að það að það skuli brjóta í bága við stjórnarskrá Íslands sé eitt hið stærsta mál sem við fjöllum um hér. Það er ekki ætlast til að allt valdið sé fært undir ráðherra eða ráðuneyti.

Ég hef töluvert farið í gegnum þetta frv. eins og ég kom inn á áðan og það er ekki þess efnis að a.m.k. við í Borgarafl. getum samþykkt það í þá veru. Ég tel mikilvægt að þegar sjútvn. Nd. fær þetta mál til umfjöllunar verði rætt um allar leiðir og alla þá þætti sem við teljum að séu mikilvægir því að þetta er stærsta og mesta hagsmunamál þjóðarinnar. Og það er ekki vansalaust að ætlast til þess að við hér á Alþingi afgreiðum þetta mál eins og þetta sé bara alls ekki neitt mál. Við eigum að afgreiða það í snarhasti aðeins vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki lagt frv. fram nægilega tímanlega hér á þingi og það hefur heldur ekki verið unnið með þeim hætti sem Alþingi er sæmandi. Ég tek líka undir það sem ég las áðan úr forustugrein Morgunblaðsins að Alþingi eigi að gefa sér þann tíma sem það þarf til að fjalla um þetta mál.

Ég hef undir höndunum töluvert mikið af gögnum sem ég gæti farið yfir, sem ég gæti rætt varðandi þetta mál hér í ræðustól en ég ætla ekki að gera það núna. Ég held að við verðum að staldra við. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að með þessu kerfi nú erum við að hverfa til miðalda. Við erum að hverfa aftur til þess tíma þegar örfáir menn réðu yfir þjóðum og verðmætum. Frv. stuðlar aðeins að meira óréttlæti og stuðlar að því að ákveðinn hópur eigi allan fiskinn í sjónum. Ég get ekki staðið að slíku frv. Ég tel það mikilvægt að við hverfum aftur til þess tíma þegar meira frelsi var í þessu. Við höfum séð það í fjöldanum öllum af málum að slík ofstjórnun leiðir alltaf af sér spillingu, leiðir alltaf af sér það að málið endar í blindgötu. Ég held þess vegna að við eigum að feta þennan veg með sama hætti og við höfum fetað í mörgum öðrum málum, að við höfum sem rýmstar reglur. Þess færri reglur sem við getum komist af með þess betra.

Ég vil ekki gera þessi orð mín öllu lengri nú en ítreka það að í sjútvn. fái þetta mál alla þá umfjöllun sem nefndin telur að þurfi og þar verði reynt að komast að samkomulagi og niðurstöðu sem bæði stjórnarþm. og stjórnarandstöðuþm. geta sætt sig við. Verði það ekki verður ófriður um þetta mál og það verður erfitt að framfylgja þessum lögum. Ég er viss um það að sumum hlutum þeirra verður ekki hægt að framfylgja.