28.12.1987
Neðri deild: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3306 í B-deild Alþingistíðinda. (2320)

181. mál, stjórn fiskveiða

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég tel eiginlega óhjákvæmilegt að beina nokkrum orðum til virðulegs forseta út af þessu fundahaldi hér. Ég tel það afar eðlilegt að það séu margir sem taka hér þátt í umræðum um þetta þýðingarmikla mál. Þrettán manns hafa verið hér í sex tíma að ræða þetta stjfrv. En ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því að við erum komin langt út yfir öll þau mörk sem hafa verið fyrir venjulegu kvöldfundarhaldi hér á Alþingi það sem af er þessa þings og má reyndar leita lengra að ég hygg. Hér hefur lengst staðið fundur fyrr á jólaföstunni til kl. 1.50 að því er skrifstofa þingsins upplýsir. Menn hófu fund í Sþ. kl. tvö í dag. Þar fór fram löng og ströng atkvæðagreiðsla, í fjóra tíma eða svo sem sá fundur stóð. Og nú höfum við verið hér linnulaust í rauninni á kvöld- og næturfundi í sex tíma.

Ég vildi vekja athygli virðulegs forseta á þessu og inna hann eftir því hvað fyrirhugað sé í sambandi við framhald þessarar umræðu. Mér finnst það ekki við hæfi í rauninni að við, ekki fleiri en við erum hér, ræðum svo þýðingarmikið mál sem hér er til umræðu áfram fram á rauðan morgun eða fram á rauða nótt og bjartan morgun vonandi, heldur væri skynsamlegra, vegna þess að mér hefur skilist að ekki stæði til að þetta mál færi til nefndar á þessum fundi nú, að þeim sem eiga eftir að tjá sig hér við 1. umr. málsins gefist kostur á því við eðlilegar aðstæður á þessum degi, en eftir að morgnar. Mér hefur skilist að það stæði til að halda hér fund fyrir hádegi.

Þetta mæli ég í fullri vinsemd, virðulegur forseti, vegna þess að mér er ljóst að fyrirhugað er að halda áfram fundahaldi hér næstu tvo daga a.m.k. og kann þá að reyna á alllangar fundasetur manna. Og miðað við hvað mál eru mörg og flókin sem hér þarf að afgreiða þá veitir ekkert af því að menn haldi sæmilega vöku sinni og góðum sönsum, einnig þeir sem starfa þurfa í nefndum við afgreiðslu þessara mála.

Ég hef tekið eftir því að hér á fundinum hafa verið síðustu einn til tvo tímana 20 þm. af 42 sem sæti eiga í þessari virðulegu deild, þ.e. minni hl. þingmanna, 10 stjórnarliðar af 28 eða rétt um þriðjungur og 10 stjórnarandstæðingar af 14 eða 2/3 þeirra stjórnarandstæðinga sem sæti eiga hér í hv. deild. En vissulega hefur þátttakan í umræðunni verið blönduð og hefur undir það verið tekið sem góðs viti í umræðunni að það hafi verið þátttaka jafnt af stjórnarsinnum sem stjórnarandstæðingum.

Ég vek athygli virðulegs forseta á 34. gr. þingskapa Alþingis þar sem segir: „Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni.“ Ég veit út af fyrir sig ekki hvaða nauðsyn það er sem bannar mönnum að vera hér fleiri en raun ber vitni. Hér er ekki helmingur þingdeildarinnar viðstaddur á fundi og ég spyr virðulegan forseta hvort hann hafi heimilað þeim sem ekki eru hér viðstaddir fjarveru. Ég sakna t.d. virðulegs 2. varaforseta þessarar deildar, Sighvats Björgvinssonar. Það eru orðnir nokkrir klukkutímar síðan hann vék af fundi og er þó í stjórnarliðinu og í forustu fyrir þingdeildinni. Ég spyr hvort það sé með vilja virðulegs aðalforseta að annar varaforseti deildarinnar úr ríkisstjórnarliðinu sé farinn heim, e.t.v. að sofa. Mér finnst það ekki við hæfi að jafnþýðingarmikið mál og hér er til umræðu sé rætt við þessar aðstæður öllu lengur og það sé verið að slá hér öll met af því að það sýnist nú ekki að það ráði neinum úrslitum um þetta mál. Hitt gæti verið farsælla að menn ræddu það við betri aðstæður. Það hefur komið fram hjá formanni sjútvn. þingsins að hann telji að það þurfi nokkurn tíma til að vinna í þessu máli þannig að áramótaklukkan hefur að hans mati þegar slegið gagnvart þessu máli, en ég ætla ekki frekar en í kvöld að spá neinu um það út af fyrir sig.

Ég vildi, virðulegur forseti, vekja athygli á þessu og jafnframt bera fram ósk um að það sé hægt að stilla næturfundarhaldi hér í eðlilegt hóf. Mér finnst þetta hóf í rauninni vera fram gengið og þegar úr hófi gert í sambandi við þetta fundarhald. Þetta er langlengsti næturfundur í deildinni fram að þessu og ég skil ekki nauðsyn þess að halda því fram miðað við að ekki sé ráðgert að koma málinu til nefndar á þessum fundi.