28.12.1987
Neðri deild: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3308 í B-deild Alþingistíðinda. (2323)

181. mál, stjórn fiskveiða

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil eingöngu skýra frá því hvernig þetta mál var kynnt okkur formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar á fundi í Alþingishúsinu kl. 20 í kvöld. Það bar þannig að að á þeim fundi sátu þrír hæstv. ráðherrar og formenn þingflokka stjórnarliðsins og þeir kynntu þar þau áform sín að reyna að láta ljúka umræðum um fiskveiðistefnuna og um söluskatt á fundi í Nd. í kvöld eða nótt. Við móttókum þann boðskap og mikið meira var ekki við því að segja. Sá fundur var hins vegar gallaður, ef svo má að orði komast, eða ekki nógu vel skipulagður að mínu mati að því leyti til að þar sátu ekki forsetar og ekki heldur forseti þessarar virðulegu deildar sem að sjálfsögðu stýrir hér fundum. Hann var því ekki til staðar til að ráðgast við hann um fundahaldið. Þar veltu menn vöngum yfir því hversu löng þessi umræða gæti orðið, jafnframt um 1. dagskrármálið. Nú hefur hins vegar farið svo, sem búast mátti við og spáð var, að hér þyrftu margir að tjá sig. Það hefur verið gert á málefnalegan hátt og yfirleitt í stuttum ræðum og þeir sem talað hafa hafa verið í bland nokkurn veginn til helminga stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar. Það er því allt með fullkomlega eðlilegum hætti.

Hitt er ekki jafneðlilegt, og ég tek undir það, að hér skuli vera þunnskipaður salur og að stjórnarliðar skuli flestir vera fjarverandi, upplýst af forseta án þess að hafa til þess leyfi. Það er ekki gott að halda umræðum áfram lengi nætur við þær aðstæður og ekki í raun viðunandi að hér sé haldið fram umræðum þegar hv. þm., sem tekið hafa þátt í umræðunni fyrr, eru farnir heim. Og hvað skeður nú ef menn vilja svara eða spyrja út úr þá hv. ræðumenn suma sem hér hafa talað og margir úr stjórnarliðinu en eru nú farnir af fundi, eins og hv. 2. varaforseti deildarinnar sem þegar hefur látið dreifa hér brtt. við þetta frv.? Að vísu kemur hún eðli málsins samkvæmt ekki til umræðu við 1. umr. en liggur engu að síður frammi. Nú er upplýst að hv. 5. þm. Vestf. sé ekki á fundinum og ef ég hef skilið forseta rétt án heimildar forseta. Ég bið forseta að leiðrétta mig ef það er ekki rétt að hv. 2. varaforseti hafi farið af fundi án leyfis forseta.

Ég vildi, herra forseti, koma á framfæri hvernig þessi fundur fór fram og hvað þar gerðist og leyfa mér að lýsa þeirri ósk minni að ætli menn að halda áfram slíku samráði, sem út af fyrir sig er gott, verði það gert með því að forsetar Alþingis, a.m.k. þeirra þingdeilda sem í hlut eiga hverju sinni, séu viðstaddir þannig að ekki þurfi þá að bera boðin um langan veg á milli manna.