28.12.1987
Neðri deild: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3309 í B-deild Alþingistíðinda. (2325)

181. mál, stjórn fiskveiða

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég skildi þín orð svo áðan að ráðgert væri ekki aðeins að ljúka umræðum um þetta mál, sem hér er enn rætt og nokkrir menn á mælendaskrá, heldur einnig að taka upp umræður um annað dagskrármál að því loknu. Ég verð að segja að ég hefði vart reiknað með að heyra eitthvað ótrúlegra af vörum virðulegs forseta en yfirlýsingu af því tagi nú þegar klukkuna vantar 17 mínútur í 4 að morgni að það standi ekki aðeins til að ljúka umræðum um dagskrármálið, sem hugsanlega er hægt á ekki löngum tíma, ég átta mig þó ekki á því hvað það er langur tími sem til þess þarf, en að það standi til að taka þá upp umræðu um annað mál á dagskránni og það að minni hluta þingdeildarinnar viðstöddum, ys hlutar stjórnarþm., stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar, farnir fyrir löngu heim að sofa. Ég átta mig ekki á hvers konar þinghald þetta á að vera. Er hugmyndin að svo verði haldið fram til áramóta og við göngum inn í nýtt ár — ja, kannski ekki með heilaskemmdir af vöku en alla vega ekki mjög vel á okkur komin?

Ég treysti virðulegum forseta til að meta þetta mál yfirvegað og það sem bíður manna á komandi degi, ekki aðeins okkar þm. heldur starfsmanna þingsins sem enn eru hér að störfum og þess ágæta fólks sem fylgist með þessari umræðu af áhuga. Eðlilegast væri að þessari umræðu yrði nú frestað og henni fram haldið á fundi á komandi degi og við eðlilegar aðstæður, svo og önnur þau mál sem á dagskránni eru.

Ég treysti því að heyra frá virðulegum forseta orð í þá átt að í mesta lagi verði reynt að ljúka þessari umræðu, en ekki lagt upp í þá ósvinnu, svo ég orði það mildilega, að ætla að fara að taka hér enn eitt mál á dagskrá þegar fer að nálgast rismál að gömlu tímatali.