28.12.1987
Neðri deild: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3310 í B-deild Alþingistíðinda. (2327)

181. mál, stjórn fiskveiða

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Þó að rösklega þrír stundarfjórðungar séu nú liðnir fram um óttu þessarar nætur hefur vitaskuld mikið verið sagt í kvöld og nótt og trúa mín er sú að komið verði nokkuð fram um rismál eða miðjan morgun áður en umræðu lýkur.

Ég er þó ekki með þessum orðum að gefa til kynna að ræða mín verði sérlega löng. En ég kvaddi mér hljóðs nokkuð snemma kvölds. Þá munu hafa verið einir 12 eða 13 á mælendaskrá og eins og ég sagði hefur margt síðan fram komið.

Mér er það nokkur árátta á stundum eins og þessari að velta fyrir mér ártölum. Mér koma í hug ártöl eins og 1903, 1948, 1958, 1971, 1975, 1976.

Ég býst við því að flestir sem á mál mitt hlýða séu ekki í vafa um hvað tengi saman þessi ártöl úr þjóðarsögu okkar. Laust eftir aldamótin síðastliðnu var landhelgi Íslands ákvörðuð þrjár sjómílur. Langur tími leið við misjafnar aðstæður til þess tíma að landgrunnslögin voru sett árið 1948. Með landgrunnslögunum 1948 er í rauninni lagður grunnur að þeirri stöðu sem við byggjum á í dag. Persónulega er mér þó ekkert þessara ártala sérstaklega minnisstætt. Ég mun koma að því síðar í máli mínu. Árið 1958 urðu 12 mílurnar staðreynd við baráttu, 1971 50 mílurnar, 1975 200 mílur og 31. maí 1976, eins og hæstv. fyrrv. sjútvrh. sagði fyrr í máli sínu í kvöld, voru reglur um hagnýtingu fiskveiðilögsögu Íslendinga lögfestar hér á hv. Alþingi.

Persónulega er mér eitt ártal minnisstætt úr þessari sögu, það er 1952. Það er vegna þess að þá er ég unglingur vestur á Vestfjörðum og þannig stendur þá á á mínu heimili, þar sem ég átti heima vestur við Arnarfjörð, að nánast fyrirvaralaust hafði verið sett löggjöf á hv. Alþingi um að stöðva dragnótaveiðar á Vestfjörðum og raunar víðar um land. Í þorpi eins og ég átti heima í í þann tíð þýddi þetta nánast dauðadóm yfir þær atvinnugreinar sem voru burðarásar í þessum þorpum. Sá var þó munur á, miðað við margt sem stendur til í dag, að þessari löggjöf fylgdi ákveðin, ekki aðeins vísbending, heldur ákvörðun frá Alþingi um það að bætur yrðu greiddar fyrir það tjón sem viðkomandi aðilar höfðu beðið af þessari löggjöf. Ég leyni því ekki að mér og sjálfsagt mörgum sem þarna áttu hlut að máli var ekkert hlýtt til þessarar hv. stofnunar á þeim tíma. Það var vegna þess fyrst og fremst hversu hratt þetta mál bar að og fyrirvaralaust. Það var líka vegna þess að viðbúnaðurinn í þorpum á þeim tíma var afskaplega lítill til að mæta slíkum aðstæðum. Í því þorpi sem ég átti heima í, sem var dálítið sérstætt, hafði það hins vegar gerst að fjörðurinn, Arnarfjörður, hafði tvisvar sinnum tæmst frá stríðslokum af þeirri veiði sem þegar var farið að gæta verulega þar við fjörðinn og þar á ég við rækju. Eins og menn vita var rækjuveiði einna fyrst stunduð hér á landi við Ísafjarðardjúp og Arnarfjörð. Síðan gerist það laust eftir árið 1952, líklega 1954, að forráðamenn þess veiðiskapar við Arnarfjörð leita til atvinnudeildar Háskólans sem þá starfaði og biðja um aðstoð fiskifræðings við stjórn rækjuveiðanna. Ég held að þarna hafi í rauninni í fyrsta sinn í sögu fiskveiða hér við land verið lagður grunnur að skipulagðri fiskveiðistjórn. Og mér finnst ánægjulegt að minnast þess að frá þessum tíma að þetta var gert hefur fjörðinn aldrei þrotið að þessari veiði.

Þetta sannfærði mig snemma um það að fiskveiðistjórn er nauðsyn sem við verðum að horfast í augu við og við verðum að taka tillit til ef við ætlum að lifa af þessu sjávarfangi sem við eigum í rauninni allt undir. Það þýðir hins vegar ekki að það sé sama hvernig að þeirri fiskveiðistjórn er staðið. Við stöndum við það og sitjum þessa nótt að fjalla um það líklega í þriðja sinn hvernig að verður staðið með heildarstjórn að þessu leyti fyrir okkur Íslendinga í næstu framtíð.

Á hverju hausti þegar Alþingi kemur saman er fyrsta mál hvers þings fjárlög. Það er eitt fyrsta mál sem rætt er af alvöru og opnað í þinginu. Það er afgreitt til einnar fjölmennustu nefndar þingsins sem starfar nánast sleitulaust, venjulegast fram til jóla. Málin eru síðan tvírædd síðar, oftast afgreidd fyrir jól. Þessi löggjöf á á hverju ári aðeins að gilda í eitt ár. Að þessu sinni hefur að vísu því miður ekki tekist að afgreiða þá löggjöf fyrr en á milli jóla og nýárs og einmitt þá á þeim degi sem nýlega er lokið. Sú löggjöf sem við erum að ræða um núna átti hins vegar að tilhlutan þeirra sem lögðu málið fram að standa í fjögur ár. Ætlan þessara aðila var að þessi hv. deild fjallaði um þetta mál, eins og hér hefur margsinnis komið fram í kvöld, á þessum næturfundi, 1. umr., væntanlega yrðu nefndarstörf á morgun. Eftir einn dag og ætti síðan löggjöfin að verða staðreynd eftir að vísu umfjöllun í hv. Ed. Þetta er mál sem er nánast fyrst lagt fram í þinginu í þessum mánuði þó að undirbúningur hafi vitaskuld verið svo og svo langur. En fyrir venjulegan þingmann er þetta staðreyndin. Menn hafa þetta hér á borðum til umfjöllunar og nú fyrst til umræðu í þann mund sem öll nótt er að verða úti um að koma löggjöfinni í gegn.

Mér er það að vísu fullljóst að hæstv. sjútvrh. er ekki vandi á höndum að hafa stjórnina á hendi í þessum málum enda þótt þessi mál taki lengri umfjöllunartíma á hv. þingi en ég hef verið að lýsa. Því nefni ég þetta að það hefur komið fram í máli nánast hvers einasta manns, bæði stjórnarsinna og stjórnarandstæðings, meira að segja í máli hæstv. ráðherra, að umfjöllunartími í þessu efni er of skammur, a.m.k. ef til þess er ætlast að menn fjalli um málin á þann veg að þeir ígrundi þau, athugi þau og ég tala nú ekki um að viðkomandi nefndir fái tíma til umfjöllunar.

Það eru ekki mörg atriði sem ég mun fjalla um á þessu stigi málsins, það munu vera ein fjögur atriði sem ég mun fjalla um sérstaklega. Áður en ég geri það langar mig til að kynna atriði sem ekki hefur borið á góma í umræðunum í kvöld en er þó í skýrslu sem mun hafa verið kynnt af hálfu ráðuneytisins í þessu máli og er eftir íslenskan höfund sem heitir Rögnvaldur Hannesson, með leyfi hæstv. forseta, sem er prófessor í fiskihagfræði í Verslunarháskólanum í Bergen í Noregi. Þessi maður er sjálfsagt hinn gegnasti vísindamaður og ég get sagt það í fáum orðum að ritgerð hans er í stórum dráttum meðmæli með kvótakerfi almennt. En það er ekki af þeirri ástæðu sem mig langar til að vitna í lokaorð þessarar skýrslu, heldur af því að mér sýnist að þar sé í rauninni drepið á atriði sem vakir að baki þeirri umræðu sem hér hefur farið fram, sem vakir að baki þeirri lagasetningu sem verið er að fjalla um í þriðja sinn. Margur hefur sagt hér í kvöld að löggjöf af þessu tagi festist ef hún er sett á æ ofan í æ. En enginn hefur minnst á, svo að ég hafi heyrt, það sem þessi vísindamaður, Rögnvaldur Hannesson, fjallar um í lokaorðum sínum. Með leyfi forseta langar mig að grípa niður í lokaorðin, en þar segir:

„Hinu opinbera standa til boða tvær meginleiðir til að afla sér tekna af kvótum og þar með skerða verð kvótanna eins og það horfir við kvótaeigendum. Hægt er að selja kvótana í eitt skipti fyrir öll eða leggja á þá sérstakan skatt á ári hverju. Þessar aðferðir útiloka ekki hvor aðra.“ Mig langar til að taka þetta skýrt fram: Ég er ekki með þessum lestri að mæla á einn eða neinn hátt með því sem þessi maður leggur til. Með þessum lestri er ég að vekja athygli á atriði sem ég held að sé nauðsynlegt að menn viti af í þessari umræðu.

„Sala kvóta í eitt skipti fyrir öll virðist ekki ráðleg leið ein saman að minnsta kosti. Bæði er það að kvótarnir yrðu þá enginn varanlegur tekjustofn fyrir hið opinbera og eins hitt að verð það sem fengist fyrir kvótana yrði að öllum líkindum miklu lægra en núgildi afraksturs þeirra. Kemur þar tvennt til, óvissa um framtíðarafrakstur kvótanna og viðleitni manna til að komast hjá áhættu. Fáir eða engir eru líklegir til að kaupa kvóta á verði til jafns við vongildi þeirra tekna sem þeir vænta sér af kvótunum. Þessi leið hefur hvergi verið reynd en Nýsjálendingar leggja sérstakt árgjald á sína kvóta," eins og Rögnvaldur hafði fyrr nefnt í skýrslu sinni.

Ég ætla að drepa á tvö önnur atriði úr skýrslu Rögnvalds. Hann segir þetta um kvótaúthlutun til takmarkaðs tíma:

„Í þessu tilfelli er eignarréttur aflakvótanna óumdeilanlega í höndum hins opinbera. [Það höfum við greinilega fundið í þeirri umfjöllun sem hér hefur verið.] Þetta eykur náttúrlega rétt hins opinbera og skerðir rétt einstaklinga og félaga að sama skapi. Með slíku fyrirkomulagi kynni að verða auðveldara að koma í veg fyrir að kvótarnir lentu í höndum þeirra sem ekki nota þá sjálfir. Gæta yrði þess að kvótarnir væru til nógu langs tíma til að stuðla að hagkvæmum fjárfestingum í fiskiskipum. Slíkir tímabundnir kvótar gætu skapað ýmis vandamál í framkvæmd, eins og t.d. ef kvótahafi vill hætta útgerð eða endurnýja skip sitt áður en kvótatímabil rennur út. Í þessu tilviki getur hið opinbera aflað sér tekna af aflakvótunum með því að leigja þá eða skattleggja. Varla er rétt í þessu tilviki að tala um sölu á kvótum þar eð enginn varanlegur afnotaréttur fylgir kvótunum. Munurinn á skattlagningu og leigugjaldi sem ákveðið yrði við kvótaúthlutun er svipaður og áður greinir um sölu og skatt. Leigutaki yrði væntanlega ófús til að greiða leigu sem næmi vongildi þess ágóða sem hann væntir sér af kvótanum. Leiga á kvótum yrði þó varanlegri tekjustofn en sala í eitt skipti fyrir öll.“

Síðan kemur merkileg spurning. „En hve hátt á svo að skattleggja kvótana? Eða á hve háu verði á að selja þá?" Þetta er í fyrsta lagi spurning um í hve ríkum mæli verðmæti kvótanna á að renna til útgerðarinnar eða til hins opinbera. „Slíkt er álitamál," segir vísindamaðurinn. „Slíkt er álitamál [og er að furða] sem ekki er hægt að gefa neitt ótvírætt svar við. Í öðru lagi er þetta spurning um með hvaða aðferðum hið opinbera geti náð í sem stærstan hluta af fiskveiðirentunni. Útboð kvóta á samkeppnismarkaði virðist líklegast til að hámarka hlutdeild hins opinbera í fiskveiðirentunni.“

Þá kem ég að lokakafla prófessors Rögnvaldar: „Hvernig skipta má fiskveiðirentunni.“

„Hvernig ber svo að ráðstafa arðinum af félagseigninni? Hér er um tvær leiðir að velja. Hægt er að úthluta arðinum milli þjóðfélagsþegnanna eftir ákveðnum reglum. Það er þá á valdi hvers og eins hvernig hann eða hún ráðstafar sínum hluta arðsins. Þessi leið er farin að nokkru í Alaska, svo að dæmi sé nefnt.“ Og enn tek ég fram: Fyrir hvern mun bið ég hlutaðeigendur alla að taka það ekki sem svo að ég sé boðberi á einn eða neinn hátt þessara kenninga sem hér er um að ræða. Ég vil hins vegar vekja athygli á því hver niðurstaða vísindamanns, íslensks, sem til hefur verið kvaddur í þessu efni, er, hver hans boðskapur er. Ég held að það sé nauðsynlegt að sá boðskapur komist inn í umræðuna en fyrir hvern mun takið mig ekki sem slíkan spámann.

„Verulegum hluta af tekjum Alaskafylkis af olíuvinnslu er varið í sérstakan sjóð sem ár hvert sendir öllum íbúum Alaska ávísun upp á ákveðna peningaupphæð. Hin leiðin er sú að gera arðinn af fiskimiðunum að tekjustofni fyrir ríkið og skipta honum óbeint milli þegnanna gegnum umsvif hins opinbera. Þannig hagnýta t.d. Norðmenn og Bretar og margar aðrar þjóðir rentuna af olíuvinnslu.

Eins og kunnugt er eru skoðanir skiptar um það hve vel hið opinbera sinnir bæði félagslegum og öðrum þörfum þjóðfélagsþegnanna. Rétt er þó að taka það fram að þung rök hníga að því að gera arðinn af fiskimiðunum að tekjustofni fyrir hið opinbera.“ Þessi setning Rögnvaldar Hannessonar sýnist mér vera í rauninni niðurstaða hans.

„Skattur á aflakvótarentu uppfyllir einmitt þetta skilyrði," segir hann, „þar eð hann leggst á arð umfram þann sem nauðsynlegur er til að tryggja fjárfestingu í skipum og veiðitækjum. Þar eð ekki verður komist hjá einhverri skattheimtu hins opinbera er um að gera að hún valdi sem minnstum skaða í hagkerfinu.“

Hér er óneitanlega fjallað um atriði sem ég býst við að flestum okkar séu nokkuð fjarri og þó að Kristján heitinn, sá mæti maður í Últíma, hafi á sínum tíma ritað margt um þessi mál og m.a. auðlindaskatt býst ég varla við að menn hafi búist við að fiskveiðistjórn kæmi svo snemma að þeim atriðum sem þessi umræddi vísindamaður fjallar um í þessari skýrslu. Mér finnst það í rauninni dálítið merkilegt að á þetta hafi tæpast, ef nokkuð, verið minnst, a.m.k. ekki í þessari hv. deild. Ég átti þess ekki kost að fylgjast með umræðum í hv. Ed. Það kann að vera að þessir hlutir hafi verið ræddir þar en mér er ekki um það kunnugt.

Ég mun nú víkja örfáum orðum að þeim fjórum atriðum sem mig langar sérstaklega að gera að umtalsefni í því frv. til laga um fiskveiðistjórn sem hér liggur fyrir.

Það fer ekki á milli mála í því kjördæmi þar sem ég er fulltrúi, eða a.m.k. nærlendis þar sem ég bý, hvaða atriði það er sem veldur þar í rauninni mestri óánægju. Ég held að ég geri á sem stystum tíma grein fyrir því með því að lesa fáein orð sem maður sem vinnur við þennan atvinnuveg hripaði fyrir fáeinum dögum um viðhorf Sunnlendinga í nágrenni við hann til norður-suður línunnar og áhrifin af henni. Hann segir þessi ágæti maður, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og fram kemur í gögnum Fiskifélags Íslands um rekstur minni togara 1986 er meðalskipið sunnlenska rekið með hálfrar annarrar millj. kr. halla meðan togarar á svæði 2 skila nær 10 millj. kr. hagnaði. Þessar tölur virka kunnuglega á menn og var þó munurinn meiri á undanförnum kvótaárum þótt ufsa- og karfaverðbætur bættu úr. Þannig dæmir fiskveiðistefnan ákveðinn hóp manna í taprekstur sams konar atvinnutækja eftir búsetu í landinu. Þessi tekjumunur dregur afl úr sunnlenskri útgerð, lækkar hlut sjómannsins sunnlenska um yfir 200 þús. kr. á ársgrundvelli, minnkar verkefni vinnslunnar, minnkar tekjur hennar, minnkar einnig tekjur sunnlensks fiskvinnslufólks.

Furðu gegnir," segir þessi ágæti maður, „stuðningur og afskiptaleysi margra forustumanna sjómannasamtaka og verkalýðs í þessu máli.“ — Stuðningsleysi á hann vitaskuld við. — „Þrátt fyrir háværar yfirlýsingar þeirra sem ferðinni ráða um einhug og samstöðu hagsmunahópa gagnvart fiskveiðistefnunni undanfarið og fram lögðu frv. nú þá er hitt staðreynd að djúpstæður og vaxandi ágreiningur er á milli þeirra sem eiga og gera út togara á svæði 1 og svæði 2.“

Í atkvæðagreiðslum sem fram hafa farið undanfarin missiri um afnám ákvæða um skiptingu sóknarmarkstogara hafa orðið hörð átök og oft munað litlu í atkvæðum. Þó hefur tekist að svínbeygja menn, hræða þá jafnvel suma, og jafnvel bátamenn að allur jöfnuður þýði aukningu í þorskafla sunnantogara sem þá yrði tekinn af bátakvótanum. Undir þetta taka síðan svæðismenn 2 fullum hálsi þótt þeir viti manna best að hlutur þeirra hefur aukist óðfluga á kostnað svæðis 1. Vegna þessara átaka og mótmæla sunnlendinga þótti ekki annað fært en að bjóða svæði 1 þorskígildisjafnræði sem er í því fólgið þegar frv. var fyrst kynnt að karfa átti að úthluta á skipin og fá sunnlendingum 1400 tonn á skip þannig að þorskígildin eru ca. 2000 tonn á báðum svæðum. Vissulega er hér um leiðréttingu að ræða en málið er ekki svona einfalt. Enginn er kominn til að segja að sunnlensku skipin nái að veiða 1400 tonn af karfa. Algeng veiði er um 1000 tonn. Enda þótt svo yrði er það langtum dýrari veiðiskapur, fleiri veiðiferðir með helming verðmætis, meiri olíukostnaður og margfalt veiðarfæraslit. Þarna er því sýnd veiði en ekki gefin.

Það fer þess vegna ekki á milli mála að mitt viðhorf er það að norður-suður línan sé einn sá þáttur í þessu máli sem erfitt, a.m.k. fyrir mig, reynist að samþykkja. Ég þykist þó gera mér grein fyrir því að ekki séu mikil líkindi til þess að það náist að þessu sinni að fá því breytt. En það sem mér hefur þótt einna athyglisverðast í umræðunum hér í kvöld eða nótt er þó það að heyra upphafsorð hæstv. sjútvrh. og á vissa lund yfirlýsingu hans og vilja á því að taka tillit til þeirra gagnrýnissjónarmiða sem fram hafa komið gagnvart frv. Þetta finnst mér skipta ákaflega miklu máli. Í annan stað finnst mér annálsvert að heyra orð formanns hv. sjútvn. þessarar hv. deildar þar sem hann lagði áherslu á nákvæmlega sömu atriði, reyndur maður í pólitík, reyndur maður af stóli hæstv. sjútvrh., maður sem hefur vaxið að víðsýni um langan aldur. Þessi atriði sem þarna komu fram hjá þessum tveimur mönnum gefa mér þá von að ekki sé barist til einskis, hvorki það sem gerðist í hv. Ed. né það sem gerist hér á þingpöllum nótt eftir nótt, ekki það sem gerist dag eftir dag hjá mönnum sem berjast fyrir rétti sínum, nánast tilverurétti, eins og margur maður gerir þessa dagana í þessu máli.

Ég þykist vita það frá fornu fari að óvíða fylgir jafnmikill hugur máli og meðal sjómanna. Stundum er því haldið fram að sjómenn séu í aðra röndina kannski hjátrúarfyllri en annað fólk og sú skýring þá gefin á því að þeir búi nærri höfuðskepnunum og séu í fangbrögðum við þær nánast daglega. En kynni mín af sjómönnum eru á þann veg að fáir séu traustari þegar á reynir og fáir láti síður hlut sinn baráttulaust. Ég held einmitt að slík stund sé kannski í nótt, sé þessa daga, sé e.t.v. fram undan þegar til úrslita dregur í þessu máli. Við skulum ekkert draga það undan að hér er verið að fjalla um efnahagsmál, hér er verið að fjalla um stærsta mál þessarar þjóðar, hér erum við að fjalla um pólitík.

Það er ekki, ég þori að fullyrða það, með vilja hæstv. sjútvrh. sem þetta mál kemur svo seint til þings. Ég efast ekki um að helst hefði hann kosið að geta lagt þetta mál a.m.k. fram í þingbyrjun. Ekki ætla ég honum það að hann geri það af ráðnum hug að draga málið til þess að það fái þá minni ígrundun hér en ella, það geri ég ekki. Ég býst við að hér liggi að baki pólitískar aðstæður. Hann hefur lagt sig í líma við að reyna að ná samstöðu, auðvitað stjórnarmeirihlutans, til þess að málið fengi síðan eðlilegan byr í gegnum þingið.

Mig langar í þessu sambandi til að hverfa aftur til síðustu mánaðamóta. Þá er málið í burðarlið og eitt aðalmálgagn stjórnarinnar, Morgunblaðið, birtir þá leiðara um aðstæður á stjórnarheimilinu varðandi þetta mál eins og þær voru þá dagana. Með leyfi hæstv. forseta langar mig að fjalla svolítið um þennan leiðara. Þar segir:

„Ríkisstjórnin og kvótakerfið.

Um síðustu helgi“ — þetta er rétt eftir mánaðamótin nóvember-desember — „varð töluvert uppnám í fjölmiðlum vegna þess að Alþýðufl. hafði uppi ákveðnar kröfur í sambandi við breytingar á kvótakerfinu. Í opinberum yfirlýsingum þá taldi hæstv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson ljóst að ekki væri hægt að gera umtalsverðar breytingar á fiskveiðistefnunni þar sem allvíðtæk samstaða hefði tekist með hagsmunasamtökum í sjávarútvegi um fyrirkomulag kvótakerfisins næstu árin.“ Allvíðtæk samstaða, taki menn eftir. Ætli það eigi við um bátasjómenn? Varla. „Ekki var hægt að skilja sjútvrh.á annan veg en þann að hann teldi ófært að ganga gegn vilja hagsmunaaðila. Nú sýnist hins vegar sæmilegur friður í herbúðum stjórnarflokkanna þótt málgagn Framsfl. kvarti undan því í gær að Alþfl. hafi ögrað Framsfl. með því athæfi að hafa aðrar skoðanir á fiskveiðistefnunni en sjútvrh. og þá sé „komið að mjög alvarlegum punkti í stjórnarsamstarfinu“.

Þetta ber að sjálfsögðu að skilja svo að Framsfl. geti talið sig knúinn til að rifta stjórnarsamstarfinu ef samstarfsflokkarnir fallist ekki á fiskveiðistefnu hæstv. sjútvrh. Halldórs Ásgrímssonar.

Morgunblaðið ætlar ekki að blanda sér í deilur alþýðuflokksmanna og framsóknarmanna um kvótakerfið, vitaskuld ekki. Hins vegar er sú afstaða sjútvrh. meira en lítið umhugsunarefni, að ekki sé fært að gera breytingar á fiskveiðistefnunni vegna þess að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hafi fyrir sitt leyti samþykkt þá stefnu sem ráðherrann hefur átt mestan þátt í að móta.“ Taki menn eftir. Þegar þessi orð eru rituð er tæpast stafkrókur kominn til Alþingis um málið.

„Nú er það svo að auðlindir hafsins eru sameign þjóðarinnar allrar. Það eru engir ákveðnir hópar í þessu þjóðfélagi, hvorki útgerðarmenn, sjómenn eða aðrir sem geta gert meiri kröfur til þessara auðlinda en aðrir. Þess vegna fer það ekki á milli mála að það eru löglega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, alþingismenn, sem hafa lokaorðið í þessu máli en hvorki hagsmunaaðilar í sjávarútvegi né sjútvrh. sjálfur.“

Þetta er niðurstaða úr fyrri hluta leiðara Morgunblaðsins í byrjun desember. Ég held að fróðlegt sé að íhuga þetta og lesa núna í morgunsárið og líta í rauninni yfir salinn þegar verið er að fjalla um málið hér á hv. Alþingi. Það er sagt hér í leiðaranum: Það eru ekki útvegsmenn, það eru ekki sjómenn, það eru alþingismenn sem eiga að fjalla um málið.

Gott og vel. Ég ætla mér þó ekki að draga undan þá skoðun mína að öðrum fremur hlýtur það að snerta sjómenn, frekar en aðra, sem eiga allt sitt lifibrauð undir því hvernig hér tekst til þó að þjóðin sé þar auðvitað öll á sama báti.

Áfram segir í leiðara Morgunblaðsins frá sl. mánaðamótum:

„Það eru auðvitað óhæf vinnubrögð að setja Alþingi upp að vegg með þeim hætti sem nú sýnist vera gert.“ Ætli það hafi verið búist við því að hv. Nd. fengi málið til umfjöllunar á einum næturfundi, einn dag í nefnd, og síðan yrðu hraðafgreiðslur við tvær umræður eins og nú virðist ætlunin? Ég efast um það. „Í raun og veru," segir hér áfram í leiðaranum, „er sagt við þingmenn: Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hafa samþykkt þessa stefnu.“ — Það er náttúrlega ekki stafkrókur um smábátasjómenn. - „Tíminn er svo naumur fram að áramótum. Það er ekkert ráðrúm til þess að fjalla um verulegar breytingar á þessari fiskveiðistefnu. Þess vegna verðið þið að samþykkja hana hvort sem ykkur líkar betur eða verr. Þegar umbúðirnar hafa verið teknar utan af málflutningi hæstv. sjútvrh., Halldórs Ásgrímssonar, um síðustu helgi og málgagns hans í gær er þetta niðurstaðan.“ Og taki menn eftir: Þetta eru ekki orð mín sem stjórnarandstæðings. Þetta er forustugrein í aðalmálgagni ríkisstjórnarinnar sem leggur fram frv. við þessar aðstæður.

Síðan segir áfram, með leyfi hæstv. forseta sem sýnir mér langlundargeð:

„Að sjálfsögðu getur þingið ekki látið bjóða sér þetta og kjósendur í landinu geta ekki samþykkt svona vinnubrögð fyrir sitt leyti.“ Þeir eru líka teknir, eðlilega, inn í myndina. „Alþingi Íslendinga verður að finna leið“ — og nú kemur að kjarna — „til þess að ítarlegar og djúptækar umræður“ — Djúptækar umræður! Það er ekki oft notað þetta lýsingarorð eða þessi lýsingarháttur réttara sagt. — „geti farið fram á þjóðþinginu nú um fiskveiðistefnuna. Þingið er að bregðast hlutverki sínu ef slíkar umræður fara ekki fram. Það verður að liggja fyrir hvort Alþingi er reiðubúið að láta það viðgangast að gífurleg eignatilfærsla haldi áfram að fara fram í skjóli kerfis sem sett var upp til að vernda fiskstofnana. Umræður á þingi LÍÚ eða á þingum annarra hagsmunasamtaka í sjávarútvegi geta ekki komið í stað umræðna á Alþingi Íslendinga. Stefnumótun í nefndum og ráðum getur ekki komið í stað þeirrar stefnumörkunar sem á að fara fram á þjóðþinginu. Það er ósköp hvimleitt þegar ráðherrar, þingmenn eða aðrir talsmenn stjórnmálaflokka hafa uppi hótanir um stjórnarslit þegar ágreiningur kemur upp um einstök mál í ríkisstjórn.“

Út af fyrir sig ætla ég ekki að segja neitt frekar um þetta atriði, ég blanda mér ekki í það, en undir þann kjarna í þessari forustugrein vil ég taka að Alþingi getur ekki vikist undan þeirri skyldu sinni að taka sér þann tíma sem þingið þarf til umfjöllunar í þessu efni.

Síðan er vikið að því í lok þessa leiðara að það sé mál Framsfl. hvort hann rýfur stjórnarsamstarf eða ekki. Það finnst mér skipta nánast engu máli í þessu sambandi. Það sem skiptir máli er sú niðurstaða þessa leiðara að þingið þarf að taka sér þann tíma sem það ætlast til í þessu efni.

Hæstv. forseti. Ég hef í rauninni fjallað um þau meginatriði sem ég ætlaði mér í þessu efni, en á þó aðeins eftir fátt eitt sem ég mun nú tala um.

Þau fjögur atriði sem ég sagðist ætla að leggja áherslu á voru í fyrsta lagi þetta: Ég mæli gegn norður-suður línunni. Ég mæli eindregið gegn þeirri stefnu gagnvart smábátum sem kemur fram í frv. Hv. 5. þm. Vesturl. vitnaði til margra aðila sem fjallað hafa um mál smábáta og þeirra málsvörn víðs vegar að af landinu. Ég þarf ekki að tíunda það frekar. Þar töluðu þeir sjálfir fyrir sínu máli og það skiptir auðvitað öllu, en ég vil bera einlæga ósk fram hér og ég höfða til þess sem hæstv. sjútvrh. sagði fyrr í umræðunum að hann hefði vilja til þess að menn næðu saman. Ég held að menn nái ekki saman nema það náist sættir um málefni smábátanna þannig að smábátamenn geti við unað og aðrir sem hér eiga hlut að.

Þriðja atriðið sem ég vildi gera að sérstöku umræðuefni er yfirfærsla valdsins í nánast hverri grein til hæstv. ráðherra. Það hefur verið mikið fjallað um það hér í nótt. Ég vil taka undir gagnrýni á þessa yfirfærslu í allri grein. Ég vil taka undir þá hugmynd, sem fram hefur komið af hálfu Borgarafl. og raunar víðar, að það væri eðlilegt að miklu stærri hópur fjallaði um a.m.k. öll ágreiningsmái og nánast útfærslu á þessum málum með ráðherravaldinu vegna þess að hér er verið að fjalla um einstæða hluti í okkar þjóðarbúskap. Hér er verið að fjalla um undirstöðuna sjálfa og færa allt vald til eins ráðherra. Það er með slíkum ólíkindum að það skuli geta gerst eins og hér er lagt til. Í þessu felst ekki vanmat á þeim einstaklingi eða þeim einstaklingum sem með þetta vald hafa farið, en þetta gengur þvert á þá grundvallarþætti í stjórnskipan okkar sem margfaldlega hefur hér verið fram tekið í nótt.

Seinasta atriðið sem mig langar til að minnast á er það sem ég hef leyft mér að kalla útburðina. Ég þekkti það mál ekki neitt að marki fyrr en af orðspori frá hv. Ed. eftir umræðurnar þar. Þar mun það hafa komið fram að a.m.k. þrjú skip, munu hafa verið tíu upphaflega, liggja óbætt hjá garði vegna þess að þau ýmist farast, brenna eða á einhvern annan hátt fara forgörðum hjá eigendum sínum á þeim tíma sem var viðkvæmur í þessu efni, viðmiðunartímanum sem svo er nefndur. Og það fær mig ekkert til að trúa því að þessi þrjú skip, þó þau væru tíu, skipti einhverjum sköpum um fiskistofna þessarar þjóðar. Það fær mig ekkert til þess að trúa því að það sé ekki til leið af sanngirni til að bæta þann hlut sem þarna hefur orðið. Mér finnst það með ólíkindum að mál af þessu tagi skuli fara í gegnum heila þingdeild, eins og hv. Ed., án þess að leitað sé sátta í jafnsjálfsögðu máli og hér er um að ræða. Hvaða heilskyggn maður vill ekki rétta hlut annars sem stendur höllum fæti og ber skarðan hlut frá borði vegna slyss? Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að Alþingi Íslendinga láti þann ósóma um sig spyrjast að rétta ekki hlut þeirra sem hér eiga hlut að máli.