29.12.1987
Efri deild: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3322 í B-deild Alþingistíðinda. (2331)

206. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. gat um skrifaði ég undir nál. með fyrirvara. Fyrirvarinn lýtur ekki að efnisgreinum frv. Ég tel þetta gott frv. í meginatriðum. Minn efnislegi fyrirvari lýtur frekar að því að ég hefði viljað ganga aðeins lengra í þá átt að draga úr skattfríðindum fyrirtækja en gert er skv. frv. Í samræmi við það flyt ég nokkrar brtt. og mun gera grein fyrir þeim.

Það er þá í fyrsta lagi að ég geri ráð fyrir því að það verði dregið úr heimildum fyrirtækja til að draga frá tekjum í árslok tap á útistandandi viðskiptaskuldum. Eins og þetta er núna geta fyrirtæki dregið frá tekjum 5% af útistandandi viðskiptaskuldum í árslok. Ég geri ráð fyrir að þessi heimild verði felld niður í áföngum, þ.e. að í fyrsta lagi verði á árinu 1988 aðeins heimilt að draga frá 4% af útistandandi viðskiptaskuldum, á árinu 1989 3%, á árinu 1990 1%, en þá falli þessar heimildir niður.

Hér er um að ræða till. sem ég hef flutt ásamt öðrum þm. Alþb. í þessari virðulegu deild í sérstöku frv. til l. um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt og mundi vafalaust færa ríkissjóði umtalsverða fjármuni. Það er hins vegar erfitt að áætla hversu háar þær upphæðir eru. Þegar ég spurði ríkisskattstjóra og Indriða Þorláksson að því á fundi hv. fjh.- og viðskn. hversu miklar upphæðir hér gæti verið um að ræða kom í ljós að ráðuneytið hefur ekki yfirlit yfir þær viðskiptaskuldir sem fyrirtæki telja fram, enda ekki von vegna þess að slíkt yfirlit verður ekki unnið nema með því að handvinna skattframtöl fyrirtækja í verulegum mæli því að þessi tala um útistandandi viðskiptaskuldir í árslok er ekki skráð sérstaklega á framtölum með þeim hætti að það sé tölvutækt.

Ég legg hér til í samræmi við þau rök sem ég hef áður flutt að fyrirtækin verði látin bera nokkuð af þeim vanda sem ríkissjóður hefur átt í og í samræmi við aðrar tillögur sem ég flutti fyrir jólin um að lækka verulega tekjuskatt einstaklinga. Við gerðum þar ráð fyrir því að lækka tekjuskatt einstaklinga um um það bil 800–900 millj. kr. og gerum ráð fyrir því að þessi till. gangi þar á móti.

Í annan stað vil ég víkja að brtt. ríkisstjórnarinnar um að 4. tölul. 31. gr. laganna falli niður, en það er heimild fyrirtækja til að draga 10% vörubirgða í árslok frá tekjum. Ég fagna þessari breytingu, en vil benda á að ríkisstjórnin byggir sína útreikninga á því að vörubirgðir í árslok 1986 hafi verið 33 þús. millj. kr. og áættar tekjuauka ríkissjóðs samkvæmt því upp á í kringum 100 millj. kr. Auðvitað á að reikna þennan tekjuauka ríkissjóðs út &á vörubirgðum í árslok 1987. Þá eru vörubirgðir vafalaust á bilinu 40–44 milljarðar kr., fært upp eins og annað verðlag í landinu. Ég er þeirrar skoðunar að sú breyting sem ríkisstjórnin gerir hér tillögu um þýði um 100 millj. kr. meira fyrir ríkissjóð en gert er ráð fyrir í grg. frv. Ég tel sérstaka ástæðu til að fagna því og einkum og sér í lagi að Sjálfstfl. skuli hafa fallist á þessa till. Alþb. Og mér þykir vænt um að hæstv. fjmrh. skuli einnig hafa gert þessa tillögu að sinni.

En út af orðum hv. 2. þm. Norðurl. e. er það rétt að nauðsynlegt er að hafa jafnvægi í ríkisfjármálum og bendi ég honum á að ef hann samþykkti 1. brtt. Alþb. yrði þetta jafnvægi þeim mun tryggara en ella er um að ræða.

Í annan stað flyt ég till. um að við 3. gr. frv. bætist tveir nýir liðir á þá leið að eftirtaldir þættir verði aldrei dregnir frá: persónuleg eyðsla forráðamanna fyrirtækis eða starfsmanna þess og ríkisskattstjóri skal gefa út reglur árlega um takmörk skv. þessum lið og síðan að risnu má aldrei draga frá nema að hún sé sannanlega í þágu fyrirtækis. Ríkisskattstjóri setur reglur um risnukostnað fyrirtækja eftir stærð þeirra og veltu og með hliðsjón af markaðsstöðu fyrirtækjanna. Við ákvörðun sína skal ríkisskattstjóri gæta þess sérstaklega að persónuleg eyðsla forráðamanna fyrirtækis eða starfsmanna þess færist aldrei á kostnað fyrirtækis.

Þessa till. flutti ég líka í frv., sem hér liggur fyrir hv. deild, í haust og sömuleiðis á síðasta þingi: Á síðasta þingi naut þessi till. stuðnings Alþfl. Ég vil láta á það reyna hvort þeir alþýðuflokksmenn fallast á þessa tillögu nú. Hér er ósköp einfaldlega um að ræða að það verði lokað fyrir að menn geti fært persónulega eyðslu sína á fyrirtækin í stórum stíl. Að því munu vera brögð að menn færi símakostnað, bílakostnað og jafnvel matarkostnað á reikninga fyrirtækjanna og fái það þannig dregið frá skatti. Ég hygg að þetta sé einn ljótasti þátturinn í íslenskri skattameðferð. Þegar skýrsla skattsvikanefndarinnar kom út var það nefnt sem alveg meginvandamál hvað þessi mörgu litlu fyrirtæki á Íslandi, þau munu vera milli 20–25 þús. fyrirtækin í þessu landi, gera mikið af því að færa persónulega eyðslu forráðamanna fyrirtækjanna og risnu undir nafni risnu má segja á reikninga fyrirtækjanna til frádráttar og þannig að lækka skattgreiðslur fyrirtækjanna stórkostlega. Þannig er verið að búa til tvær stéttir í þessu landi, annars vegar þá sem reka fyrirtæki, geta fært alla sína færslu á fyrirtækin og hins vegar þá sem taka við sínum launum og verða auðvitað að greiða af þeim ósköp einfaldlega án þess að fá dregið frá skatti öll sín venjulegu útgjöld. Ég vona að hv. þingdeild fallist á þessa till. Hún er örugglega til bóta og auðveldar ríkisskattstjóra að koma í veg fyrir að menn séu að færa risnu fyrirtækjanna og persónulega eyðslu forráðamanna þeirra á fyrirtækin í stórum stíl.

Í þriðja lagi flyt ég hér brtt. þar sem gert er ráð fyrir að tekjuskattur fyrirtækjanna verði 52% af tekjuskattsstofni, en aftur á móti gerir ríkisstjórnin ráð fyrir að talan verði 45%. Rök ríkisstjórnarinnar eru þau að þegar tekið er upp staðgreiðslukerfi skatta og fækkað frádráttarliðum sé eðlilegt að lækka álagningarprósentuna til að draga úr áhuga á skattsvikum. Það eru fullgild rök að mínu mati og sambærileg rök og beitt var þegar gerð var mjög víðtæk skattkerfisbreyting í Bandaríkjunum fyrir þremur árum undir forustu Reagans forseta, skattkerfisbreyting sem skar úr nær alla frádráttarliði fyrirtækja, stórlækkaði skattaprósentuna og tryggði að lokum mun betri skattskil en áður voru dæmi til um þar í landi. Gallinn hins vegar við þá skattprósentu sem ríkisstjórnin er hér með er sá að þar er verið að lækka þessa prósentu mjög mikið af því að þetta er eftirágreiddur skattur. Það er ekki staðgreiðsla hér heldur eftirágreiðsla. Skattaprósenta fyrirtækjanna í segjum 30% verðbólgu er því að fara niður í eða niður fyrir það sem einstaklingunum er gert að greiða. Þó að í minni till. sé gert ráð fyrir að skattprósentan verði 52% er sú tillaga örugglega einnig undir 10% miðað við að þetta er eftirágreiddur skattur. Ég m.ö.o. fellst á „prinsippið“ um að það eigi að setja þessa prósentu aðeins niður fyrir 50%, en þetta er eftirágreiðsluskattur og þess vegna verður talan að vera aðeins hærri vegna verðbólgunnar.

Í fjórða lagi flyt ég brtt. 4 varðandi útistandandi skuldir sem er nánari útfærsla á 1. till. og ekkert frekara um hana að segja.

Loks geri ég í fimmta lagi ráð fyrir því að inn í skattalögin verði tekið eftirfarandi ákvæði: „Skattrannsóknarstjóri skal á hverju ári láta fara fram rannsókn á bókhaldi og skattskilum a.m.k. 100 fyrirtækja sem ákveðin verða samkvæmt útdrætti á nöfnum þeirra. Stuðla skal að því að fyrirtæki og einstaklingar með rekstur geti gengið að því vísu að skattskil þeirra verði rannsökuð reglulega.“

Ég hef þá, herra forseti, lokið við að mæla fyrir brtt. Ég endurtek að ég tel að margt af þeim till. sem ríkisstjórnin gerir hér tillögur um að verði settar inn í skattalög sé til bóta og ég tek fram að ég mun fyrir mitt leyti styðja þær allar. Ég tel hins vegar að breytingar ríkisstjórnarinnar muni skila a.m.k. 100 millj. meira en gefið er upp í grg. frv. Ég tel það rangar upplýsingar sem þar koma fram. Það er út af fyrir sig mjög alvarlegt að reyna að villa mönnum sýn varðandi hvað skattar geta gefið. Ég vorkenni ekki fyrirtækjunum að borga þessar 100 millj. og þó meira væri. Hins vegar þykir mér dapurlegt ef þessi tala er höfð miklu lægri í grg. frv. til að blekkja einhverja af fylgismönnum ríkisstjórnarinnar til að styðja frv. Ég trúi því ekki að þeir láti blekkjast. Ég vil vekja athygli þeirra á þessu máli, en segi jafnframt: Ef þeir fara að móast við mun ég gera allt sem ég get til að hjálpa hæstv. fjmrh. við að koma málinu í gegnum þingið.

Að öðru leyti, herra forseti, ítreka ég að við munum fyrir okkar leyti greiða götu frv. svo sem þörf krefur.