29.12.1987
Efri deild: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3324 í B-deild Alþingistíðinda. (2332)

206. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég skal reyna að fara ekki út í of miklar málalengingar. Ég vil í fyrsta lagi leggja áherslu á að auðvitað er það svo skv. núgildandi lögum að einkaneyslu er óheimilt að blanda saman við rekstrargjöld fyrirtækis. Ef svo er gert í rekstrarreikningi einhvers fyrirtækis er greinilega um skattsvik að ræða og þarf ekki lagabreytingu til þess að svo sé. Það er þess vegna mjög villandi í grg. frv. sem hér er til umræðu þegar þar er sagt, með leyfi hæstv. forseta:

„Í 31. gr. laga um tekju- og eignarskatt er ákvæði þess efnis að sem rekstrargjöld til frádráttar megi einungis draga kostnað sem gengur til að afla tekna, tryggja og viðhalda eignum. Ákvæði þetta er að efni til afdráttarlaust en þarfnast frekari útfærslu í reglugerð þar sem m.a. verði tekið á skattalegri meðferð risnu og annarrar einkaneyslu svo og einkaafnota bifreiða.“

Eins og ég skil skattalögin þar að auki er alls ekki rúm fyrir að einkaneyslu sé hægt að telja með þeim gjöldum sem frádráttarbær eru til skatts. Á hinn bóginn er, eins og ég hygg að skilja beri þessi orð í grg., sem annars eru mjög ruglingsleg, meiningin eða hugsjónin á bak við þetta að útfæra nákvæmar en nú er gert hvað skuli kallast risna og kemur það inn á sömu hugsun og er í 2. brtt. Svavars Gestssonar þar sem hann einmitt talar um að ríkisskattstjóri skuli setja reglur um risnukostnað o.s.frv. Þarna er komið inn á sömu hugsun og ég tel þess vegna ástæðulaust að fjölyrða um það.

Ég vil í annan stað segja vegna ummæla hv. þm. að það getur verið eðlilegt að símakostnaður t.d., einkasími, sé að einhverju leyti greiddur af fyrirtæki og teljist til eðlilegra rekstrarútgjalda fyrirtækis alveg með sama hætti og við t.d. alþm. sáum ástæðu til þess þegar lög voru sett um þingfararkaup að við fengjum símakostnað uppi borinn vegna starfa okkar í okkar einkasímum. Rökstuðningurinn á bak við er sá að þm. þurfa mjög mikið að nota sinn einkasíma til að gegna sínu starfi og af þeim sökum tekur Alþingi þátt í greiðslu þess kostnaðar. Með sama hætti getur það verið nauðsynlegt hjá ýmsum forráðamönnum fyrirtækja að fá kostnað við einkasímann að hluta uppi borinn. Það hefur á hinn bóginn verið svo, eða var svo meðan ég fékkst við þessi mál, að eðlilegt þótti að þeir sem fengju símkostnað greiddan yrðu samt sem áður að greiða af eigin fé sem svaraði a.m.k. fastagjaldi símans og var það „praktíserað“ með þeim hætti á þeim tíma. Ég tel að þarna sé ekki mikill munur á.

Ég segi varðandi 5. tölul.: Ég er auðvitað sammála hv. þm. um nauðsyn þess að með útdrætti sé valinn ákveðinn fjöldi fyrirtækja og farið í gegnum þau til þess með þeim hætti að veita strangara aðhald með því að fyrirtæki teldu rétt fram. Þetta er gert í framkvæmdinni nú og ég hygg að skattrannsóknarstjóri fari með þessum hætti í gegnum bókhald eins margra fyrirtækja á hverju ári og hann hefur mannskap til. Þetta er auðvitað gert.

Að öðru leyti vil ég aðeins segja að það er matsatriði hvað eðlilegt sé að heimilt sé að afskrifa mikið af útistandandi viðskiptaskuldum á hverjum tíma.

Samkvæmt skattalögum er sú einfalda regla viðhöfð að heimilt sé að draga frá viðskiptaskuldir sem sannanlega séu tapaðar og til viðbótar sé heimilt að færa viðskiptaskuldir niður um 5%. Það er matsatriði hvort það eigi að beita slíkri almennri reglu eða hvort eðlilegt sé að knýja fyrirtæki til að fá fyrir fram úrslit í skuldamálum. Það verður líka að muna eftir því að gjaldþrotamál gefa dregist mjög lengi. Ég veit ekki hver túlkun skattyfirvalda er á því, hversu ströng hún er á því hvað sé sannanlega töpuð skuld. Ég þekki ekki þau vinnubrögð sem um það eru viðhöfð. En ég hygg að þessi regla sé ekki óeðlileg og geri mér ekki grein fyrir því hvaða afleiðingar það mundi hafa ef hún yrði niður lögð. Ég er þess vegna andvígur brtt. við 1. gr. frv.

Ég vil svo að lokum aðeins, herra forseti, leggja áherslu á að ég er fullkomlega sammála hv. þm. um að frádráttarliðir ættu að vera sem fæstir. Ég er líka sammála honum um að við eigum að leggja mikið á okkur til að fylgja því eftir að nægilegt aðhald sé með framtölum fyrirtækja þannig að undandrátturinn frá skatti sé sem allra minnstur, en auðvitað gerum við okkur grein fyrir því báðir að hann hlýtur alltaf að verða einhver svo mikil sem freistingin er. En einn liðurinn í því einmitt að draga úr freistingu til undandráttar eða réttara sagt minnka möguleika manna á því að svíkja undan skatti er fólginn í því að færa út grunn söluskattsins sem ég skal ekki fara nánar út í hér.