29.12.1987
Efri deild: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3327 í B-deild Alþingistíðinda. (2334)

206. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í sambandi við það sem hv. 7. þm. Reykn. sagði áðan held ég að það sé mjög skynsamlegt hjá ríkisstjórninni í þessu frv. að draga úr fjárfestingarfrádrætti fyrirtækja. Ég held að þjóðin þurfi ekki endilega á því að halda að menn eyði peningum í steinsteypu eða fjárfestingu. Það væri nær, ef menn væru með frádráttarliði hér inni, að vera með sérstakan frádrátt til fyrirtækja t.d. vegna rannsóknar- og þróunarverkefna. Ég hef flutt tillögur um slíkt, gerði það í Nd. í fyrra. Það fékk ekki góðar undirtektir og ég lét það eiga sig núna. Ég er því heldur á því, sem ríkisstjórnin gerir hér tillögu um, að draga úr fjárfestingarfrádráttum.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því, sem hann sagði varðandi skattprósentu fyrirtækjanna, að málið liggur þannig að í 30% verðbólgu er í raun og veru verið að tala um hjá ríkisstjórninni 34% skatt miðað við eftirágreiðslu, 34,6%. Það er lægra en einstaklingum er ætlað að greiða í staðgreiðslu. Einstaklingar eiga að greiða 35–36% skv. lögum sem við höfum nýlega samþykkt. Hér er fyrirtækjunum gert að greiða lægra skatthlutfall af sinni síðustu krónu en einstaklingunum og ég tel það slæmt. Sú tillaga, sem ég er hér með, um 52% þýðir 40% skatthlutfall í raun í eftirágreiddum skatti sem menn geta þá borið saman við 36% í samtímaskattlagningunni.

Varðandi það sem hv. 2. þm. Norðurl. e. nefndi, þá hygg ég að það sé rétt, sem hann benti á, að skattstjórar ganga mjög strangt fram varðandi túlkunina á hvað séu tapaðar viðskiptaskuldir. Ég hygg að í þeim efnum sé það ekki talin töpuð viðskiptaskuld nema dómur hafi gengið þannig að í rauninni var reglan um útistandandi viðskiptaskuldir sett til þess að fyrirtækin gætu haft örlítið borð fyrir báru og vegna þess að túlkun skattstjóranna að því er varðaði tapaðar viðskiptaskuldir var þetta ströng. Ég held hins vegar að það sé nauðsynlegt og eðlilegt að veita fyrirtækjunum ákveðið aðhald til að þau knýi á um að þau fái sínar skuldir greiddar og þess vegna er lagt til í tillögum mínum að þetta verði fellt niður.

Varðandi brtt. 2, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. vék að, er alveg rétt að það er ekki heimilt að færa persónulega eyðslu á fyrirtækin. Það er ekki heimilt að færa risnu í stórum stíl á fyrirtækin umfram það sem má segja að samræmist eðlilegum viðskiptaháttum hjá góðum viðskiptavinum. En það er gert. Það liggur fyrir í skýrslu skattsvikanefndarinnar. Þetta er ekkert sem ég er hér að fullyrða. Þetta er gert í stórum stíl. Brtt. mín, till. 2, er alveg í samræmi við grg. frv. ríkisstjórnarinnar, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. var að lesa upp úr áðan, að þetta sé mikið vandamál, á því þurfi að taka. Þess vegna tel ég að þessi brtt. sé í fullu samræmi við það sem stendur í grg. með frv. og ætti þess vegna að vera útlátalaust fyrir stjórnarliðið að samþykkja mína brtt. Hún er í samræmi við það frv. sem ríkisstjórnin er sjálf að flytja.

Þetta vildi ég segja í tilefni af orðum hv. 2. þm. Norðurl. e. og að öðru leyti endurtaka að ég fagna því sérstaklega að það virðist vera samstaða um að stíga örlítið skref í þá átt að skattleggja fyrirtækin, örlítið skref. Og ég lýsi mig fyrir hönd Alþb. reiðubúinn til að ganga lengra í þeim efnum ef aðrir hér í þinginu vilja hjálpa til á þessari hinni sömu braut.