22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

3. mál, bann við geimvopnum

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Fyrir rösku ári átti sér stað hér í Reykjavík fundur milli forustumanna risaveldanna tveggja. Sá fundur er mönnum í fersku minni og það hefur komið fram á því ári sem síðan er liðið að þar var lagður grunnur að þróun sem horfir til jákvæðrar áttar í afvopnunarmálum. Í dag ræða saman í Moskvu utanríkisráðherrar Bandaríkjanna George Shultz og Sjevarnadse utanríkisráðherra Sovétríkjanna um væntanlegan fund forustumanna þessara ríkja til þess að ganga frá samkomulagi um skammdrægar og meðaldrægar eldflaugar. Þetta er sannarlega jákvæð þróun og menn vona að margt eigi á eftir að fylgja.

Þar er einkum rætt um eyðingu 50% eða helmings af langdrægum eldflaugum risaveldanna, hinum svokölluðu strategísku eldflaugum, og það er von mannkyns, áreiðanlega almennings í löndunum, að það skref verði tekið fyrr en seinna. En þar eru hindranir í vegi, sem hafa komið fram og komu fram á fundinum í Reykjavík, gegn því að slíkt stórt skref yrði tekið og það eru áætlanirnar um geimvopn, það eru þær áætlanir sem Reagan Bandaríkjaforseti kynnti með stjörnustríðsræðu sinni 23. mars 1983 um áform Bandaríkjanna að koma upp vopnum úti í himingeimnum og verja til þess gífurlegu fjármagni á næstu árum.

Sovétríkin hafa til þessa haldið fast við að það sé skilyrði af þeirra hálfu fyrir því að eiga hlut að samkomulagi um fækkun langdrægra eldflauga að áætlunum um að koma vopnum fyrir úti í himingeimnum og tilraunum með slík vopn úti í geimnum verði hætt. Á það hefur ekki verið fallist af Bandaríkjunum og við sjáum ekki fyrir afleiðingarnar af þeirri þráhyggju sem birtist í afstöðu Bandaríkjastjórnar í þessu efni. Það er því fyllilega tímabært enn að flytja á hv. Alþingi till. til þál. um bann við geimvopnum, tillögu sem að stendur með mér hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir. Þessi till. er svohljóðandi, herra forseti:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir og styðja á alþjóðavettvangi bann við geimvopnum þar sem miðað verði við:

1. Að allar rannsóknir og tilraunir, er tengjast hernaði í himingeimnum, verði tafarlaust stöðvaðar.

2. Að hvers konar hernaðarumsvif og vopnakerfi til nota í himingeimnum verði bönnuð.

3. Að óheimil sé smíði vopna sem grandað geta gervihnöttum og öðrum tækjum sem tengjast friðsamlegri nýtingu himinhvolfsins.“

Síðan þessi till. var hér til umræðu á hv. Alþingi hafa utanrmn. þingsins og þm. a.m.k. að hluta til fengið í hendur álitsgerðir frá Öryggismálanefnd sem starfar á vegum forsrn. með aðild þingflokka, e.t.v. allra, en kannski er þar aðeins um áheyrnaraðild að ræða hjá þingflokki Kvennalista og Borgarafl. Mér er ekki kunnugt um hvort þeir þingflokkar hafa fengið aðild að Öryggismálanefnd eins og Alþb. hefur stutt á vettvangi utanrmn. að yrði.

Inn á þennan vettvang hefur komið skýrsla Öryggismálanefndar til utanrmn. Alþingis um afvopnunarmál. Þar er í sérstökum kafla fjallað um geimvopn á átta blaðsíðum og ætla ég ekki að sinni að fara að vitna til þess sem þar kemur fram því að það er að mestu leyti samhljóma því sem kemur fram í annarri skýrslu sem ég hygg að hafi borist öllum alþm., skýrsla sem gefin er út sem sjötta ritgerð Öryggismálanefndar, samin af Albert Jónssyni, ber heitið „Geimvarnir, áætlanir risaveldanna og áhrif þeirra.“ Þetta er nýtt innlegg í málið og þegar það var rætt hér á síðasta þingi og þinginu þar á undan báru talsmenn þeirra flokka, sem í tvígang hafa ekki viljað styðja þessa till. um bann gegn geimvopnum, því við að málið væri svo flókið að þeir hefðu ekki sett sig inn í það og teldu ekki fært á því stigi að gera það nema lesa sig betur til. Það var meginrökstuðningurinn fyrir andstöðu þessara flokka fyrir því að hér á Alþingi yrði tekin afstaða gegn geimvopnum. Það væri fróðlegt að fá það fram hérna við umræðurnar, bæði frá talsmönnum þeirra flokka sem ekki hafa viljað vera aðilar að þessari till., það var að vísu ekki sérstaklega látið á það reyna nú, en það kemur væntanlega fram hjá talsmönnum þeirra hvort um breytt viðhorf er að ræða í þessum efnum, svo og hjá hæstv. utanrrh., hvert er viðhorf hans til þessara mála, hvort það hefur breyst frá því að þessi mál voru til umræðu á þingum áður.

Ég leyfi mér, herra forseti, að vitna í smákafla úr skýrslu Öryggismálanefndar um geimvarnir þar sem er um að ræða ályktunarorð í niðurstöðum þeirrar skýrslu. Þar segir um áætlanirnar um geimvopn:

„Ef takmörkuðum vörnum verður komið upp virðast hugsanleg áhrif á stöðugleika gagnvirkrar fælingar risaveldanna verða neikvæð á heildina litið, jafnvel þótt takist að auka verulega óvissu andstæðingsins um ávinning af frumárás. Þá má efast um að takmarkaðar varnir séu nauðsynlegar í þessum tilgangi í ljósi þeirrar gífurlegu óvissu og áhættu sem nú þegar fylgir frumárás til að ná hernaðarlegum ávinningi. Loks hefðu varnir sérstök neikvæð áhrif fyrir samninga um fækkun kjarnorkuvopna vegna þess að þær mundu leiða til þess að sóknarvopnum fjölgaði. Auk þess hæfist kapphlaup í varnarvopnum og um smíði gagnvarnarvopna. Markmiðið gegn rannsóknum risaveldanna á vörnum er ekki og getur ekki um fyrirsjáanlega framtíð orðið að verja almenning eða gera kjarnorkuvopn úrelt. Jafnvel þótt takast kunni að koma upp vörnum gegn eldflaugum og kjarnaoddum yrðu þær takmarkaðar. Þarna hillir því ekki undir leið út úr þeirri hernaðarlegu stöðu milli austurs og vesturs sem einkennist af gagnkvæmri gereyðingargetu, ógnarjafnvæginu svonefnda. Jafnvel fullkomnar varnir mundu ekki tryggja stöðugleika eða binda enda á vígbúnaðarkapphlaupið.“

Þetta er niðurlag í skýrslu Öryggismálanefndar og Alberts Jónssonar, sem nú er starfsmaður hennar, varðandi geimvopnin og ég held að það sé ástæða fyrir hv. alþm. að hugleiða þessa niðurstöðu.

Við hljótum líka að minna á hver var afstaða fyrrv. hæstv. utanrrh. til þessara mála, Matthíasar A. Mathiesens. Það var ekki aðeins svo að hann leiddi hjá sér að taka afstöðu til þessa máls. Í skýrslu sinni til Alþingis 1986 hvatti hann beinlínis til þess að Íslendingar yrðu þátttakendur í geimvopnaáætlun Bandaríkjanna. Það var nú ekkert minna. Það er m.a. vegna þessarar stefnumörkunar fyrrv. hæstv. utanrrh., sem á hlut sem einn af ráðherrum í ríkisstjórn Íslands, sem á hlut að stjórninni nú, að nauðsynlegt er að Alþingi taki afstöðu til þessa máls og það liggi hér fyrir: Styður ríkisstjórnin að hluta eða í heild áætlun Bandaríkjastjórnar um geimvopn með þeim afleiðingum og þeim hindrunum sem þar eru til staðar í afvopnun varðandi langdrægar eldflaugar sérstaklega?

Ég hlýt líka að minna á að Bandaríkjastjórn hefur á síðustu árum reynt að réttlæta geimvopnaáætlun sína í samhengi við ABM-samninginn svonefnda sem birtur er í heild sem fskj. með þessari till. okkar hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur, samninginn um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar, SALT I samninginn, sérstaklega að því er varðar takmörkun gagneldflaugakerfa. Bandaríkjastjórn hefur reynt að koma upp og fá viðurkennda nýja túlkun á þessum samningi, túlkun sem mundi rúma tilraunir með geimvopn utan við rannsóknarstofur. Flestir eða a.m.k. fjölmargir talsmenn ríkisstjórna á Vesturlöndum hafa varað við þessu skrefi af hálfu Bandaríkjastjórnar, þessari tilraun til að eyðileggja einn helsta hornsteininn sem verið hefur í viðleitni til afvopnunar milli risaveldanna. Og það skiptir máli að Íslendingar og Alþingi Íslendinga taki afstöðu til þessa máls. Ætla þeir að stuðla að þessari nýju túlkun Bandaríkjaforseta eða styður ríkisstjórnin heils hugar þá túlkun sem hefur verið í gildi og yfirgnæfandi fjöldi þjóða heims vill að verði áfram?

Ég vil í þessu sambandi minna á hversu Bandaríkjastjórn gengur hart fram í þessum efnum. Nú þegar það liggur fyrir að ríkisstjórn Noregs og varnarmálaráðherra Noregs, sem hér var í heimsókn nýverið, hafa leyft sér á vettvangi NATO að hafa uppi efasemdir um ágæti geimvopnaáætlunarinnar eru viðhafðar sérstakar hótanir fyrir vestan, sérstakar hótanir í garð Norðmanna vegna þess að þeir skuli dirfast á vettvangi NATO að hafa uppi aðrar skoðanir og önnur sjónarmið varðandi geimvopnin en Bandaríkjastjórn þóknast.

Herra forseti. Um þetta stóra mál gæti ég sannarlega haft mörg orð, það hefur verið rætt á Alþingi áður, en ég ætla ekki að taka mikið meiri tíma í framsögu en vænti þess að menn hér í umræðum á eftir, talsmenn flokka sem ekki hafa tekið opinbera afstöðu til þessa máls, lýsi sínum skilningi og sínum viðhorfum. Það verður áreiðanlega eftir því tekið og þá ekki síst hver er afstaða núv. hæstv. utanrrh. í þessum efnum.

Ég vænti þess sannarlega að hér á Alþingi megi takast samstaða um þetta þýðingarmikla efni. Alþm. hafa enga afsökun til að humma það fram að sér vegna þess að þeir séu ekki nógu vel að sér eða ekki nógu vel lesnir í þessu máli að þeir geti ekki myndað sér skoðun. Þetta mál hefur verið í brennidepli alþjóðaumræðunnar frá því í mars 1983 og það ætti hverjum manni að vera dagljóst hversu vitfirringsleg áform hér eru á ferðinni, jafnt tæknilega og hernaðarlega svo að ekki sé nú talað um að því er snertir að halda friðinn í heiminum og halda lífi á jörðinni.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni umræðu verði till. þessari vísað til utanrmn. þingsins til meðferðar. Ég minnist þess að hæstv. forseti gat þess að umræður væru ekki takmarkaðar um þetta efni þegar taka átti málið á dagskrá á síðasta fundi en síðan fallið frá því, en ég ætla samt ekki að taka hér meiri tíma þingsins, þar sem við höfum hér mörg þýðingarmikil mál að ræða, þó að þetta væri sannarlega þess virði að ræða það til kvölds.