29.12.1987
Neðri deild: 39. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3344 í B-deild Alþingistíðinda. (2357)

196. mál, söluskattur

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Hér liggur frammi til umræðu frv. til l. um söluskatt og er eitt af þeim frv. sem auka skattlagningu á almenning. Það hefur vakið athygli að við umræður undanfarnar vikur hefur lítt sést, yfir höfuð, til ráðherra eða stjórnarþingmanna og ég vil koma þeim boðum til hæstv. forseta hvort ekki væri ráð að breyta svolítið sætaskipun í deildinni, að fengnir verði stólar úr flugvélum a.m.k. fyrir suma, þannig að þeir héldust við hér inni, frekar en að hafðir væru þessir stólar sem voru fengnir í haust. Það gæti þá verið að þeir væru frekar hér inni í salnum ef þeir fengju stóla úr flugvélum.

Það verður ekki heldur komist hjá því að minnast á ómaklegar árásir ráðherra og þá sérstaklega fjmrh. í gærkvöldi á hendur stjórnarandstöðunni þar sem því er lýst yfir að hún standi fyrir og komi í veg fyrir afgreiðslu mála og hún sakfelld í þá veru. Það hefði verið betra fyrir hæstv. ráðherra að segja það sem satt er að þau frv. sem liggja fyrir eru svo viðamikil og svo seint fram komin að þau verða auðvitað ekki útrædd á þeim stutta tíma sem hann vill að þau verði útrædd á. Það er líka alveg ljóst að hæstv. ráðherra og aðrir ráðherrar hafa lagt fram eiginlega öll veigamestu frv. í runu í Ed. sem þó hefði átt að leggja fram eins í Nd. þannig að þar hefðu verið eðlileg þingstörf. Það á ekki að vera þannig að önnur þingdeildin sé nánast í fríi meðan hin fjallar um öll málin í runu og ég vísa þessum ummælum heim til föðurhúsanna. Þá framkomu sem hæstv. ráðherrar hafa haft gagnvart þinginu er ekki hægt að verja. Þær einræðiskenndir sem þar koma í ljós eru áhyggjuefni fyrir lýðræðið í landinu og þó að frýjuorð gangi á milli ráðherra í blöðunum verður lítið mark tekið á því. Ég vil koma að því að hæstv. fjmrh. varð uppvís að stjórnarskrárbroti í gær þegar hér kom upp að hann var búinn að selja eignir, ákveðnar eignir, og það lágu fyrir skjöl um það, án þess að hafa heimild í fjárlögum. Honum væri nær að ræða það í sjónvarpinu. Það gerist ekki oft að ráðherra sé sekur um stjórnarskrárbrot.

Þegar þetta frv. sem liggur fyrir var lagt fram var það gert undir því yfirskini að meiri skilvirkni yrði, réttlæti og einföldun. Það er gott að hafa fögur orð og slagorð. Sannleikurinn er hins vegar sá að þessi orð eru marklaus. Þegar talað er um einföldun og að það verði að hafa eitt söluskattsstig á öllum vörum til einföldunar er það í rauninni bara bull. Það vita allir sem hafa fært bókhald eða komið nálægt rekstri að það er ekkert einfaldara á tölvuöld en að skrá og færa sérstakan lista yfir þær vörur sem bera mismunandi söluskatt. Það er ekkert mál. Það er minnsta mál í heimi að halda bókhaldi þannig til haga að hægt sé að skila því með góðum skilum. Þannig að um einföldun er ekki að ræða enda kemur það fram í því að í stað einföldunar er verið að flækja málið. Fyrst er söluskatturinn tekinn af vörunum og síðan á að greiða þær niður. Og hvað er hér á ferðinni? Jú, það er ekki einföldun. Þetta er stefnan sem heitir að deila og drottna, að taka af fólkinu og rétta því svo til baka hluta af því og segja: Þetta máttu hafa. Til að sýna valdið, til að sýna það hver ræður.

Það hefur komið hér fram, raunar fyrir jól þegar þetta mál var til umræðu og þá tekið út af dagskrá, að í Efnahagsbandalaginu sem sérstaklega hefur verið vitnað til vegna einföldunar eru fleiri en eitt prósentustig á virðisaukaskatti. Og í bréfi þar sem Ásmundur Stefánsson, forseti ASÍ, tekur þetta fyrir segir hann um þetta að það sé að vera kaþólskari en páfinn því samkvæmt virðisaukakerfinu í Efnahagsbandalaginu séu 4–9% lögð á nauðsynjar og 14–19% á aðrar vörur. Þetta er staðreyndin í málinu og alls staðar er lögð áhersla á það að matvæli og nauðsynjavörur séu með lágum prósentum og beri ekki mikla skatta en aðrar vörur fái hærri þrep. Hér í þessu yfirliti er þetta talið upp: Belgía, Frakkland, Vestur-Þýskaland, Grikkland, Írland, Ítalía, Lúxemborg, Holland, Portúgal, Spánn og Bretland. Í öllum þessum löndum eru tvö eða þrjú prósentustig. Og jafnvel eru vörur undanþegnar virðisaukaskatti. Það á við um t.d. Írland og Bretland að þar er að stórum hluta þannig gengið frá hlutunum að nauðsynjar eru alveg undanþegnar virðisaukaskatti. Þetta er staðreyndin, þetta er sannleikurinn í málinu og sú fölsun að hér sé um einföldun að ræða er einstæð. Það er engin einföldun og skiptir engu máli hvort prósentustigin eru eitt eða tvö. Í tölvuvæddu nútímaþjóðfélagi, eins og ég sagði áðan, er minnsta mál að færa tvo vörureikninga í fyrirtæki sem selja vörur. Það er ekki nokkurt mál og ekkert meiri vinna. Þetta er aðeins spurning um skipulag.

Í Efnahagsbandalaginu er stefnt að því að lægri skattaprósentur verði á matvörum, drykkjarvörum og orku til upphitunar og lýsingar, vatni og lyfjum, bókum, blöðum og tímaritum og farþegaflutningum. Þetta er ekki að ástæðulausu. Þetta er það sem menn hafa lært af reynslunni að er mikilvægt að halda lágu verði. Það eru margar vörutegundir sem eru þannig að það er hægara að hafa hærra verð á þeim. Það liggur ljóst fyrir að sú hækkun á prósentu á söluskatti á matvöru sem hér er lögð til mun hækka þessar nauðsynjar allverulega. Það kerfi sem á að taka upp með því að greiða það niður á móti er enn þá flóknara en að hafa tvö prósentustig.

Við þessar umræður hefur verið fróðlegt að fylgjast með því hverjir hafa tekið til máls og hverjir hafa haft skoðun á þessu. Það er athyglisvert að Sjálfstfl. virðist alveg horfinn á þessu þingi og farinn í felur, hefur enga skoðun á þessum málum. Ég gæti haldið, þegar ég lít hér yfir þingsalinn, að það væri enginn maður á þingi frá Sjálfstfl., a.m.k. sjást þeir ekki hér í salnum. Það má vel vera að svo sé, að þeir hafi bara verið kjörnir á þing. Þetta segi ég af því að lengi vel var þessi flokkur sem ég tilheyrði málsvari skattalækkana. Ég hef tekið að gamni tilvitnanir, gamlar greinar um þessi mál sem ég á í fórum mínum vegna þess að sumir þessara manna hafa verið allmikið í sviðsljósinu undanfarið. Hér er hin ágætasta grein eftir Víglund Þorsteinsson, formann Félags ísl. iðnrekenda núna, sem er rituð í Morgunblaðið 18. okt. 1978. Með leyfi hæstv. forseta stendur þar:

„Skattamál komust enn í brennidepil með hinum siðlausu og afturvirku bráðabirgðalögum ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar. Í stuttu máli má segja að undanfarin 30 ár hafi skattar á Íslandi vaxið jafnt og þétt þrátt fyrir jafnlangt tal íslenskra stjórnmálamanna um nauðsyn aðhalds í ríkisfjármálum og niðurskurði ríkisútgjalda. Í a.m.k. tíu ár höfum við Íslendingar á hverju hausti heyrt grátstafi alþingismanna um að svo erfitt sé um vik um niðurskurð vegna þess að allt að 80% ríkisútgjalda séu lögbundin með einum eða öðrum lögum. Alþingismenn góðir. Hversu lengi enn á þjóðin að hlusta á þetta harmakvein ykkar? Hvenær ætlið þið að taka til hendinni og taka upp þá nýbreytni við endurskoðun íslenskra laga um hin ýmsu málefni að slík endurskoðun miði að útgjaldalækkun en ekki útgjaldahækkun eins og alltaf gerist nú?"

Enn heldur greinarhöfundur áfram. Hann segir: „Uppáhaldsiðja íslenskra stjórnmálamanna hefur verið að metast um það hversu mikil skattheimtan í þjóðfélaginu sé á hverjum tíma sem hlutfall af þjóðarframleiðslunni. Sá galli er á þessum útreikningum að inni í þjóðarframleiðslunni teljast óbeinir skattar, svo sem söluskattur. Miðað við þá skattastefnu sem ríkt hefur hér á undanförnum árum er þjóðarframleiðsla hækkuð með því að lækka óbeina skatta og þannig gefur þetta hlutfall ranga mynd af samanburði á skattheimtu frá ári til árs.

Önnur leið er sú að miða við þjóðartekjur og er sú leið að mínu mati réttari. Þegar átt er við þjóðartekjur hafa óbeinu skattarnir verið teknir út úr þjóðarframleiðslunni og miðað við hina raunverulegu verðmætasköpun til þess að gera fólki grein fyrir mismuninum á þessum tveimur reikningsaðferðum ...“ — Og svo gerir hann grein fyrir því.

Ég held út af fyrir sig að það hefði þurft að leggja hér fram útreikninga á bæði beinum sköttum og óbeinum þannig að menn sæju svart á hvítu hvað hvort um sig þýddi. En hér á hinu háa Alþingi hefur ekki neitt slíkt verið lagt fram enda vita hæstv. ráðherrar, hæstv. fjmrh. þar með talinn ekki með nokkurri vissu hvað þessir skattar verða miklir. A.m.k. var það þannig þegar við afgreiddum fjárlög í gær að þau voru miklu lægri, tekjuhliðin, en ætla hefði mátt samkvæmt upplýsingum frá öðrum aðilum.

Ég held að það sé alveg ljóst að sú skæðadrífa nýrra og hækkandi skatta sem nú hefur dunið yfir þjóðina sé í andstöðu við þann flokk, eins og ég sagði áðan, sem hefur þóst berjast fyrir skattalækkunum. Þeir sögðu í nál. frá Alþingi sem var birt í Morgunblaðinu 18. apríl 1980: ,

„Mikil skæðadrífa nýrra og hækkaðra skatta hefur dunið yfir þjóðina að undanförnu. Nú er svo komið að heildarskattheimta ríkis og sveitarfélaga þyngist á yfirstandandi ári um 54 milljarða vegna aðgerða núverandi ríkisstjórnar og fyrri vinstri stjórna. Þessi aukna skattbyrði nemur hvorki meira né minna en 13 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. Þetta fé hefðu heimilin handbært í ár ef sömu álagningarreglur skatta til ríkis og sveitarfélaga giltu eins og 1978, áður en vinstri stjórnin tók þá við völdum.“ Það er þegar sjálfstæðismenn réðu síðast ríkisfjármálum.

Og nú er spurningin. Það er víst enginn sjálfstæðismaður hér inni til að svara því. (AG: Jú, jú.) Hv. 5. þm. Reykv. réttir upp höndina. Er þetta vinstri stjórn? (AG: Ef ég má svara segi ég já.) Og þingmaðurinn segir já. Er þetta vinstri stjórn? Ef marka má þetta nál. er hér um vinstri stjórn að ræða og er greinilegt að það hefur orðið gjörbreyting á stefnu þessa flokks við aðild að núverandi stjórn því að það hefur dunið á okkur mesta skæðadrífa sem um getur í sögu lýðveldisins af nýjum sköttum og hækkuðum sköttum sem við þekkjum og það er sá flokkur sem er stærsti flokkur ríkisstjórnarinnar sem stendur fyrir því. Ég gæti ímyndað mér að fjarvera sjálfstæðismanna í þingsölum við þessi skattamál stafi kannski af því að þeir séu í felum því þeir þyrðu ekki að líta framan í ræðumenn þegar þeir eru að fara yfir skattamálin, en það hefur verið baráttumál þessa flokks í fjölda ára að koma í veg fyrir að skattar hækkuðu. Ég hefði haft gaman af því að heyra eitthvað frá þeim fulltrúum um þessar skattahækkanir, en nú munu þær sennilega vera alveg ágætar og flokkurinn sem áður barðist gegn sköttum telur sig nú sjálfsagt vinstri flokk og vill hækkaða skatta.

Í nái. sem fulltrúar sjálfstæðismanna í fjh.- og viðskn. Ed., þeir Matthías Á. Mathiesen, Matthías Bjarnason og Albert Guðmundsson, lögðu fram á Alþingi 1980 segir m.a.:

„Af þessu má vera ljóst að skattheimta ríkisins hefur aukist til muna síðustu þrjú árin. Ekkert lát virðist þar á. Hefur núverandi ríkisstjórn ekki aðeins framlengt nær alla vinstri skattana heldur bætt þar töluvert á og er enn að bæta á, sbr. væntanlega bensínhækkun.“

Og enn fremur segir þar, með leyfi hæstv. forseta: „Ljóst er að núverandi ríkisstjórn heldur óðfluga áfram á braut vinstri stefnu, eykur skattaálögur, þenur út ríkisútgjöldin og eykur ríkisafskiptin sem leiðir til þess að borgararnir eru meira og meira háðir ákvörðun stjórnvalda um hegðun sína. Samtímis er þrengt að atvinnurekstrinum.“

Skyldi þetta ekki vera hægt að hafa um þessi mál hér? Það væri fróðlegt að heyra í sjálfstæðismönnum um þetta. Þeir hafa kannski týnt stefnunni? Það er merkilegt að lesa nál. og álit þeirra manna sem hafa nú horfið úr þingsölum vegna þess að þeir eru sjálfsagt hræddir við sínar eigin gerðir eða eru fangar þessarar stefnu.

Í grein í Morgunblaðinu þriðjudaginn 11. júlí 1985 er ljómandi góð grein eftir hv. 8. þm. Reykv. Eyjólf Konráð Jónsson. Hann fjallar þar um hækkun söluskatts og eignarskattsauka. Í fyrirsögninni segir: „Gengur þvert á stefnu og gefin fyrirheit ríkisstjórnarinnar“.

Í nál. fjh.- og viðskn. leggja þeir Valdimar Indriðason, Egill Jónsson og Jón Kristjánsson til að frv. verði samþykkt, en Eyjólfur Konráð Jónsson segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Með flutningi frv. þessa gengur ríkisstjórnin þvert á birta stefnu sína og margítrekuð fyrirheit um skattalækkanir. Í þessu efni er fylgt fordæmi vinstri stjórnarinnar frá 1978 sem kristallaðist í svokölluðum Ólafslögum þar sem ofstjórnaræðið var lögfest. Stefna þessi gekk sér til húðar 1983 þegar verðbólguhraðinn var kominn upp í 130% miðað við eitt ár og erlendar skuldir hrönnuðust upp í mesta góðæri Íslandssögunnar og gjaldmiðillinn var hruninn.“

Skyldi þetta ekki eiga við í dag? Víst er það svo. Og það er alveg ljóst að bæði 1978 og 1983 barðist Sjálfstfl. af hörku gegn skattahækkunum. En núna er sú stefna horfin og séu tekin upp þeirra eigin orð er Sjálfstfl. nú vinstri flokkur. Hann er vinstri flokkur! Ég ætla að taka mark á því sem sjálfstæðismenn hafa sagt um þessi mál. Það er alveg ljóst að sú vinstri stefna, sem hér kemur fram um hækkun á öllum sköttum, er einstæð.

Sá matarskattur sem hér er til umræðu er aðeins einn hluti af þessum skattahækkunum. Það hefur lengi verið ósk launþegahreyfingarinnar að sköttum á matvæli væri haldið í lágmarki. Nú ber svo við að þessari stefnu er hætt. Söluskatturinn á matvæli sérstaklega skapar tímamót í sögu þjóðarinnar og er einstæður í sögu vestrænna ríkja. Eins og ég rakti fyrr í máli mínu er alls staðar í okkar nagrannalöndum lögð rík áhersla á að skattar á nauðsynjavörur séu lágir og það kalla þeir réttlæti, skilvirkni og einföldun en ekki að leggja 25% skatt á alla: nauðsynjavörur og della svo út ölmusu í niðurgreiðslum.

Í frv. um söluskatt er m.a. lagður söluskattur á heilsuræktarstöðvar. Það er sennilega af því að hæstv. ríkisstjórn eða hæstv. fjmrh. telur að eftir að verður kominn söluskattur á matvæli verði fólk sjálfkrafa í megrunarkúr og þurfi ekki á heilsurækt að halda því það hafi ekki orku til að hreyfa sig. Og þó að þeir hafi aðeins gengið til móts við óskir okkar um að lækka þennan skatt á fiskmeti. Það er engan veginn ljóst hvaða fiskur og fiskmeti þetta eru. Þetta er okkar höfuðbjörg og það ætti að vera svo að allur fiskur og fiskmeti og matvæls væru undanþegin söluskatti eða með lágu prósentustigi.

Hv. 10. þm. Reykn. kom inn á í mjög góðum málflutningi skatt á bókaútgáfu og bendir á að menningarverðmæti þyrftu líka að vera undanþegin söluskatti. Það er í raun í samræmi við stefnu Efnahagsbandalagsins að bækur, blöð og tímarit séu undanþegin söluskatti. Það væri því ekkert meira að svo væri einnig um bækur, en blöð og tímarit hafa fallið undir þetta, því hér hafa menn talað með miklum fagurgala um tungu og menningarverðmæti, en það nær ekkert lengra en í ræðustól því að þegar kemur að því að styðja við þetta í raun brestur þessi stuðningur.

Það er því alveg ljóst að sú samræming söluskatts sem hér er boðuð og á að vera svo mikið til einföldunar, skilvirkni og réttlætis hefur algjörlega misheppnast. Það er ekki þetta sem skiptir máli. Það er spurningin um á hvað skattarnir eru lagðir og með hvaða hætti. Við gætum alveg eins tekið okkur til fyrirmyndar Efnahagsbandalagið, eins og ég kom áðan inn á, um að skattleggja ekki nauðsynjavörur með þessum hætti. Það er ekkert flóknara mál að hafa tvö prósentustig en eitt. Í nútímaþjóðfélagi á tölvuöld er þetta minnsta mál í heimi.

Hæstv. forseti. Ég mun ekki taka nú meira af ræðutíma. Við höfum komist að samkomulagi um að reyna að halda máli okkar innan vissra marka þar sem við höfum ákveðið að hafa stuttan fund í dag.