29.12.1987
Neðri deild: 39. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3355 í B-deild Alþingistíðinda. (2359)

196. mál, söluskattur

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:

Hæstv. forseti. Þá erum við loks farin að ræða söluskattsfrv., þetta söluskattsfrv. sem á eftir sögn hæstv. fjmrh. að bæta eiginlega allan efnahag landsins. Það getur vel verið að sumir hafi trú á þessu, enda ekki langt síðan ungur maður fór um landið eins og eldibrandur og hrópaði: „Hverjir eiga Ísland?" Það voru sjálfsagt margir sem trúðu því að hann meinti að alþýða manna ætti það eða ætti a.m.k. að eignast það.

Þessi söluskattur, sem hann er nú að leggja á, bendir ekkert í þá átt. Þetta frv. er faglega unnið þannig séð að skatturinn er hæstur á þær vörur sem heimilin geta ekki komist af án, síðan fer hann lækkandi á þeirri vöru sem er látin bíða. Ég held að þessi skattur, ég reyndar held það ekki ég veit það, söluskattur hæstv. fjmrh. á eftir að valda heimilum í landinu miklu böli. Það eru nefnilega mörg heimili í landinu sem hafa það heldur knappt eins og er og þau þola alls ekki að taka við þessu. Og að leggja skatt á mat og fyrst og fremst á þann mat sem einmitt þeir sem minna mega sín, svo sem aldrað fólk og barnafólk, notar mest, það er fyrir neðan allar hellur.

Ég veit að sumir ráðherrarnir í þessari ríkisstjórn eru ungir og þeir hafa kannski tamið sér aðrar lífsvenjur en við, en ég veit líka að þeir eiga ættingja sem farnir eru að eldast og þeir vita vel að þeirra aðalneyslufæða er fiskur, kartöflur, brauð, mjólk.

Þeir hafa verið að slá um sig með því núna síðustu daga að þeir ætluðu að lækka skattinn á fiskinum. Það er dálítið fyndið hvernig þeir leggja þetta út því það er ekki enn þá búið að samþykkja þennan skatt sem þeir eru að lækka.

Það veit heldur enginn hvað lengi þetta stendur. Það veit heldur enginn hvað lengi það stendur að þeir greiða niður landbúnaðarvörur. Það er í raun og veru 25% skattur á öll matvæli um þessi áramót ef frv. nær fram að ganga.

Það hefur komið fram í máli hæstv. fjmrh., að því er ég las í blaðinu hans, ég heyrði þetta nú ekki, að honum finnast lítil viðbrögð hjá verkalýðshreyfingunni við þessum skattahækkunum. Ég get alveg tekið undir það. Mér finnst að launþegahreyfingin í heildina tekið hafi ekki tekið nógu vel á þessu. En það er samt ljós punktur í málinu. Mér eins og mörgum öðrum hefur fundist kvenfólkið halda sig of mikið bak við karlana í launþegahreyfingunni, enda hafa þær dregist aftur úr. Þetta vita allir. En nú bregður svo við að konurnar hafa frumkvæðið. Þær tóku sig til rétt fyrir jólin, einn daginn, og boðuðu til fundar á Lækjartorgi. Þetta voru konur úr ýmsum stéttarfélögum og konur sem ekki höfðu átt auðvelt með að hafa samstarf áður. Þessi fundur var að vísu ekki eins fjölmennur og hann hefði gjarnan mátt vera, en þetta var líka síðustu dagana fyrir jól. Ég get upplýst að síðan hann var haldinn hafa streymt inn til þeirra félaga sem stóðu að fundinum skeyti hingað og þangað utan af landi og enn einkum frá kvenfélögum en líka reyndar blönduðum félögum.

Mér finnst þetta afar góðs viti því ef konurnar standa saman má jafnvel hraustur maður eins og hæstv. fjmrh. fara að vara sig. Og ég held að þær standi saman. Þær gera sér nefnilega grein fyrir því að þessi skattur bitnar verst á heimilunum og það sem bitnar verst á heimilunum er mál sem þær koma til með að ráða fram úr. Þessar konur eru búnar að reikna sitt af hverju og þær reikna rétt. Þær reikna á blað með blýanti, en ekki á þessar fínu tölvur spekinganna. Þær vita t.d. alveg hvað brauðið hefur hækkað síðan í sumar. Og fjölskyldufólk notar mikið af brauði.

Nú sé ég að hv. 10. þm. Reykv. er að kinka kolli. Þá dettur mér í hug að ég man ekki betur en framsóknarkonur hafi líka fundað og mótmælt matarskatti. Hvað ætla framsóknarkarlar að gera á Alþingi? Ætla þeir að styðja fjmrh. gegn konum í sínum eigin flokki? Ja, svona eru stjórnmál, segja þeir vafalaust. Það má satt vera.

Ég horfði heilmikið á sjónvarpið í gærkvöld. Mér finnst þægilegt að horfa á sjónvarp þegar ég er búin að horfa mikið á auða stóla yfir allan daginn, að ég tali nú ekki um þegar ég horfi beint í stólana með skjaldarmerkinu. Ég er svo gamaldags í mér að ég hélt að menn sem létu búa sér til svo fína stóla með skjaldarmerki sætu einstaka sinnum í þeim, þeir bæru svo mikla virðingu fyrir þeim. En það er afar sjaldan sem það skeður.

Ég sá náttúrlega hæstv. fjmrh. í sjónvarpinu. Mér finnst alltaf svolítið gaman að sjá hann, kannski ekki alltaf eins að heyra hann. Ég sá ýmislegt annað. Nú eru fíkjutrén í Flugstöðinni að deyja. Og meira en það: allur suðræni gróðurinn þar er að deyja líka. Þetta er svo sem enginn peningur, bara 5 millj. Það hefði mátt nota þessar 5 millj. til að greiða fleiri listamönnum heiðurslaun. Ekki hefði ég harmað það þó að nokkrar konur hefðu flotið þar með, svo sem eins og Jakobína Sigurðardóttir, Svava Jakobsdóttir, Guðrún Á. Símonar o.fl. o.fl. En það er engin hætta á að þetta verði ekki greitt. Hæstv. fjmrh. greiðir þetta eins og hann greiðir allar óreiðuskuldirnar af flugvallarbyggingunni.

Hann er heldur ekki í neinum vanda staddur. Hann tekur það bara úr vasa almennings. Hann leggur á einhverja nýja skatta, þessi skattaglaði maður, og tekur þetta bara úr vasa almennings.

Ég sá líka annað. Það eiga öll lyf að hækka um 40% um áramótin. Á hverjum skyldi það nú bitna verst? Það þarf engan að spyrja að því. Það vita allir að það eru fyrst og fremst sjúklingar sem nota lyf eða fólk sem er lasið. Mjög oft er þetta fólk sem er að reyna að vinna, getur jafnvel ekki unnið fulla vinnu og þarf á þessu að halda. Það kom nú reyndar fram að aldraðir og öryrkjar borguðu minna. En skýringin kom á því, að þess lífeyrir hefði hækkað tiltölulega minna en laun og hæstv. heilbrmrh. reyndi að taka það til greina.

Það var annað sem mér líkaði mjög illa í sambandi við hækkun á heilbrigðisþjónustunni og það er hækkunin sem verður á því ef fólk þarf að leita sérfræðiþjónustu. Ég er nefnilega alveg viss um að fólk sem ekki getur látið litla matarpeninga endast svíkst um að fara til sérfræðinga þó það þurfi að gera það. Sú kona sem hefur úr of litlu að spila, sem vantar jafnvel peninga fyrir matnum ofan í börnin, skrópar. Hún fer ekki til sérfræðings þó hún þurfi þess.

Ég óttast líka hvað snertir hina mörgu sem verða að fara á göngudeildir t.d., og það er einmitt oft fólk sem ekki á bíla, þarf jafnvel að taka sér leigubíla til að fara, að þetta verði mjög erfiður skattur.

Já, það verður margt erfitt fyrir alþýðufólk í þessum ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar. Auðvitað ber ríkisstjórnin öll ábyrgð á þessum ráðstöfunum.

Það gefur alveg auga leið. Hún ber öll ábyrgð á því. Það geta engir ráðherrar verið með fríspil og sagt: Það er bara þessi sem gerði það. Ég gerði það ekki.

Ég vona að konurnar í landinu haldi vöku sinni og þær sýni hæstv. fjmrh. og öðrum ráðherrum að þær láta ekki bjóða sér hvað sem er.

Ég ætla að virða það samkomulag sem gert hefur verið hérna og ekki tala lengur svo að fleiri geti komist að.